Menu & Search

BIRGIR SNÆBJÖRN BIRGISSON

BIRGIR SNÆBJÖRN BIRGISSON

Hillbilly heimsótti Birgi á vinnustofu/heimili hans í Dugguvogi þann 19. janúar 2017. Ótrúlega fallegt pláss. Birgir tók heillaða Hillbilly í smá túr um húsið og lýsti þeim aragrúa af listaverkum eftir erlenda og innlenda listamenn sem hanga upp á veggjum hans.

 Oft er þessi hópur fagurkerar. Maður kynnist mörgum listamönnum, það eru verkaskipti og maður eignast mörg falleg verk.

Inn af stofunni á neðri hæðinni er vinnustofa Birgis. Hún er vel lýst. Á stórum vegg standa þrjú verk í vinnslu og eitt tilbúið á ferhyrndum strigum. Við fyrstu sýn gætu það verið auðir strigar en þegar horft er í smá stund sér maður bros, augasteina, ljósa lokka og kyrrð. Þægilegt fyrir augun að horfa og njóta en það kom Hillbilly á óvart þegar Birgir sagði að sumir hefðu haft orð á því að verkin væru óþægileg áhorfs. Eitt er víst, það verður að gefa sér tíma fyrir framan málverk Birgis. Hillbilly kýs að kalla svoleiðis list: Slow list.

B: Hraðinn er áhugaverður vegna þess í dag er meðaltími þess sem fólk eyðir fyrir framan listaverk á söfnum nokkrar sekúndur. Þar myndi ég hreinlega tapa. Verkin mín þurfa lengri viðkynningu, meiri nánd og verkið verður skýrara og skýrara eftir því sem horft er á það og sambandið milli áhorfandans og verksins sterkara. Sem er kannski eins og upphafið af slow food. Tíminn fyrir framan verkið, samneytið og samræðan við verkið skýrir myndina, og á endanum hugmyndina.

Samræðan gengur meira út á hvísl, þegar maður hvíslar fer fólk að hlusta. Hvísl er líka persónulegri samskiptamáti.

B: Sumum finnst verkin óþægileg. Mér finnst að einhverju leyti að verkin geta látið þig alveg í friði ef þú vilt. Þau svona koma og fara.

B: Árið 2005-2006 byrjaði ég að mála allar Ungfrú heim og sýndi á alla 56 vinningshafana fram að þeim tíma á Kjarvalstöðum árið 2007. En undanfarin ár hafa verið svo þétt af sýningum að ég átti eftir að mála þrjár síðustu þannig að ég er að mála þær núna, þær eru langt komnar. Önnur frá vinstri er til viðmiðunar, reglustikan.

Hillbilly starir í smá, dáleiðist. En rankar síðan við sér og byrjar viðtalið.

H&H: Afhverju ákvaðstu að læra myndlist?

B: Það var ekki beinlínis val, það blundaði alltaf í mér og valdi mig kannski á endanum. Ekkert annað sem kom til greina og það var ekkert auðveld ákvörðun. Ég var mjög snemma kominn með börn svo þetta var svona enn meira rísikó val sko. Ég hugsa að það hafi verið gott vegna þess að það gerði mig svo detikeraðan í að standa mig.

H&H: Hvar lærðiru myndlist?

B: Ég lærði fyrir norðan, svona eftir á að hugsa voru mörg námskeið sem ég sótti. Svo í menntaskólanum á Akureyri tók ég fornámið í gegnum myndlistarbraut menntaskólans. Fer síðan suður í Mynd- og hand í grafíkdeild og svo til Strassburg í Frakklandi í fjöltæknideild í tvö ár. Í grafíkdeildinni á sínum tíma fannst mér ég hafa svo mikið að segja með verkunum en allir höfðu áhuga á aðferðunum. Ég fór ekki síst að mála vegna þess að málverkið er tiltölulega illaproof – litur á striga, flestir þekkja þetta og vita hvernig það á sér stað.

Birgir bjó í London árið 1996-97 þar sem hann leigði sér vinnustofu. Aðspurður hvort hann ætlaði að fara að læra eitthvað þar í bæ segist hann hafa velt því fyrir sér en þá rann upp fyrir honum að hann var kominn með nóg af námi. En finnst Birgi nauðsynlegt fyrir myndlistarmenn að læra myndlist?

B: Já, það er alltaf gott. Í öllu sem maður gerir er námið bara til að hjálpa, flýta fyrir. Myndlistin er orðin þannig í dag, hún er orðin svo víðfeðm að við þurfum að vera svo vel að okkur í svo mörgu að við þurfum allavega að vera með eitthvað nám að baki. Ekkert endilega tækni-myndlistarnám, við þurfum bara að vera vel að okkur og fylgjast vel með.

H&H: Hvernig lærir maður myndlist?

B: Ég hugsa að það sé bara með þrautsegju og mikilli vinnu. Í rauninni að tileinka sér strax þessa samkeppni, ekki síst við sjálfan sig. Það er ekkert endilega hollt en skiptir gríðarlegu máli vegna þess að við erum okkar einu og verstu – eða bestu – gagnrýnendur.

H&H: Þú hefur verið að kenna líka, hvernig kennir maður myndlist?

B: Þegar ég var að læra fannst mér bestu kennararnir þeir sem voru aktívir og duglegir að sýna, á fullu í sínu starfi. Þannig að ég reyni að vera það. Koma inn sem starfandi myndlistarmaður þannig að þetta renni svoldið saman bara; tilfinningin um út á hvað þetta gengur og síðan hverju maður getur miðlað. Síðan náttúrulega að reyna að halda nemendum að verki, sem er kannski erfiðast í dag og þar hef ég auðvitað stórar skoðanir á málum…

Mér finnst vanta þessa samkeppni og ég held að það sé að hluta til komið vegna þess að við áttum það fyrirbæri sem hefur stundum verið kallað krúttkynslóðin. Þar sem allt var eitthvað svo yndislegt og næs og það var einhver misskilningur í gangi. Við horfum til einhvers harðstarfandi hóps sem var að ganga vel en allir héldu að það hefði bara gerst að sjálfu sér. Það varð til eitthvað falskt öryggi að þetta kæmi bara að sjálfu sér, en þetta kemur ekkert að sjálfu sér. Maður þarf að hafa fyrir því.

B: Það þarf bara að vinna og vinna og vinna, gera mistök og læra af þeim. Mikilvægt að leyfa sér að gera mistök. Þau gerir maður ekki nema maður prófi endalust. Ég tel mig hafa verið heppinn þegar ég var í námi, ég var með svo góðum samnemendum, ég var miklu verri en þeir og ég þurfi að hafa alveg rosalega fyrir þessu. Ég þurfti bara að fara erfiðu leiðina. Stundum tókst mér að fá hærri einkunnir sem var bara voða gaman, en það var tekið út með hörkunni.

Ég fæddist ekki með silfurpensilinn í kjaftinum.

H&H: Hvað var það sem hvatti þig til að halda áfram?

B: Ég held það hafi bara verið einhver þrá. Jújú sköpunarþráin var alltaf til staðar. En ég var ekki vel staddur tæknilega. Það er alltaf umdeilanlegt hversu vel tæknilega hluturinn þarf að vera gerður, því innihald skiptir auðvitað líka máli í myndlist. Um hvað er verið að fjalla. En það allavega skemmir ekki fyrir að vera búinn að leggja það hart að sér í mismunandi miðlum að maður sé tæknilega fær.

Samkvæmt óformlegum rannsóknum Hillbilly er hæfileiki fólks á ákveðnum sviðum oft aðal hvatningin til að það leggi það starf fyrir sig. Birgir hafði þessa þrá þó að eigin sögn hafi
hann þurft að vinna hörðum höndum að því að efla hæfileika sína.

B: Auðvitað taldi maður sig eiga eitthvað í þetta og þegar ég var farinn að eyða meiri tíma í að myndskreyta ritgerðir í menntaskóla heldur en að skrifa þær þá sá ég að leiðin lá í þess átt.

H&H: Hvernig lýsir sköpunarþráin sér?

B: Að komast í eitthvað ástand, komast á einhvern stað þar sem manni líður vel. En líður vel að því leitinu til að maður verður fíkill í það ástand, en það er ekkert endilega gott að vera þar. Við verðum fíklar í eitthvað ástand, að komast lengra, hærra, ögra okkur stöðugt. Eins og ég segi, við erum okkar hörðustu gagnrýnendur.

Þetta getur verið einmanalegt, getur verið óþægilegt, ætli það séu ekki velflestir starfandi myndlistarmenn í grunninn kvíðasjúklingar og intróvertar og líður ekkert vel.

H&H: Hvernig gengur þér að lifa á listinni?

B: Það gengur ágætlega. Segir ekki í biblíunni 7 góð ár og 7 vond ár? Ef maður útvíkkar þetta þá eru alltaf einhver tilfallandi störf sem maður getur í gripið til. Ég hef kennt ef ég er beðin um það og ég hef verið í einhverjum launuðum störfum meðfram og svo selst alltaf eitthvað af verkum. Það eru mörg störfin sem maður getur fundið sem eru ekkert slæm með myndlistarvinnunni. Ef maður getur notað þau að einhverju leyti til að endurnýja sig eða endurmennta sig. Kennslan getur verið fín til að vera í sambandi við Akademíuna og fá að vera þátttakandi í því sem er í gangi, nýjum straumum.

H&H: Geturu gefið mér dæmi um eitt starf sem þú hefur unnið við meðfram, fyrir utan kennslu?

B: Já, ég hef starfað fyrir fyrirtæki í listrænni ráðgjöf. Ég var í fjöldamörg ár tæknimaður á söfnunum, við að hengja upp sýningar og hanna sýningar. Það er náttúrulega dæmigert starf fyrir myndlistarmenn að verða tæknimenn. Það var voða gaman fyrst þegar ég var að vinna fyrir flotta, jafnvel erlenda, listamenn. Mikil upplifun fyrir mig og ég lærði mikið í leiðinni.

Og svo lærði ég hvernig maður á ekki að haga sér, þegar komu stjörnur með stjörnustæla.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?

B: Ég vinn oft í stórum myndaröðum eða seríum sem mér finnst gott – slær á kvíðann að þurfa að hugsa upp eitthvað nýtt í hvert skipti. Það er gott að vera kominn með hugmynd sem ég veit að endist í einhver ár. En svo hef ég byrjað á verkefnum þar sem allt er voða gaman fyrst, en síðan er þetta bara hörkuvinna í 1-2 ár.

Það var náttúrlega að klárast sýning í Hafnarborg, Von, þar sem ég málaði 64 þingmenn. Það verkefni tók mig næstum 2 ár að vinna. Langar stöður og það getur verið voðalega gott að losna við svoleiðis verkefni. Annað verkefni sem ég man eftir að ég byrjaði á og átti upphaf sitt í bók sem ég fann, Fallegu Parísarkonurnar (e. The Pretty Women of Paris). Í bókinni eru lýsingar á vændiskonum Parísar. Fallegir textar hugsaðir fyrir breska ferðamenn á leið til Parísar. Talandi um það verkferli þá las ég um þessa bók og pantaði mér nýtt eintak af henni vegna þess að upprunalega útgáfan er ekki lengur fáanleg. Bókin snýst um það hvort konurnar séu nýjar á markaðnum, hvort þær séu vel settar og með hverjum þær höfðu verið, hvernig þær komust til metorða og svo framvegis. Hluti af upplaginu fór til lögreglunnar, hluti fór til kirkjunnar af einhverjum ástæðum og hluti fór síðan til breskra ferðamanna.

H&H: Kirkjunnar?

B: Hey, ég gerði te.

H&H: Ú.

B: Þessi bók lá á borðinu hjá mér í ár þar til það laust niður þeirri hugmynd að fallegt væri að vatnslita textana. Það var voðalega gaman fyrstu dagana, en síðan varð þetta eitt og hálft ár af straight vinnu.

Það er alltaf eitthvað gott, svona vont-gott að vera með eitthvað sem heldur manni við vinnu. Að vita hvað maður þarf að gera þegar maður vaknar á morgnana.

Þið getið ímyndað ykkur ruglið að vera að vatnslita allt þetta. Ég fór síðan til Parísar í vinnustofudvöl, labbaði um í tvo mánuði og heimsótti allar addressurnar og dokumentaði hverja heimsókn og skráði í bækur. Úr varð í rauninni heild sem er alveg fullar þrjár bækur, ljósmynd af hverjum stað fyrir sig og smá texti um mína upplifun og tilfinningu. Síðan pinnaði ég staðina inn á kort af París, í lok hvers dags heimsóknir dagsins. Kortið er hugsað sem eins konar ábreiða ofan á verkið.

H&H: Það er nú svoldið öðruvísi borgarferð.

B: En já, verkferlið – kveikjan getur verið lestur í bók, grein á netinu, ummæli. Svo vinn ég eitthvað verk útfrá því, eitt leiðir að öðru. Kveikjan að Ljóshærð Ungfrú Heimur var bara bók sem ég fann, bókin um Hófí. Ég er að blaða í gegnum bókina og það voru ekki síst þessar síður (Birgir flettir á síðu þar sem portrait myndir kvennanna komast allar fyrir á nokkrum opnum, 12 á hverri blaðsíðu) sem gefa mér hugmyndina að seríunni, þessari endurtekningu að mála vinningshafa hvers árs. Þær eru ekki allar ljóshærðar en ég set þær allar inn í þessa hugmyndafræði ljóskunnar, flet út þjóðernið í leiðinni. Spegla heiminn út frá ljóskunni í gegnum þetta hlutverk; fegurstu konu heims. Það sem heillaði mig enn frekar er að við höfum öll rosalega skýra skoðun á fegurðarsamkeppnum.

H&H: Hver er þín skoðun?

B: Ég reyni að vera hlutlaus.

Ég reyndi líka að læra ekki nöfnin á þeim þegar ég var að mála þær.

 

H&H: Bara góður efniviður?

B: Já, góður efniviður. Þetta fellur bara mjög vel inní þetta samtal, eða þessa orðræðu sem ég er að skapa. Það hafa komið tímar í gengum þessar myndaraðir að einhverjir segi að ég sé að halda frammi þessum norræna kynstofni, en þá er það yfirleitt einhverjar hugmyndir í kolli þess sem spyr. Vegna þess að ég er frekar, á kaldhæðnislegan hátt, að spegla álit okkar karlmanna á ljóshærðum konum. Eða hvernig samfélögin hafa farið með ljóskuna. Að sama skapi hvað er það sem gerir það áhugavert að vera ljóshærð. Afhverju er þetta svona eins og þetta er?

H&H: Hvaðan kemur ljóskuáráttan?

B: Ætli hún hafi ekki byrjað þegar ég var í London. Sennilega eitthvað undirliggjandi, en þegar ég bý í London 1996-1997 þá heyri ég ummæli breskrar þingkonu, Diane Abbott, að það sé búið að ráða of marga ljóshærða hjúkrunafræðinga á bresku spítalana. Þetta var einhver andrasísk umræða og hún nefndi það meira að segja að þessir hjúkrunarfræðingar væru flestir frá Finnlandi og Póllandi. Þetta var eitthvað sem ég heyrði bara á vinnustofunni á BBC4. Eitthvað sat eftir í kollinum á mér vegna þess að ári seinna ákvað ég að gera stórt málverk, hópmynd af hjúkrunarfræðingum og gerði þá alla ljóshærða. Og ég varð einhvernveginn heillaður. Það átti bara að vera eitt málverk en ég varð heillaður af þessu efni. Og í rauninni hvernig við í gegnum tíðina erum búin að nota og misnota hugmyndafræðina um ljóst hár.

Svo var voða áhugavert þegar ég gúgglaði ‘ljóshærður hjúkrunarfræðingur’ þá var viðtal við mig og 5000 klámlinkar.

Árið 2007 las Birgir grein um fyrirbæri sem kallast Blonde Moment. Þar staðhæfa tveir vísindamenn að greindarvísitala karlmanna lækki þegar við sjá ljóshærða konu, eða sjá jafnvel mynd af ljóshærðri konu. Vísindamennirnir vildu meina að sjálfkrafa færa þeir sig niður á plan steríótýpu ljóskunnar. Til samanburðar sögðu þeir að við löbbum hægar og tölum hærra innan um gamalt fólk, því við höldum að það heyri verr.

B: Við erum svo uppfull af stereótýpum og mér fannst þetta áhugaverð grein. Ég safnaði kommentunum undir henni og gerði textaverk. Það voru m.a. ljóshærðir lögfræðingar í kommentakerfinu sem urðu mjög æstir. Útfrá þessari grein varð til sería sem heitir Ljóshærðir tónlistarmenn. Ég hamstraði hljómplötur þar sem ljóska var framan á coverinu. Málaði yfir allt nema ljóskuna. Ég ætlaði að hlusta á plöturnar á meðan ég málaði en það entist í viku.

H&H: Fyrir þér, er munur á myndlistarmanni og skapandi einstakling?

B: Er þetta svona trick question?

H&H: Nei.

B: Ef þið eruð að tala um samtímamyndlistarmann þá er skilgreiningin mjög einföld, ef það er samtímalist þá er hún í samtali við sinn samtíma. Hefur eitthvað með samtímann að gera eða endurskoðun eða endurspeglun á honum hvort sem við erum að tala um samfélagslega eða pólitískt. Þetta er bara skilgreiningaratriði. Hvort hluturinn er settur fram sem myndlist eða hönnun eða hvað. Og það er náttúrulega bara hvernig hann er presentaður, sem hvað og hvernig mönnum gengur að verja það. Og hvort að sagan dæmir svo eða flokkar öðruvísi.

Við erum alltaf að gera einhverja hluti en svo kemur auðvitað stóri dómur sem er bara sagan, hvort að hluturinn lifir.

H&H: Hefurðu fengið sköpunarstíflu?

B: Jájá, alltaf, annað slagið. Ég held að að sé bara voða gott. Þá er einhver gerjun og þörf á mikilli hugsun sem leiðir yfirleitt til einhvers góðs og það held ég að hafi flestir fengið. En eins og ég sagði áðan, talandi um verkferlana, þá er voða þægilegt ef að eitt getur leitt af öðru/

Hvernig skilgreinir maður stíflu? Það kemur alltaf hugmynd að lokum.

Birgir kemur með sögu: Listamaður sem Birgir fílar vel, Roman Opalka er þekktastur fyrir að mála tölustafi. Byrjaði með hvítan lit á svörtum grunni og setti svo 1% af hvítu útí bakgrunninn. Þannig að á endanum mættist hvíti liturinn og bakgrunnurinn. „Varð alltaf ljósara sem mér finnst voða fallegt.“ Hann ljósmyndaði sig líka á hverju ári þar sem hann varð náttúrulega grárri og grárri. Sagan segir, á konsept tímanum á sjöunda áratugnum vantaði hann hugmynd. Hann þurfti eitthvað alvarlegt og flott. Hann sat og beið eftir konunni sinni á biðstofu á spítala og til að drepa tímann fór hann að telja. 1, 2, 3. Þegar konan hans kom út var hann kominn með þessa frábæru hugmynd að æfistarfi sínu. „Ég ætla að mála tölustafi!“ Hann var með allskonar tölfræði með þessu. Reiknaði t.d. út ef barn byrjaði í móðurkviði hve langt það mögulega kæmist út frá hans eigin vinnuhraða…

Hann vann standandi, lét það ekkert á sig fá að mála tölustafi alla daga. Allan daginn. Hann eyddi miklum tíma í að skrifa tölustafi í stílabækur. Í þessum geira þurfum við að vera svoldið obsessed.

B: Endurtekningin er líka svoldið góður þáttur. Áhugavert að sjá hvað gerist þegar maður gerir margar myndir. Afhverju gerði ég ekki bara nokkrar fegurðardrottningar? Hvað gerist þegar hluturinn er gerður aftur og aftur?

Við getum borið þetta saman við eitthvað orð sem okkur þykir klént eða gróft ef við segjum það nógu oft náum við að núlla það út eða breyta merkingu þess. Eða afmá eitthvað. Sem mér finnst fallegt.

Eftir að hafa skoðað verk Birgis vel getur Hillbilly ekki annað en velt fyrir sér hvort pælingin bakvið þau sé að afmá eitthvað, núlla út.

B: Hvítþvo eins og sagt var þegar ég var að mála þingmennina. Afmáunin er kannski einn þáttur. Þetta er ekki eiginleg portrett, heldur er ég að mála ímynd viðkomandi. Þetta er kannski öðruvísi frásögn en eiginleg portrett lýsing.
Þetta er í rauninin bara hvítt og naples yellow og þegar hann nær ákveðnum styrk þá byrjar hann pínulítið að víbra og byrjar að detta í sjónhimnunni yfir í aðra liti, verður jafnvel bleikur. Við ákveðið áhorf. Mér finnst ég oft vera að vinna alveg á mörkum einhvers.

Ég er allavega á þeim mörkum að það er hér um bil ómögulegt að ljósmynda verkin.

Þegar ég er að taka þátt í einhverjum samkeppnum þá kemur alltaf til baka „geturðu vinsamlegast sent betri myndir?”
Ég var að sýna í Gautaborg þá kom panik símtal frá tæknimönnunum: „Það hlýtur eitthvað að hafa gerst í flutningunum… verkin sjást ekki!“

H&H: Notarðu alltaf sama naples yellow í hárið?

B: Já, ég hef verið að nota hann mikið.

H&H: Er mamma þín hjúkrunarfræðingur?

B: Nei. Ég er iðulega spurður um hvort konan mín sé ljóshærð og þegar ég svara því nú eiginlega neitandi þá er ég spurður „en er hún hjúkrunarfræðingur?“
Ég fór og sýndi ljóshærðu hjúkrunarkonurnar í Istanbúl og í gagnrýninni var mikið talað um valdbeitinguna. Þeir lásu í rauninni ljóshærðu konuna sem einhverja dóminerandi og harða. Ekki hina mildu hjálp sem margir leggja í ljóskuna

Hjúkrunarfræðingur náði að spanna allt þetta svið allt frá Maríu Mey yfir í Florence Nightingale.

 

H&H: Do blondes have more fun?

B: Já augljóslega.

Hillbilly gat ekki-ekki beðið Birgi um einn góðan ljóskubrandara. Hann átti nokkra, meira að segja einn ljóshærðan hjúkkubrandara: Why do blonde nurses show up to work with red pens?
Because they presume they will be asked to draw blood.

Hehe!

B: Ég hef stundum nánast verið sakaður um að vera rasisti ef verkaheildin mín er skoðuð. Ég gerði til dæmis þessa seríu sem heitir Ljós höfuð Norrænn kynstofn, sem samanstendur af portrett myndum sem eru málaðar eftir ljósmyndum úr litlu fallegu hefti sem ég pantaði frá þýskalandi. Deutsche Köpfe, Nordischer Rosse. Heftið er gamalt, frá frumnasismanum.

 

 

Fólk sendi inn myndir af sér og tók þátt í fegurðasamkeppni í norrænu útliti og var síðan parað saman til að eignast falleg afkvæmi.

Þetta er komið nálægt rasismanum í nasismanum, þá komu svona vangaveltur og spurningar um mínar skoðanir. Það hefur líka verið skrifað í gagnrýni um mig að þetta sé í grunninn eins og friðþæging eða afsökun á því að vera norrænn. Þetta er ekki sakbitning en þetta snýst um allt annað en að vera statement um eitthvað ástand, frekar gert til að skapa umræðuvettvang.

Ég held að það verði áhugavert þegar allt kemur saman. Þetta er ekki bara eitt og eitt verk, heldur heild. Svo er maður orðinn svo gamall að það er gaman þegar verkin manns fara að tengjast. Innbyrðis og aftur í tímann. Þetta verður kannski eitt allsherjar heildarverk. Þráður á milli fegurðardrottninganna og þingmannanna sem ég gerði alla ljóshærða líka.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem myndlistin hefur kennt þér?

B: Læra að standa með sjálfum mér. Hversu góður ég er í því. Ætli maður sé ekki að feika það eins og flestir. Við erum nú stundum á skrítnum stöðum í sjálfsgagnrýninni.

En við þurfum að standa með okkur sjálfum og þetta starf hefur kennt okkur það.

H&H: Hvað myndiru bjóða uppá í kvöldmat?

B: Eitthvað sem ég á til í kæliskápnum. Fisk, lax.

H&H: Hvert er draumaverkefnið þitt?

B: Að vinna að einni myndaröð sem myndi taka allan minn tíma, að eilífu. Nei, ég er með svoleiðis í gangi.

Draumaverkefni? Það hlýtur að vera að gera stóra myndaröð sem bæði ég og allur heimurinn er ánægður með.

H&H: Tókstu til áður en ég kom?

B: Það er alltaf hreint og fínt. Ég tók aðeins til á einni hillu hérna. Ég þarf að hafa allt hvítt og hreint, ekki mikið áreiti. Ég á bara mjög erfitt með að sjá hlutina ef það er ekki regla í kringum mig.

Ég þarf hvítt umhverfi.

Birgir og Sigrún (Sigvaldadóttir, grafískur hönnuður og eiginkona, sem er með afar fallega vinnustofu á efri hæðinni) sjá um rekstur gallerísins Gallerí Skilti. Þegar þau fluttu inn í kringum 2005 var skilti fyrir utan hurðina, enda fluttu þau inní verkstæði í iðnaðarhverfi. Hjónin veltu fyrir sér hvort þau ættu að taka skiltið niður eða gera eitthvað við það. Þessi hugmynd að gera skiltið að sýningarvettvangi verður til og fær nafnið Gallerí Skilti. Þau ákváðu strax að það yrðu tvær sýningar á ári. Opnun á stysta og lengsta degi ársins. Á þeim stysta, 21. desember, er það íslenskur listamaður sem sýnir af þeirri einföldu ástæðu að það erfiðara fyrir erlenda listamenn að ferðast á þessum jólatíma. 21. júní opnar oftast erlendur listamaður á Gallerí Skilti. Hjónin velja listamenn sem þau telja áhugaverða fyrir þennan vettvang.

B: Þetta er auðvitað eitt af mörgum skiltum í hverfinu. Það er ekkert sem segir þetta er myndlist og það stendur ekki á því Gallerí Skilti. Heldur erum við bara alveg eins og enn eitt fyrirtæki hér í hverfinu sem getur ekki ákveðið hvaða starfsemi er í húsinu, vegna þess á 6 mánaða fresti kemur nýtt skilti.

Stundum er til dæmis eins og við séum fyrirtæki sem selur línóleum gólfdúka eða matsölustaður og stundum er þetta af pólitsíkum toga, eins og núna hjá Söru Riel.

Við fáum að njóta hvers listaverks í 6 mánuði. Það er okkar laun fyrir að standa í þessum rekstri.

H&H: Eintóm eigingirni?

B: Nei, það eru fleiri sem njóta. Endurtekningin, það er svo mikilvægt að halda svona út. Þrautseigjan er svo mikilvæg, að stoppa ekki. Nú erum við komin með 20 sýningar, og með vef þar sem við reynum að halda uppi upplýsingum í hvert skipti. Nú er þetta farið að spyrjast út og það eru að koma reglulega fyrirspurnir um erlenda listamenn sem vilja sýna. Þannig að þetta litla Gallerí Skilti er að spyrjast mjög hratt út. Við höfum verið underground, við erum ekki að blása þetta út á netmiðlunum heldur höfum við haldið þessu svoldið heima.

Talandi um hvaða hlutverki myndlist á að gegna, þá eru skilti er í rauninni æltuð sem vettvangur til skoðanaskipta eða kynningar. Tilgangs. Þessvegna er þetta frábærlega skemmtilegur vettvangur fyrir listamenn að glíma við.

Sara er að sýna ljósmynd af skilti á skiltinu, Fxxx Off, sem hún bjó til síðasta vor þegar íslendingar þustu á Austurvöll eftir Panamaskjölin. Og þetta verk talaði mjög vel inní samtímann í haust þegar ekki var búið að mynda stjórn.

H&H: Og á bara vel við núna líka, þegar búið er að mynda stjórn.

B: Já. Því núna líður manni eiginlega bara svona: