Menu & Search

BERLÍN / STEINUNN

BERLÍN / STEINUNN

STEINUNN, BERLÍN, ÞÝSKALAND.

Steinunn (Gunnlaugsdóttir) listamaður og förukona, aldur 33, er í Berlín eins og stendur. Berlín er mýri og mýrar eru stórmerklegt vistkerfi. Oft festast lappirnar á fólki hér í drullusvaðinu og ef maður gleymir sér þá getur borgin auðveldlega gleypt mann með húð og hári, það felst nautn í því – en svo er líka klókt að láta ekki alltaf gleypa sig og fara oft burt og koma sem oftast aftur eða aldrei. Ég fór –og fer frá Íslandi því ég þoli ekki að vera þar of lengi í einu – ég verð svo sorgmædd og reið þar.

Í öllum heiminum er rugl í gangi, ofbeldi og kúgun – en á Íslandi misbýður mér að skilja hvert talað og skrifað orð (og alla núansa tungumálsins) af samstöðuskorti, níðingskap og tækifærismennsku gagnvart næstu manneskju, dýrum og náttúrunni.

Vinnustofan mín er úti undir berum himni þessi misserin en hluti af úrvinnslunni fer fram þar sem ég halla höfði þá stundina. Ég vinn oft með samruna hins harða raunsæis og hins göldrótta. Efniviðurinn sjálfur er svo bara það sem kallar sterkast til mín þá stundina, hvort sem það er minn eiginn veruleiki eða eitthvað allt annað.

H&H: Uppáhalds listasafn/gallerí í borginni?
S: Það er mörg góð söfn í Berlín, mæli bara með þeim öllum. Galleríin eru æði misjöfn en oft örvandi að taka rispu og sjá allskonar, sérstaklega ef það er eitthvað eins og Gallery Weekend, Month of Performance eða eitthvað svoleiðis í gangi.

H&H: Uppáhalds tjill/hangistaður í borginni?                                             
S: Úti – einhverstaðar þar sem eru helst ekki margir bílar og allra best eru þau svæði innan borgarmúranna sem eru í rugli þ.e. enginn hefur ákveðið tilgang þess – svona kaos eyðimerkur og edingarðar – mér finnst þeim hafa farið fækkandi að undanförnu í þessari borg en eru sem betur fer enn til. Borg sem ekki hefur svoleiðis villistaði hlýtur að deyja.

 

 

 

 

REGNBOGI VALMÖGULEIKANNA ER LJÓSMYND AF AKTÍON MÁLVERKI SEM ÉG FRAMDI OG SÝNDI Á SAMSÝNINGU OG KOSNINGAUPPÁKOMU Í HAUST Í SÝNINGARRÝMINU EKKISENS Í REYKJAVÍK. MÁLVERKIÐ ER HLUTI AF SÍSTÆKKANDI HEILDARVERKI SEM MÖGULEGA Á MIG ÆVINA TIL ENDA. HEILDARVERKIÐ HEITIR LÝÐRÆÐIÐ ER PULSA OG HÓFST ÁRIÐ 2009 – Í ÞVÍ FINN ÉG KÆRKOMNA UPPSPRETTU KÆTI OG Í GEGNUM ÞAÐ VIRKJA ÉG HATRIÐ SEM ÉG HEF Á ÞJÓÐREMBU, BLEKKINGUNNI UM LÝÐRÆÐIÐ OG KOSNINGU – HATUR SEM MYNDI SENNILEGA ANNARS ÉTA MIG UPP EÐA ALLAVEGA GERA MIG AÐ MORÐINGJA. (ÉG VEIT EKKI HVER TÓK ÞESSA LJÓSMYND AF VERKINU EN ÉG SENDI HÉR MEÐ ÞAKKIR TIL VIÐKOMANDI).

 

H&H: Hverju mælirðu með fyrir listamenn eða listunnendur að gera í borginni?
S: Mæli með öllu og engu. En við alla sem stoppa í meira en nokkra daga mæli ég með að kíkja á einhverjar skráningarskrifstofur, sjá inn í allavega einn spítala og að blaða í gegnum þýskann ruslpóst – því þannig kemst maður aðeins undir húð borgarinnar og fattar ýmislegt.

H&H: Hvernig er listasenan í borginni?
S: Eins og svo margt annað í þessari borg: næstum allur skalinn af alls konar.

 

Hljóðverkið og gjörningurinn B – Be – Bee – By – Bí – Bý – بي var frumsýnt á listahátíðinni Plan B festival í Borgarnesi í fyrra sumar. Hljóðverkið tók ég upp á endalausu ráfi um tvær stórborgir að sumri. Það er óður til lífsins, ástarinnar, sagna Shakespear og hins villta, glaða og grimma sem er í allt og öllu. Gjörningurinn og innsetningin voru unnin spontant á sýningarstaðnum. Mig langar að fremja þetta verk aftur og er að leita að stað fyrir það í Berlín eða einhverstaðar í Evrópu.

 

Enginn er hljóðaljóð, þar flyt ég ljóð sem er enn að stækka og dafna. Ég hef búið við húsnæðisóöryggi stæðsta hluta lífs míns, eins og svo margir. Þetta er úrvinnsla á þeim fáránlega veruleika. Fyrsti bálkur ljóðsins varð til á nætur labbitúr um Laugarneshverfið. Mér var litið á alla kjallarana sem eru undir húsunum og tók eftir því að oft er búið í þeim. Kjallarar eru oftast með lofthæð sem leyfir ekki mannsandanum að stækka auk þess eru þeir oft myrkir og óheilnæmir sökum raka og myglu. Engin rík manneskja býr í kjallara hugsað ég – þau setja bara kjallara í húsin sín til að geyma umfram dótið sitt og svo þegar hart er í ári hjá fátæklingunum þá er hægt að leigja þá til þeirra á uppsprengdu verði. Ég gekk svo um allt hverfið þyljandi ljóðið endalausa inn um bréfalúgur og hálfopna glugga.
Þessi útgáfa hér var framin á gamlársmorgunn á óræðum stað:
https://www.mixcloud.com/radio_mix_kassette/enginn-eftir-steinunni-gunnlaugsdottir/

H&H: Hvað er næst á dagskrá hjá þér?
S: Finna einum gjörningi vettvang í Berlín, vinna að sýningu í Sláturhúsinu á Egilstöðum, undirbúa plötuútgáfu, klippa myndband og sannfæra Hafnarhúsið í Reykjavík um að sýna verk eftir mig sem vill fæðast sem fyrst.

Klefi er ljósmynd prentuð á gler og innsetning. Ljósmyndin með textanum er fundin í Morgunblaðinu í grein um hvað skuli gera við níuna, steinhúsið á Skólavöðrustígnum sem var fangelsi í 142 ár. Opinber starfshópur var fengin til að hafa skoðun á því hvað gæti verið og hvað mætti ekki vera þar. Þeim fannst sniðugt að gera húsið að “skemmtimenntunarhúsi” og innan þess mætti t.d. hafa liststarfsemi í einum fangaklefa.

Þvílíkt táknafyllerí sem maður fær upp í hendurnar!

Verkið sýndi ég svo í hótelherbergi í Reykjavík, hótelherbergið sjálft varð þá hluti að verkinu.

H&H: Hefur þú fengið greitt fyrir vinnu þína sem myndlistarmaður? (Við hvaða aðstæður og í hvaða landi?)
S: Ég hef stundum fengið hluta að efniskostnað, gistingu, jafnvel ferðalög, t.d. hjá Listasafni Akureyrar og B plan festival í Borgarnesi og ég kann að meta það. En það var fyrst í fyrra sem ég fékk greitt fyrir vinnuna við uppsettningu og þóknun fyrir að sýna verk og það var í Finnlandi og Noregi. Það var ekki mikið miðavið laun almennt en það var feit búbót fyrir tómthúsmann.

H&H: Hvernig standa yfirvöld ykkar borgar/lands sig í þeim efnum að borga listamönnum?
S: Aðrir en ég eru betri í svara því.

Einu sinni lofaði ég sjálfri mér að ég myndi aldrei gera ríkisvaldinu og markaðsöflunum gagnlegt handtak.

Það var FEITT lofað upp í ermina! En ég reyni eftir allra allra bestu getu að drýgja sem minnst af launavinnu. Þeirri stefnu fylgja þæginda fórnir sem ég hef vanist og só far sætt mig við.

HEIL, ER MYNDBANDSVERK Í VINNSLU. HÉR ER STILLA ÚR ÞVÍ. ÞAÐ ER TEKIÐ Á EINUM AF UPPÁHALDS STÖÐUNUM MÍNUM Í HEIMINUM: AUSTUR ÞÝSKAR BLOKKIR SEM LOFUÐU VERKALÝÐNUM BETRI LÍFSGÆÐUM. ÉG RAMBAÐI ÞANGAÐ FYRIR NOKKRUM ÁRUM ÞEGAR ÉG VAR Á RÖLTINU MEÐ VILLIMEY, ENGLINUM SEM LEIÐIR MIG Í EVRÓPU. ÞESSI STAÐUR ER HVALREKI, ÉG ER BÚIN AÐ FÁ ÓTAL HUGMYNDIR ÚT FRÁ HONUM, BÚIN AÐ GERA NOKKUR VERK OG ER ENN AÐ VINNA VERK ÚT FRÁ HONUM. 

Í FEBRÚAR FRUMSÝNDI ÉG STUTTMYNDINA: 1NN (FYRSTA MYND VIÐTALSINS) EN HÚN ER EINMITT LÍKA TEKIN UPP Í KRINGUM OG AF ÞESSUM STAÐ.

 

LITLIR KASSAR ER LJÓSMYND – PORTRET, ÉG BAÐ SAMFERÐAMANN MINN AÐ TAKA HANA AF MÉR SPONTANT ÞEGAR VIÐ VORUM SAMAN Í LABBITÚR Í VETUR – ÉG ÁTTI SVO AÐEINS VIÐ HANA EFTIR Á. ÞANNIG SÉÐ ALVEG ÓVART ATVIKAÐIST ÞAÐ AÐ ÉG FARIN AÐ VINNA SENU AF LJÓSMYNDUM SEM ERU SYSTKYNI ÞESSARAR.