Menu & Search

BLÁI VASINN

BLÁI VASINN

 

Guðlaug Mía Eyþórsdóttir (f.1988) lauk B.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2012. Hún var ein af stofnendum sýningarrýmisins Kunstschlager (2012-15) og útgáfunnar Gamli Sfinxinn. Hún nemur nú í Gent í Belgíu þaðan sem hún lýkur mastersgráðu í myndlist vorið 2018. Nýverið tók Guðlaug Mía þátt í stofnun sýningarrýmisins ABC Klubhuis í Antwerpen, Belgíu.

Oft kallað hjarta Evrópu.

Kristín Karólína Helgadóttir (f.1988) lauk B.A. prófi í listfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2014. Hún var meðlimur sýningarrýmisins Kunstschlager (2013-15) og einn af stofnendum útgáfunnar Gamli Sfinxinn. Kristín leggur stund á myndlist í Belgíu þar sem hún nú býr.

H&H: Fyrst, spurningin sem er á allra vörum: Er blái Vasinn eitthvað skyldur Grænu Könnunni?

Kristín: Þú meinar Bláa kannan? eða Græni hatturinn.

H&H: Æ, já. Dem.

Kristín: Jú, þar hittuð þið naglann á höfuðið óneitanlega, þau eru áhrifavaldar og hið Heilaga gral. Einhvers konar samsoðningur, skilgetið afkvæmi af þessari þrennu… heilög þrenning.

Kristín: Nafnið kemur kemur úr stífum heilabrotum dagana langa. Okkur langaði að vísa til myndlistar-skrifa og einhvers konar varðveislu en ekki að það væri of augljóst, listaskrif.is eða eitthvað á þá leið. Vasi á sér langa listasögu sem ílát gersema… svo sveipar blái liturinn þessu smá dulúð.

Þetta er nefnilega enginn venjulegur gagnagrunnur þetta er vasi án rúms… sjáið til ekki ósvipaður Aladdín lampanum.

GM: Já, þetta tók svolítið langan tíma já, eins gott að hinar tillögurnar urðu ekki ofan á eins og Askur myndlistar til dæmis, ég var reyndar svo hrifin af því að ég held að allt efnið sé ennþá undir því nafni inn á tölvupóstnum mínum en sem betur fer kom Blái vasinn skyndilega til okkar og kom í veg fyrir það allt saman. Svo nú hljómar þetta afar glæsilega og fólk sér hann strax fyrir sér.

Svo hafa Bláir vasar verið vinsælir í gegnum listasöguna, þá má finna hér og þar. Reyndar svo sterkt stef að einn góður myndlistarmaður sendi okkur myndir af öllum bláum vösum sem hann hafði leirað, teiknað og málað, þónokkuð efni, fyrir misskilning.

H&H: Hvernig virkar Blái vasinn?

GM: Á síðunni er hægt að skoða allskonar gögn og nálgast þau eftir því hvað manni hentar best; með því að leita að ákveðnum listamanni eða með því að skoða sérstakan flokk. Ef lesandi skoðar t.d. flokkinn blaðaviðtöl, er þannig hægt að fara yfir ákveðið tímabil eða bera nokkur saman.

Svo er við líka að skapa ný gögn, Vasaviðtölin eru viðtöl sem við efnum til eða tökum sjálfar og í Innanávasanum er hægt að skoða splunkuný skrif eða gögn sem hvergi hafa birst áður – sem okkur hafa borist, við grafið upp eða beðið um.

Lesandi má búast við allskonar uppgötvunum.

Það er áhugavert að sjá hvernig sömu vangaveltur koma fram hjá ólíkustu myndlistarmönnum þvert á tíma. Ýmis stef sem listamenn virðast sífellt vera að fást við á ólíkan máta.

Lesendur munu líklega enduruppgötva einhverja listamenn eða sjá aðra í allt öðru ljósi. Nokkur gögn sýna viðföng og verk ákveðinna listamanna sem hafa síðar beint sköpun sinni á aðrar brautir. Einn myndlistarmann sá ég í algjörlega nýju ljósi eftir að hafa lesið 30 ára viðtal þar sem hann er að fást við andstæðu þess sem hann fæst við í dag, mjög merkilegt. En ég segi ekki hver það er, svo lesendur geti reynt að ráða þessa gátu.

H&H: Hvernig er týpískur vinnudagur á skrifstofunni?

GM: Týpískum vinnudegi er best líst sem 10 klukkustunda samfellu, en það er nú farið að breytast. Það var svona sumarvinnuskipulag, en núna er haustið komið og við þurfum að stokka upp í dagskránni.

K: Já þá er maður orðin vel soðinn með sorta í augum – en þá setur Gulla Björgvin Halldórs á fóninn þá verður maður allur hressari. Gulla vinnur meira á kvöldin og ég á morgnana svo hittumst við að miðri leið, þá er gott að hafa nóg af hnetum, og bakkelsi í neyð. Í sumar vorum við mikið úti á svölum… en nú er farið að hausta og ætli hinn týpíski vinnudagur eigi sér ekki stað í lestinni á milli Antwerpen og Gent… nota dauðu stundirnar meðan flatlendið líður hjá.

Drauma vinnudagur væri að komast í skókassa listamanna, þar væri margt að finna t.d. hjá Kjarval, kannski eins og í bókinni Út af spássíunni, hún er mikill innblástur.

GM: Já, það fer að líða að því að við skipuleggjum sér Íslandsferð til að gramsa í skókössum og geymslum.

H&H: Hvernig er að fylgjast með listasenunni á Íslandi úr fjarlægð?

K: Það er hollt og gott að fylgjast með úr fjarlægð, það getur jafnvel verið meiri nálægð í því á einhvern hátt, alla vega yfirsýn, en auðvitað missir maður af miklu, t.d. Werner Hertzog í Listaháskólanum í gær! En hann er varla íslenska senan. Blái vasinn gerir það að verkum að maður þarf líka að vera á tánum – spæjarast með kíkinn. En ef við erum að tala um íslenska senu þá er hún nú víðar, hún takmarkast ekki við Ísland held ég, hún er í Belgíu, Hollandi og Þýskalandi og víðar… það er ákveðin þáttur sem við höfum í huga þegar við förum í samtal við myndlistarmenn í svokölluðum „Vasaviðtölum“. Ná þessu búsetu brölti og fanga hnattvæðinguna í einum mola.

GM: Það er ágætt að fylgjast með úr fjarska, maður fer hægt og rólega að sjá samhengi, með því að bera saman það sem er hér úti við það sem er heima. Reyna sjá muninn og hvar hann liggur.

H&H: Hvernig líst ykkur á senuna?

K: Senan er fín held ég, hún virðist vera ansi fjölbreytt sem er gott. Alls konar skemmtilegt, t.d. samsýningarnar og uppákomunar í Harbinger, gjörningakvöld í Mengi.

GM: Hmm, mér finnst hún oft einhvernveginn söm við sig, já eða mér hefur oft þótt það vera sami hópurinn sem sýnir og fær athyglina. En þetta er að breytast loksins, núna þegar nýjir safnstjórar eru komir í öll hús, svo það er komin hreyfing og aðrar kynslóðir og fólk að fá sess og sýningar, gaman að fylgjast með því öllu saman.

Annars er listasenan, sjálft fólkið mjög skemmtilegt. Þetta er svo lítil sena, auðvelt að fá fólk með sér í hitt og þetta. Það er það besta við myndlistina á Íslandi, þykir mér, hvað það er auðvelt að koma hlutum í framkvæmd og fólk til í allt, sem þýðir að aldur og myndlistarnálgun skarast og úr verða áhugaverðir hlutir.

K: Já listahátíðir skjóta upp kollinum víða út um landi.. landsbyggðin að koma sterk inn. Reykjavík er á brothættu skeiði held ég… það er lúmskur bræðslu fnykur yfir henni.

H&H: Af ykkar reynslu af að reka gallerí í bænum og sem listakonur, hvernig finnst ykkur stemningin vera í listasenunni á Íslandi?

Guðlaug Mía: Mér finnst stemmningin svolítið einsleit. Því mér finnst vanta ákveðna vídd í heildina, væri gaman að fleiri myndu skapa sér eigið sýningarsamhengi til að fá meiri breidd og ólíkar áherslur. Fjölbreyttasta dagskráin finnst mér vera í Harbinger, oft spennandi eða óvænt, þannig vil ég hafa það! Svo eru núna komin þónokkur gallerí í borgina og Marshallhúsið svaka glæsilegt. Þetta er allt svo töff eitthvað. Mér finnst samt litapallettan orðin keimlík, bæði eru rýmin flest í grátónaskala og það einhvernveginn búið að smitast í verkin. En kannski hitti það bara þannig á í síðustu heimsókn, hmm.

Það er nú samt alltaf varúðarmerki, þegar grátónaskalinn er farinn að reyna ná yfirhöndinni, þá þarf að hugsa sinn gang. Passa að 2007 litirnir læðist ekki aftan að okkur.

K: Já, Marshallhúsið voða flott og mikið stökk, gömlu bæjarrotturnar komnar á smá stall,… einhvers konar listamiðstöð í sparigalla, mætti líkja við þegar gömlum verslunum er komið fyrir í verslunarmiðstöð. En húsið er fallegt og starfsemin gefur Grandanum mikið líf.

H&H: Er mikilvægt að halda svona arkíf, gagnagrunn? 

K: Humm.. það er eitt að halda utan um svona  (t.d. eins og listasöfn gera að einhverju leyti og timarit.is) og annað að koma því svo aftur út í dagsljósið… það var okkar pæling: að vekja athygli á því sem listamennirnir sjálfir hafa haft að segja um sína sköpun/verk og hitt og þetta um tilveruna. Það hafa verið tekin alls kyns viðtöl í gegnum tíðina t.d. goðsagnakend viðtöl í tímaritinu Tening – komst í þau blöð í Bókabúð Braga fyrir nokkrum árum, kannski að hugmyndin að hafi kveiknað þar, mér þótti þessi samtöl þar sem voru stundum 3-5 að tala saman, á einhverju öðru plani en nú….en mér finnst t.d mikilvægt að skoða það sem Magnús Pálsson hefur haft að segja síðustu áratugi, stöðugt að opna myndlistina, og opna huga… svo eru líka þrusu góð viðtöl í gömlu góðu Vikunni svo eitthvað sé nefnt.

Svo er ýmislegt „nýtt“ efni, eða frá þessari öld sem birst hefur einungis á netinu, það ber að halda utanum annars getur það týnst í hafsjó netsins … því mér grunar að ýmislegt fari fram hjá, verði eftir og týnist, þó netið sé mjög flæðandi staður og góður vettvangur, en getur svo auðveldlega horfið í gleymskunar dá.

GM: Hvar á ég að byrja að tala um þetta… úff!!

Grunnatriðið er að það vantar svo mikið upp á fræðslu um íslenska myndlist og myndlistarmenn, allsstaðar í samfélaginu. Það er aðalvandinn og Blái vasinn er okkar leið til að sporna við þessu þekkingarleysi.

En af hverju stafar þekkingarleysið? Vegna því að upplýsingar eru tæplega til staðar. Heimildir og prentað efni um íslenska myndlistarmenn er af gífurlega skornum skammti, varla til. Vanti þig heildarsamhengi þarftu að ná þér í 50 kílóa listasögu á bókasafnið í 5 bindum. Mjög ólíklegt er að þú þekkir einhvern sem átti pening til að kaupa sér flykkið. Langi þig að lesa sérstaklega um einhvern kemstu í mikil vandræði því líklega hefur aldrei verið gefið neitt út um hann/hana. Og sértu svo afar heppinn að komast í bók þar sem fjallað er um viðkomandi þá á líklega einhvern annar orðið.

Frekar vonlaust, og þreytandi, svona til lengdar.

En svo er þetta á sama tíma svo algerlega magnað því Ísland er lítið land með afar stutta myndlistarsögu, frá því myndlist varð að sérgrein eru rétt yfir 100 ár, og sökum fámennis, ætti heimildasöfnun að vera lítið mál, í rauninni á að vera hægt að búa til nánast tæmandi grunn. Ég held að út af því höfum við ákveðið að byrja. Ekki af því að við höldum að okkur endilega takist það, heldur af því að á vissan hátt er það möguleiki.

H&H: Hefur sá Blái verið lengi i bígerð?

K: Sá Blái fæddist í jólafríinu en haldin var nafnaveisla nú í sumar. Okkur langaði báðum mikið til að gera eitthvað, skapa okkur vinnu sem tengist menntun okkar og áhugasviði, en það er nú ekki hlaupið að því og þá þarf maður að leggja hausa í bleyti og skima yfir og rýna í myndlistarumhverfið. Einhvern tímann í svefnrofa sá ég fyrir mér svona bók með alls kyns skrifum og skissu myndlistarmanna. En svo kom Gulla kom með hugmynd af vefsíðu hlutirnir fóru að vinda upp á sig og hitti í mark hjá Nýsköpunarsjóði! Kannski kemur bók seinna í með vel völdum skrifum og spakmælum.

GM:  Þessi vefsíða kom einmitt til mín þegar ég var að sofna!

K: Ég kom svo hlaupandi frá Berlín yfir til Belgíu… dauðs lifandi fegin að vera laus þaðan. Hér í Belgíu getur maður andað aðeins léttar og fólk tekur sig ekki eins hátíðlega. Hér er enginn að skamma mann, tja… allavega ekki oft á dag.

H&H: Er mikil vinna fólgin í þessu?

GM: Gífurlega mikil vinna eins og málin standa núna. Við fengum ekki marga af þeim styrkjum sem við höfðum sótt um, svo að öll vinna var í höndum okkar tveggja. Við stefnum á að ráða forritara í lið með okkur svo að gagnaskráning verði skilvirkari og við getum einbeitt okkur alfarið að söfnun gagna. Ég gat það t.d. ekkert í sumar því ég var upptekin við að forrita síðuna.

K: Já, mikil vinna liggur að baki þeim Bláa, þarf að hlúa vel að. Annars dettur hann bara á hliðina í eilífa biðstöðu í frjálsu falli. En skemmtileg vinna … maður gleymir því meira að segja stundum sjálfur og spyr sig bíddu hvað er ég aftur að gera, afhverju? Er eitthvað í vit í þessu… en það er líka voða gott að gera eitthvað sem allir eiga eftir að njóta góðs af held ég…  hummm þú veist fara út úr egóinu sínu – er það ekki voða mikið inni núna.

GM: Hmm, já – mér finnst mjög gaman að vinna að þessu því mér finnst þetta allt svo dýrmætt. Við erum samt að reyna passa okkur, við þurfum að sinna ýmsu öðru og Blái vasinn getur auðveldlega tekið of mikinn sess. Við erum að vinna að því að fá fleiri með, sjáum þetta sem samvinnuverkefni, svona í grunninn.

H&H: Hvar eru mörkin? Getur fólk sent inn texta og viðtöl við listamenn og frá þeim sjálfu sem listafólki?

GM: Já, það er alveg frábært ef myndlistarmenn senda okkur texta frá sér eða taka viðtal við hvorn annan. Við mælum beinlínis til þess, svo að Blái vasinn stækki! Það er líka frábært viðtalsform að tveir myndlistarmenn eða fleiri rabbi saman, kemur margt í ljós um bæði spyril og viðfang! Á síðunni má lesa nokkur slík dæmi, þar eru t.d. eldri greinar upp úr Teningi og fleiri tímaritum þar sem þá barnungir myndlistarmenn spyrja hina gömlu spjörunum úr! Mjög skemmtilegt, nokkrir spyrlar rígmontnir af þessu enn í dag, enda sum viðtölin gífurlega löng og mikið í þau lagt.

K: Já, Blái vasinn er móttækilegur. En við erum bara tvær og höfum ekki við að sinna öllu  – vonandi að við getum fengið myndlistarmenn menn í lið með okkur til að halda áfram …  vonumst til að geta birt efni sem hefur ekki birst áður, nýtt og gamalt. Það er best. Við erum hins vegar með smá mörk sem felst í að skrifin þurfa að vera eftir myndlistamann, auðvitað eru mörkin þar oft eitthvað á reiki en við reynum að meta það eftir okkar sannfæringu…

Myndlistarmenn varpa oft svo skýru ljósi á það sem er að gerast hér á landi, spegill með aðra nálgun, litað, kúpt gler, með öðruvísi/skapandi sýn en t.d. fjölmiðlamenn, fræðingar og stjórnmálamenn.

H&H: Hafið þið fengið styrk fyrir verkefninu?

GM: Einn styrk en neitað um marga fleiri. Það fer vonandi að breytast.

K: Ófeigur og Helgi hafa veitt okkur andlegan styrk.

GM: Haha, Já allir á heimilunum okkar þurftu að leggjast á eitt svo hægt væri að opna Bláa vasann, Pommes, Salím, Kolur, Ófeigur og Helgi, í júlí flutti Perla engispretta inn til að leggja sitt af mörkum.

K: Móskító var ekki vinur okkar.

H&H: Á Blái Vasinn sér fyrirmynd?

K: Tja.. ekki beint. Kannski Bláa kannann, en hún brotnaði því enginn vildi sinna henni. Það er sorgleg saga.

 

GM: Það eru til nokkrir grunnar á netinu en þeir fjalla um sértæk efni, eins og ákveðinn miðil eða tímabil. Við vorum að leita að grunnum í upphafi til að fá hugmyndir en fundum fátt. Svo við skipulögðum vasann frá a-ö. Það komu nokkur aukaverkefni upp sem eru nokkuð flókin eins og flokkunarkerfið okkar sem samanstendur af margþættum upplýsingum um hvert gagn sem þarf að fylla út. Á tímabili var ég farin að lesa bókasafnsfræði, var að leita að innblæstri þar, hahaha… en á endanum var best að gera þetta út frá sjálfum sér og okkar sjónarmiðum.

H&H: Hvernig er samtalið milli myndlistarmanna, og á milli myndlistarmanns og áhorfanda öðruvísi í skrifuðu máli en í formi myndlistarverks?

K: Það er allt öðruvísi. Og við leitumst kannski ekkert endilega að því að fá myndlistarmenn til að skrifa texta um verk sín og greina þau í þaula. Miklu fremur leitumst við eftir að birta texta til að skyggnast inn í ferlið og hugsunina – fara í kringum það, lesa milli lína, kynnast hugmyndum, hugsunarhætti og úr hvaða vindátt innblásturinn komi. Það teljum við geta hjálpað til að opna fyrir tengingum á milli áhorfanda og myndlistarmanna – og ungra listamanna (þeir eiga það til að halda að þeir séu að finna upp hjólið, þeir ættu miklu frekar að endurnýja hjólið)

GM: Einmitt, okkur hefur einmitt verið bent á, hvernig íslenskir myndlistarmenn eiga það til að endurtaka ákveðin efni eldri kynslóða án þess að hafa hugmynd um. Það er í einhverjum tilfellum rétt, og er kannski helst skorti á heimildum að kenna.

Það getur verið gott að þekkja söguna og Blái vasinn hjálpar með því að rétta fram baksýnisspegilinn.

Kristín: Sumir halda að þeir þurfi að hafa lesið listasöguna spjaldana á milli til að leyfa sér að skilja/tengja/hrífast – en átta sig ekki á því að engin ein túlkun er sú rétta. Túlkun er alltaf persónuleg og þarf ekki að vera sú sama sem myndlistarmaðurinn sjálfur hugsar eða vill ná fram.

Ég held að markmiðið sé oftast (hjá myndlistamönnum) að vera hugvekjandi einn eða annan hátt hátt, sumir vilja stuða en markmiðið í góðu verki er ekki að stuða held ég, frekar að sýna eitthvað í nýju ljósi og samhengi, og það getur auðvitað verið óþægilegt og afhjúpandi á manns eigin þröngsýni eða þekkingarleysi… og allir hafa sjálfsagt allir lent í því, líka mikils metnir listamenn og menningarvitar.

En verkið stendur sjálft eins og er. Og er ekki háð texta eða rödd listamanns í sjálfum sér – en kannski að það verði móttækilegra þegar fólk getur lesið eða hlusta á sjálfan listamanninn blaðra og skrafa um allt milli himins og jarðar (sem getur nú líka skemmt verkið ahhaha en það er önnur saga).

Fólk á það til að vera hrætt við myndlist því það finnst það ekki botna neitt í einu, hrætt við ruglinginn, hrætt við hlutinn (objektíva ) og abstraktið í heiminum, þar sem myndlist snýst ekki um algild svör eða augljós skilaboð. Við eigum það til að vera of vísindaleg og lokuð í hugsun þegar kemur að því frjóa og ómeðvitaða… fólk á það líka til að hugsa um myndlist sem vöru með notagildi og enn aðrir sem trúarbrögð… en ég held maður lendi alltaf í klípu við slíkar skilgreiningar

GM: Það var lagið Kristín!

H&H: Hvernig litur framtíðin út? Sjáið þið fyrir ykkur að stækka verkefnið?

GM: Við erum með ákveðna hugmynd um hvernig við getum haldið áfram að stækka Bláa vasann sem vonandi verður að veruleika. Hún felst í styrkjum, forritara, samvinnu, og fólki sem gæti komið til okkar í starfsnám! Þó að við höfum byggt upp Bláa vasann og rammann sjáum við verkefnið ekki sem okkar einkamál. Til þess að komast á meira dýpi þurfum við að fá fleiri með okkur í lið.

K: Já, það væri gaman að geta stækkað og dafnað með myndlistinni. En maður er meðvitaður um líftíma á fyrirbærum sem búa í netheimum. En við viljum hressa upp á samræðu milli listamanna og búa því ákveðið skjól á síðunni. Svo er svo margt sem okkur langar að takast á við, t.d. efni frá Rúv og gamla einblöðunga frá SÚM, Suðurgötu 7 og fleira en það þarf að huga að birtingarrétti og öðru lagalegu. En það kemur vonandi með kalda vatninu!

H&H: Takk stelpur. Djöfulsins snillingaaaaar!