Menu & Search

ANTWERPEN / EMMA HEIÐARSDÓTTIR

ANTWERPEN / EMMA HEIÐARSDÓTTIR

EMMA, ANTWERPEN, BELGÍA.

Ég heiti Emma Heiðarsdóttir, er 26 ára og bý í Antwerpen í Belgíu. Hér er ég í meistaranámi í myndlist, á fyrra árinu af tveimur. Skólinn minn er Konunglega listaakademían í Antwerpen og deildin heitir In Situ³. Ég fylgdi bara góðri tilfinningu þegar ég sótti um þetta nám. Hafði heyrt ágæta hluti um það frá vinum og taldi að það myndi henta minni myndlist vel, þar sem ég vinn mikið staðbundið eða „in situ“.

Myndirnar sem ég sendi ykkur eru bæði glænýjar og eldri í bland. Þær sýna hvernig ég hef nálgast myndlistina undanfarin ár. Mér finnst mjög spennandi þegar listaverkið verður hluti af rýminu þar sem það er sýnt. Mörkin á milli listaverks og rýmis verða þannig óljós og eitthvað gerist. Þetta hefur orðið að útgangspunkti hjá mér, en efnistökin eru mjög opin og ég vinn bæði með opinbert rými og inn í þar til gerð sýningarrými.

 LJÓSMYND: LIGIA POPLAWSKA (TÓK LÍKA STÚDÍÓMYNDINA)                   BRICKWORK, IN SITU³ VERKEFNARÝMI, ANTWERP, 2017

H&H: Uppáhalds listasafn/gallerí í borginni?

E: Ég kann oft að meta það sem ég sé í Trampoline, marion de cannière og samtímalistasafninu M HKA.

H&H: Uppáhalds tjill/hangistaður í borginni?

E: Núna þegar sólin er farin að skína finnst mér gott að tjilla í görðum eins og Stadspark eða Middelheimpark (en þar er skúlptúrgarður sem ég mæli líka með!).

BRICKWORK, IN SITU³ VERKEFNARÝMI, ANTWERP, 2017.

H&H: Hverju mælirðu með fyrir listamenn eða listunnendur að gera í borginni? 

E: Fá lánað hjól og kanna svæðið þannig. Kíkja kannski á þessa staði sem ég nefndi hér að ofan. Það eru líka margar fallegar art nouveau byggingar í borginni sem gaman er að sjá.

H&H: Hvernig er listasenan í borginni?

E: Ég myndi segja að það væri mjög lífleg listasena hérna og fjölbreytt.

 

Maður hittir líka mikið sama fólkið, en það er huggulegt og minnir svolítið á Reykjavík.

SKJALATASKA, KUNSTSCHLAGER, REYKJAVÍK, 2014

VEGGUR, KLING & BANG, REYKJAVÍK, 2014.

H&H: Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

E: Fyrir stuttu opnaði ég einkasýninguna Brickwork í verkefnarými í skólanum. Ég byggði verkin með múrsteinum og vann líka með steypu og gifs. Verkin eru meðal annars sprottin út frá hugleiðingum um neikvætt og jákvætt rými og rýmið sem efnislegt og skúlptúrískt. Núna er ég að vinna að fleiri verkefnum sem tengjast náminu, til dæmis að koma með tillögu að verki fyrir opinbert rými.

 

ÁN TITILS, HÖGGMYNDAGARÐURINN, REYKJAVÍK, 2016.

RAMMAR ÚR VIDEO VERKINU HRINGUR, 2016.