Menu & Search

ERLA ÞÓRARINSDÓTTIR

ERLA ÞÓRARINSDÓTTIR

Hillbilly sótti Erlu Þórarinsdóttur heim í björtu og fallegu íbúðina hennar áður en þær röltu niður á vinnustofuna. Hillbilly man eftir Erlu síðan í æsku og minningarnar samanstanda af smitandi brosi, þunnum hoops-eyrnalokkum og auðvitað rauðu hári. Erla tók að sjálfsögðu brosandi á móti Hillbilly og bauð í Aperol Spritz, drykk sumarsins.

Á miðju borðstofuborðinu stendur vasi með nokkrum eldrauðum rósum.

E: Svo sjaldan sem maður fær rauðar rósir.

H&H: Ja, talaðu fyrir sjálfa þig…. Hver var að gefa þér?

E: Æj það var vinur frá New York, hann var svoldið drukkinn á laugardaginn og ég hugsa að honum finnist hann hafa farið yfir strikið.

Samviskurósir?

E: Já, eða kannski líka bara að þora að þykja vænt um aðra.

H&H: Var myndlist í kringum þig í uppeldinu?

E: Já, eða það var alltaf verið að gera eitthvað.

Ekki endilega kallað list. Mamma og amma hekluðu og saumuðu allt, voru alltaf með eitthvað milli handanna. Föðurmegin var meiri myndlist – var út um alla veggi, Kjarval og fleiri. Maður fattar það ekki fyrr en maður er orðinn fullorðinn. Það er rosa gott að hafa fengið að sjá svona verk.

H&H: Lærðirðu myndlist?
E: Já
H&H: Hvernig kom það til?
E: Af því ég fór ekki í læknisfræði!

H&H: Langaði þig í læknisfræði?
E: Það stóð bara alltaf til.

Ég þurfti að gera mér heimsmynd.

Það varð allt í einu rosalega mikilvægt og nauðsynlegt, að gera mitt.

H&H: Finnst þér mikilvægt að hafa lært?
E: Já, það er rosa gott. Góðir referansar, að hafa fengið tíma.

Ég hefði sennilega ekki verið karakterinn að geta staðið undir því án þess að hafa fengið þennan tíma í skóla.

Erla ólst upp í Svíþjóð og og nam í undirbúningsskóla í Gautaborg og fór síðan í háskólanám við Konstfack í Stokkhólmi sem var Bauhaus skrúktúreraður skóli og fólki skipt upp eftir efni sem það vann með.  Það var eitt sameiginlegt grunnár og síðan valdi fólk efni — Erla valdi textíl.

H&H: Fórstu í skiptinám þaðan?
E: Já, til Rietweld. Það var rosalega mikilvægt. Það fyndna við Rietweld – ég var alveg sænsk en ég kynntist öllum Íslendingunum þar. M.a. Gerlu – við bjuggum í sömu götu. 

Ég var með heimilisfangið hjá Rúnu Þorkels og rúllaði niður götuna og bankaði upp á, kynnti mig „ég heiti Erla, er Rúna við?“ Þá svaraði Gerla, „nei, en ég heiti Guðrún Erla.“ Svo var mér boðið inn í mat!

H&H: Unnuð þið Gerla eitthvað saman í skólanum?

E: Við vorum auðvitað saman — bara að umgangast. Og svo unnum við saman stórt verk fyrir Ráðhús Reykjavíkur 1991-92. Þá var komin sterk feminísk bylgja. Það var erfitt að vera kven-myndlistarmaður. Það þurfti einhverjar fyrirmyndir — konur í myndlist, þetta voru ekkert margar.

Sennilega var öll okkar kynslóð voða mikið að leita sér að fyrirmyndum.

Við erum svona feminískt meðvitaðar. Lesum mikið, skoðum myndlist eftir konur, verðum bara meðvitaðar. Svo fór Gerla heim og tók þátt í Kvennalistanum og ég fór aftur til Stokkhólms.

H&H: Og klárar þar?

E: Já, og byrja að vinna. Og byrja þá strax að skilgreina þetta – hvað konan er og hvað hún getur verið. Það var alveg það fyrsta – ég bara varð.

Maður verður að hafa sjálfsmyndina í lagi, þú veist, í myndlist.

H&H: Já, líka bara fyrir sjálfa þig.

E: Fyrir mig, já og ég held fyrir allar konur. Pældu í þessu, konur voru ekkert mikið að hefja rödd sína. Ég var að lesu um Hilmu af Klint, í katalógi frá Stokkhólmi í síðustu viku og það er intressant hvernig er verið að fjalla um hana — er hún medíal, er hún listamaður, er hún abstrakt pioneer? En það er eitt sem bent er á að á hennar tíma þá opnuðu konur ekki munninn. Það voru margar sem voru medíal — þetta er ekki ég.
Það er einhver sem talar í gegnum mig. Það er allt annað. Þannig að það var eitthvað tímanna tákn.

Það er svo stutt síðan konur fóru að standa upp og vera með rödd. Manni finnst það sjálfsagt, en það var það ekki.

Oft þurfti maður að búa sér til sterkari kvenímynd. Það var alveg svona fyrsti gjörningurinn – þá var ég að stimpla, allt sem byrjar á F, hvað kona getur verið. Fantastisk, futuristik, flexíbel, það var allt svona, fotokenisk og feminin – að sjálfsögðu.

H&H: Þú hefur unnið mikið með kvenleg form á þínum ferli…
E: Mjög sennilega. Ég hef málað svo mikið, það er svo fýsíkt, þá kemur þetta kvenlega í gegn.

H&H: Já, bara í gegnum þig.
E: Já, það gerir það. Það er ekkert hægt að fara frá sér.

H&H: Það er svoldið flott.. gera kvenleg verk af því að þú ert kona. 
E: Er það ekki bara svoldið beisik? Eitthvað rosalega sjálfsagt.
H&H: Auðvitað. Fallegt.

H&H: Það var samt ekkert talað um þetta í náminu þínu, eða hvað?
E: Nei, en það var gott að fara til Hollands, í fyrsta lagi af því að ég var ein í fyrsta skipti í einhverju landi þar sem ég kunni ekki  tungumál og hafði engin tengsl. Og líka að þeir voru með einhvernveginn öðruvísi hugsun, þannig að maður endurraðar sjálfum sér. Maður þarf bara að gera sitt — hvað get ég orðið byrjaði allt í einu að skipta máli, frekar heldur en hvað þetta væri.

Og hver nennir alltaf að vera að gera skúringartusku realisma, eins og þetta var kallað þá? Það þurfti að gera eitthvað annað. Þarna kemur líka allt pönkið. Maður fékk leyfi til að gera það sem maður var að gera.

H&H: Góður tími til að vera til. 
E: Já, skemmtilegur tími í raun og veru.

H&H: Var munur á kennslunni í Stokkhólmi og Amsterdam?
E: Já, svo transparent í Rietweld, það eru engin veggir, bara gler. Maður gerir allt fyrir opnum dyrum. Og miklar kröfur. Svíarnir hvetja mann áfram og ég fékk alltaf eitthvað aukaleyfi því ég var Íslendingur þrátt fyrir að ég væri með sænskahugsun. En í Rietweld var fólk bara rekið úr skólanum ef það stóðst ekki lágmarkskröfur, jafnvel á fjórða og fimmta ári. Góður lærdómur.

Einhvernveginn held ég að maður geti meira en maður heldur stundum. Að pressa sig upp á næsta stig og áorka meiru.

 

Það hentaði mér rosalega vel. Að fá svona kröfur á mig. „Ok þú ert með sýningu hérna og afhverju ertu að gera núna þríhyrning en þú varst að gera ferning í síðustu viku?“ Ágæt spurning – að þurfa að svara og standa fyrir sínu, gera sér ljóst hvað maður væri að gera.

Erla og Hillbilly velta fyrir sér hvort nemendur Listaháskólans myndu höndla slíkan Rietwelt-þrýsting.

H&H: Svoldið bara survival of the fittest?
E: Já, það var kannski einhver grátandi og einhver kom og sagði „þér finnst kannski skrítið að við séum að henda út manneskju á fjórða ári, en hún er bara búin að vera að prjóna og skólinn setur ekki nafn sitt á svona.“

H&H: Eru þeir þá ekki að framleiða svoldið „Rietwelt listamenn?“
E: Það er pínu kannski. Er það ekki þannig með alla skóla – kennararnir hafa mentalíitet skólans, sem setur mark á nemendurnar.

H&H: Já akkúrat. Líka aðrir skólar – Harvardlærður lögfræðingur eða eitthvað… 
E: En svo er líka svona viss… skólinn lítur stórt á sig og hefur einhvern góðan grunn og góða kennara að það sé hægt að kenna og hafa ofsalega mikið leyfi. Sérstaklega að vinna með efni sem voru svo rosalega „hættuleg“ í Svíþjóð. Allt svo „eitrað og hættulegt“.

H&H: Hvernig hefur gengið að lifa á listinni?
E: Stundum vel, og stundum bara veit ég ekki hvernig. Alla vega.

H&H: Hvar vinnurðu?
E: Ég er með vinnustofu á Seljaveginum, SÍM. Búin að hafa hana alveg síðan húsið opnaði 2006. Það er rosa gott að hafa vinnustofu. Ég er að vinna með efni, terpentínu og olíur, þannig að ég þarf að geta lokað á eftir mér og farið út.

H&H: Eru þau hjá SÍM frekar líbó?
E: Já, það hefur ekkert verið, eina er að það má ekki reykja. Við sem reykjum, við bara gerum það pent. Ég er á jarðhæðinni líka og get opnað út.

Ég er meira að segja með eigin inngang. Svo ég get farið inn án þess að nokkur sjái.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?
E: Sko, ég teikna rosalega mikið. Ég er alltaf með einhverjar skissubækur í gangi. Ég var að taka til í vetur og var alveg gáttuð á hve margar ég ætti. Ég vissi ekki að ég ætti svona mikið af skissubókum! Ég ausi voða mikið upp úr mér. Reyni að vinna útfrá myndrænni hugsun — og síðar að útskýra hvað ég er að vinna með. En svo finnst mér líka frá einu verki kemur annað eitt af öðru. Þetta eru oft á tíðum syrpur, stundum 12 verk. Ég hef aldrei gert fleiri en 12. Það er voða fínt, þá er ég komin með body of works og kann þetta. Svo bara ákveð ég að hætta. Gera eitthvað annað. Endurtaka mig ekki meir.

H&H: Upplifirðu kannski hina frægu sköpunarstíflu?
E: Ég virðist vera manneskja sem er jafnt og þétt að, ég fer gjarnan á vinnustofuna á hverjum degi. Nei, ég upplifi ekki stíflur. En ef ég finn eitthvað „ugh hvað þetta er leiðinlegt“ þá veit ég að það er eitthvað að. Þá þarf ég bara að gera eitthvað annað, stokka upp.

En ég lærði mikið handverk, t.d. að prjóna þegar ég var lítið barn. Svo ég held ég hafi þróað með mér þörf til að vera að gera eitthvað með höndunum. Get ekki prjónað eftir uppskrift, þarf bara að gera – það er eitthvað sem er í manni.

Ekkert planað og svo fara að vinna einhvernveginn. Ég er kannski með einhverja hugmynd, fer og kaupi nýja liti og þannig, og svo tekur það yfir og þá þarf ég bara að hlusta og vinna það áfram.

Ef þetta verður leiðinlegt þá er þetta hætt að vera leikur, þetta á að vera leikur.

Stundum finnst mér myndlistin eina leiðin, hún er svo stikkfrí, svo mikið fyrir utan, með svo mikið leyfi. Það er frelsi innan myndlistarinnar, maður hefur leyfi til að prófa allt, gera allt.

Það er hægt að taka allt inn í myndlistina, og maður fær að vera svoldið fyrir utan. Vera sjálfstæð manneskja. Vera alvöru manneskja. Þetta er í raun og veru síðasta vígið — að fá að vera alveg frjáls. Svoldið stórt orð kannski.

 

H&H: Það er mikilvægt fyrir þig að þetta sé fýsískt, t.d. á striga eða í skúlptúr?

E: Það bara hentar mér sko, mér finnst líka gaman að dansa. Að verkið sé tótalt. Það sé allt í því, að það heyrist, sést og eitthvað snudd, eitthvað sálarefni. Mér finnst það skipta máli, já.

Verk sem eru alveg clean, intellectual. Ég get skynjað þau ágætlega, en ég elska þau ekki. Það er annað að horfa og að meðtaka alveg.

Þetta er í hausnum á okkur. Ef ég geri verk þá veit ég ekki hvernig þú bregst við því. Er það þá þegar verkið er orðið það sjálfstætt og hefur eitthvað eigið líf að það er komið langt frá mér, að það er orðið sameiginlegt? Ekki of prívat. Komið út í almenna rýmið, þessar sameiginlegu tilfinningar. Hver er að taka við verkinu?

H&H: Hvenær verður listaverkið til?

E: Það er misjafnt, maður getur verið með eitthvað í hausnum sem maður gerir en svo virkar það ekki. Það er tilbúið þegar það fer að virka. Svo hef ég líka stundum vaknað með einhvern draum, alveg skýra sýn og geng bara beint til verks og geri það. Þá er það ekki mitt að segja hvort það sé að virka eða tilbúið, það er bara satt.

Hvenær virkar verkið? Það er ekkert endanlegt svar við því.

Svo getur verið eitthvað sem er í gangi sem virkar ekkert og maður leggur það frá sér. Svo eftir einhvern tíma þá er allt í einu komin einhver virkni. Það er furðulegt. Hvað er það?

H&H: Verkið getur bara brugðist við. Eins og flotta kvótið frá þér — Líkaminn bregst við áhorfi.

E: Já! Kannski eru verkin svoldið eins og líkaminn.

H&H: Með einhverja mannlega eiginleika í sér.

E: Svo eru svo mismunandi verk. Tilfinningar eru líkamlegar ogþað kemur út í svoleiðis – líkamlegum vinnurögðum, og verkunumsem maður vinnur. Og á meðan að maður er bara að hugsa þetta, þá kæmi það ekki, þá væri það ekki fýsískt, þá væri það einhvernveginn þurrt, öðruvísi.

Svo fer verkið út fyrir landsteinana, í annað umhverfi, þá umturnast það líka. Eins og vín sem fer yfir miðbaug og bragðast öðruvísi. Það er eitthvað sem gerist. Við höfum ekkert orð yfir það. En eðli efnisins breytist. Komið í annað samhengi.

H&H: Fylgistu með Íslensku senunni?

E: Já, það er bara svoldið spræk sena. Ýmislegt að gerast. Í margar áttir. Svoldið fjölhæft. Ekki bara eitthvað eitt. En það væri ekkert samfélag án listamanna.

Við spjöllum aðeins um LHÍ. Erlu þykir mikilvægt að fara til útlanda í master vegna þess að fólk missir af þeirri upplifun ef það fer í master hér á landi. Masterdeildin í LHÍ er kannski ekki upp á nógu marga fiska heldur. Erlu finnst mikilvægt að sjá heiminn. Hún var auðvitað heppin að alast upp í Svíþjóð með íslenska foreldra og er því tvítyngd.

E: Það opnast einhverjir möguleikar inn í hausnum, ef þeir geta verið svona, svona og svona, þá geta þeir verið allavega. Það er ekkert bara eitthvað eitt. Ísland er eitthvað upphaf, svoldið heilagur staður, og það verður eiginlega ennþá meiri þörf á að ná í einhverja sammennsku. Ég hef dvalið í Kína, Finnlandi, Sevilla, það er eðlislægt fyrir mig að ferðast og ég er svaka aðlögunarhæf. Afþví ég þurfti að gera það svo snemma.

Svo treysti ég ekki á orð. Það er eitthvað lókal. Fólk er alls staðar eins, fólk brosir alls staðar eins, og teiknar sitt. Það er haldbærara en tungan. Maður lærir rosalega mikið í Kína, það er alger núllstilling. Því maður skilur ekkert hvað er skrifað eða lesið. Bara hjarta við hjarta.

H&H: Hvað varstu að gera í Kína?

E: Fór fyrst í gestavinnustofu hjá Chinese European Art Center sem er í Xiamen. Var þar í fjóra mánuði. Það er mikill raki þar, þetta er svo sunnanlega, að það var voða lítið hægt að mála. Ég ákvað að koma á núllinu,  gera það sem kæmi til mín. Svo var ég farin að teikna mikið. Átti að halda sýningu eftir þrjá mánuði, svo varð ég strax mjög áhugasöm um steinverk.  Þeir eru svaka flinkir í steinvinnu. Það var svo stutt í að yfirfæra myndmálið sem ég var að vinna með í þrívídd að ég byrjaði á því. Svo var svo gaman að ég þurfti að fara aftur og vera aðra mánuði. Og ég fór í nokkur skipti fram að hruni, þá kláraðist þetta og ég komst hvorki land né strönd í nokkur ár.

Þá hélt ég sýningu, 2006 í Aníma. Öll verkin seldust. Þetta var svona fyrir hrun, öll þessi læti. Eitthvað tímabil. Ferlega fyndið.

H&H: Smá þefur af þessu núna. (2017) Það er smá uppsveifla. Tekur þú eftir því?

E: Já, kannski, maður geri það. Ég sel mest svona eitt og eitt stórt verk og það eru alltaf þungar sölur. En ég verð ennþá hissa þegar fólk sem ég þekki ekki vill fá verk.

 H&H: Þar sem þú lærðir í Stokkhólmi – fannst þér erfitt að koma hingað heim og komast inn í klíkuna?

E: Það er mjög skrítið og galið að yfirgefa sitt bakland. Það sem gerðist var sko, það gekk bara voða vel í Stokkhólmi og ég kom svona inn á réttum tíma. Við vorum nokkur saman sem bjuggum til eigin vettvang og slógum rækilega í gegn. Og mér var boðið að fara til New York, og það var náttúrlega bara tímanna tákn þarna ’84. Það vildu allir til New York. Þannig að ég var í New York í eitt og hálft ár og þannig kem ég til Íslands.

H&H: Afhverju?
E: Það var rosa tough að vera í New York. Og líka,

það að vera í Bandaríkjunum var miklu nær mér í tempramenti sem Íslendingur heldur nokkurn tímann Skandinavía.

Ég nálgaðist Ísland undarlega, í minni eigin veru og vitund.

Og kannski, það var svo mikið dóp í gangi og mikil myndlist allsstaðar í New York. Ég þurfti bara að fara til Íslands, fara aftur í grunninn, hitta fjölskylduna og tjilla aðeins. Og ég meðan ég var hér kviknaði í húsinu okkar í Williamsburg. Og ég fékk þessa hugmynd — annað hvort er ég á Íslandi núna eða aldrei, á ég ekki að eiga einhverjar rætur. Þá var ég líka búin að slíta mig frá Svíþjóð með því að fara til NY. Nú er ég búin að vera að festa rætur hér í 32 ár!

Ég átti auðvitað ekki skólasystkini, en þekkti nokkra íslenska myndlistarmenn sem ég hafði kynnst í Hollandi og í New York. Var ekki alveg velkomin. En þetta var miklu fámennari hópur sem var í myndlist og svo hafði ég sýnt í Nýló ’83.

Svo kynnist maður fólki, og ratar bara rétt. Maður ratar heim til sín.

Hillbilly og Erla eiga það báðar til að hoppa úr einu í annað…

E: Orðið kvennasýning er pínu degrading. Textíl var til dæmis voðalega lélegur stimpill hér áður fyrr, eitthvað föndur sem tilheyrir konum. En textíl er bara flexible efni. Allt sem er ofið saman, hægt að klippa í. Fjöllistadeild. Þetta var rosa leiðigjarnt, þessi þreytta kvennatenging við textíl. En í dag geturðu bróderað, það er miklu betur metið af verðleikum sem einhver þekking og fegurð. Líka möguleikar á frásögn.

H&H: Það er samt ennþá frekar kvenlegt.

E: Það er það.

H&H: Svo er voða töff að vera kona sem gerir karlalega myndlist.

E: Ha! En svo er ekki mjög kúl að vera trukkalessa. Það er svona neikvætt.

H&H: Nei, betra að vera sexí að gera karllæga myndist.

E: En svo eru karlmenn að gera  kvenlegt — að nota þessi teygjanlegu efni.

Þarf þetta endilega að vera eitthvað kyntengt? Getur þetta ekki bara verið list? Sálin er hvorki karllæg né kvenleg. Það er bara líkaminn sem er það.

H&H: En það er gaman að pæla í þessu. Eins og einn íslenskur karlkyns-listamaður sagði, eftir að hafa sýnt myndbandsupptöku af nýfæddu barninu sem listaverk – það væri öðruvísi ef kona gerði þetta.

H&H: Hvernig er týpískur dagur í lífi þínu?

E: Ég vinn á vinnustofunni á hverjum degi eiginlega. Ef ég get. Ef ég er á góðu róli fer ég niður á vinnustofu svona um hádegið og verð kannski, ég vinn ekkert einbeitt meira en í fimm tíma hef ég tekið eftir, þannig að ég er svona alltaf að.

H&H: Hvað ertu að gera fyrir hádegi?

E: Ég vil gera jóga á morgnanna, ég er að sinna einhverjum pósti og símtölum og sjálfri mér. Eitthvað sem þarf að útrétta. Ég geri þetta svoleiðis, það hentar mér.

H&H: Hvað myndiru bjóða í kvöldmat?

E: Akkúrat núna, þá eru rauðbeður í ofninum! Það er svo gasalega gott, að setja rauðbeður í ofninn, smá salt og rósmarín, þá er það geggjað.

Lyktin var sannarlega ljúffeng.

H&H: Hvað er draumaverkefnið þitt?

E: Ég er alltaf voða hrifin af því sem ég kalla svona tótal verk. Sem maður gerir fyrir einhvern fastan stað, og það fær að virka, svo maður aðlagar því að staðnum. Það væri eitthvað sem væri unnið með öðrum. Staðsett verk, unnið með öðrum.
H&H: Með hverjum helst?
E: James Turrell. Mér finnst það hrikalega skemmtilegt.

H&H: Hefurðu ekki gert það?
E: Ég hef gert nokkur svoleiðis. Mér finnst það alltaf jafn gaman. T.d. Fontana á Laugarvatni, steinana. Þá vantaði eitthvað, definition, eitthvað sem myndi einkenna Fontana — að það yrði ekki eins og Bláa Lónið. Þeir vildu að það væri fjölskylduvænt, komust að því að það eru konur sem að ráða hvert er farið og konurnar hugsa um börnin.

Ég var að gera steinverk í Kína og var beðin um að koma með tillögur að einhverju sem væri tengt börnum. Jújú. Og ég gerði einhverjar tillögur, teikningar og þeir vildu fá þetta allt. Og það átti bara að gerast — og vera tilbúið í maí! Og þetta var seint um haust. Svo ég bara rauk til Kína, allt gert, en svo stoppaði allt hér.

En það var mjög skemmtilegt. Það sem ég sá fyrir mér var að gera svona slökunarlandslag. Þá gerði ég frummynd úr leir í skala, eins og þetta væru klettar pressaðir niður einsog eftir ísöldina — þannig að það myndast dældir og maður getur fundið sér stað þar sem líkaminn leggst svona lífrænt ofan í. Dettur ofan í klettinn — eða granítið.

H&H: Færðu frítt í bað í Fontana?

E: Ég fékk það, en ég held það sé liðinn svo langur tími núna að ég er ekki tengd þessu lengur!

H&H: Að  lokum… Ég er svoldið forvitin um Indland. Það er svoldill indverskur blær yfir sumum verkunum þínum. Litirnir og gullið.

E: En frábært, já. Ég fór til Indlands á vegum jóga. Var boðið að koma að taka myndir af skúlptúrum hjá alveg háheilögum manni. Svo áður en ég fór að taka myndirnar þá þurfti eiginlega bara að vígja mig inn í ýmislegt. Svo ég fékk ofboðslega mikið og óvænt út úr því. Fór aftur og aftur. Við erum íslenskur hópur sem förum og hittum þennan mann allavega einu sinni á ári. En núna er hann í Bandaríkjunum og ég sakna Indlands — að borða með höndunum, að dressa mig upp í fjólublátt og gyllt. Allt.

Ég hef alltaf haft rosalega sterkt litarskyn, kannski er það af því ég er rauðhærð eða eitthvað, en ég heyri liti.