Menu & Search

EGILL SÆBJÖRNSSON

EGILL SÆBJÖRNSSON

Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til þess að hitta Egil á vinnustofu sinni í Berlín tókst það loksins. Nema Egill hafði flogið til Íslands fyrr um morguninn. Hillbilly fékk þó góðfúslegt leyfi til þess að kíkja á vinnustofuna og mynda og Kjartan aðstoðar- og tónlistarmaður tók vel á móti henni. Það var afar notaleg stemning í stóru vinnustofunni og margir að vinna að sínu.

Hillbilly náði tali af Agli á Njálsgötu í júní áður en hann flaug aftur út til Berlínar. Hann stoppaði stutt í Reykjavík, enda kalla sumir hann Berlín í hnotskurn. Egill vissi ekki alveg hvað það þýðir en er sáttur með nafnbótina. En hann vissi ýmislegt annað og er alveg frekar áhugaverður og brilljant náungi.

Egill ólst upp í Norðurmýrinni og lærði myndlist á fjöltæknibraut í Mynd- og Handíðaskóla Íslands frá 1993–1997 og í Parísarháskóla 8 St. Denis, sem skiptimemi í ár. Hann flutti til Berlínar árið 1999 og hefur ekki búið á íslandi síðan. Bara komið í heimsóknir.

H&H: Var list í kringum þig?
E: Engin. Mamma var kennari og pabbi tæknifræðingur.

H&H: Afhverju ákvaðstu að læra myndlist?
E: Það var mjög einfalt. Ég var alltaf að herma eftir frænda mínum sem var mjög klár að teikna þannig að ég varð rosalega klár að teikna þegar ég var svona fjögurra ára. Mín besta leið til að komast áfram í lífinu. Maður verður að vera klár í einhverju til að vera eitthvað.

H&H: Hvernig fannst þér í myndlistarnáminu?
E: Mér fannst ömurlegt. Þoldi ekki kennarana, mér fannst þeir svo miklir minimalistar. Svo vildu allir nemendurnir alltaf vera í kaffi, ógeðslega latir og mér fannst það alveg ömurlegt. En núna er samt enginn agi hjá mér á vinnustofunni.

Ég lærði seinna að það er rosalega mikilvægt að taka kaffipásur, bestu díalogarnir verða oft þar. Ég vitkaðist með árunum.

H&H: Fíluðu kennararnir þig?
E: Ég veit það ekki. Held ég ekki hafi fengið neitt sérstakar einkunnir. Henti bara einkunnablöðunum. Í skólanum lærði ég samt rosalega mikið. Gígatínskt mikið. Mikið úr listheimsspeki og kennararnir voru að kenna mikið. Fattaði það bara seinna.

 

H&H: Hvernig kennir maður myndlist? Hefur þú kennt myndlist?
E: Bara tala um hlutinn eins og hann er, mjög straight forward. Miðla aðferðum ef maður getur. Svo er maður aldrei eini kennari einhvers. Engin regla, ég reyni bara að miðla einhverri reynslu. Vegur hvers og eins er svo einstakur. Ég man hvernig var að koma út úr skólanum. Mér fannst það mjög erfitt og þurfti að pína mig í að gera eitthvað. Erfitt að hafa trú á sjálfum sér. Allar þessar spurningar: Hvernig á ég að lifa af sem myndlistarmaður? Hvar á ég að hafa fyrstu sýninguna mína? Er þetta nógu gott?

Ég reyni að hvetja fólk til að trúa á sig. Það er mjög erfitt. En mjög mikilvægt.

Ekki dæma allt út frá einhverju einu verki. Frekar gera fimm án þess að skilja kannski alveg hvað maður er að gera, það er ógeðslega erfitt svo allt í einu fer það að meika sens. Maður öðlast sjálfstraust. Þú gerir eitt verk en í rauninni þegar þú ert búinn að gera fimm verk þá eru einhverjar tengingar á milli, þráður á milli verkanna. Og það sem er á milli verkanna, það er í rauninni það sem þarf að verða til. Maður getur ekki verið með bara eitt verk. Svo þarf maður að treysta á þessi 25-30 ár sem maður hefur lifað, að það sé eitthvað í gangi. Það er erfitt að fara þennan individual veg.

H&H: Er mikilvægt að læra myndlist? 
E: Alveg valid. Þó það sé negotiable hvort myndlist þurfi að vera svona mikið specialized stétt. Skapandi kraftur er eitthvað sem allir hafa en til að geta tekið þátt í myndlistarumræðunni og verið myndlistarmaður er alveg í 90% tilvika betra að fara í skóla.

H&H: Er munur á listamanni og hinum skapandi einstaklingi?
E: Það er náttúrulega munur. Listamenn eru alltaf að gera myndlist. Þú getur verið listamaður að gera eitthvað sem er brilljant, eða þú getur verið listamaður og gert ekkert brilljant. En það er líka allt í lagi, gott fyrir mann sjálfan.

Það er réttur sem hver og einn hefur, að vera skapandi vera. Þó engum öðrum þyki það eitthvað brilljant.

Hver og einn má kalla sig listamann en síðan er það líka samfélagið sem verður að ákveða það, hvort það vilji að þetta sé listamaður eða ekki. Maður ákveður það ekkert sjálfur.

H&H: Hefur þú lært að selja verkin þín, lifa á listinni? Markaðssetningu og fleira.
E: Í skóla? Ég lærði það aldrei í skóla en ég hef lifað á myndlistinni frá því árið 2000. Síðan þá geri ég ekki neitt annað.

H&H: Hefuru verið með markaðsstjóra?
E: Nei ó mæ god ég hef aldrei haft efni á að borga neinum neinn skapaðan hlut.

H&H: Finnst þér að markaðssetning og fjármál ætti að vera kennt í myndlist?
E: Mér finnst það ætti að vera kennt í barnaskóla, kenna heimilisbókhald. Fáránlegt að það sé ekki gert. Eitt af þessum stóru hlutum í lífinu, grunnatriði. Frekar kenna bókhald en stærðfræði, hvað tölur varðar. Að kunna fjármálalæsi er að vera fit for life.

Agli hefur allavega tekist að lifa á listinni… 

7 9 13

H&H: Hvað finnst þér um að titla eða útskýra verkin þín?
E: Já, ég tek alltaf einföldustu titlana. Ef það er box á gólfinu þá heitir það bara The Box. Af því ef ég er að reyna að setja of mikla fílósófíu sem er í hausnum á mér akkúrat í þessu mómenti þá finnst mér það þrengja rammann svo mikið af því ég hef ekki almennilega nógu mikla stjórn á því um hvað verkið fjallar. Ég er í rauninni frekar neutral í titlum, hafa það bara opið. Já, þetta er box en ég sé þetta útúr því. Svo kemur einhver annar eftir 10 ár og sér eitthvað allt annað og ég sjálfur líka.

Hef þetta alltaf blátt áfram. Nema reyndar sum verkin, þá eru þau alveg tengd einhverri hugsun. Þá kemur einhver titill sem hefur eitthvað með þá hugsun að gera. Bætir einhverju við verkið. Mörg verkin þurfa ekkert endilega titil og þá heita þau bara það sem þau eru. En til dæmis nafnið Out of Shoes Humans GrowÞá þarf verkið á nafninu að halda.

 Egill hefur verið með vinnustofuna í Berlín frá apríl 2014. Húsnsæðið hafði verið tómt og sjúskað lengi, eigindurnir vildu fá eitthvað nógu líkt prentsmiðjunni sem var þar til húsa áður. Listamaður með hljóð og ljós var nógu nálægt því. Egill býr sér til rými til að vinna á ferðalögum. Í Rio De Janeiro vann hann t.a.m. í skólastofu og leigði sér skúr útí skógi.

H&H: Hefur stúdíóið áhrif á vinnuna þína?
E: Já þessi tegund af stúdíói hefur áhrif. Það er alls konar fólk þarna; þýðandi, illustrator, game developers, plötufyrirtæki, tvö hljóðstúdíó, myndlistarmaður sem málar með olíumálningu. Þannig að þetta er alveg samfélag, maður verður fyrir áhrifum af fólki. Og svo fer það eftir stærðinni, lítið stúdíó = lítil verk. Stærri stúdíó = stærri verk.

H&H: Vinniði saman, þú og fólkið í stúdíóinu?
E: Nei, það er bara að vera ekki einn inn í einhverju rými, inn í hausnum á sjálfum sér, heldur vera í kringum fólk, vera í díalog við aðra. Það er svo góður andi þarna núna. Það er alltaf gaman, frábært fólk. Það hefur samt komið fyrir að við vinnum saman.

Ég vinn alltaf í tölvunni. Þetta var blákalt, útreiknað 1993 þá vissi ég strax að tölvur væru framtíðin og fór strax að reyna að vinna með tölvur. Ég held ég hafi verið í fyrsta photoshopkúrsinum sem var kenndur í Listaháskólanum.

H&H: Er einhver ómissandi hlutur í stúdíóið/sköpunarferlið?
E: Ég er náttúrulega alltaf með vídjóprojektor og tölvu. En ef ég væri ekki með það myndi ég bara gera eitthvað annað. Leira og teikna eins og ég gerði sem unglingur. Í rauninni er bara mjög gaman að vera creative. Vinna bara með whatever. 

Ég hef oft pælt í því að fara bara út á land og vinna með steina og drullu. Sem myndi samt örugglega enda á því að ég tæki ljósmyndir af því og setti það inn í tölvuna… dæmigert.

H&H: Hvar færðu efnivið í verkin þín?
E: Aðallega úr byggingarvöruverslunum, það eru listamannabúðirnar í dag. Alltaf fullt af listamönnum í Bauhaus. Nokkrar góðar í Berlín, Modulor er með alls konar efni fyrir reynda listamenn og arkitekta. Ein sem heitir Just Music sem er með allt tónlistardraslið. Saturn eða Media Markt sem er með allt tölvudraslið. Og svo bara online. Eins og um daginn keypti ég 10 gr af fljótandi gulli til að koma með til Íslands til að setja á þetta.

GULLHRINGUR Í KASSA: TRÖLLIN BJUGGU ÞETTA TIL.ÚR LEIR. GULLHRINGUR. ÞUNGUR.

TRÖLLIN ERU SOFANDI NÚNA, EKKI HAFA HÁTT. BJUGGUM ÞETTA TIL Í STÚDÍÓINU, ANDRI OG SARA BJÖRG.

TRÖLLIN ERU VINIR EGILS.

Ég fékk gulleitrun. Ég var að mála þetta í tvo tíma. Allir voru komnir með grímu en ég tók ekki eftir því. Svo bara var ég orðinn alveg grænn í framan.

 

H&H: Þú vinnur í alls konar miðla. Er ferlið alltaf hið sama?
E: Nei, ég vinn samt mjög mikið intúativ. Þetta er orðið eitthvað haf sem ég syndi í þegar ég er búinn að vera að gera mörg verk þá eru alltaf að koma nýjar og nýjar hugmyndir sem eru tengdar því sem ég hef verið að gera.
Ég skissa alltaf mjög mikið, stundum fæ ég alltof mikið af hugmyndum, kannski fimm á einum degi og þá skrifa ég þær niður og geymi þær í möppu.

…set eina hugmynd í sína möppu jafnvel, ef hún lifir svo lengi. Og svo er ég bara að bæta við í hugmyndina í 3-5 ár. Tek hana fram og vökva hana. Er með ansi margar þannig möppur.

H&H: Er einhver þráður í gegnum verkin?
E: Það er eitthvað alveg uncontrollable. Ég hef enga stjórn á því. Ég geri bara það sem mér finnst skemmtilegt að gera.

H&H: Lítur þú á tónlistina þína og tónlistarmyndbönd sem gjörninga? Er það gjörningalist?
E: Sko, ég er nýbyrjaður að geta séð sjálfan mig sem tónlistarmann. En ég held ég sé alvöru tónlistarmaður og myndlistarmaður. Ekki gjörningalistamaður. Ég hef samt gert fullt af performönsum. Mér finnst ég vera aðallega myndlistarmaður. Sem er að gera tónlist líka.

H&H: Utan frá séð ertu alveg pottþétt bæði myndlistarmaður og tónlistarmaður. Það er leyfilegt.
E: Já er það? Það er bara gaman. Eftir að hafa gefið út nokkra diska þá finnst manni maður aðeins vera meiri tónlistarmaður.

Fyrsta platan, Tone of The Lawn kom út árið 2000. Egill bjó líka til plötu árið 1998 sem hann gerði bara heima hjá sér, The International Rock and Roll Summer of Egill Sæbjörnsson.

 

H&H: Er munur á því að gera vídjó og setja tónlist undir eða búa til tónlist og setja vídjó undir?
E: Þegar ég var í Mynd- og hand þá var tabú að setja tónlist við myndböndin. Þá var það bara tónlistarmyndband. Þá varð ég náttúrulega að gera það. Af ég þoldi ekki þessa minimalista kennara. Ég reyndi að gera allt sem var í hina áttina; vera með heimskulega brandara, ekki vera serious; gera popptónlist. Til dæmis spilaði ég Obbladí Obblada eftir Bítlana á nælonstrengjagítar árið 1996, þá var enginn að gera þetta. Fannst það vera mest radical sem hægt væri að gera. Rosalega bjánalegt og þorði því varla. Allir voru að gera svo alvarlega, úthugsaða, innihaldsríka performansa. Og allt bannað. Nælonstrengjagítarar voru hallærislegir og popptónlist átti definitely ekki heima í listasafni. Hvað þá þetta sykursæta lag eftir Bítlana! OMG. Hallæri dauðans. Lét samt vaða…

Það var það hallærislegasta sem hægt var að gera en samt það besta sem gat komið fyrir.

Ásmundur Ásmundsson, Paul McCarthy og Richard Prince höfðu mikil áhrif og voru öðruvísi en Ingólfur og Tumi og allir þessir minimalistar og konsept listamenn. Hallgrímur Helga líka, með því að blanda öllu saman, cartoon og útvarpi og að hafa skoðanir.

Nú bíð ég bara eftir því að unga kynslóðin sendi okkur grín- og popp listamönnunum löngu töngina. Það er komið nóg af þessu helvítis kjaftæði.

E: Halldór Björn Runólfsson sagði við okkur í listasögutíma að ef við spörkuðum ekki í rassinn á eldri kynslóðum þá kæmumst við ekkert áfram. Ég reyndi bara að taka hann á orðinu. Ég hef trú á ungu kynslóðunum sem eru að koma. Það er bara tölfræðileg líkindavísindi að nú sé sterk kynslóð að útskrifast. Annars veit ég ekki neitt.

Ég er bara að giska, alltaf að giska. Maður verður að giska hátt og breitt, eins og blóm sem brýst upp úr moldinni að vori leitandi að ljósi sólarinnar.

H&H: Þú þráðir að sjokkera í den?
E: Já alveg grimmt. Ég gerði náttúrulega mjög mikið hneykslunarverk árið 1998 á Kjarvalstöðum á sýningu með listamönnum undir þrítugu og yfir sextugu, -30/60+: Sjálfsfróunarverkið. Ég var nýkominn útúr Listaháskólanum og mér leiddist svo mikið á vinnustofunni svo ég tók upp á vídjókameru þegar ég var að fróa mér. Mér fannst allt vera svo safe, ekkert mannlegt. Ég bjó til falska veggi með speglum og einhverjum plöntum og fólk sá bara flotta innsetningu en svo gat verið einhver sem gat verið hinum megin við vegginn að horfa á þig. Elke Krystufek var nýbúin að vera að fróa sér með míkrófón á opnun fyrir framan eitthvað fólk. Mér fannst það geðveikt.

Þetta var á undan öllu þessu internetklámi þar sem umræða um kynlíf fór á annað stig. Þar á undan tjáði fólk sig lítið um þessi mál.

Ég hoppaði fram af einhverri fjallsbrún og lenti ekki fyrr en eftir mörg ár. Orðstírinn fór bara… allar frænkurnar sáu þetta. Ég verð aldrei neitt á Íslandi!

 

H&H: Er ekki öll umfjöllun góð umfjöllun?
E: Þetta var rifið niður í tætlur. Þetta var einhver athyglissýki í mér. Mér finnst ekki endilega að fólk þurfi að sýna og segja allt sem þau eru. En núna finnst mér svo frábært hvað samfélagið fjallar mikið um tilfinningar, fólk er að koma út úr skápnum á netinu, tala um kynferðisofbeldi, einelti… samfélagið núna er miklu meira eins og ég hafði kannski áhuga á þá. Ég tengi mikið við eins og það er í dag. Ég vildi hafa allt svona out in the open. Að alast upp á Íslandi er auðvitað innilokun. Ég var ekki að höndla það.

Í dag hef ég ekki þessa þörf. Sumt er ég alveg til í að tala um, en ekki allt.

Þetta voru bara verk til að brjóta ísinn. Það voru allir bara að hengja ramma upp á vegg eða setja á stall og tala um það. Enginn að riskera. Mér fannst það ekki, kannski var það vitleysa. Maður var svo arrogant, kannski var fullt af fólki búið að gera allan fjandann.

H&H: Segðu mér frá The Bakery, sem þú vannst með sýningarstjóranum Annabelle von Grisewald.
E: Já það er tilraun til að gera eitthvað annað en vidjóin. Innsetningarnar. Ég fór purely eftir instictinu, ég var með fascination fyrir bakaríum, búinn að vera með það lengi. Ætlaði alltaf að gera bakaríverk. Svo fyrir 10 árum, þá ætlaði ég að leigja tóma búð í Berlín og vera inn í henni í svona mánuð og búa til plöntuskúlptúra, allskonar plöntur, fantasíuplöntur og fleira.

Bjóða til dæmis Ólafi Elíassyni að koma til mín að föndra plöntu, eitthvað sem hann gerir aldrei.

Svo myndi þetta heita bara plöntubúð og enginn myndi vita hvort þetta væri gallerí eða plöntubúð eða hvað.

Bakaríið/The Bakery var della tvö. Þá langaði mig líka að selja brauð. Selja sum brauðin á 50 kr og hin á 10.000 kr. Svo gætirðu fengið kaffi með og það myndi alltaf sullast geðveikt mikill rjómi upp úr kaffinu. Overflowing eitthvað. Stórar rjómatertur. Bjóða vinum að koma að gera kökur. Kökur myndu hrúgast upp.

Þróaðist þannig að við vorum með opinn event og fólk kom og var að búa til fantasíu brauð úr leir. Komu kannski 100 manns svo það er til slatti af þessu. Þróaðist síðan svo að það voru þemu í hvert skipti eins og hér á Íslandi um daginn vorum við að gera arkitektúr úr brauði, pælingin var sú að vegna þess hver hreinn og beinn arkitektúr er, kannski útaf tölvunum, þær gera allar línur beinar. En með brauði bólgnar það upp og verður lífrænna. Frjálslegt projekt.
Við höfum aldrei selt neitt. Geymum alltaf allt. Fólk þarf að skrifa undir samning að við megum sýna dótið sem það býr til en það fær alltaf eitthvað í staðinn. Geri kannski eitthvað við þetta.

H&H: Hefurðu upplifað raunverulega þörf til þess að skapa?
E: Já mér finnst oft þegar ég er með einhverjum… ég hef rosalega mikla þörf til að skapa oft. Bæði tónlist og myndlist. Hvenær sem er, ekki alltaf samt. Samt ekki sköpunarstífla. Ég er alltaf að gera eitthvað, á hverjum degi. En mér finnst líka rosalega gott að gera ekki neitt, er oft feginn að koma heim. Ég held ég sé ekki vinnualki. Ég get tekið dag og slakað á.

H&H: Fylgistu með listasenunni í dag?
E: Ég geri það. Reyni að fylgjast með yngstu kynslóðinni.

Ég er 43 ára og ef maður þekkir engan sem er 23 ára veit maður ekki hvernig heimurinn slær.

 

Þegar maður var yngri var maður alltaf rosalega mikið að tékka á öllu, fólk er meira með nýjar upplýsingar, þegar maður verður eldri er maður með hrúgu af einhverju alls konar drasli. Ég hef mikinn áhuga á sögu líka og finnst gaman að lesa um eitthvað eldgamalt drasl til þess að fá samhengi.

H&H: Snýst meira um fólkið sjálft – frekar en að fara á listasýningar?
E: Já kannski, ætli það ekki. Þetta er allt rosalega óplanað. Mikilvægara að hitta fólkið en bara að sjá verkin. En svo finnst mér margt flott sem fólk er að gera í dag. 

 

H&H: Hvernig er að fylgjast með breytingum á íslensku samfélagi úr fjarska?
E: Á Íslandi er massívt listasamfélag. Sat með Stefanie Böttcher (kúrator Feneyjarverks Egils), sem er að vinna með mér og var hér í nokkra daga. Sátum á Kaffi Vinyl og maður þekkir svo marga. Þá sá ég það í gegnum hana hvað það er magnað, hvað að eru margir sem eru nálægt, á sama stað, að vinna með tónlist eða myndlist eða eitthvað. Það er ekkert eðlilegt. Ef þú ert bara í einhverri borg þá er þetta miklu strjálla, mér finnst vera svo mikið af tónlistarmönnum og myndlistarmönnum hér. Á litlu svæði, það er bara svoldið merkilegt. Óviss um að það verði alltaf þannig.

H&H: Enda verið að traðka svolítið á því.
E: Já með hárri leigu og svona meinarðu? Það er það sem að gerist í öllum borgum. Allar borgir sem eru eitthvað listrænar deyja alltaf útaf hærrri leigu. Grandinn að verða dýrari meira að segja.

H&H: Fílaru Berlín betur en Rvk?
E: Nei

H&H: Er eitthvað listasafn eða gallerí á Íslandi sem höfðar meira til þín en önnur?
E: Ég dýrka Nýlistasafnið, það er mamma myndlistarinnar. Nýútskrifaðir, ekki útskrifaðir, heimsfrægir. Allir geta komist að og sýnt þar. Kling og Bang er jafn mikilvægt. Ég man þegar Erling (Klingeberg) fékk listamannalaun og byrjaði þetta.

H&H: Hefur þú fengið listamannalaun?
E: Já, oft. Það er mjög gaman. Maður er alltaf að vinna á hverjum einasta degi. Ég gæti ekki hafa lifað af án þeirra, þau halda mér uppi. Ég hef líka fengið styrki í Berlín.

H&H: Skiluru gagnrýnina á listamannalaunin?
E: Já, ég get alveg skilið það. Fólk sér ekki pointið. Það er svo eðlilegt að fólk sjái ekki alltaf alla myndina. Fólk líður skort og finnst að það ætti líka að fá hjálp. Þannig að ég skil það mjög vel.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem myndlistin þín hefur kennt þér?
E: Að treysta á sitt innsæi. Fara eftir því sem maður finnur er rétt. Það er ekkert rétt eða rangt, maður býr það soldið til þegar maður fer að vinna í því. Er ég búinn að eyðileggja svarið? Það er mikilvægt fyrir mig að standa með hugmyndinni minni. Þegar þú berst fyrir hugmynd þá færðu einhvern styrk og það stækkar. Í staðinn fyrir að vera i ótta um að gera ekki gert eitthvað, það lamar.

H&H: Hvað myndum við borða ef við kæmum í kvöldmat?
E: Það er mjög einfalt. Soðinn fiskur og kartöflur og hamsatólg. Ég er með hamsatólg inní ísskáp. Myndi samt bjóða uppá smjör með. Hamsatólg er bara bráðin lambafita. Skinnið og fitan undir hryggnum, mér finnst það svo gott.