Menu & Search

BJARGEY ÓLAFSDÓTTIR

BJARGEY ÓLAFSDÓTTIR

Hillbilly kíkti í te til Bjargeyar í íbúð hennar slash vinnustofu. Hún kann vel við sig í Reykjavík en er mikil flökkukind, eða geit?

Bjargey er í alls konar klíkum útí heimi og þótt þetta geti verið þreytandi og kostnaðarsamt líf „þá er gott að mynda tengsl á milli landa og allskyns afurðir hafa komið útúr þessu.”

Hundurinn Darwin flaðrar upp á Hillbilly þegar hún gengur inn.

B: Passið ykkur að labba ekki í pissið! Þetta gerist alltaf þegar það kemur einhver nýr kemur í heimsókn. Hann verður svo spenntur.
H&H: Ökei!

Bjargey skammar Darwin smá og hann pissar aftur.

H&H: Áttu þessa íbúð?
B: Jájájá eða ég og lífeyrissjóðurinn eigum hana saman.

Vinnuborðið er núna hjarta íbúðarinnar. Bjargey færir það stundum til. Það er rúm inní stofu. Sumir hugsa betur láréttir.

Mér finnst bara gott að flatmaga stundum. Þegar ég er að hugsa og svoleiðis.

 

H&H: Afhverju fórstu út í myndlist?
B: Þetta var ákvörðun sem ég tók þegar ég var 8-9 ára, að verða listamaður. Sá það alltaf fyrir mér.

H&H: Hvernig var leiðin?
B: Ég fór í Menntaskólann við Hamrahlíð, ákvað að klára hann hratt, á þremur árum og fara síðan beint í myndlist. Síðan tók ég ár í að undirbúa möppuna til að sækja um í myndlist, sótti um í skólum á Íslandi og í Skotlandi. Ákvað á endanum að vera hér og fara í skiptinám og fór í skiptinám til Spánar og svo í einn og hálfan mánuð til Bretlands. Svo fór ég til Finnlands í tvö ár beint eftir útskriftina hér. Var í tveimur háskólum, einum sem heitir Aalto háskólinn sem er í gömlu múmínálfa postulínsverksmiðjunni, Arabia sem býr til múmínbollana. Það var geðveikur skóli.

Bjargey nær í te og einn múmínbolla á mann.

B: Finnar lentu semsagt í kreppu níutíu og eitthvað og þeir ákváðu að dæla peningum í menntakerfið og fjárfesta í framtíðinni. Vegna þess eru skólarnir svo ótrúlega góðir. Öll aðstaða til fyrirmyndar, ég hafði bara ekki séð annað eins. Fór í ljósmyndun í eitt ár með allar græjur og byrjaði að gera kvikmyndir þar.

H&H: Fórstu ekki í kvikmyndaskólann?
B: Nei. Ég fór seinna í kvikmyndanám í Amsterdam sem var eitt ár af því ég var byrjuð að gera kvikmyndir. Nám fyrir lengra komna. Sá skóli var fullur af þekkingu. Náði mér í diplómu. Gráður og svona dót skipta samt engu máli.

Ok.. Ég á Kashmir, Yasmin, Earl Grey, koffínlaust Earl Grey með citrus, Kashmir chai, Russian morning, Spearmint green tea…

Listinn hélt áfram. Hillbilly þefar af öllum teunum tvisvar en á erfitt með að velja. Allt annað en svart kaffi er of flókið fyrir Hillbilly.

B: Sem myndlistarmaður má ég vinna í allskonar miðla. Ég gat ekki verið bara í ljósmyndun. Ég þarf líka að teikna og gera vídeó. Það er þessi nálgun myndlistarinnar. Það má vera forvitin, það má prófa og leita.

Ég fór út að borða með klassísku tónlistarfólki um daginn. Þau eru svo öguð. Svoldið inn í rammanum og gefa sér ekki leyfi til að gera tilraunir. Það er nú að breytast í náminu sem betur fer.

 

H&H: Þar sem þú fórst í nám í mismunandi löndum, finnst þér munur á aðferðum, stemningu..?
B: Spánverjarnir voru mjög hefðbundnir, að mála og þess háttar. Að blanda olíuliti – sem var mjög gott að læra. Það var reyndar góður skóli að vera á Spáni, sjá allar þessar fallegu byggingar og Prato safnið, Reina Sofía, Tissenbornmitsa..sa.

(Hillbilly náði ekki alveg þessu síðasta).

Ég fór til Madrid því mig langaði að læra spænsku, mig langaði að græða tungumál og ég græddi tungumál. Ég kann líka sænsku, því ég fór sem skiptinemi frá Finnlandi til Svíþjóðar og ég lærði sænsku á svona mánuði. Danski grunnurinn kom að góðum notum.

Det er godt at bruge dansk som vi har lærte, børnene 🙂

H&H: Svo þú hefur alltaf verið svoldið á faralds fæti?
B: Já, þegar ég var að byrja lifði ég á því að fara í resedensíur þar sem ég fékk laun. Þar fékk ég rými og tíma til að gera myndlist.

Var alltaf búin að sækja um næstu resedensíu, vissi alltaf hvert ég færi eftir ár.

En það getur verið þreytandi að vera alltaf á flakki, ég gerði þetta í langan tíma – að fara úr einum stað í annan og svo hugsaði ég: Ég verð að eiga heimili, eitthvað athvarf, samastað og ákvað að Reykjavík yrði mitt heimili. Mér finnst íslensk náttúra svo frábær… Ógeðslega klisjukennt! Ég dýrka sundlaugarnar og að fara út úr bænum. Og líka fjölskyldan og svona.

En klisjan. Það er hitt elementið – ég þarf að vera úti á landi nokkra mánuði á ári. Ég hef verið mikið í íslenskum vinnustofum, t.d. á Siglufirði, Seyðisfirði, Ísafirði…

En á Íslandi fylgja vinnustofudvöl engin laun. Það var stundum ókeypis að vera á vinnustofum en ekki lengur.

H&H: Vinnurðu við eitthvað annað en myndlist?
B: Ég er með leiðsöguréttindi og hef stundum gripið í það meðfram. Síðan náði ég mér í landvarðarréttindi í vor og fattaði að það væri kannski bara málið. Þá get ég sinnt náttúrubarninu og fengið borgað fyrir það. Mun vera landvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Þá er ég að passa íslenska náttúru sem er æðislegt starf.

Verð undir jökli…

H&H: Hvernig er sköpunarferlið? T.d. í kvikmyndagerðinni?

B: Ég er yfirleitt með nokkur járn í eldinum. Ég hef gert 4 stuttmyndir og oftast skrifa ég handrit og vinn þær eins og hefðbundnar kvikmyndir eru unnar: Geri leikmynd og það eru nokkrir tökudagar. Núna er ég að vinna að tveimur tilraunakenndum stuttmyndum þar sem ég fylgi innsæinu og sé hvað gerist. Ég er búin að skrifa kvikmyndahandrit sem ég er að endurskoða núna. En svona verkefni taka talsvert langan tíma í fjármögnuna.

Á milli er rosa gott að mála bara, taka ljósmyndir, gera hljóðverk, eitthvað sem ég get gert sjálf. Þarf bara skyr og rúgbrauð og það er ekkert brjálaður efniskostnaður.

H&H: Titlarðu þig sem leikstjóra eða handritshöfund, listamann?
B: Ég titla mig sem myndlistarmann, leikstjóra, handritshöfund og stundum framleiðanda. Stuttmyndir mínar hafa til að mynda verið sýndar á kvikmyndahátíðum og listasöfnum.

Ef ég er á listasafni þá er ég listamaður. Leikstjóri ef myndin er á kvikmyndahátíð. Mér finnst gaman að dansa á þessari línu.

 

H&H: Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
B: Þá vöknum við þegar við erum búin að sofa, yfirleitt eftir átta tíma. Þessir átta tíma komu með iðnbyltingunni. Fólk vaknaði oft um miðjar nætur áður fyrr, til að gefa dýrunum, elskast, biðja… Ég vakna oft á nóttunni. Vakna svo alveg um 9. Fyrst elda ég ofan í hundinn og mig. Síðan förum við oftast strax í labbitúr. Síðan fer ég að sinna því sem þarf að sinna. Sumt af því sem ég er að gera er bara svona stúss; hringja í klipparann og biðja hann um að senda fæla til tónskáldsins, eitthvað svona dót. Líka að sækja um styrki, sem maður nennir sjaldnast að sinna fyrr en það er komið deadline. Núna er ég búin að vera að teikna og mála mikið. Dett inn í eitthvað zone. Týni mér í flæði og tímaleysi. Er einbeitt og líður mjög vel. Og hádegismatur, kannski ommeletta. Síðan held ég áfram, fæ mér þrjú-kaffi. En það er nauðsynlegt að hitta eitthvað fólk, stundum kemur einhver með okkur í göngutúrinn og ég hitti kannski kollegana á kaffihúsi síðdegis eða fer á einhvern listviðburð um kvöldið.

H&H: Hvað myndirðu bjóða uppá í kvöldmat? 
B: Kúskús lambakjötsrétt með döðlum og gráfíkjum, kúmeni. Austurlenskan og spennandi.

H&H: Hvernig finnst þér listasenan í dag á Íslandi?
B: Ég held að eitthvað nýtt muni fæðast út frá Marshall húsinu. (Marshall húsið var nýopnað þegar viðtalið átti sér stað). Mér finnst fólk svo frjótt. Allar senurnar tengjast einhvernveginn, fólk hittist með ólíkan bakgrunn og ólíka hæfileika og það er jafnvel að vinna saman í ólíka miðla. Það er svo mikil stemning fyrir því hér. Hægt að kýla á hlutina á íslandi, án þess kannski að vera með mikið fjármagn.

H&H: Hvað hefur myndlistin þín kennt þér? Eða þú lært af myndlistinni þinni?
B: Mannlegt eðli.

H&H: Ertu ánægð með ákvörðun þína að eyða ævinni sem myndlistarmaður?
B: Já mér finnst það frábær ákvörðun, þetta er skemmtilegur lífstíll, það er svo gaman að lifa og að rannsaka alls kyns.

Það hefur gert mér kleift að ferðast um heiminn, en ekki sem ferðamaður. Ég kann eiginlega ekkert að vera túristi, ég vil alltaf vera inni í samfélaginu. Að vera listamaður gerir það mögulegt.