Menu & Search

Dagrún Aðalsteinsdóttir

Dagrún Aðalsteinsdóttir

(Það var frekar dimmt inni hjá henni, flestar perur sprungnar. Dagrún er að bíða eftir að fá hávaxna vinkonu sína í heimsókn.)

H&H: Hvar ólstu upp?
DA: M, já, okei, ég er úr Breiðholti og úr Grafarvoginum. Grafarvogur er svo mikið fótboltaúthverfi. Ég var mikill lóner og mér leið alltaf eins og smá outsider. Svo þegar ég byrjaði í Listaháskólanum kynntist ég nokkrum sem ólust líka upp í Grafarvoginum, sem ég kynntist ekkert fyrr en þá.

Ég tók mér pásu frá Listaháskólanum og fór til Indlands í einhvern tíma. Síðastliðin fimm ár hef ég mikið farið til Indlands, fram og til baka. Ég er flutt heim í bili eftir að hafa verið í Master í Singapore. Stefni á að vera hér til lok árs, langar þá að flytja út aftur. Er að skoða ýmsa möguleika, til dæmis Amsterdam. En allt er frekar opið. Ég finn að mig langar ekki að koma mér of vel fyrir hér. Þetta er bara ákveðið tímabil hér og svo fer ég aftur.

Finn mig ekki á Íslandi núna. Allt er svo dýrt, sé ekki alveg fyrir mér að vera hérna til frambúðar. Ég var í sjokki þegar ég kom heim hvað nauðsynjar eru dýrar hérna.

 

H&H: Hver er sterkasta æskuminningin þín?
DA: Sem krakki hérna í Breiðholtinu bjó ég í bílskúr hjá ömmu og afa með mömmu og við bjuggum við hliðina á heimili fyrir einhverfa. Það komu oft alls konar fólk í heimsókn. Sérstaklega einn sem hét Eiður, hann gat ekki talað svo hann var með aðrar leiðir til þess að hafa samskipti sem var mjög skemmtilegt. Þetta var bara svona stórt hús þar sem bjuggu 8 – 10 manns og einhverjir til að aðstoða þau.

H&H: Afhverju fórstu að læra myndlist?
DA: Ég var mikið í hestum og ætlaði að verða tamningakona. En ég valdi myndlistarbraut í FB því ég vissi ekki hvað annað mig langaði til að gera. Þegar ég gerði mitt fyrsta listaverk 17 ára þá var ekki aftur snúið.

Seinna á því ári var ég byrjuð að vinna hjá Listasafni Reykjavíkur og var full on að reyna að læra eins mikið og ég gat um myndlist.

Ég varð heltekin, pínu eins og að margt í mínum persónuleika fengi fullkomið frelsi og farveg í þessu. Ég ákvað að ég ætlaði að verða myndlistarmaður.

Ég var svona 16 – 17 ára þegar ég hringdi í Eyjólf í Epal í von um að fá styrk til að gera kúlu. Ég sagði honum bara að mig vantaði styrk fyrir myndlistarverkefni! “Já komdu á fund og seldu mér þetta.” Ég fór á fund með einhverjar barnalegar teikningar af því sem ég ætlaði að gera. Mér fannst þær geðveikt pró. “Þetta er bara svona kúla og svo ætla ég að hafa manneskju inní og taka mynd”. Og hann sagði bara jájá, ekkert mál, við styrkjum þetta.
Hann á þetta verk og ég held að þetta sé inná skrifstofunni hans.

H&H: Ljósmyndin eða kúlan með manneskjunni?                                                   Hehe
DA: Hann hefur verið að styrkja listamenn. En þá og þegar fékk ég trú á þessu hlutverki. Ég set þetta fram, fæ budget og framkvæmi – Aha! Það small eitthvað, þetta mundi alveg ganga. Mjög gaman. Og mjög gaman að svona fólki sem er til í að styrkja 16-17 ára lið að gera eitthvað. Það er mjög dýrmætt. Einhverstaðar þarf maður að byrja.

H&H: Finnst þér nauðsynlegt að læra myndlist?
DA: Já og nei. Það er fólk sem hefur kennt sér sjálft. En ég held að mörgu leyti hafi það breyst. Myndlist eins og hún er í dag fúnkerar öðruvísi – senan er svo ótrúlega stór og margar mismunandi leiðir hægt að fara og mismunandi hlutir sem koma upp á yfirborðið.

En í dag held ég að aðgangur að þekkingu hafi breyst svo mikið að þú færð ekki jafn mikið svona „free pass“ að þekkja ekki hvað hefur komið á undan, að þekkja ekki hvað er að gerast fyrir utan það sem er nákvæmlega þar sem þú ert staðsettur. Upp á það þá er menntun mjög gott tæki til þess að navigate-a myndlistarumhverfið…

…og átta þig á því hvar þú vilt staðsetja sjálfan þig í þessu.

H&H: Þér hefði kannski ekki dottið það í hug að verða myndlistarmaður ef þú hefðir ekki valið myndlistarbraut?
DA: Nei, einmitt, örugglega ekki. Ég er ekki alin upp í þannig fjölskyldu, þekkti ekki neinn myndlistarmann. Þetta var svið sem ég hafði enga þekkingu á. Þegar ég byrjaði að læra listasögu í FB þá var eins og heimur opnaðist, ótrúlega spennandi. Allt nýtt fyrir mér.

Ég áttaði mig ekki á að myndlist væri fagsvið sem ég gæti búið til starfsferil á, fyrr en þá.

H&H: Hvernig lærir maður?
D: Myndlist? Það er örugglega misjafnt. Það er svo misjafnt hvernig fólk vinnur sig áfram í þessu. Fyrir mér er þetta bara endalaust grúsk að mörgu leyti. Myndlistin er erfið að greina sem fræðilegt fag. Maður er alltaf að grúska í mörgum mismunandi fræðum til þess að fá betri skilning á því sem maður er að gera. Fyrir mér hefur lestur verið mjög mikilvægur. Bækur gefa mér aðgang að því sem ég er að kljást við.

H&H: Hvað ertu að lesa núna?
DA: Ég er með tvær bækur í gangi eftir Rebeccu Solnit; River of Shadows sem er um tæknibyltinguna í Kaliforníu og A Field Guide to Getting Lost. Hún fjallar um hvað það er mikilvægt að týnast; bæði sjálfum sér og sér í umhverfinu.

Mér líður best þegar ég er með nokkrar bækur í gangi. Ég er líka sjálf farin að skrifa meira og nota það í verkunum mínum, finnst það spennandi.

H&H: Hvar vinnur þú að listinni þinni?
DA: Hér og þar. Ég er með smá aðstöðu hérna heima. Í Listaháskólanum tók ég meðvitaða ákvörðun að vera ekki að vinna verk sem væru kostnaðarsöm eða fyrirferðarmikil. Svo ég gæti verið að vinna hvar sem er með eins litlu og mögulegt er. Ég hef verið að vinna vídjóverk og þá þarf ég bara tölvuna mína í rauninni. Og lestur og grúsk og fyrir það get ég verið hvar sem er.

Ég hef aldrei verið með svona stúdíó með fullt af dóti. Kannski bara þrjá flakkara.

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni?
DA: Það er endalaust flókið apparat. Núna er ég frekar ný komin úr Mastersnámi.

Maður er alltaf svolítið dekraður í skóla, það er svo mikil bómull.

Núna er ég í hálfu starfi ekkert tengt myndlist og inn á milli fæ ég borgað fyrir myndlistartengd verkefni. Ég fékk nýlega eitt slíkt – að vinna vídjó við tónlist eftir Hafdísi Bjarnadóttur, tónskáld. Ágætis peningur í því. Það er kannski öðruvísi en ég hef verið að pæla en að einhverju leyti er ég að fá smá pening fyrir að vinna nálægt mínu fagi. Hafdís er með sínar hugmyndir en ég fæ mikið frelsi.

Sýningar sem ég hef tekið þátt í þar sem maður fær borgað, er náttúrulega bara grín lítið – ekkert til að lifa á.

Ég hef verið að skoða resedensíur og svo væri ég líka til í að fara í frekara nám, doktorsnám til dæmis. Þetta er púsluspil. Það er ótrúlega misjafnt hvernig fólk leysir þetta… að láta þetta ganga upp.

Dagrún gekk í gegnum mikla myndlistarkrísu og sjálfsefasemdir í Listaháskólanum og fór til Indlands. Þar vann hun óvart útskriftarverkið sitt fyrir LHÍ. Hún réði sér aðstoðarmann sem hún kynntist á internetkaffihúsi í Bangalore.

 

DA: Mig langaði svo að vinna með amateur leikurum. Ég tók upp eitt verk úti sem var ógeðslega skemmtilegt. Eftir á að hyggja skrítnasta verk sem ég hef gert. Það var svo gaman að gera það og það kveikti aftur á. Ég kannski vann mig út úr einhverri krísu sem ég hafði verið í gagnvart listinni. Það gaf mér orku til að halda áfram.

Það er bara hollt að fá krísu og það kemur reglulega fyrir. Þá endurskoðar maður allt og efast um sjálfan sig. Spyr hvaða gildi það sem maður er að gera hefur. Það er kannski bara skrítið að gera það ekki.

H&H: Segðu mér meira frá aðstoðarmanninum…
DA: Hann var aðallega að hjálpa mér að finna leikara. Svo reddaði hann íbúð til að taka upp verkið. Og alls konar svona snatt dót. Fyrir mig, sem þekkti engan. Hefði verið geðveikt erfitt að finna útúr því.

H&H: Kynntistu honum í gegnum internetið?
DA: Nei, ég var semsagt ekki með neina tölvu þegar ég fór til Indlands…

Geðveikt rómantískar hugmyndir – tók bara með mér skissubók og bækur til að lesa og ætlaði að vera geðveikt aftengd. Svo endaði náttúrlega á því að ég var alltaf hangandi á einhverju internetkaffi.

Hann átti það. Ég var að spyrja hann hvort hann þekkti einhvern sem ég gæti borgað til að aðstoða mig við eitthvað verkefni. Og hann sagði bara „ég er maðurinn fyrir þig, ég er maðurinn fyrir þig!“. Svo ég samþykkti það bara. Hann var líka með frábært netfang : mrprofessional@ – .com. Og ég bara: Vá þetta ermaðurinn!

Við urðum góðir vinir. Hann bauð mér í mat og ég kynntist konunni hans og mömmu hans. Svo fattaði ég sko – ég var ekki alveg búin að kveikja á því, var bara mjög naív, 22 ára – að hann var múslimi og þeir stunda fjölkvæni. Svo þetta endaði eiginlega á því að hann sagði mér að hann hafði alltaf langað til að eiga útlenska konu. Ég hélt við værum bara professionals. Svo þetta endaði í einhverri frekar awkward senu, sem var samt allt í lagi.

Dagrún fór í Mastersnám til Singapore. Skrítinn staður til að velja sér til náms að hennar sögn. Hana langaði að fara út til Asíu, endaði í Singapore af praktískum ástæðum. Námslánin voru lítið mál, skólinn var með alla evrópska staðla sem LÍN krefst og skólinn var á ensku. Listasenan samanstendur helst af fólki sem kemur frá efnuðum fjölskyldum. Víða í Asíu eru það alger forréttindi að læra myndlist. Það fer enginn útí það nema að eiga pening, eða gott bakland. Dagrún var að leigja með stelpu frá Taiwan sem langaði alltaf útí myndlist en fjölskyldan hennar gaf henni þau skilyrði að læra eitthvað praktískt svo hún var föst í fjármálaheimi sem hún hafði engan áhuga á. Hún var mjög forvitin um allt sem Dagrún var að gera. Hérna á Íslandi er fólk í myndlist með svo blandaðan bakgrunn. Hlýtur að hafa verið skrítið að vera í heimi þar sem allir eru með þjónustufólk, eins og Dagrún lýsir.

Þau vorkenndu mér svo fyrir að þvo fötin mín og að vaska upp.

DA: Ég lærði helling. Ég lærði mikla hógværð. Maður verður oft blindaður, skoðar bara tað sem maður hefur sjálfur áhuga á og dismissar alveg hluti sem manni finnst ekki interesant. Úti var ég oft að horfast í augu við eigin fordóma. Gagnvart myndlist.

H&H: Varstu eini útlendingurinn í mastersnáminu?
DA: Nei þetta var blandað sko. Frá Bandaríkjunum, Spáni, Brasilíu, tvær frá Indlandi og nokkrir lókalar og vinur minn frá Kína.

Þessi vinur minn frá Kína kemur frá ríkri fjölskyldu og í Kína hefur orðið alger sprenging í að upper middle class fjöskyldur hafi allt í einu efni á hlutum sem foreldrarnir höfðu alls ekki haft aðgang að. Og þau gera allt fyrir börnin sín. Það spilar inn í þessi one-child regla. Hann var oft að klépera við mig um pressuna, að giftast ákveðinni konu til dæmis, því allir draumar foreldranna urðu að rætast; þetta barn þurfti að uppfylla allar kröfurnar. En á sama tíma eru börnin mjög dekruð.

Dagrún var að sýna með félögum sínum frá Singapore í fyrra í listamannareknu rými þar í bæ. Senan í Singapore samastendur af mjög commercial, sölu-fókúseruðum galleríum, og svo eru tvær miðstöðvar fyrir nútímamyndlist fyrir utan stóru söfnin.

H&H: Er munur á kennslunni í Singapor og Reykjavík?
DA: Ekki svo mikið í þeim skóla sem ég var í. Hann reyndar vill fylgja evrópskum stöðlum og er samstarfsskóli Goldsmiths í London. Mikið af asísku fólki sem fer til Evrópu í nám kemur með þann staðal heim þegar það snýr aftur. Það eru áhrif frá þessum upper middle class hópi sem á allt í einu efni á því að senda börnin sín í gott nám. Vinkona mín var í námi í NY á sama tíma í fatahönnun og það voru fleiri frá Asíu með henni í bekk en með mér úti. Þetta stuðlar að því að einhverju leyti að það er algjör globalization í kennslu, ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt, sami staðall allstaðar. Veit ekki hvort mér finnist það spennandi en maður sér þetta mjög mikið.

Í staðinn fyrir að við getum öll bara tengst þá verðum við öll bara eins í staðinn.

H&H: Hefurðu eitthvað verið í Kína?
DA: Ég fór í resedensíu til Xiamen þar sem Sigurður Guðmundsson og Ineke konan hans eiga heima og hafa átt örugglega í 20 ár. Þau hafa stofnað miðstöð sem heitir Chinese European Art Center. Fór til þeirra og var með litla sýningu þar. Það var svo gaman að kynnast Sigga og sjá hvernig hann vinnur og býr þarna. Ég er einmitt að fara að sýna með honum aftur á Djúpavogi. Ég var með í fyrra og verð aftur með í ár. Þetta er svo flott og metnaðarfull sýning. Óvanalegt að sjá svona út á landi, held að það sé verið að setja meiri metnað í sýningar á landsbyggðinni en hefur verið gert. Listamenn frá Rjiks þar sem Siggi hefur verið að kenna í Amsterdam tóku þátt í fyrra, og fleirri stórir listamenn erlendir og íslenskir sem hafa verið í Feneyjum hafa verið þátttakendur í þessum sýningum. Fólk keyrði frá bæjum í kring og var svo forvitið og spurði um verkin, var hungrað í þetta einhvern veginn. Ég varð geðveikt hissa. Önnur stemming en á opnunum í Reykjavík.

H&H: Þú hefur verið mikið í Asíu…
DA: Já, undanfarið, ég verið mikið á Indlandi.

Var með kærasta þar sem ég misnotaði í nokkur verk, greyið.

H&H: Það hefur verið dýrt sport að vera í fjarbúð í Indlandi?
DA: Já ég ákvað að það gengi ekki alveg til frambúðar. Langaði alveg að vera lengur á Indlandi eða í Singapore. Fann svo að ég þurfti annan stað, til að vinna að myndlistinni svo ég væri sátt. Í Asíu væri ég að fara að vinna ótrúlega mikið við kennslu. Ég skil ekki hvernig kennararnir náðu að vera með eigin stúdíóvinnu. Þeir vinna ótrúlega mikið, þvílíkt álag. 7 frídagar á ári og mikil harka.

Í skólanum sem ég var í voru kennarar héðan og þaðan úr heiminum. Meira að segja einn íslenskur kennari sem var að kenna í kvikmyndadeildinni, Gísli Snær. Hann var samt ekki að kenna mér.

H&H: Þú notar samt vidjó í verkunum þínum?
DA: Já, en ég held það sem hefur stoppað mig að læra kvikmyndavinnslu er að mér finnst alltaf svo yfirþyrmandi hvað kvikmyndaframleiðsla þarf að vera ofsafengin. Ég tengi ekki alveg við það og finnst ekki spennandi að fara út í það, útaf því. Það þarf alltaf eitthvað 20 manna crew og þrír að sjá um hljóð og eitthvað. Ég er alltaf með súper ódýra framleiðslu á öllu sem ég geri.

Ég var akkúrat að ræða við einhverja gæja úr kvikmyndadeildinni um verkefni sem mig langaði til að gera og þeir bara „já, þetta gengur ekkert, þú þarft nú bara manneskju í þetta, svo þarftu manneskju í þetta og…“ Ég gat bara ekki rætt við hann. Það verður allt svo oversized, sem mér finnst ekki skemmtilegt að gera.

Það er auðvitað fullt af myndlistarmönnum sem vinna með einhvern her með sér, og það getur vel verið að ég fari einhvern tímann út í það en akkúrat núna sé ég ekki sjálfa mig í þannig vinnu.

Mér finnst oft ódýrar lausnir spennandi og það kemur oft eitthvað touch út frá því að maður þurfi að bjarga sér, að maður hafi ekki aðgang að öllu. Og mér finnst það frekar skemmtileg leið frekar en að það stoppi mig.

H&H: Afhverju gjörningalist?
DA: Ég var að vinna í Listasafni Reykjavíkur þegar ég var 18 ára og Rakel McMahon var að fara að gera gjörning fyrir opnun Epal á Laugavegi og fékk mig með sér í það. Við unnum gjörninginn saman, notuðum vídjó sem ég var að gera og hún kom með alls konar búningaelement sem var mjög nýtt fyrir mér. Svo vorum við bara eins og einhverjar rokkstjörnur á opnun í klukkutíma og ég fékk eitthvað geðveikt kick útúr því sem ég bjóst ekkert við. Ég er meira introvert en ég fékk eitthvað rosa mikið út úr því og fór þá að gera meira live performansa sem þróuðust síðan í vídjógjörninga. Fór að nota bara sjálfa mig og fannst það líka bara aðgengilegasta leiðin til að búa til hlutina – að nota minn eigin líkama. Ekki út frá feminisma, heldur sem verkfæri.

Líkaminn minn er alltaf til að staðar.

Hillbilly er frekar spennt að heyra meira um Indland, enda sjálf ekki mjög ‘well travelled’, eins og sagt er.

DA: Fyrst þegar ég fór til Indlands ætlaði ég að ferðast rosalega mikið, bara ein, en svo því miður rak ég mig á það að það var ekkert endilega hægt, sem kona. Og þannig að ég ákvað að vera ekkert að þrýsta á það of mikið. Það komu upp atvik sem hræddu úr mér líftóruna.

Ég lenti í svakalegri árás. Ég var ennþá að drekka þá og var pínu drukkin og var með fyrrverandi kærastanum mínum að labba úr partíi. Og þeir voru svona um 8-10 strákar sem réðust á okkur í einhverjum undirgöngum. Ég var klóruð alls staðar, hef aldrei verið með jafn margar hendur á líkamanum mínum á sama tíma. Ég var bara gargandi og sem betur fer var einhver í þessum hóp sem fékk samviskubit og dró mig úr undirgöngunum og setti mig undir eitthvað götuljós og þá hlupu hinir í burtu. Og ég slapp alveg, en eftir þetta var ég terrified. Fann það að vera ein að ferðast um næturnar í lestunum hefði ekkert endilega verið neitt safe.

H&H: Hvað um kærastann þinn?
DA: Þeir voru svo margir, þeir héldu honum bara.

H&H: Hættirðu að drekka þetta kvöld?
DA: Næstum því. Þetta hafði áhrif. Það eru aðstæður sem maður vill ekki sjà í móðu.

Mér finnst miklu þægilegra núna að ferðast þegar öll mín skilningarvit eru í lagi.

H&H: Ertu alveg hætt?
DA: Svona eiginlega, ég drakk aðeins í fyrra, fékk mér viskí um áramótin á Indlandi og eitthvað aðeins með, en nei, drekk eiginlega ekkert lengur. Það var samt ekki bara útaf þessu atviki. Það var eiginlega meira eftir að ég kom aftur heim frá Indlandi, því áður en ég fór út til Indlands var ég að drekka frekar mikið hérna heima. Það var bara stemningin, ég var orðinn svoldið tætt af því. Það var farið að hafa miklu meiri áhrif á mig en ég kannski fattaði. Þannig að þegar ég kom aftur heim þá langaði mig bara svoldið að skipta um mynstur. Þess vegna hætti ég að drekka. Ég er líka frekar viðkvæm manneskja, oft þegar ég drakk var ég kannski í marga daga á einhverjum bömmer, eða eitthvað svona, fáránlegt mynstur til að vera í. Mig langaði bara ekki aftur í það mynstur.

H&H: Aftur að myndlistinni… hvernig er sköpunarferlið?
DA: Það er rosalega misjafnt. Ég er alltaf að vinna í rosalega mismunandi miðlum, bæði að gera gjörninga sem gerast oft mjög spontant, ekki að ég set mig í einhverjar stellingar og ætla að gera eitthvað heldur kemur meira frjálsara fram. Sumt kemur meira þegar ég hef legið í hugmyndavinnu og grúski lengi og hugsa hvernig ég vil útfæra. Og svo er ég alltaf að teikna, gera klippimyndir.

Ég hef alltaf verið að teikna – losna aldrei við það. Mér finnst það vera öðruvísi leið til að hugsa.

Sem er rosa þægilegt inn á milli. Það er í rauninni ekki bara listamenn sem nota það tæki til að hugsa. Líka verkfræðingar, stærðfræðingar, arkitektar og fleiri….

 

H&H: Er einhver ómissandi hlutur?
DA: Bækur. Ég verð alltaf að vera að grúska í einhvejrum bókum. Tek líka tímabil sem ég verð alveg heltekin af einni bók eða ákveðnum höfundi. Það er alltaf til hliðar hjá mér.

H&H: Hefur þú upplifað raunverulega þrá til þess að skapa?
A: Já maður hefur greinilega eitthvað svaka impulse til að deila sínum hugmyndum. Ef maður hefði ekki þessa löngun til að deila hugmyndum þá væri maður ekkert að reyna að vera einhver professionalmyndlistarmaður, þá væri maður bara sjálfur í einhverju grúski.

Fyrir mitt leyti finnst mér myndlistin líka rosalega mikil þrá til að skemma, eyðileggja, rífa niður, af því að í rauninni finnst mér myndlist alltaf vera í því ferli að hún er alltaf í einhverju sambandi við það sem er til staðar og það sem hefur verið gert.

Og svo er maður að afbyggja það og brjóta það niður og taka út úr því sem manni finnst valueable og kannski stroka annað út sem manni finnst ekki lengur hafa vægi.

Þannig held ég að myndlistin endurnýji sig. Ég held að það sé líka mikilvægur hluti af því sem maður er að búa til.

Þráin að eyðileggja, hjá mér, er alveg jafn sterk og að skapa eitthvað.

H&H: Hefurðu fengið sköpunarstíflu?
DA: Ekki beint stíflu, það er alltaf eitthvað flæði af hugmyndum í gangi. Ég hef alveg fengið krísu – sjálfsefasemdakrísu. Ef maður fyllist of miklum efasemdum um sig lamar það mann. Svo næ ég einhvernvegin að vinna mig út úr því – þá kemur eitthvað nýtt – nýr vinkill á það sem ég er að gera.

H&H: Þú fórst til Indlands einu sinni til að losna við krísuna. Ertu með eitthvað annað ráð?
DA: Ég virðist alltaf vilja skipta um umhverfi. Þannig næ ég að svindla á henni. Til að endurnýja sjálfan sig í þessu fagi þarf maður að hafa rosalega trú á því sem maður er að gera og mikla einbeitingu, annars held ég að þú týnist fljótt í einhverju öðru.

Það er aldrei neitt sem grípur þig eða heldur utan um þig í myndlistinni. Þú þarf alltaf sjálfur að búa til þínar eigin forsendur til að vera til í þessu.

Þannig að ég varð, ég er svoldið ýkt manneskja í öllu sem ég geri. Oft borða ég alltaf sama matinn, sem ég melti alveg eins. Þá veit ég bara hvað er að gerast, það mun ekkert koma mér á óvart, klukkan hvað ég kúka liggur við. Hugurinn er þá ekki að hugsa um að vera illt í maganum eða vera þunnur eða eitthvað heldur getur hann einbeitt sér að því sem maður er að gera.

H&H: Ertu ánægð með ákvörðun þínar að lifa lífinu sem myndlistarmaður?
DA: Já ég held það. Ég hef oft fengið efasemdir því það er flókið að lifa á þessu. Stundum langar manni að vera í samböndum sem ná að sustaina sig og kannski einhverntímann að kaupa mér íbúð. Rosalega hversdagslegir draumar og mér finnst eins og myndlistin muni ekki færa mér það.
Svo verð ég bara að leyfa framtíðinni að koma í ljós. Ég sé mig ekki fyrir mér í neinu öðru. Núna finnst mér til dæmis of seint að verða tamningarkona, ég er alveg dottin úr hestunum. Þannig að draumurinn um það er orðinn outdated.

Þetta er það sem færir mér gleði og fær hlutina til að öðlast einhverja verðleika, sem er erfitt að útskýra.

Sigurður Guðmundsson sagði mér að hann hafi bara tekið ákvörðun þegar hann var yngri „nú ætla ég bara að lifa á myndlistinni og ég ætla ekki að gera neitt annað“. Ég er búin að vera að reyna að hugsa svoldið eins. Í staðinn fyrir að alltaf að detta í efasemdirnar, frekar að ætla að láta þetta ganga upp og þetta mun ganga upp. Að hafa það viðhorf.

En ég ætla að flytja erlendis í lok árs. Ísland er ekki alveg staðurinn með mestu möguleikana. Ég kynntist mjög skrítnum manni sem á haug af seðlum sem var að segja mér að koma að kenna myndlist á Balí, sagði að það væri nóg fyrir mig að gera þar. Ég sagði honum að það gæti verið svona plan B.

H&H: Hvað myndum við borða í kvöldmat?
DA: Ég myndi örugglega bjóða ykkur á víetnamska veitingastaðinn hérna í Breiðholtinu. Rosa næs staður, sæt fölskylda sem er með hann. En alltaf svona góður hópur af fullu fólki líka.

H&H: Týpískur dagur / Draumadagur?
DA: Týpískur dagur: Byrja með rosa mörg markmið sem ég ætla að gera yfir daginn og svo fer helmingurinn af deginum í að skipuleggja eitthvað dót og senda tölvupósta og eitthvað. Næ að gera helmingi minna en ég ætlaði. En það er samt allt í lagi.

En draumadagur: Einhver einangrunardagur þar sem ég væri bara að lesa, skrifa niður, klippa vídjó. Ná kannski að klára eitt verk á einum degi. Það væri alger draumadagur.

H&H: Hvað hefur myndlistin þín kennt þér?
DA: Ég hef lært alls konar í gegnum mismunandi árekstra, þegar ég er að sýna verkin mín; Viðbrögðin sem ég fæ hafa oft komið mér á óvart. Það kennir manni alltaf eitthvað nýtt. En, ég held að það mikilvægasta sé einhvers konar hógværð gagnvart því sem maður er að fást við.

Ekki taka sjálfa mig of alvarlega. Og líka að leyfa mér að leika mér. Maður gleymir því stundum.