Menu & Search

EYGLÓ HARÐARDÓTTIR

EYGLÓ HARÐARDÓTTIR

Hillbilly heimsótti Eygló Harðardóttur í maí á hvíta og bjarta vinnustofu hennar á Seljaveginum. Að vera þar inni var svolítið eins og að vera inní verki eftir Eygló sjálfa. Pappírinn, litirnir og léttleikinn, allt vandlega upp sett eða snyrtilega raðað á vinnuborð. Hillbilly var smeyk um að blæsi inn um gluggann og verkin færu á hreyfingu. Það er bara partur af þessu hjá Eygló. Þennan dag var hún að undirbúa sýningu fyrir norðan og verkin eru að verða tilbúin. 

Myndlist snýst svo mikið um að hafa vit á því hvað er gott og hvað ekki.

H&H: Af hverju fórstu út í myndlist?
E: Það leiddi einhvernveginn bara eitt af öðru. Ég var góð að teikna sem barn og foreldrar mínir sendu mig á námskeið. Það var ekki meðvituð ákvörðun, ég leiddist bara út í þetta.

Einhver er góður í íþróttum, fer að æfa. Ég var góð í að teikna og fór að æfa.

Ég er ekki alin upp í listamannaumhverfi. Hvatinn kom frá sjálfri mér. Það var enginn einn ákveðinn kennari sem kveikti í mér. Foreldrar mínir sendu mig á myndlistarnámskeið, vegna þess að þau vildu ýta undir þennan hæfileika. Svo endaði ég í Myndlista- og Handíðaskólanum.

Ég held maður fljóti ekki eins og korktappi út í þennan geira. Því þótt ég hafi, að mér finnst, ég hafi leiðst út í myndlistina, þá er eina minning mín frá leikskóla, þegar ég var 4 ára, litir og að ég sé að klippa pappír, það sama og ég er að gera núna. Þarna var einhver fókus, tilhneiging sem ég hafði sem barn. Svo var ég heppin að vera leidd áfram og fékk að vaxa þar. Þótt ýmislegt annað gæti hafa komið til greina. Líffræði hefði hentað mér vel, hefði alveg verið til í að læra það líka.

Eygló hefur unnið uppi á hálendi, í þjóðgörðum, sem landvörður í mörg ár. Hún lítur á þá vinnu sem hvíld frá hinni vinnunni, frá æsingnum í borginni. Þegar hún sefur ein í kofa upp á fjöllum, oftast tvo mánuði í senn með ekkert rafmagn, bara ein með náttúrunni sem hún sýgur í sig. 

E: Starfið byggir m.a. á því að fræða ferðamenn um náttúruna. Ég fer í gönguferðir með ferðamenn og þar kemur myndlistin inn í, að skoða, að horfa, að upplifa. Ég þarf auðvitað að kunna staðreyndirnar um staðina en það snýst ekki bara um það. Tíu tíma vinnudagar, alltaf með einhver verkefni, að setja niður stikur, skipuleggja göngustíga, ganga mikið og keyra um og tala við ferðamenn. Það er námskeið fyrir landverði þar sem kennd er jarðfræði, um fugla, plöntur, friðlýsingar og náttúrutúlkun. Skyndihjálparnámskeið og neyðaræfingar eru líka hluti af starfinu. Við þurfum að vita hvað við eigum að gera ef rúta fer á hliðina eða ef einhver fótbrotnar.

H&H: Landverðir eru hetjur. Hvernig er að vera ein í kofa með náttúruna allt í kring? 
E: Ég get alveg orðið brjáluð í svona litlum kofa, ef það er sandstormur í viku (eða kannski ekki alveg viku). En á nóttinni, þá get ég stundum ekki sofið fyrir fegurð, t.d. þegar það er fullt tungl og birtan verður svo ótrúlega falleg á haustin. Ég næ að miðja sjálfa mig, að stilla mig af. Það er kjarninn í þessu; Að raða sjálfri mér upp á nýtt. Einhvers konar hreinsun.

Eygló er með kennsluréttindi og hefur verið að kenna í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hillbilly er forvitin um hvernig manni sé kennd myndlist og hvernig er kennt að kenna myndlist. 

E: Maður er alltaf að læra. Mér finnst ég alltaf vita minna og minna en samt veit ég alltaf meira og meira. Það er rosalega gott að eldast í myndlistinni, að geta byggt á þekkingu,  þekkja efnið sem unnið er með, aðferðir, en auðvitað er maður alltaf að læra, í ferlinu. Ég lærði málun í skóla hér heima og þá byggðist námið mikið á því að vinna, vinna, mála, mála. Stara á málverkið og mála meira og stara og mála, mikill tími fór í yfirlegu. Svo fór ég í framhaldsnám til Hollands, líka í málaradeild, þar var námið mikið sjálfsnám. Þá pantaði ég prófessora, þeir komu og við ræddum málin. Allt öðruvísi kennsla þar en hér heima. En nú hefur námið hér breyst mikið. Ég útskrifaðist auðvitað árið 1991.

Ég hefði örugglega átt vel heima í Nýlistadeildinni á sínum tíma, en hún var mér þá of framandi. Ég er ánægð núna með það að hafa farið í málaradeildina, er mjög þakklát fyir að hafa lært vinnuaðferðirnar sem þar tíðkuðust, þessa svakalegu yfirlegu.

Það var á ákveðnum tímapunkti sem ég tók kennsluréttindin, það var svolítill óákveðins-víbríngur þá með réttindi og kennslu og margir voru að næla sér í þau. Ég tók menntaskólaréttindi í fjarnámi en fór síðan í LHÍ listkennsludeildina því mig langaði að kafa dýpra. Ég hafði verið að kenna litafræði en hafði yfirleitt of lítinn tíma til að sökkva mér ofan í hlutina. Fannst ég vita of lítið og langaði í rannsóknarvinnu. Þá skrifaði ég rannsóknarritgerð þar sem ég skoða bæði eigin listaverk og litafræðikennslu, tvær samsíða brautir sem ég hef ferðast um. Kafaði ofan í litina.
Myndlistin er alltaf númer eitt. En kennslan er líka geggjuð. Finnst orðið áhugavert að ná upp á meðvitundarstigið… hvað sé nám? Ég hef miklar efasemdir um kennsluaðferðir, líka þær sem ég hef sjálf beitt. Endurskoðun er mikilvæg og ef ég held kennslunni áfram, þá langar mig að þróa aðferðirnar.

Hilbilly var svo heppin af fá leiðsögn hjá Eygló á lífsleiðinni og vill skila til hennar að Hillbilly og samferðafólk sé mjög ánægt með hennar aðferðir.

E: Frábært að heyra. Ég trúi á það að gefa rými og hlusta. Það er svo mikill kraftur í fólki. Það er mikilvægt að vera gagnrýninn en ég fatta ekki neikvæða gagnrýni í kennslu, skil ekki út á hvað hún gengur, hún endurspeglar oft manneskjuna sem gagnrýnir. Það er mikilvægt að spyrja spurninga..

Ég spyr fólk yfirleitt ekki álits á því sem ég er að vinna að, en ég hlusta á aðra, samtal er gott, en útkoman snýst ekki um smekk. Þetta snýst um að hver manneskja nái að kjarna sig og vinni út frá því sem hún þarf að gera og verkið kallar á. Það er alltaf eitthvað þarna, þó það framkallist kannski á mörgum árum hjá fólki, en að brjóta það niður finnst mér ömurlegt.

 

Eygló finnst málningakrukkurnar svo fallegar en þessar tilteknu krukkur eru þó ekki á leið í sýningarsal. „Þegar verkið er farið að keyra sig sjálft, þá þarf ég oft að hafna því sem lítur mjög vel út.”

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni? 
E: Ég lifi óbeint af listinni, hef aldrei ætlað mér að lifa beint af henni. Treysti sjálfri mér ekki alveg í það. Hef fengið starfslaun sem ég er mjög þakklát fyrir og svo er ég að kenna og hef verið í landvörslu. En ég hugsa aldrei verð á verkin mín. Ég leigi rándýra geymslu fyrir allt dótið og ég er alveg sátt við það. Þetta er val.

Bókaútgáfan ‘uns er að fara að gefa út bókverk eftir mig og ég fékk góðan styrk frá Myndlistarsjóði og Myndstefi til þess. Allt hjálpar. Það er mikil vinna að sækja um en það getur borgað sig. En ég á mér ekki draum um að vera í galleríi. Það er ekki minn draumur, maður verður svoldið að vita hvað maður vill, hvað skiptir mann máli. Það er erfitt að finna útúr því vegna þess að starfsumhverfið á Íslandi er svo skrítið, ekki auðvelt. En ég verð bara að finna mína leið í því.

Jarðvegurinn á Íslandi er ekki allstaðar svo góður, svo að falleg blóm geti vaxið. Við, fólkið, erum bara eins og náttúran, það getur verið erfitt að vaxa.

E: Fyrir nokkrum árum síðan kom tilfinning hjá mér; „Hvernig ætla ég að passa inní samfélagið?“ Sem myndlistarmaður hafnar maður ákveðnum lífstíl.

Um leið og fólk kynnist vinnunni sem liggur á bakvið það að vera myndlistarmaður áttar það sig á því að þetta er ekkert hobbí eða grín.

H&H: Hvað finnst þér um að titla, eða útskýra verkin þín?
E: Einu sinni vildi ég ekki hafa titil á verkum. Núna set ég titil á allt, fyrir bókhaldið. Fáránlegt að vera með verk án titils: „mmmm.. án titils 2007“. Ég titla til þess að merkja verkin mín, muna eftir þeim. Titlar eru samt ekki heilagir þótt það taki stundum rosalegan tíma að finna þá, pæla. En mér finnst það þess virði.

E: Fyrir sýningu í Skaftfelli þá tók ég bara kennileiti úr verkunum.

Eitt spjald: Eitt.
Tvær einingar: Tvö.
Þrjár einingar : Þrjú.
Fjögur horn: Fjögur.

Núna set ég titil á allt, fyrir bókhaldið. Fáránlegt að vera með verk án titils: mmmm… án titils 2007.

H&H: Hvað hefurðu verið lengi hérna á Seljavegi?
E: Einn mánuð. Vinnan mín er mikil stúdíóvinna, ég var með æðislega vinnustofu í Súðavogi (á vegum SÍM, en henni var lokað í febrúar). Ef ég hef ekki vinnustofu fer ég á taugum. Þá get ég ekki unnið. Ég er með vinnuherbergi heima sem er 12 fm. Meira eins og skrifstofa.

H&H: Hefur stúdíóið áhrif á vinnuna þína? Verkin, sköpunarferlið?
E: Já. Þegar ég var með stóra vinnustofu, 50 fm, vann ég öðruvísi, stækkaði verkin, hafði betri yfirsýn. Mér finnst mjög mikilvægt að þeir sem það þurfa, hafi góðar vinnustofur. Ómissandi er efnið, pappírinn og litirnir. En svo er rýmið til að vinna í einnig ómissandi.

Í núverandi vinnustofu hefur Eygló málað gólfin hvít. Og telur birtuna, sjóinn, himininn hafa áhrif. Og staðsetning skiptir líka miklu máli.

H&H: Hvernig er sköpunarferli? Alltaf eins? Sami þráðurinn?
E: Það fer eftir samhenginu. Ég vinn alltaf sérstaklega fyrir sýningar eða verkefni. Verkin þurfa að mynda einhverja heild. Þessi sýning sem ég er að vinna fyrir núna ber titilinn Nautn. Hausverkur að pæla í því. Gildishlaðið hugtak, sem fékk mig til að kafa ennþá lengra í efnistilraunum og finna nautnina í því að vinna verkin.

Eygló vinnur út frá verkefninu hverju sinni, kveikjan er yfirleitt einhver spurning. Spurningin er til að keyra áfram einhverja stefnu, en stundum gerist eitthvað allt annað en hana langaði til að gera. Vegna þess að niðurstaðan er ekki endilega ákveðin. 

H&H: Þú vinnur líka mikið með lífræn efni sem stjórna sér sjálf…
E: Það getur verið alger vandræðagangur! En ég ákvað fyrir nokkrum árum að vinna létt og meðfærileg verk sem ég kem í bílinn. Vil geta verið sjálfbjarga. Svo get ég líka byggt upp stærðir með einingum, frekar en eitt stórt verk. Nokkur lítil sem raðast saman.

Uppsetningin verður að hafa tilgang, verður að hafa ástæðu til að vera þarna, annars fer það bara, fær ekki að vera með.

H&H: Hvar færðu efnivið í verkin?
E: Úr byggingarvöruverslunum, þessa dagana er ég að prófa að nota sandpappír. Og svo búðum sem selja efni fyrir listamenn. Svo ef ég kemst í góðar búðir í útlöndum. Svo áskotnast mér oft hlutir. Fer til pappírsinnflytjanda, kaupi mikið af pappír í einu, stundum fæ ég rúllur, restir, afskurð frá prentstofum.

H&H: Það er eins og verkin þín séu mjög vandlega sett saman en á sama tíma eins og þau séu viðkvæm, brothætt.
E: Það er ekki endilega meðvitað, ég skil oft lítið í þessu sjálf. En ég hef ákveðna tilfinningu fyrir því hversu fast hlutir mega vera festir saman. Einhver hreyfanleiki þarf kannski að vera í verkinu. Það að pappírinn sé oft hangandi í verkunum, ekki innrammaður er af því ég nota pappír sem skúlptúr.

Svoldið eins og lífið, rosalega viðkvæmt allt saman. Eins og ég upplifi lífið, þó ég ætli ekkert að sálgreina sjálfa mig. Lífið er ekkert öruggt, lítil festa.

E: Já þegar ég var ég að vinna að sýningu í Kúlunni í Ásmundarsafni vann ég í Myndhöggvarafélaginu og vann mikið fram á nótt. Fór í yfirsnúning og allt varð svo tært og ég var alveg sannfærð um það að ég væri að deyja. Þessi tilfinning; að ég ætti svo lítið eftir, að ég væri að fara að deyja bráðum…

Enginn ótti, bara að ég gæti alveg eins dáið bráðum. Þetta er sköpunargredda, mómentið er núna.

Og þessi tilfinning kemur stundum. Ég hlakka alltaf til að koma hingað í vinnustofna, þessi sterka þörf og forvitni. Ég verð að halda áfram því verkið er ekki tilbúið. Þetta er ekki nógu gott. Verð að vinna það þar til ég hætti að hafa áhuga á því. Það er tilbúið þegar það pirrar mig ekki lengur.

H&H: Hefurðu fengið sköpunarstíflu?
E: Já fullt af henni. Ég er þó farin að þekkja sköpunarferlið ágætlega.

1. Stress og streita, held að ekkert komi til með að gerast.
2. Verð að vinna því ég er að fara að sýna.
3. Held áfram, gefst ekki upp, hægt og rólega kemst ég inn í efnið.
4. Fylgi efninu.
5. Komið!

Að berjast í gegnum stífluna. Ég er búin að ákveða að þetta sé vinnan mín. Þá þarf ég bara að fara í gegnum þetta. Þetta er ekki alsæla. Alls ekki.

H&H: Hefurðu alltaf unnið ein, hefurðu einhverntíman unnið með öðrum einstaklingi eða í hóp?
E: Ég er rosalegur einfari, mér finnst það ekkert skemmtilegt. Einmanalegt starf, mikil einangrun. Ég væri alveg til í að vera í samstarfi, ég lít upp til fólks sem getur það. En alveg eins með vinnuna á fjöllunum, þá vil ég vera ein í kofa. Þetta er eitthvað karaktereinkenni. Verð bara að horfast í augun við það. En ég er í góðum tengslum við kollega, það er það góða við að vinna í listum, þar er svo spennandi fólk.

H&H: Fyrir þér, er munur á listamanni og “hinum skapandi einstaklingi”…?
E: Listamaðurinn eins og ég skil hugtakið, starfar í listinni, er með hugann við hana – sama hvað – með þeim áhættuþáttum sem því fylgir. Sköpun fléttast sem betur fer inn í margt og fólk virðist vera mismikið skapandi. Það er hægt að þjálfa skapandi eiginleika en drifkrafturinn, ásetningurinn þarf að vera til staðar ef þú ætlar að gera listina að lífsstarfi.

H&H: Fylgistu með listasenunni í dag á íslandi? Er það mikivægt? Er myndlist mikilvæg fyrir samfélagið?
E: Já, það sem ég kemst yfir, veit fátt áhugaverðara. Algjörlega mjög mikilvægt, senan er mjög virk og kraftmikil. Myndlistin er mikilvægt hreyfiafl í samfélaginu, hún skapar tilgang og vöxt. Hún er glufa inn í fínlegar víddir. Myndlist getur líka mótað lífsgildi og sýn fólks á heiminn.

H&H: Er vel komið fram við listamenn á Íslandi?
E: Það fer eftir því við hvað er miðað. Það er hark á svo margan hátt að vera myndlistarmaður. Það er stöðug barátta að halda í sjóði eins og Myndlistarsjóð, Listskreytingasjóð sem er nánast enginn orðinn, sem er slæmt fyrir samfélagið og þróun listarinnar. Starfslaun listamanna eru lág og of fáir sem fá úthlutað. Listin fær litið pláss í fjölmiðlum og einangrast fyrir vikið og umræðan verður rýr. Eins og listasenan er öflug þá á hún betra skilið.

H&H: Stendur eitthvað uppúr á ferlinum?
E: Sýningar á mögnuðum stöðum með kláru fólki sem elskar list. T.d. sýning sem ég tók þátt í í Skaftfelli og önnur í Dölum og Hólum.

H&H: Er eitthvað mjög mikilvægt fyrir þig sem listin þín hefur kennt þér?
E: Já, að hlusta á innsæið og taka eftir vísbendingum, vinna með mistök. Treysta framvindunni þótt hún virðist einkennileg – Hlutirnir raðast oft saman á löngum tíma. Úthald er góður lærdómur í listinni.

Ferlið er oft mjög langt. Þetta er Japanskur pappír. Snéri upp á hann setti í sitthvora krúsina með litum. Klippti í sundur, endaði svona. Ég tek myndir í ferlinu en ekki til þess að sýna, vil muna. Mér finnst skipta máli að taka áhættuna, það fer kannski allt til andskotans og þá er það bara hluti af þessu.

H&H: Draumaverkefni?
E: Á framandi slóðum…


Hillbilly fór norður á Akureyri og hitti Eygló daginn eftir opnun listasýningarinnar NAUTN á listasafninu. Þetta var hress sýning og margir að sýna saman. Hillbilly og Eygló ræddu meðal annars hvernig listakonan velur hvað hún vill sýna á sýningum. Sumir gætu jafnvel spurt sig hvernig hún velur hvað fer á sýningu og hvað fer í ruslið, þar sem verkin hennar eru mjög vandmeðfarin og viðkvæm.

E: Þetta er bara tilfinning. Positívur og negatívur, hvað er list og hvað er rusl, þetta er allt sama dótið – Partur af sama hlutnum, tvær hliðar, eins og lífið.

Eygló velur líka hvað má vera sjúskað. Til dæmis má spýtan vera „illa” máluð, en hvíti málningardropinn sem skvettist á járnstöngina er alveg harðbannaður. Á ‘Samansafns’ borðinu réði tenging hlutanna hvað færi á borðið og hvernig.

Verkin hennar Eyglóar eru öll pappír í grunninn og hún sér pappír sem skúlptúr. Þegar Hillbilly spurði hvernig henni litist á ef einhver vildi kaupa verk og ramma inn þá sagði Eygló það ekki vera í boði því það er ekki hægt að taka eina hlið úr samhengi við aðra.

„Það sem er að gerast á bakvið verkið er alveg jafn mikilvægt
og það sem er að gerast að framan.“

 Eygló er reyndar almennt ekki hrifin af því að ramma inn.

„Hlutirnir raðast oft saman á löngum tíma.
Úthald er góður lærdómur í listinni.“