Menu & Search

BERLÍN / GUNNHILDUR HAUKSDÓTTIR

BERLÍN / GUNNHILDUR HAUKSDÓTTIR

GUNNHILDUR, BERLÍN, ÞÝSKALAND.

– þær getu verið fleiri en það eru þá leifar af einhverju flakki. Ég er við eldhúsborðið í Berlín þegar þetta er ritað. Kom fyrst til Berlínar frá Amsterdam fyrir bráðum tólf árum, ég er samt ekki búin að búa hér í 12 ár. 

SÖNGKONUR TAKA SJÁLFU

 

Stundum er ég með annan fótinn hér, stundum bara eina tá, stundum báða fætur og alla mig.

Ég hef að mestu skipt mér á milli Reykjavíkur, Seyðisfjarðar og Berlínar undanfarin 12 ár. Ég var í Amsterdam við nám og árið 2005 ákvað ég að vinna ritgerðina mína hérna og selflytja lífið hingað, þá var svo mikið, mikið, mikið, ódýrara og auðveldara á allan hátt að vera hér, að finna fallega, mjög ódýra vinnustofu, allur matur, allt efni, allt auðveldara og betra og ódýrara í Berlín ákvað ég, það var líka satt og er enn satt.

H&H: Afhverju Berlín?

G: Ég fann góðan skóla fyrir son minn og dröslaði honum hingað líka frá Oxford þar sem hann bjó. Svo bjuggum við okkur til líf og það var bara mjög gott líf og svo kom allskonar drama. Kannski er heimaborgin manns þar sem mesta dramað hefur dunið á manni. Þá eru Berlín og Reykjavík jafnar í mínu tilfelli. Ég heiti Gunnhildur og er 44 ára.

Tuttugu og þriggja ára sonur minn hefur á ævi sinni ekki verið í sama skóla eða búið á sama stað í meira en tvö ár (fyrr en núna). Það er njálgur í okkur. Á síðasta ári var ég meðal annars á Indlandi, Litháen, Ítalíu, Austurríki og í Norður Ameríku og eitthvað fullt á flakk í Evrópu og þetta ár verður svipað, ekki bara útaf vinnunni, líka útaf öllum þessum tvíæringum og fimmæringum og stórviðburðum í myndlist sem dúkka upp á árinu. Þess vegna er betra að vera með bækistöð á meginlandinu í mínu tilfelli um þessar mundir, líka útaf því að allt er ómögulega dýrt á Íslandi núna.

H&H: Uppáhalds tjill/hangistaður í borginni?

G: Það er síbreytilegt hvaða staðir eru uppáhalds hangsin mín. Núna mundi það vera vinnustofan mín, kóræfingarplássið þar sem kórinn æfir. Saunan í líkamsræktinni minni. Kokteilbarinn í götunni fyrir aftan húsið mitt, barþjónninn þar kann að gera almennilegan gin-martíní. Skógarnir í kringum Berlín. Stöðuvötnin á sumrin.

 

Þær hafa alltaf bara verið heyranlegar en aldrei sýnilegar. Nú eru þær sýnilegar. Það er hægt að sjá þær allar í einu, því pappírinn er hálfgegnsær. Maður heyrir þær líka allar í einu, stundum bara eina í einu, stundum tvær, þrjár og stundum allar í hrúgu í tónverkinu.

Ég fékk að vinna á prentstofu hjá kunningja útí Neuköln sem er með kommersjal silkiþrykk verkstæði en hann er svo sætur að hann leyfir listamönnum að vinna í aðstöðunni sinni og hjálpar þeim, gamall anarkisti með ástríðu fyrir listum og pönki.

H&H: Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

G: Ég var að gera útgáfu og hljómplötu í takmörkuðu upplagi sem fylgir verki sem ég hef unnið við og sýnt annars lagið undan farin tvö ár. Ég sýndi útgáfuna og innsetninguna í Osló, í Åkershus Kunstsenter.
Nú ætla ég að senda hana í valdar listabókabúðir og kynna hana og sjá hvort ég geti selt hana. Ég er með litla einkasýningu í Mars handan við hornið í Mitte, hjá nýju galleríi.

Þar ætla ég að gera gjörning og fá eldri frú til liðs við mig, hún fer með texta og ég skrifa á veggina og teikna á gólfið.

Ég er líka að fara að kenna á íslandi, svo ég ferð þangað í Mars og svo til Danmerkur í Apríl, ég er að búa til bók með pabba mínum sem býr þar. Fer til Feneyja og svo til Kanada í maí og undirbý gjörning sem ég flyt í lok árs og fer aftur til Króatíu í júní að gera gjörning í neðanjarðar bönker frá fyrrum Júgóslavíu á gjörningahátíð sem heitir Perofmance Days. Þetta er allt jafn mikið næst á dagskrá. Á þessu ári, næsta vetur fer ég líka til Brasilíu í residensíu að skoða andatrú og búa til verk.

Einsgott að halda sér við efnið og vanda sig.

H&H: Hverju mælirðu með fyrir listamenn og listunnendur að gera í borginni?

G: Ég myndi mæla með því fyrir listunnendur í borginni að skoða mikla list, skoða söfnin, skoða INDEX sem er listi yfir flest sem sjá má. Ég mæli með að leggjast í smá gúggl-vinnu og velja hvað er best að skoða, kaupa dagpassa eða redda hjóli, búa til túr og skoða gallerí og söfn, gefa sér tíma og muna að borða, því það er vont að skoða listir svangur.

Ég myndi líka fara útí skóginn, til að jafna mig á allri listinni og fara á t.d. Bach orgeltónleika í Dómkirkjunni, til að hvíla augun fyrir svefninn og nota önnur skynfæri.

G: Fyrir listamenn mæli ég með … það fer eftir því hverju þeir sækjast eftir. Vilja þeir koma hingað til að vinna?
Þá mundi ég ekki hika við að kynna mér verkstæðin. Það er t.d. verkstæði í Wedding, maður getur fengið að vinna þar, líkt og í Myndhöggvarafélaginu, nema betra og stærra og faglegra. Þar er keramik, járnsmíði, trésmíði og mótunar aðstaða, maður borgar á daglegum eða vikulegum basis eftir því sem maður þarf. Fólk í vinnu við að hjálpa manni þannig að ef maður t.d. kann ekki alveg að taka mót, þá er einhver sem sýnir manni og gefur ráð. Svo er líka gott að láta framleiða listir, bækur, plötur, ramma.

Það er mjög, mjög, mjög, gott að vinna að myndlist í Berlín og gott að einbeita sér.

En ef listamennirnir vilja ekki vinna um tíma og bara vera til þá mæli ég líka með Berlín, það er mikilvægt að gera stundum ekkert. Þá er Berlín frábær. Hún er friðsæl og hæg og góð og mild og getur líka verið æsileg. Maður getur einangrað sig eða verið alltaf í einhverju góðu stuði. Svo er hún líka erfið í hómópatískum skömmtum.

SKÚLPTÚR Í SPARIFÖTUNUM (MEÐ HLJÓÐINNSETNINGU) Í ÅKERSTRØM KUNSTSENTER Í OSLÓ

H&H: Uppáhalds listasafn/gallerí í borginni?

G: Uppáhalds listasöfnin mín í Berlín eru hin klassísku KW á Auguststraße og Hamburger Bahnhof, svo elska ég náttúrugripasafnið og bótanikal garðana (en hata dýragarðana) og mig langar mjög að skoða læknasafnið sem er hjá aðal lestastöðinni. Það er víst skuggalegt, ég hef ekki enn þorað, skuggalegra en krukkuborg. Það er alveg fullt, fullt, fullt, af establiseruðum kommersjal galleríum sem eru misgóð og svo er fullt af litlum listamannareknum rýmum, líka misgóðum en flest eru með hjartað á réttum stað. Uppáhalds galleríið mitt var alltaf Rumpsti Pumpsti, þar er besta listamannaplötubúð í borginni, mögulega í heimi. Galleríð lokaði því miður vegna blankheita. Því miður, því miður, því miður. En plötubúðin er sem betur fer á sínum stað. Uppáhalds eru líka hátíðirnar í Berlín, Berlínale, Transmediale o.s.frv. Þá er hátíð í bæ.

Hér má sjá stúlku syngja teikningu og hér má sjá stúlku syngja fyrir skúlptúr.

G: Fimm teikningar er hljóðinnsetning með skúlptúr og fimm hátölurum. Ég hef líka notað söngkonurnar í gjörning á opnun þegar verkið opnaði í Ars Communis center Yo-Yo í Litháen með fjórum söngkonum. Þá sungu stelpurnar teikningarnar beint fyrir áhorfendur. Teikningarnar eru hugsaðar sem nótur og upptökutækið sem ég notaði til að taka upp sönginn á teikningunum var skúlptúr. Ég bjó til binaural míkrófón sem stelpurnar sungu fyrir.

H&H: Hefur þú fengið greitt fyrir vinnu þína sem myndlistarmaður? Við hvaða aðstæður, í hvaða landi?

G: Ég hef fengið greitt fyrir vinnuna mína sem myndlistarmaður. Bestu laun sem ég hef fengið fyrir gjörning var 900 evrur fyrir eitt gigg, ásamt flugi og uppihaldi, það var í Austurríki, ég hef alltaf fengið frekar vel greitt þegar ég hef sýnt í Austurríki. Þetta er misjafnt eftir löndum virðist vera. Ég hef aldrei fengið greitt hér í Þýskalandi, enda ekki sýnt svo mikið hér. Nú er ég að fara að opna litla einkasýningu hjá nýopnuðu galleríi í Berlín, galleristinn borgar mér ekki, það væri einkennilegt, en hann vill reyna að selja verkin mín og vinna með mér að því að koma mér á framfæri, svo það eru einhverslags vinnuskipti, svo vill hann hjálpa mér að framleiða verkin líka.

Ég hef aldrei unnið í opinberu safni eða stofnun erlendis án þess að fá greitt. Svoleiðis gerist bara á Íslandi held ég, það er alveg gjörsamlega afturábak.

Ég hef hinsvegar oft unnið í launalaust í allskonar listamannareknu dæmi, bara af löngun til að bralla eitthvað. Berlín er ekki rík borg, en hugsar vel um myndlistarmennina sína að mörgu leyti.

Hér eru sérstakar sjúkratryggingar fyrir skapandi fólk og borgin heldur úti vinnustofum sem eru mjög ódýrar, svo eitthvað sé nefnt.

Ég get tekið sem dæmi að verkefnið Fimm teikningar á upptök sín í Litháen. Skipuleggjendur greiddu öllum listamönnum fín laun við að gera verkið í 2 mánuði og sköffuðu vinnuaðstöðu og aðstoð. Verkefnið borgaði allan framleiðslukostnað, kostnað við uppsetningu, kynningu og ferðalög vegna sýningarhalds.

Hlutverk listamannanna var að búa til nýtt listaverk, hlutverk skipuleggenda var að skipuleggja umgjörð til að það mætti best gerast.

Nú eru þau að vinna að bók um verkefnið en það var gert undir regnhlíf sem hét Climbing Invisible Structures. Ritualized. Disciplinary Practices in Social Life, það var fjármagnað með styrk frá European Economic Area Financial Mechanism 2009-2014 og Academy of Arts í Litháen og var vel skipulagt. Þegar stofnannir sækja um þessa Evrópustyrki þarf að setja ákveðna prósentu í laun fyrir Myndlistarmenn, það er skylda, og ef þau gera það ekki þá er það ólöglegt og þau missa styrkinn.

Það tryggir okkur laun þegar þannig er staðið að verki.

Listamannalaunin eru ótrúlega mikilvæg lífæð fyrir íslenska myndlist.

Veruleiki flestra myndlistarmanna er alveg ótryggur frá ári til árs og jafnvel á milli mánaða fjárhagslega, það er erfitt en það venst. Myndlistarmenn eiga auðvitað að fá greitt fyrir vinnuna sína en veruleikinn er ekki þannig núna, vonandi er það að breytast og herferð SÍM gott dæmi um vitundarvakningu.
En veruleikinn er enn þannig að til að lifa af þurfa myndlistarmenn að passa sig að reyna láta hvorki peninga né peningaleysi stjórna gjörðum sínum eða lífi sínu, það er varla hægt því peningaáhyggjur geta verið svo tætandi.

Listamannalaun skapa tímabundin frið fyrir peningaáhyggjum til að geta einbeitt sér að listum sem síðan skilar sér út í alla menningu.