Menu & Search

AMSTERDAM / VALDEMAR

AMSTERDAM / VALDEMAR

VALDEMAR, AMSTERDAM, HOLLAND

Ég heiti Valdemar Árni Guðmundsson, ég er 25 ára gamall og er að læra (vídeó og hljóð) myndlist við Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam, Hollandi. Ég flutti þangað árið 2012 og einn daginn á fyrstu önninni lenti ég í því óhappi að verða fyrir sporvagni. Ég tók mér frí til að láta mér batna og flutti til Kaupmannahafnar. Ég kom svo til baka árið 2014 og byrjaði námið upp á nýtt og hef verið þar síðan. Ég ákvað að fara í þetta nám hreinlega vegna þess að mig langaði að upplifa eitthvað nýtt og prufa að búa í útlöndum, Rietveld var eini kosturinn fyrir mig og var ekki með neitt back-up plan. Ég átti vini í skólanum sem sannfærðu mig um að þetta væri besti skóli í heimi, svo kom í ljós að námið hentaði mér mjög vel.

FARÐU FRÁ

 

H&H: Uppáhalds listasafn/gallerí í borginni?

Þegar ég hugsa út í það skoða ég myndlist mest heima hjá mér á netinu, telst það með sem gallerí?

 

V: Þegar ég fer á listasafn í alvörunni í Amsterdam fer ég oftast á Stedelijk sem er nútímalistasafnið í borginni, oft góðar sýningar þar. Svo eru mörg lítil gallerí um alla borg sem er gaman að skoða.

H&H: Uppáhalds tjill/hangistaður í borginni?

V: Fyrsti staðurinn sem mér dettur í hug Amsterdamse Bos. Það er skógur sem er stærri en miðbær Amsterdam og mér finnst mjög gott að hjóla þar og týnast aðeins. De School er staður í gamalli skólabyggingu þar sem er næs að setjast niður og fá sér kaffi á daginn og svo á nóttunni breytist hann í klúbb, einnig næs.

GOTH BITCH

H&H: Hverju mælirðu með fyrir listamenn eða listunnendur að gera í borginni?
V: Ef ykkur finnst gaman að skoða söfn mæli ég með Stedelijk. Ef þið viljið kaffi mæli ég með Caffénation. Farið í kínahverfið og borðið á Bird, besta pad thai sem ég hef smakkað. Svo myndi ég fara í einangrunartank í Koan Float til að slaka á og opna hug ykkar, mikilvægt fyrir listamenn.

H&H: Hvernig er listasenan í borginni?
V: Það fer ekki mikið fyrir henni satt að segja. Ég er ekkert endilega sérstakur aðdáandi listarinnar héðan.

Rietveld er í rauninni heimur út af fyrir sig, skólinn er frekar stór og nemendur eru frá öllum heimshornum svo að listasenan innan Rietveld-búbblunnar er skemmtileg og fjölbreytt.

H&H: Hvernig er íslenska listasenan úr fjarlægð?
V: Hún virðist vera eins og listasenan í Rietveld – svolítil búbbla bara.

REAL

Ég hef verið að vinna mikið með Dýrfinnu Benitu Garðarsdóttur, hér eru nokkrar klippimyndir úr verkunum sem við höfum verið að gera saman síðasta árið:

Goth Bitch:
https://youtu.be/43bK5dlahUU
Prelude:
https://youtu.be/ots09fGZ4bI