Menu & Search

BRYNDÍS SNÆBJÖRNS & MA

BRYNDÍS SNÆBJÖRNS & MA

B: Afhverju hafa sum dýr rétt á því að vera villt en sum ekki? Er alveg útí hött að kind geti verið villt?

Maður sér hagsmunasjónarmiðin auðvitað en það er í lagi að velta fyrir sér aðstæðum sem fólki finnst vera fjarstæðar, og jafnframt afhverju fólki finnst aðstæðurnar fjarstæðar.

Uppspretta þessarar umræðu var lyktin af verki Bryndísar, Feral Attraction: The Museum of Ghost Ruminants. Nánar tiltekið var uppsprettan lykt af ull sem hafði verið notuð í hluta verksins. Ferlið byrjaði árið 2009-10 þegar flokkur kinda var drepinn á fjallinu Tálkna, á milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Kindaflokkurinn hafði verið á fjallinu í áratugi og er talið að til að byrja með hafi nokkrar kindur farið eftir að bóndi þeirra hætti að sjá um þær. Kindaflokkurinn óx og dafnaði með árunum þrátt fyrir erfiðar aðstæður fyrir vestan.

En þær þurfti að losna við. Ýmsar aðferðir voru prufaðar til að aflífa kindurnar á fjallinu,  m.a. annars var víkingasveitin okkar allra send á þyrlum til að skjóta kindurnar úr lofti sem særði margar þeirra frekar en að drepa þær…

B: Þær voru þarna bara. Voru ekki að gera neinum neitt. Það komst ekkert annað að en að farga þeim.
H&H: Voru þær ekkert rannsakaðar, hvernig þeim tókst að lifa einar á Tálkna allan þennan tíma, og sáu um sig alveg sjálfar?

B: Nei, ekkert rannsakað.

Búklag þeirra hafði breyst. Þær höfðu, eftir því sem bændur sögðu, aðlagast náttúrunni –

Voru t.d. háfættari en gengur og gerist.

Við tókum viðtal við fjölda fólks; heimamenn sem komið höfðu að þessu máli og Ólaf Dýrmundsson yfirdýralækni í Reykjavík. Við sýndum þetta verk í Listsafni ASÍ í byrjun ársins 2016. Við vorum niðri en Hulda Rós var með verkið sitt Keep Frozen á efri hæðinni. Nú í sumar verður verkið sýnt aftur á Minjasafni Egils Ólafssonar á Hnjóti í Örlygshöfn. Þetta er einstakt safn með allskonar samasafni af munum er tengjast lífi og atburðum sem áttu sér stað fyrir Vestan. Það var Egill sjálfur og kona, Ragnheiður Magnúsdóttir, sem söfnuðu á sinni ævi.

H&H: Hvar er safnið?

B: Við Patreksfjörð, sömu megin og farið er út á Látrabjarg. Frá safninu á Hnjóti horfir maður á fjallið Tálkna, þar sem kindurnar voru. Við erum æðislega ánægð með að setja verkið upp inn í þetta samhengi, staðarins og safnsins.

Þannig að nú er ég að taka ullarhnoðrana upp úr pokunum aftur.

H&H: Hence, the lykt.

B: Ásgeir Sveinsson bóndi á Innri Múla gaf okkur þessa ull. Hann var einn þeirra sem fenginn var til að smala Tálknakindunum á sínum tíma. Hann þekkti til því hann hafði áður misst eina af sínum kindum í Tálknaflokkinn. En hann fór á fjallið og náði henni aftur en þá var hún… segir maður að kind sé ólétt?

H&H: Ég ætla að segja þunguð… eða lambfull?

B: Maður segir allavega fylfull um hesta. En allavega, kindin kom til baka ólétt, og fæddi afkomanda þessa Tálknakindastofns. Ásgeir lét okkur fá ull af kindahóp sem líktist litarhætti Tálknahópsins og við notum þetta í innsetninguna á verkinu sem líkan af nokkurskonar kindabúkum. Við fengum ullina óþrifna eins og hún er klippt af kindinni, lyktin er hluti af verkinu.

VERK Í VINNSLU Á LEIÐ TIL ALASKA. SKISSA, SNEIÐMYND AF ÍSBJARNATÖNN. VIÐ HÖFUM VERIÐ AÐ VINNA Í SAMTALI VIÐ VÍSINDAMANN SEM GERIR TILRAUNIR Á ÍSBJARNATÖNNUM. HANN GETUR SAGT NÁKVÆMLEGA HVAÐ ÍSBJÖRNINN ER GAMALL, EF ÞETTA ER BIRNA HVAÐ Á HÚN MARGA HÚNA, HVENÆR HÚN FÆDDI. ÞETTA ER ÍSBJÖRN SEM KOM TIL ISLANDS OG VAR NÁTTÚRULEGA DREPINN. EIN TÖNN ÚR BIRNU SEM KOM Í SKAGFJÖRÐINN. ÞAÐ ER TEKIN ÞUNN SNEIÐMYND OG VÍSINDAMAÐURINN LES Í ÞESSAR LÍNUR.SVIPAÐ OG VIÐ ÞEKKJUM ÞEGAR TRÉ ERU ALDURSGREIND. MYNDIN ER ÖLL UNNIN MEÐ ÞVÍ AÐ TAKA LJÓSMYNDIR ÚR SMÁSJÁ. EINS OG ER, ER HÚN EKKI RÉTT SETT SAMAN. HILLBILLY FINNST HÚN FALLEG SVONA. EN BRYNDÍSI LANGAR AÐ FÁ ALLAR LÍNUR TIL AÐ MÆTAST OG FÁ MYNDINA RÉTTA, EN ÞÓ HALDA PIXLUNUM OG ÁFERÐINNI. ÞAÐ VAR OFBOÐSLEGA ERFITT AÐ GERA ÞETTA, UM 20 MYNDIR SEM VIÐ TÓKUM Í GEGNUM SMÁSJÁ OG ÞAÐ SEM MAÐUR SÉR Í SMÁSJÁ ER EKKI NÁKVÆMLEGA ÞAÐ SAMA OG MYNDAVÉLIN TEKUR. BRYNDÍS ER SOLDIÐ FYRIR ÞETTA SURPISE ELEMENT, SKYNJAR HILLBILLY.

Bryndís hefur komið víða við og ljáð mörgum krafta sína. Hún og maðurinn hennar Mark Wilson vinna saman að myndistarverkefnum og oft í samvinnu við fræðimenn eins og líffræðinga, grasafræðinga, landfræðinga ásamt því að vinna með sérþekkingu almennings á ákveðnum sviðum.

 Bryndís bjó í Glasgow í Skotlandi í 16 ár og í Vatnahéruðunum í Englandi í önnur 16 ár eða þar til hún tók við prófessorstöðu og starfi fagstjóra MA í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2016.

B: Mér finnst gaman að vera komin hingað til baka og sjá hvað er orðin mikil umhverfismeðvitund. Þá er ég ekki tala um náttúrudýrkun. Ég meina í bænum, á götunni.

Meðvitun um að það eru aðrar verur sem deila umhverfinu með okkur mönnunum.

Þannig vakna spurningar um hvernig koma eigi fram við það eða þá sem eru í kringum okkur og væntingar vakna um veröld í mótun sem við getum öll verið hluti af.

Verk okkar Mark eru alltaf náttúru-og umhverfistengd og við höfum lengi unnið á þennan hátt. Ég hef trú á mikilvægi myndlistarinnar í þeirri umræðu. Nemendur LHÍ vinna talsvert mikið með umhverfismál og náttúruvernd í sínum verkum og það er ótrúlega áhugavert hversu mikil vitundarvaknig hefur orðið á síðustu árum.

BRYNDÍS SKOÐAR PLÖNTU SEM LIFANDI VERU, HVERNIG TEKUR MAÐUR PORTRAIT AF BLÓMI ÁN ÞESS AÐ TAKA MYND AF BLÓMI PLÖNTUNAR.

 

H&H: Já, ungt fólk er vissulega vel upplýst og meðvitað og með á nótunum. En þetta er allt að gerast meðfram tækniframförum og margur unglingshausinn er horfandi niður í símann og minna á umhverfið, eða hvað finnst þér?

B: Ég sé það ekki sem eitthvað ekki umhverfisvænt. Þetta er bara hluti af því sem er að ske. Tæknin er allstaðar. Þjóðflokkur á fjarlægu horni veraldar þarf í dag að nota tækni og tæki fyrir samskipti og til að vera virkur þátttakandi í veröldinni. Það þarf ekki að vera neitt slæmt samasem merki þar á milli.

H&H: Ég er reyndar alveg sammála því. Við sem þekktum heiminn án tækninnar, eða þegar tæknin var ekki svona stór partur af lífi okkar, þurfum ekki alltaf að vera að skilgreina heiminn út frá því hvernig við þekktum hann. Þótt við þekktum öðruvísi vinskap, samtöl og leiki. Þetta þarf ekki að vera verra, bara öðruvísi. Þetta er jú alltaf í einhverri þróun og alltof margir falla í þann drullupoll að finnast allt miklu betra í þeirra daga, og gleyma ekki að upplýsa aðra um það.

Hillbilly fór þá að röfla um markaðsetningu, heilaþvott, fólksþrælkun, rusl og mengun… En það er bara því Hillbilly er svo hrikalega næm og góðhjörtuð. Of, segja sumir.

B: Þetta er einmitt ástæðan fyrir að svo margir gefast upp.

Það þarf að leggja svo mikið á sig ef maður ætlaði virkilega að vera siðferðislega réttsýnn gagnvart því sem maður er að kaupa.

Maður þyrfti að nota allan sinn tíma í að finna út úr því; hvaðan er varan, hvernig varð hún til og úr hverju er hún?. Það er enginn að hjálpa þér við þetta. Það verða kannski allir bara að finna sín takmörk. En fyrsta skrefið er að við áttum okkur á því að maðurinn er bara lítill hluti af stórri heild. Það má alveg færa sig aðeins af stallinum og horfa á málin frá sjónarhornum annarra lífvera.

H&H: Það er víst ekkert sem heitir fullkomin sjálfbærni.

B: Ja, við erum nú dáldið mikið að stjórna þessum heimi og við erum náttúrulega alls ekki fullkomin. Svo það er engin furða að ekkert sé fullkomið.

H&H: Vel athugað.

           En hey, hvernig er að vera fagstjórinn í MA náminu og að vinna sem myndlistarmaður með því?

B: Mhm, mhm.

Ég fór frekar seint í myndlistarnám og þegar ég útskrifaðist úr mínu mastersnámi í Glascow School of Art þá var ég einstæð þriggja barna móðir.

Þannig að hjá mér hefur myndlistin og venjuleg vinna til tekna alltaf farið saman. Ég hafði reyndar útskrifast úr kennaraháskólanum löngu áður úr handavinnudeild, þannig að kennsla lá fyrir mér og svo finnst mér skemmtlegt að kenna. Að kenna er gefandi en maður verður að passa sig á að gefa listinni rými. Við vitum öll sem erum í kennslu að því fylgir mikið álag og mikil vinna.

Ég útskrifaðist með þennan stóra pakka og fékk starf í Glasgow School of Art rétt eftir MA útskrift. Þar kynntist ég ofboðslega góðum hóp, bæði af samkennurum og nemendum. Var bara á réttum stað á réttum tíma. Fyrsta svona alvöru sýningin mín var svo 1993, en allan þennan tíma hefur listin og kennslan verið samferða hjá mér.

Ég hef alltaf áhuga á að fara inní einhverskonar samstarf í myndlistinni, eins og ég hef verið í með manninum mínum, því mér finnst listin snúast svo mikið um dialog.

H&H: Já, ég get ímyndað mér að það sé gefandi og geti gefið innblástur að kenna, sérstaklega nemendum á þessu skólastigi. En eflaust líka tekið orku frá manns eigin sköpun. En er ekki mjög mikilvægt einmitt að fagstjórinn og kennari í Listaháskóla sé starfandi myndlistarmaður?

B: Í LHÍ er ákveðið hlutfall innan kennslusamningsins til þess að vinna að eigin verkum. Fyrir mér er það mjög mikilvægur grundvöllur til að geta miðlað í kennslunni.

Þar er snertipunktur milli kennara og nemanda  –  þ.e. skilningur á ferlinu sem leiðir af sér myndlist.

Hillbilly hefur smá reynslu af listaháskólum erlendis og þar voru kennararnir oft gegnum steiktir eftir að hafa verið í sama skóla og þeir nú kenndu í. Nemendur þeirra útskrifuðust með þann ákveðna stimpil. Margir háskólar hafa sinn stimpil, sem dæmi: Harward lögfræðingar er ekki það sama og Yale lögfræðingar.

Þegar Hillbilly var í BA í LHÍ höfðu flestir kennararnir farið erlendis í MA nám –  enda var þá ekkert MA nám hér. Þeir komu þá inní skólann til baka með áhrif og áherslur allstaðar frá, úr sínum skólum.

Er eitthvað sem gerir mann að LHÍ nemanda?

B: Það getur verið jákvætt í sjálfu sér að vera með sambönd og góða tengingu við aðra nemendur og kennara. En skóla-stimpill?

Í Glasgow var ég að kenna í mjög áhugaverðri deild sem hét Envionmental Art. Þetta var deild sem var búin til af fólki sem hafði verið í listmálun í skólanum. (Í þessum skóla var BA stigið deildaskipt; skúlptúr, málun, ljósmyndum o.s.frv. Masters stigið var ekki deildarskipt.) En það voru nokkrir sem voru í málaradeildinni sem voru ekki ánægðir með sína deild, fannst hún gamaldags og þeir fluttu sig yfir í aðra deild þar sem var nýr náungi, David Harding, kominn til að móta og þróa deildina með nemendum sínum. Kannski svipað og hvernig Nýlistadeildin í Myndlista- og Handíðaskólanum kom til, þó ég þekki ekki þá sögu nógu vel.

En Environmental Art, byggðist á tilvísun í víðasta skilning orðsins environment, umhverfi, snýst um hvert það umhverfi sem þú ert í. Grundavallaratriðið sem unnið var eftir í þessari deild var samhengið sem listaverkið var sett inn í. Dæmi um listamenn sem komu úr þessari deild eru Douglas Gordon, hann var einn af þeim sem var með frá byrjun, Christine Borland, Roderick Buchanan, Jacqueline Donachie, Ross Sinclair… Þau eru öll í stór nöfn í alþjóðlega listaheiminum í dag.

Þau tókust á við samhengið, að verkið sjálft er bara helmingurinn af því sem við lesum í það, hinn helmingurinn er umhverfið sem það er sett í.

Þessar hugmyndafræðilegu pælingar fengu þessa listnema til að nálgast myndlistina á annan hátt en venja var þá.

Í sambandi við stimpil þá mótast það kannski með tímanum, það var stimpill að vera í environmental deildinni í GSA, hún var alltaf í mótsögn við allar aðrar deildir. Þegar ég fór að kenna þarna sjálf þá tókum við oft inn þá nemendur sem málaradeildin eða aðrar deildir höfðu hafnað. Það var ekki að því að við höfðum ekki aðra umsækjendur…

Við sáum bara eitthvað áhugavert í þeim umsækjendum sem voru ekki að þróa sína list í gegnum miðilinn eingöngu

…voru að prófa eitthvað annað. Það komu nemendur til okkar og unnu með málverkið,en nálguðust það á allt annan hátt.

Ef það er hægt að skapa einhvern stimpil þar sem þú býrð til einhverskonar leið til þess að komast í samtal, þá er það flottur stimpill. Í samtölum skeður eitthvað og úr þeim verður til orka. En það koma hundrað spurningar uppí hausinn á mér þegar talað er um einhvern gæðastimpil frá ákveðnum skólum. Það er stöðnun – dauði. Það er ekki fyrir mig.

H&H: Nei, stimpill er sjaldan til gmögulegt er.a eins frjáls og hægóðs fólk virðist oft sækjast eftir stimplum eða stöðutákni. Mín skoðun er að listaháskóli eigi að vera eins frjáls og mögulegt er.

Stimplarnir virðast oft þróast af sjálfu sér. En kannski, þegar nýútskrifaðir BA listamenn skoða næsta skref, getur verið MA nám, þá er gott að horfa til hvaða áherslur skólar hafa. 

B: Við leggjum mikla áherslu á einstaklinginn í náminu og reynum að sníða námið, leiðsögn og
ákveðin valnámskeið eftir þörfum nemenda. Við leggjum líka áherslu á ferlið á
rannsóknarþáttinn sem liggur að baki verkinu þannig að nemendur vinna undir okkar umsjá
að því að skoða þær aðferðir sem þeir beita við þróun og mótun verka sinna. Það er ekki
endilega best að fara beint úr BA í MA nám – stundum er gott að taka eitt ár á milli og ná
áttum. En eins og ég sagði það gildir alls ekki það sama fyrir alla þannig að við skoðum hvern
og einn umsækjanda út frá þeirra forsendum.

Ofboðslega margir fara í mastersnám. Það er kannski ekki það rétta fyrir þig að fara í mastersnám til þess að verða færari í taka ljósmyndir eða einblína á færni í ákveðnum miðli þó það geti fylgt með. Þú ferð í mastersnám því þú ert að finna samspil á milli þess sem þú ert að skapa og þess sem þú vilt segja.

Þú ert að fínpússa þína rödd samhliða dýpri þekkingar á myndmáli og listum til að þú getir gefið þessari rödd mátt í því samhengi sem þú velur.

Mastersnám er líka byrjunin á að átta sig á hvar og hvernig þú setur listina þína útí heiminn.

ANDREAS BRUNNER AÐ LABBA MEÐ LABBTOP

Segjum sem svo að eitthvert gallerí kæmi, t.d. i8 eða þannig, eða á ég kannski að nefna neitt sérstakt í þessu viðtali?

H&H: Ég klippi þetta bara út 😉

B: Ef gallerí kæmi og segði við okkar nemanda að það vilji fá hann/hana á samning. Þessi sami nemandi þarf að vera meðvitaður um hvað það þýðir, því það er ekkert endilega eina og besta leiðin, og ekki rétta leiðin fyrir alla listamenn.

H&H: Talandi um stimpla, það er stimpill að vera i8 listamaður.

B: Það er kannski ekki gott að fara inní það snemma, rétt eftir útskrift eða þegar nemandi er að útskrifast. Auðvitað getað sumir haldið áfram að þróast og sumir geta nýtt sér það. En ég man eftir úti í Glasgow þá voru nokkrir af mínum kollegum sem að voru signed up af t.d Lisson í London en svo fór Lisson illa með þá. Þeir höfðu skrifað undir samning og voru sýndir í þessum galleríum en svo voru þeir lagðir á hilluna, fengu ekki sýningar og gátu ekki sýnt ákveðin verk annarsstaðar. Þetta er kannski eitthvað breytt, ég þekki ekki þennan heim sérlega vel í dag.

H&H: Var verið að stjórna? Mega listamenn á skrá hjá Lisson ekki sýna annarsstaðar?

B: Það eru allskonar samningar gerðir, en þetta getur verið mikil stjórnun.

Að fara inn í þennan markaðshluta listarinnar er bara einn möguleiki og það er ekki okkar ultimate goal með mastersnámi…

að sjá okkar nemendur enda uppi hjá einhverjum af þessum galleríium. Við viljum alveg eins sjá þau fara inná allskonar aðrar þekktar og óþekktar leiðir.

H&H: Helst fá listamenn inná sem flest svið? En ein klassísk Hús&Hillbilly spurnig fyrir þig, hver er munurinn á skapandi einstaklingum og listmönnum?

B: Meinaru munurinn á myndlist og craft?

H&H: Já, spurningin er oft túlkuð þannig. Kannski ætti ég að íhuga að sleppa þessari spurningu.

B: Þetta snýst mikið um að vera með það á hreinu hvað þú ert að reyna að segja, hver er tilgangurinn? Er tilgangurinn að vera í sköpunarferlinu og vera ekkert endilega að hugsa um áhrif endapunktsins. Það eru miklir hæfileikar sem sjá má í allskonar handverki, við þekkjum það í gegnum sögu kvenna og saumaskaps, hvernig handverkið var einskins metið fyrir nokkrum árum. Maður gengst alls ekki við því enda eru tímar að mörgu leiti breyttir í dag. Ég ber mikla virðingu fyrir handverkinu en það eitt og sér er ekki list.

Til að vera list þarf verkið að brjóta upp það hefðbundna, það sem við væntum, það þarf að raska ákveðnu jafnvægi.

Listin stendur til hliðar við eða fyrir utan handverkið, hún tengir okkur inní heima sem opna ný skot eða nýja sýn þannig að við sjáum hlutina öðruvísi, einhvernvegin. Það getur verið pínulítið misræmi milli hluta sem eru til staðar inn í verki sjálfu hvort sem það er, málverk, ljósmynd, skúlptúr, innsetning eða gjörningur. Verkið kemur á samspili á milli listmannnins  og áhorfandans  – samspil á milli privat og public.

H&H: En er ekki mikilvægt að sem flestir sjái listaverk. Það eru svo fáir sem sjá verk sem á að hrista uppí þeim, oft sama fólkið sem fer á sýningar og fylgist með. Sumir sem fara inná listasöfn hafa engan bakgrunn í myndlist og ekkert samhengi til að setja hana í. Þar gæti alveg eins verið stór ljósmynd af blóðugu barni eða hengd dauð kanína inná safninu og það myndi sjokkera marga, hrista uppí og vekja til umhugsunar… Þó það sé ekkert spes list.

B: Það þarf að finna leiðir til þess að fá fólk til að vera ekki hrætt við sýningar, að nálgast myndlist. Mín reynsla er sú ef fólk gerir það þá og opnar aðeins hug sinn þá getur það alveg lesið verkið. Myndlistarfólk hefur unnið með og þróað alla mögulega þætti sem lúta að myndmálinu og því væntanlega í sýningum eins og þú nefnir dæmi um að setja fram ákveðna mynd. En almennur borgari getur komið og skynjað hvar verkið er sett upp, hvernig það er sett upp, t.d á hvolfi og lesið það og túlkað til þess að búa til ákveðna mynd sem þeir geta síðan notað til þess að fá ánægju og merkingu útúr því sem þeir eru að horfa á.

Það þarf bara að brjóta niður fyrirfram fasta ramma sem er búið að negla myndlistina inní, þennan venjulega fagurfræðilega ramma.

H&H: Já.

B: það er algengt að fólk sem er að byrja í myndlist vill tengja sig við málverkið, ætla að verða málarar. En svo opnast nýr heimur og það að vera málari er ekki lengur svo mikilvægt því aðrar leiðir opnast sem veita útrás fyrir það sem viðkomandi vildi skapa og segja. Það er enginn vafi um að málverkið er merkilegur miðill og sama má segja um öll önnur hefðbundin form innan myndlistarinnar, en þau geta að mínu mati líka verið fjötur um fót og þegar unnið er með þau þarf að takast á við tengingar inní söguna sem miðlinum fylgir.

JULIANE FORONDA OG HLUTI AF HENNAR VERKUM.

H&H: Hvað finnst þér um herferð SÍM Borgum listamönnum laun, er það ekki bara einhver bóla?

B: Mér finnst það mjög mikilvægt. Listamenn sem hugmyndasmiðir, listamenn sem skapa þekkingu, listamenn sem framkvæma ákveðna hluti, afhverju ætti það ekki að vera launað eins og allt annað.

Ég kom einu sinni til íslands til þess að sýna á út á landi. Þetta var stór sýning með mörgum íslenskum myndlistarmönnum. Það var ekki til peningur til að koma fólki né verkum þangað, hvorki frá Reykjavík né Skotlandi. Þetta var allt á herðum listamannanna, flytja verkin og setja þau upp. Sá sem var með listasafnið á þessum tíma hafði ákveðið að fá graffítílistamenn úr bænum til þess að spreyja á alla veggina og svo áttum við listamennirnir að hengja og setja upp verkin okkar svona inná milli. Þetta er allt gott og blessað, listræn ákvörðun stjórnandans. En það sem var áhugavert var að graffítílistamennirnir höfðu fengið borgað!

Inn á mörgum söfnum fá allir sem aðstoða eða vinna við safnið borgað.

En sjálfur er maður bara þarna launalaust því maður er víst bara að gera þetta fyrir sjálfa sig.

Við verðum að átta okkur á gildi listarinnar og tilgangi hennar í þjóðfélaginu. Hlutverk hennar innan samræðna og í umræðum. Það er oft erfitt að meta myndlist í verðmætum eins og við þekkjum þau.

H&H: Það er erfitt að mæla og verðsetja tíma. Myndistarmaður er alltaf í vinnunni, með hönd eða haus.

B: Ég ólst upp í suburbíu í nágrenni Reykjavíkur og kannski út frá þeim uppruna þá spyr ég mig oft hvort „ekki sé kominn tími á almennilegt frí?” Ég kann ekkert að fara í frí. Frí fyrir mér er þegar ég er að sýna erlendis, að heimsækja aðra menningu, tek nokkra daga í að fara á söfn og sjá hvað er að gerast í viðkomandi umhverfi og hitta aðra myndlistarmenn. En þetta frí sem mig dreymir stundum um er svona frí þar sem maður kúplar sig út úr öllu.

H&H: Frí er þegar ég gef mér tíma í að sitja og teikna. Lífið ætti soldið að vera meira þannig. Í staðinn fyrir að brenna sig út og detta svo í það í sólbaði og brenna á sér húðina í viku.

B: Það er samt náttúrulega bara æðislegt fyrir þá sem geta gert það, kúplað sig svona út. Það getur reyndar verið nauðsynlegt að kúpla sig út í kennslu, með nemendur frá mörgum þjóðernum með mismunandi bakgrunn og ýmis vandamál koma upp sem þarf styðja nemendur í. Það er því nauðsynlegt að geta skilið vandamálin eftir þegar komið er heim úr vinnunni. Ef þú ferð með allt heim til þín þá getur það haft neikvæð áhrif á eigið líf og starf. Eins og er get ég þó ekki kúplað mig það langt að ég geti legið á bekk í sólinni – en hver veit.

H&H: Framtíðin verður að leiða það í ljós. En kannski eru flestir sem fara í þannig frí í vinnu þar sem eru ljúkanleg verkefni.

B: Já kannski.. Kannski er maður bara í vinnu sem lýkur aldrei. Endalaust…

H&H: Vinnan einhvernveginn verður bara meiri og meiri.
En eru ekki listamannalaun smá svindl samt? Að einhverjir nokkrir fái laun…?

B: Nei, það er alltaf eitthvert mat sem á sér stað, eins og allsstaðar, og þá þarf að vera með það á hreinu hvað er verið að sækjast eftir, á hverju matið er byggt. Þegar verið er að veita listamannalaun eru nefndir skipaðar af hóp af fagfólki, úr mismunandi röðum listbrauta þar sem hver um sig vinnur eftir faglegum sjónarmiðum og reglum með umsóknirnar en í lokin þarf nefndin í heild að komast að samkomulagi um hverjum veita skal launin hverju sinni.

H&H: Gleymdi að spurja hvernig er að vinna með manninum þínum Mark Wilson, sem er í svipaðri stöðu og þú nema prófessor í MA Contemporary Fine Art í Institute of the Arts at University of Cumbria í Bretlandi en ekki Listaháskóla Íslands?

B: Já við höfum unnið saman síðan 2001 og jú það er svolítið öðruvísi en að vinna ein. Ferlið er þannig að ég byrja á einhverju, fæ hugmynd og skyssa hana upp og sama gildir um hann.. Og allt fer þetta inn í samstarfsferlið, þar sem leggja þarf fram hugmyndina, ræða það sem búið hefur verið til, til þess að það geti haldið áfram að þróast innan samstarfsins. Þetta er ekki alltaf auðvelt. Stundum hefur maður einhverja tilfinningu en er ekki nógu góður í að skýra það með orðum hvað maður er að meina. En maður verður að leita leiða til að koma hugmyndinni/athöfninni á framfæri að búa til samtal því það er forsendan fyrir samstarfinu og að vinnan/verkið geti  haldið áfram að þróast. En fyrir mér er myndlistin svo mikið tæki til þess að leggja sitt af mörkum í allskonar samfélagsmálefni og  þróun þeirra þannig að ég sé þessa samtalsvinnu sem hluti af því. Það sama gildir um að vera í kennslunni, þessi díalógur, samtölin sem maður á hvort sem það er innan skapandi ferlis eða fyrir utan

…maður hefur þróað með sér aðferð til að taka afstöðu á hlutlausan hátt.

Mark er prófessor í UoC í  Bretlandi en þar ertu ekki prófessor nema að þú sért rannsakandi og starfandi myndlistarmaður. Með stöðunni kemur ábyrgð á ýmsan hátt bæði hvað varðar stefnumótun, kennslutilhögun, kennslu og rannsóknir en það að hafa þennan titil er ákveðin viðurkenning á þínu starfi sem listarannsakandi.

H&H: Það er flott sýstem, til fyrirmyndar. En hvernig kom til að þú fórst út í myndist?

B: Ég var með þetta handavinnukennarapróf en vann ekki mikið við að kenna það. Þegar ég fór til Glasgow byrjaði ég í Embroidery and Woven Textile deildinni sem var innan hönnunarskólans. Ég var mikið að vefa og en ég var alltaf að reyna að vefa strúktúra beint uppúr vefstólnum. Flestir vefa svona niður eftir stólnum, búa til eitthvað frekar flatt stykki en ég var alltaf að reyna að vefa upp. Setti járn inní og svona. Það var alltaf verið að spyrja mig hvað þetta væri. Er þetta ljós? Lampi? mér fannst eins og mínar hugmyndir rúmuðust ekki innan samfélags sem var bundið einum miðli. Ég vissi ekkert hvað það sem ég var að búa til ‘átti að vera’. Ég naut þess að takast á við hindranir og búa til hluti sem höfðu óþekkt hlutverk. Ég sýndi svo þessi verk mjög góðum kennara og myndlistarkonu í Glasgow School of Art sem heitir Sam Ainsley og hún sannfærði mig um að ég ætti heima í myndlistarnám og ég bara fann mig strax þar.

H&H: Jah, þú reyndir allavega. Við hitt.

B: Byrjaði í BA í textíl en flutti mig svo í skúlptúr og ljósmyndum og útskirfaðist þannig með BA frá GSA. Tók svo frí í eitt ár og fór svo í Masterinn í GSA en Sam Ainsley veitti prógramminu forstöðu þá. 

H&H: Voruði að læra saman?

B: Ég og Mark? Nei, ég kynntist honum ekki fyrr en ég var útskrifuð úr MA náminu og byrjuð að kenna.

MEÐ MAGDALENU IANCHIS

H&H: En segðu mér eitt, er mikilvægt að taka mastersgráðu til að verða prófessjónal myndlistarmaður?

B: Hvað meinaru með prófessjónal myndlistarmaður?

H&H: Góð spurning. Kannski vinnandi myndlistarmaður, sem vinnur ekki aðra vinnu.

B: Við vitum alveg að það eru margir sem vinna myndlist og hafa ekki farið í gegnum mastersnám. Það fer bara eftir því hvað þú ætlar þér með myndlistinni. Hversvegna viltu fara í masternám? Er það af því þú vilt halda áfram í akademíunni, ætlar þú síðan í doktorsnám, ætlar þú að fara að kenna eða er það til þess að komast inní ákveðið samfélag þar sem þú ert í gagnrýnni umræðu um það sem þú ert að skapa og um leið að fínpússa betur þína eigin myndlist og rödd. Það er þetta samspil sem ég kom inná áðan.

Ég held þú getir farið í mastersnám í myndlist og þú gætir endað á því að gera eitthvað allt annað þegar upp er staðið. Það þýðir ekki að námið nýtist þér ekki vel. Við erum að hjálpa fólki að gera myndlist sem á betur við það og uppgötva það sem því langar að gera, að setja myndlistina í rétt samhengi í rétt samfélag. Það eru svo margar leiðir til þess að gera það. Þessi sena hér er ekki einu staðurinn, bara ein af mörgum. Námið í LHÍ er alþjóðlegt. Hingað koma margir erlendir nemendur víðsvegar að. Það er svo áhugavert fyrir íslenska nemendur sem eru í námi hér að fá kynnast fjölbreyttum menningarheimum hér heima.

H&H: Hversu margir nemendur eru á MA stigi?

B: Á þessu skólaári sem er að ljúka 2017-2018 þá eru á fyrsta árinu 9 nemendur , en á öðru ári 7. Af þessum 7 eru tveir íslenskir og 5 erlendir frá Danmörku, Rúmeníu/Austurríki, Kanada, Sviss og Frakklandi. Á fyrsta ári eru 4 íslenskir og 5 erlendir frá Bandaríkjunum, Englandi, Hong Kong, Finlandi & Kanada. 

H&H: Fyrir almennan sveitalubba eins og mig kom MA námið í LHÍ eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hve lengi var það á teikniborðinu? Hvenær var þetta ákveðið? Var eftirspurn fyrir MA námi á íslandi?

B: Masternám í myndlist hefur tíðkast í mörg, mörg ár. Fyrst voru þetta samfelld 5 ár og þú útskrifaðist sem Masternemandi en eftir Bologna samkomulagið var þetta slitið í sundur og 3 ár leiddu til BA og 2 ár í viðbót til MA eða MFA gráðu. Það má spurja sig afhverju ætti Ísland að vera eitthvað öðruvísi en önnur lönd í Evrópu? Afhverju ætti Ísland ekki að hafa mastersnám?

Ég held að þetta hafi verið á prjónunum nokkuð lengi, en ég var ekki hluti af þeirri vinnu. Hulda Stefánsdóttir var sú sem byrjaði með þetta nám og hún útskrifaði þrjá árganga. Hún getur svarað því betur afhverju þessi ákvörðun var tekin, en frá mínu sjónarhorni þá var þetta algjörlega rétt ákvörðun.

Við höfum ákveðna skyldu gagnvart okkar flotta myndlistarfólki að geta gefið þeim tækifæri á að fara áfram inn í þennan hluta námsferilsins.

Tímarnir hafa breyst ansi mikið og hugmyndin um það að við þurfum að fara í myndlistarnám í master erlendis því það gefi manni svo mikið að það sé ofboðslega mikilvægur þáttur, ég er ekki sammála því. Við getum alveg gert þetta hérna á Íslandi.

Og sérstaklega núna þegar samgöngur hafa breyst í heiminum og hvernig landið er komið á kortið og hingað sækja mjög áhugaverðir myndlistarnemar sem langar að koma hingað í nám.

Það að fá að vera í sínu eigin samfélagi að byggja upp sitt myndlistasamfélag samhliða myndlistarnáminu, í samtali við samnemendur frá 5 – 7 mismunandi þjóðernum er bara dáldið áhugavert í veröldinni í dag.

Myndlistin á það til að vera einlit og elta uppi allskonar tískur eins og gengur og gerist það er því áskorun og uppbyggjandi í þessum hluta náms að vinna innan ólíkra radda og sjónarmiða. Hafandi unnið með námið nú í 2 ár þá er samt ótrúlegt hvað við erum alltaf samróma úr hversu ólíkum áttum við komum þegar kemur að því sem virkilega skiptir máli – máttur myndlistarverksins.

Þú getur farið í eitthvað annað land í masternám, sem auðvitað getur verið mjög gott nám og auðvitað er alltaf áhugavert að fara inní nýtt samfélag og sjá nýja hluti – ég er ekki að draga úr því – en í dag er hægt að fara allt aðrar leiðir, í gegnum allskyns residensíur og skiptinám. Hvað maður vill setja peningana í er mikilvægur þáttur sem þarf að hugsa um.

Á MYND ERU CLARA BRO UERKVITZ OG JULIANE FORONDA. (VERK ANDREAS BRUNNER “ALLOWED TO LEAK" Í UNDIRBÚNINGI Í FORGRUNN OG VERK JULIANE FORONDA Í BAKGRUNNI)

Við erum með skólagjöld hérna, þetta er ekki ódýrt nám, og við vildum svo gjarnan sjá að skólagjöldin gætu minnkað, en ef þú skoðar skólagjöld í Bretlandi og í Bandaríkjunum og að fara og borga margar milljónir til að fara í masternám og koma með þá skuld á bakinu aftur til Íslands, er það þess virði? Svo er gott að hafa í huga, þú ferð í mastersnám einhvert og þú ert þá alltaf bara inn í því samfélagi, hvort sem það er Malmö eða Stokkhólmur, London, Glasgow, Amsterdam, sem nemandi ertu alltaf á jaðrinum inní myndlistarsamfélaginu en ef þú ætlaði virkirlega að nýta þér samfélagið og þau tengsl sem þú ert búin að móta á þessu tveimur árum sem þú hefur verið í mastersnáminu þá verður þú að halda áfram og vera a.m.k. í tvö ár í viðbót. Til þess að viðkomandi listheimur opnist, og þú getir farið að halda sýningar…

Það eru ákveðinir hlutir að ske núna, það er ákveðin breyting í gangi, það er ótrúlega gaman að vera partur af því að byggja upp þetta prógram inn í svona umhverfi þar sem þessar stöður eru að breytast, þar sem við erum að fá úrvals fólk hingað.

Hvað gerir það fyrir okkar senu, hvað gerir það fyrir myndlistarsenuna á Íslandi? Það að fólk fari héðan með áhrif frá íslenskri senu til annarra landa.

H&H: Allt saman gersamlega að snúast við.

B: Nei, ég er ekki að segja að þetta sé allt búið að ske. En það er það sem manni finnst svo gaman… að vera þar sem hlutirnir eru ekki ‘settled’, þar sem eitthvað óvænt getur komið uppá og átt sér stað. Þannig gerast breytingarnr, mér finnst það svo spennandi.

H&H: Svo hentar þetta líka gott fyrir barna-myndlistarfólk á íslandi.

B: Já, það eru ekki allir sem geta farið í burtu.

H&H: Gott á margan hátt, sumsje.

B: Já það er mjög gott.

H&H: Mastersnám er mikil sjálfskoðun. Tvö ár af mér og mínu.

B: Þetta er svolítil pressa. Já og verkin breytast. Hugmyndinirnar um list breytast. Hvað þín eigin list getur verið.

H&H: Getur maður eitthvað verið að vinna með? Þúst, alvöru vinnu.

B: þau eru rosalega dugleg að vinna með, og verða að gera það, sérstaklega erlendir nemendur. Það er það eina sem getur kollriðið þessu námi, held ég, eins og er, ef þessi króna heldur áfram að verða svona sterk og allt heldur áfram að hækka og þetta húsnæðisvandamál sem hér er í borginni. Þessi gróðasjónamið í þeim málum eru mjög slæm fyrir okkur, sérstaklega gagnvart erlendu nemendunum.

H&H: En hvað þarftu að hafa til að vera valinn inní MA námið í Listaháskólanum?

B: Þú þarft að hafa BA gráðu, og þú þarft að leggja fram portfólíó og project proposal og letter of motivation. Við biðjum líka um meðmæli. Það er svo í samspili allra þessa þátta sem umsóknum er raðað upp. Fólk sem sækir um þarf að vera skuldbundið listinni og hafa áræðni. Við tökum viðtal við alla sem eru hæfir. Í viðtalinu sem fram fer á ensku spyrjum við út í verkin, áformin og þá þætti sem við teljum nauðsynlega til að fara út í þetta nám.

H&H: Er einhver sem hefur ekki haldið út námið? Droppað út?

B: Já og það hafa verið erlendir nemendur, nokkrir, sem hafa því miður þurft að hætta vegna fjárhagserfiðleikum og nokkrir íslenskir nemendur sem af mismunandi ástæðum fundu sig ekki í náminu.

H&H: Er sjéns á að fá þetta eitthvað niðurgreitt?

B: Það þarf bara að finna tíma til að fara í þessi mál, það er spurning af hverju listnám á háskólastigi eigi að kosta miklu meira en annað háskólanám. Eins og er þá er Listaháskólinn eini skólinn á landinu sem útskrifar nemendur með BA og MA gráður. Það er ekki eins og nemendur sem vilja vinna með listina geti valið um stofnanir hér á landi. Okkur hefur líka langað að finna leiðir sem myndu hjálpa erlendum nemendum, t.d. með tilkomu styrkja. Við erum að reyna að fá nemanda frá Mexíkó hingað, hann komst inn í fyrra en gat ekki fjármagnað skólagjöld og dvöl. En hann virðist núna hafa fengið fjármagn og er vonandi að koma næsta vetur.

H&H: Setjið þið ekki bara kojur inní mastersrýmið uppí skóla? Samtal um myndlist 24/7. Að er náttúrulega fáránlega dýrt að leigja sér hérna.

B: Rosalega dýrt. En fyrir okkur er svo mikilvægt að finna leiðir til að geta tekið á móti fólki, góðu fólki frá áhugaverðum þjóðfélögum og vonandi geta veitt einhverja styrki í framtíðinni. Það er erfiðara að koma frá löndum utan Evrópu út af innflytjendalögum og landvistarleyfi sem þarf að sækja um. Þetta er sumum erfitt ferli að fara í gegnum, það væri gott að geta veitt einhverja styrki og að lækka skólagjöldin.

H&H: Það væri mjög nice. Það er skrítið að annað háskólanám á íslandi kosti minna en myndlistarnámið.

B: Endurspeglar það ekki bara allan þennan misskilning sem við erum með í þjóðfélaginu hvað myndlist leggur að mörkum tli þjóðfélagins?

H&H: Við mælum náttúrulega allt í peningum.

B: Myndlist getur verið mæld í peningum en það er bara ekki ennþá komið inná borðið hjá þessu fólki sem er að taka þessar ákvarðanir í þinginu, það er ekki mikil þekking á faginu og því ekki mikill skilningur.

Sumt má rekja til þess hvernig myndlist er kennd á grunnskólastigi þar eru oft gamaldags væntingar ræktaðar.

En það er líka að breytast, og listkenslunámið í Listaháskólanum er mikilvægur liður í því.

H&H: Myndmenntarkennarar byrja oft með rosalega skapandi verkefni. Svo eru þeir í mörg ár í sama skólanum kannski og aldrei metnir nógu vel launalega séð, foreldrum finnst jafnvel myndmennt í skólum vera afslöppunartími fyrir barnið, ekki alvöru tími. Myndlistin ætti að vera þverfagleg og skapandi hugsun komið inní allar greinar, en hún á sér held ég oft í stað inní föndurherbergi.

B: Það er ekki algengt að sjá myndlist sem viðurkenda grein í annarskonar verkefnum í samfélaginu. Í Bretlandi koma myndlistarmenn að, t.d borgarskipulagi og ýmsum öðrum þáttum. Það væri gaman að sjá meira af þessu því þannig er hægt að opna hugmyndir fólks um mikilvægi myndlistarhugsunarinnar.

H&H: Eruð þð að líta til einhverra skóla í kringum okkur þegar kemur að skipulagninu MA námsins í LHÍ? Scandí, Júró, Usa? Allir með mismunandi áherslur, non? Ikke?

B: Við erum náttúrulega í þessu Norræna samstarfi og ég hef þessi tengsl við Bretland, London og Glasgow. Á meðan ég er þarna þá er maður að móta námið út frá þekkingunni sem maður hefur sjálfur, frá þessum stöðum. Við viljum vera í norrænu samstarfi en það er erfitt að fá nemendur þaðan því að í flestum myndlistarskólum Norðurlanda eru engin skólagjöld. Þannig að við erum ekki samkeppnishæf til þess að fá nemendur frá Skandínavíu til okkar. Og hafandi verið í Skandínavíu sem prófessor…

Bryndís rak þar masterskúrs á sínum tíma og leiðbeindi doktorsnemum í myndlist innan Skandínavíska kerfisins í Sviþjóð.

…þá er margt þar sem sem mig langar ekkert að sjá koma hingað.

H&H: Nei?

B: Nei ég vil helst ekki sjá of mikla ‘elítu’ í tengslum við listina. Þegar myndlist er orðin þannig að það er meira mál að þú fáir eitthvað rosa stúdíó í mastersnámi, að nemendur velji t.d. Malmö því þar er lokað stúdíó með lykli. Ég hef séð of mikið af því hvað þessi lokuðu stúdíó hafa gert fyrir andlega heilsu listnema og erfiðleikana að koma út með það sem þeir eru að gera. Þannig að við erum rosalega ánægð með að hafa tileinkuð sér rými þar sem nemendur geta unnið að sínum verkum en samt opið þannig að þar er samtal og samvinna sem er líka þróuð í gegnum námið.

H&H: Opið, sumsjé.

B: Já semí opið. Og það er virkilega þáttur sem við erum að vinna með enda höldum við að þessi samtalsþáttur myndlistarinnar sé mjög mikilvægur.

H&H: Það er kannski ykkar áhersla – ef við þurfum endilega að finna stimpil. Það þarf samt ekkert að simpla, en það væri flott áhersla. Áhersla á díalóg.

B: Já, það hefur komið fram nokkuð oft í samtalinu okkar.

H&H: Maður þarf oft að útskýra fyrir öðrum til að fatta sjálfur, kannast við þetta 😉

B: Já! En við höfum mikla trú á díalógnum. Ef ég tek þetta ennþá lengra, það er alltaf verið að tala um að listamenn eigi svo erfitt með að lesa og skrifa, geti ekki tjáð sig almennilega. Ég held þeir geti það algerlega. Við erum bara fólk eins og allir aðrir, fengum sama grunnskólanám og allir aðrir. Við erum bara öll misjöfn, auðvitað eru sumir betri í því en aðrir. En að þýðir ekki að við getum ekki sent frá okkur skrifað mál.

H&H: Það er líka bara æfing. Ég var svolítið búin að ákveða að ég væri ekki góð í því og hætti því að æfa mig. “Ég er sko myndlistarmaður, ég verð að tjá mig myndrænt.” Kv. 19 ára Hillbilly. Algert bull.

B: Þetta er ákveðin rómantísk hugmynd. Myndlistarmaðurinn útí skógi..

H&H: Skógi samt?

B: Nei okei, inní stúdíóinu. Alein/nn að skapa, svo finnur hann/hana einhver og hann/hún er uppgötvuð(aður). Ævintýrasagan

H&H: Gæti alveg eins verið í skógi því hún/hann er svo einangruð/aður.

B: Nemendur okkar í mastersnáminu sem koma frá mið-Evrópu, þegar þeir fara í sumarfrí eða heim um jólin, þá detta þau inní sín samfélög þar sem stór áþreifanleg vandamál taka á móti þeim, málefni flóttafólks og allt þetta sem hefur verið að ske í undanfarið í Evrópu, keyrt á hópa af fólki og nýnasista áhrifin í pólitíkinni. Þó margt sé ábótavænt hér á landi þá eru við enn blessunarlega laus við þessi mál. Þau geta því komið til Íslands og náð á ákveðinn hátt að stíga út úr þessu samhengi. Hér er rými þar sem möguleiki er að aftengja. Við höfum verið að ræða það aðeins hér í Deildinni hvað það þýðir.

Að reyna að skoða þetta á jákvæðan hátt. Að landið, Ísland, geti á vissann hátt geti verið nokkurskonar vinnustofa.

Hlutverk vinnustofunnar er að vera hlutlaust rými sem þú getur farið inní til að einbeita þér og vinna alfarið með þínar hugsanir og upplifanir. Kannski getur þessi samfélagslega aftenging í sambandi við þessi stóru pólitískumál í heimunum, gefið ákveðið rými fyrir nemendur til að vinna með þessi mál, hafa fjarlægð, án þess þó beint að vera að vinna meðvitað pólitísk verk.

H&H: Umhverfið síast alltaf inn. Talandi um áhrif umhverfis, Hillbilly er oft búin á því að labba niður götu í stórborgum, svo mikið áreiti. Finnst voða gott að bregða þegar ég heyri í löggubíl í Reykjavík.
Skólinn okkar er útbúinn þessu útsýni útum gluggann líka. Esjan og allt þetta, munar miklu fyrir geðheilsuna að hafa þetta útsýni.

B: Rosalega flott.

ANDREAS BRUNNER (VERK HANS Í FORGRUNN EN TIL HÆGRI HLUTI AF VERKI JULIETTE FRENAY OG TIL VINSTRI HLUTI AF VERKI ARNARS ÓMARSSONAR)

H&H: En næsta spurning, er mikilvægt að hafa prófessjónal (og útskrifaða) myndlistarmenn í samfélaginu og afhverju?

B: Myndlistarmenn hugsa oft öðruvísi og hafa áhugaverðar leiðir til lausnar á málefnum. Ég er svolítið að alhæfa hér. Ef við berum saman myndlist og vísindi, í vísindum þá er upphafið einhverskonar kenning eða tilgáta og þú vinnur í gegnum ákveðna aðferð til að sanna eða afsanna þessa kenningu. Í myndlistinni þá ertu með innsæið, eitthvað sem þú heldur og þú ert aldrei að reyna að sanna eða afsanna, þú ert sama að fara í gegnum ferli að skoða og athuga, en það er hlykkjótt en ekki bein lína. Það fer í allskonar hringi, fer þangað og kemur aftur til baka, spyr fleiri spurninga en það svarar. Það er einmitt þetta sem við mannfólkið þufum á að halda í dag. Ef ég fer nú aftur að tala um umhverfismál. Það sem við erum búin að gera við okkar umhverfi.

Við þurfum ekki meira af því sem við köllum framfarir því um leið og við finnum lausn á einstaka máli, að bjarga ákveðinni dýrategund, plöntu eða einhvað í umhverfinu, þá skemmum við einhvern anna þátt í keðjunni.

Ég er að tala um flóknar vistfræði kenningar hérna, sem ég þyrfti heila grein til að gera almennileg skil. Þetta hugsanaferli myndlistarinnar er mikilvægt í samfélaginu og við þurfum meira af því.

H&H: Skoða soldið í kringum okkur?

B: já og bara skoða umhverfið frá mismunandi sjónarhonum.

H&H: Einmitt. Viltu ekki sjá myndlistarmenn í pólitík?

B: Ég vil bara sjá myndlistarröddina og myndlistarhugsjónina á miklu fleiri stöðum í opinberum ákvarðanatökum og í tenglsum við allskonar rannsóknir. Hafrannsóknir, myndlistarfólk á heima þar, til dæmis.

H&H: Er eitthvað mjög mikilvægt fyrir þig, sem myndlistin þín hefur kennt þér?

B: Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Hún hefur kennt mér að hugsa öðruvísi. Myndlistarleg hugsjón er endalaus uppspretta spurninga um lífið og tilveruna. Ég er alltaf að vinna með umburðarlyndi gagnvart öðrum og öðru. Vinna með hugmyndina að finna samkennd gagnvart einhverju sem er ólíkt mér. Ef það er mannleg vera þá væri það einhver sem á allt öðruvísi líf en ég og ég vil geta sett mig í spor þeirra til að geta horft með gagnrýnum augum til baka á sjálfan mig. Þetta eru svona hlutir sem ég hefði aldrei nálgast nema af því ég fór í  myndlistina. Fyrir utan það hefði ég aldrei kynnst núverandi manninum mínum…

H&H: Rómantíkin er alltaf rétt handan við hornið í myndlistinni. Lífið er bara myndlist, þú ert að kenna myndlist, gera myndlist með manninum þínum…

 B: Já þetta kollvarpaði samfélaginu sem ég kom útúr, því sem ég var alin upp við. Hugmyndir um allt, lífið og tilveruna hafa þróast á allt annan hátt útfrá myndlistarsjónarhorni