Menu & Search

FREYJA EILÍF

FREYJA EILÍF

Hillbilly heimsótti Freyju í Freyjulegasta hús Reykjavíkur, stórt blátt bárujárnsklætt timburhús á Bergstaðastræti, þar sem hún fær að vera í nokkra daga í viðbót. Hillbilly og Freyja sammældust um að það væri óásættanlegt að reka Freyju útúr þessu Freyjulega húsi, og það í afmælismánuðinum hennar. RUDE. „Þetta er kannski að gerast til að eitthvað stórfenglegra geti gerst. Maður getur sagt sjálfum sér það.“ Ja, eins og máltækið segir; þegar einar leiguhúsnæðisdyr lokast þá opnast paradísarglugginn. Hillbilly minnir að máltækið sé eitthvað á þá leið.

F: Ég var einmitt búin að vera að biðja alheiminn um peninga. Takk, nú þarf ég ekki að borga leigu.
H&H: Þú baðst um þetta.

Freyja býður uppá litríkar pönnukökur (sem hún fór með í bað) og gulrótarsafa og rauðrófusafa. Reyndar líka koníak en Hillbilly kom keyrandi. Freyja hafði engan tíma í að taka til, hún hafði greinilega ekki frétt af reglu númer eitt sem hljómar svo: Þér megið eigi taka til áður en Hillbilly kemur í heimsókn. Freyju líður þó aðeins betur ef hún raðar draslinu á borðinu eins og hún væri í Tetris leik. „Ég er kannski með ofboðslega vægt OCD, örlítið, bara oggupons.“

H&H: Hvar ólstu upp? Var myndlist í kringum þig þegar þú varst að alast upp?
F: Ég ólst upp í Þingholtunum, eiginlega bara hérna á Bergstaðastræti. Það var mikil myndlist í kringum mig þar sem fósturpabbi minn var starfandi myndlistarmaður og afi minn var líka að búa til myndlist.

H&H: Hvernig kom til að þú fórst að læra myndlist síðar?
F: Ég á dagbók síðan ég var sex ára þar sem ég skrifaði „Ég ætla að verða myndlistarmaður þegar ég verð stór“, en svo fékk ég betri hugmynd þegar ég varð unglingur að verða eitthvað sem foreldrar mínir voru ekki, sem er soldið algengt. Þannig að lengi stefndi ég að því að fara í verkfræði eða eitthvað. Fór í MR.

Freyja stefndi á einhverskonar raungreinanám í MR þangað til að hún fattaði hversu ótrúlega leiðinlegt henni þætti og væri búið að þykja það sem hún væri að læra. Þá breytti hún um stefnu og fór í fornámið í Myndlistarskóla Reykjavíkur, í myndlist.

F: Þegar ég byrjaði í því fattaði ég að ég hafði verið að misskilja stórkostlega hver ég væri og hvað mig langaði að gera, hvað mér þætti skemmtilegt og hvar ég stæði mig best. Hvað mér þætti auðveldast að gera. Þá var þetta bara búið spil og ég gafst upp, gaf undan.

H&H: Var ekki fínt að prófa að fara á móti því sem þú vissir ábyggilega innst inni að þú vildir gera? Komstu ekki bara sterkari út í gegn?

F: Jú ég held það. Það er haldreipi í því að vita að þetta er það sem ég er og ég er ekki á leiðinni að verða eitthvað annað. Að finna að maður er myndlistarmaður, það er bara það sem maður er, að finna rétta hillu, það er öryggi í því og það hjálpar manni að verða skuldbundinn sjálfum sér í því að sinna sjálfum sér.

Það er bara kósí. Mér hefur bara þótt það kósí að vera útskrifaður myndlistarmaður, þó það gangi ýmislegt á.

H&H: Hvernig var þér kennd myndlist?
F: Góð spurning. Það var mikilvægt fyrir mig að fara í skóla. Mér fannst ég alltaf vera listamaður þó ég væri að lúðast í MR að teikna myndir af skrímslum, þá fannst mér ég vera myndlistarmaður.

En svo þegar maður er svona lítill er svo mikilvægt að kynna sér hvað myndlist er, hvaðan hún kemur og hvernig hún hefur þróast.

Það er svosem sama hvar maður gerir það, en það er náttúrlega mjög fínt að fara bara í nám þar sem maður er látinn gera þetta og einhver kynnir ýmislegt fyrir manni sem maður hefur ekki séð áður. Maður finnur ekki allt sjálfur. Stundum er gott að vera kynntur fyrir straumum og stefnum.

Það var mjög mikilvægt fyrir mig að fara í nám, það eiginlega snéri öllum mínum hugmyndum við. Ég prufaði ýmislegt sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir að ég hefði áhuga á að gera en mér bauðst að prufa í Listaháskólanum. Þar fann ég líka kraft til að láta verða að alls konar hlutum sem mér datt í hug. Eins og að stofna tímarit. Við Birta (Þórhallsdóttir) stofnuðum og gáfum út Listvísi á meðan við vorum í skólanum. Skólinn gefur manni tækifæri og tíma til að einbeita sér 100% að því sem maður vill vera að gera og þá gerist ýmislegt með.

H&H: Já, einmitt. Og að hafa allskonar verkstæði til að útfæra það sem maður vill gera. Hvernig hefur gengið að lifa á listinni?

F: Ég horfi mjög stutt í fram í tímann. En hlutir eins og öryggi, mér finnst það ekki eins slæmt og var búið að segja manni fyrir. Veit ekki hver var að segja manni það að það yrði erfitt. En þegar hlutir takast þá horfir maður til baka; djöfull er þetta búið að vera töff. Búin að vera að stússast í myndlist. Fyrir mig er best að vera í verkefnavinnu og vera ekki bundinn launþegi. Þá getur maður tekið við tækifærum sem koma skyndilega eins og að fara til útlanda þegar manni er boðið í vinnuferðir sem eru kannski ekki launaðar en ferðalagið og uppihald er borgað. Um leið og maður er bundinn launþegi þá er maður búinn að loka á margt af þessu.

Það er kannski það erfiðasta að maður lokar á mörg tækifæri sem bundinn launþegi og missir því þetta öryggi sem maður þarf á að halda.

H&H: Hvað verkefni eru þetta til dæmis?
F: Skemmtilegast hefur mér þótt að vera tæknimaður hjá listasafninu. Rosa skemmtileg vinna. Svo hef ég verið að t.d. að halda fyrirlestra í skólum fyrir Dag myndlistar.

Svo það eru alls konar lítil verkefni, hef afritað viðtöl á upptökum t.d. og selt nýra.

Svo var ég að koma úr vinnustofu í Hamburg þar sem ég fékk borgað fyrir að vera til… sem listamaður. Vinna og búa til sýningu. Það var nýtt fyrir mér.

Á Íslandi er það exception ef listamaður fær borgað fyrir að vera í vinnustofudvöl eins og tíðkast víða erlendis og frekar er reglan sú að listamaður borgar fyrir að fá að vera í vinnustofu.

Núna er Freyja aftur á leiðinni út. (Þegar viðtalið er komið á vefinn ætti hún að vera löngu farin og komin aftur heim), í þetta skipti til Noregs í álíka vinnustofu þar sem hún fær greitt fyrir að koma og greitt fyrir að vera þar og greitt fyrir að setja upp sýningu.

Mér finnst það meira að segja hljóma fáránlega þegar ég segi að það sé að fara að gerast. Ég er að fara að fá borgað fyrir að gera myndlist, þetta er algjör skandall.

 

H&H: OJ!
F: Þetta er ólaunuð ástríða.

H&H: Sækirðu um listamannlaun?
F: Já ég hef sótt um listamannalaun hvert einasta ár síðan ég útskrifaðist. Til að æfa mig og sjá hvernig þetta virkar. Hvert ár skoða ég gömlu umsóknina, því Rannískerfið geymir þær allar, þá les ég yfir umsóknina frá síðasta ári og sé hvað mér finnst vera amateur og bæti það í nýju. Þetta er svona umsóknarskólinn minn. Veit ekki hversu miklar líkur eru á að maður fái þetta, það eru alltaf einhverjar líkur.

Það eru litlar líkur en ekki 0%.

Það er gott að gera svona umsókn til að plana fram í tímann og skoða hvað maður hefur verið að gera fram að því.

H&H: Hvar vinnurðu að myndlist?
F: Einu sinni var ég svona myndlistarkvendi sem var alltaf að vinna á vinnustofu, að gera eitthvað, búa til eitthvað efniskennt; Málverk og skúlptúra. En það hefur breyst, kannski útaf plássleysi. Síðan ég útskrifaðist hef ég verið að flytja rosalega mikið og ég hef eytt meiri tíma í að flytja vinnustofuna mína heldur en að vinna á henni. Sem er frekar depresíft. En ég hef sankað að mér efnivið sem mig langar að eiga. Vil ekki henda því á haugana. En ég hef verið mest að sýna annarsstaðar en á Íslandi. Maður þarf að sníða stakkinn sinn eftir því. Hef aðallega verið að vinna í hausnum á mér, hvar sem ég er. Einhverntímann þurfti ég að nota Ekkisens galleríiið í eina viku sem vinnustofu því ég var ekki með annað pláss, svo það var lukkulegt. Svo vinn ég heima sem er kósí en það er betra að vinna annarsstaðar því maður er alltaf í kósígír heima hjá sér. Draumurinn er að eiga vinnustofu með langtímasamning.

Það er gott að eiga vinnustofu þegar maður er myndlistarmaður því þá skilur samfélagið betur að listamaður sé á leið í vinnuna á vinnustaðnum sínum. Minnir Hillbilly á frásögn vinkonu sinnar sem hafði aldrei tíma til að lesa bækur en byrjaði í bókaklúbb svo hún gæti haft það sem skyldu að lesa, þurfti ekkert að hugsa um barnið því hún varð að fara í vinnuna; inní herbergi að klára bókina fyrir næsta klúbbsfund.

F: Ég er soldið spennt fyrir þessu; Núna verð ég heimilislaus en ég er með vinnustofu. Svo þetta er kannski tíminn þar sem ég sef einhverstaðar á nóttunni hjá einhverjum sem ég þekki en á daginn verð ég á vinnustofunni. Hún verður ekki heimilið mitt en svona minn staður. Ég held ég muni verða mjög dugleg að vinna, held það.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið þitt?
F: Eftir að ég útskrifaðist fór ég að stunda meiri hugleisðlu og jóga sem mér finnst mjög gott að gera áður en ég þarf að fara að vinna. Eins og úti í vinnustofudvöl. Annars finnst mér gott að vera með opin augun og vera með kollinn á mér opinn svo eitthvað geti dottið oní hann.

Mér finnst oftast þegar ég fæ hugmynd að hún hafi dottið oní mig eins og regndropi. Mér finnst svo skrítið að sekúndubroti áður var ég ekki með þessa hugmynd og svo blúbb hún er komin algerlega tilbúin, eða næstum því allavega.

 

Oft hefur mér fundist að ég eigi hana því ég er svo hugmyndagóð, frekar en að hún hafi dottið í kollinn á mér því ég hafði hann opinn „ok nú má ég bara nota hana“. En kannski hefur einhver annar verið búinn að fá þennan regndropa í hausinn.

Fyrir mér snýst þetta bara
um að vilja vera opinn
fyrir sköpunarkraftinum,
vilja leyfa honum að vinna
í gegnum sig. Ég er trúuð
þegar kemur að þessu.

Þetta hefur breyst frá því að vera alltaf að mæta einhvert, byrja á því að teikna og þannig, yfir í að reyna að stunda þetta í gegnum hugleiðslu. Líka því það var byrjað að safnast í kringum mig risastórir skúlptúrar og svona dót sem ég þarf síðan að hugsa um.

Þá fór ég að hugsa, okei, hvað þarf endilega að verða til. Hvað vill endilega verða til?

En stundum er ég bara byrjuð að gera eitthvað og hef enga stjórn á þessu. Svo er ég bara með eitthvað risastórt dót sem er fyrir mér.

Þetta er svo mikil kaós orka, þessi sköpunarorka. Eða mín allavega. Ég á erfitt að hafa stjórn á henni, skipuleggja hana og setjast niður á hverjum degi og byrja á hugmyndavinnu. Ég virka alls ekki þannig.

Svo nota ég drauma mikið. Hef haldið draumadagbók síðan ég var 14 ára og mér finnst það að halda draumadagbók hjálpa mér mikið að vera í sköpunarflæðinu mínu þó ég sé ekki að nota eitthvað úr draumunum mínum. Svo hef ég stundum vaknað og gert draumateikningu, byrja daginn á því að skrifa drauminn og gera draumateikningu. Það var nefnilega rannsókn á því hvernig maður er þegar maður er nývaknaður. Það er mjög áhugavert ástand. Stundum er ég eins og nýfætt barn þegar ég vakna. Þegar ég hef verið í vinnustofudvölum get ég lagt stund á svona og gert þetta á hverjum einasta degi. Það var mjög áhugavert og það kom margt nýtt í gegnum teikningarnar.

Það er gott að hafa þjálfað þetta svona lengi, Hillbilly getur ekki komið draumum sínum í talað orð og getur ekki ímyndað sér hvar hún myndi byrja á að skrifa niður þessa abstrakt hrúgu sem draumar hennar eru.

F: Þetta er mjög fljótt að koma og fljótt að detta niður líka. Svo eru alls konar jógastellingar sem eiga að hjálpa að auka dripflæði og minni. Ég hef prófað þetta allt. Svo geymi ég draumadagbókina mína undir koddanum eða við hliðina á mér. Ég hugsa um draumana mína áður en ég fer að sofa og spyr þá líka oft spurninga og bið þá um ráð, þá svarar draumurinn mér og ég skrái það niður.

H&H: Geturu útskýrt þessa þörf til að búa eitthvað til?

F: Ég hef samtengt þetta þessa þörf að búa eitthvað til og að fá að sinna því, yfir í lífsspeki, góð ráð frá frú Pollýönnu að maður getur alltaf skapað eitthvað nýtt úr því sem er, þú ræður því sem er að gerast. Þetta er grunneðli listamannsins, hann getur tekið einhver element og búið til eithvað nýtt. Þannig getur eitthvað ömurlegt orðið frábært því þú ákvaðst það sem listamaðurinn. Þetta er grunnneðli sem allir ættu að geta tekið stjórn á innra með sjálfum sér að ákveða að vera svona listamaðurinn í sínu eigin lífi. Ekki bara að láta eitthvað gerast fyrir framan þig, heldur búa til þitt eigið líf. Það er það eina sem þú átt og þú getur ákveðið að vera þinn eigin skapari eða látið aðra skapa það fyrir þig. Ég held að ég hafi svona sterka þörf til að vera listamaður því ég hef sterka þörf fyrir að skapa mitt eigið líf og mitt eigið frelsi og lifa tegund af lífi sem er fáanleg í gegnum það að vera listamaður.
Var þetta alger steik?

H&H: Nei, mjög gott svar. Geturðu útskýrt muninn á myndlistarmanni og skapandi einstaklingum?
F: Munurinn sem ég fann á sjálfri mér þegar ég fór úr því að vera skapandi einstaklingur yfir í að verða myndlistarmaður var námið og að skuldbinda mig þessum titli, í rauninni. Og vera dottin inn í þennan titil. Hann er stór hluti af því hvernig ég sé sjálfa mig.

Ég sé sjálfa mig sem þessa fígúru sem fólk kallar listamann og ég trúi því. Ég er aldrei með complexa yfir því að segjast vera listamaður eða kynna mig sem slíkan. Freyja Eilíf = listamaður.

Og ef einhver ákveður að kalla sig listamann og finnst það gefa sér eitthvað þá á hann allan rétt á því líka. Það sem maður á í heiminum er að geta skilgreint sjálfan sig uppá eigin spítur. En mér finnst ég ekki eiga neina heimtingu frá heiminum vegna þess að ég sé listamaður og kjósi að skilgreina mig þannig. Ég verð bara að stjórna því sjálf hvernig ég spila með það, hvað ég get gert, hvað ég get gefið og hvernig ég get fúnkerað í þessu samfélagi.

Myndlistarmaður er erfitt orð því það byrjar á orðinu mynd og stundum er maður ekki að gera neina mynd. Þetta skapar kannski myndir í huganum þinum en þetta er pínu úrelt orð og mér finnst betra að segja listamaður.

H&H: Finnst þér þú hafa kannski bara valið orðið listamaður af öðrum greinum í samfélaginu því það var svona það sem komst næst því að vera það sem þú ert?
F: Ja, ég prófaði svo margt, prufaði að fara í teikningu því ég var svo mikið að mála og teikna, þó ég vissi að samtímalist snérist um eitthvað allt annað. Mér datt í hug að ég gæti orðið einhverskonar teiknari og unnið við að teikna. Í teiknináminu þá komst ég að því að ég fúnkera öðruvísi, ég er flöktandi á því bili sem samtímalistin er; hoppa úr einum miðli í annan og hugmyndirnar mínar eru eins og hvirfilbylur og það virkar svo vel þegar maður er listamaður, það er bara akkúrat það sem er í gangi. Þannig sannfærðist ég um að ég ætti heima í því mengi.

Ég hef mikið meiri áhuga á samtímalist heldur en handverki og tækni. Þó ég kunni að meta gott handverk þá er það ekki áhugasviðið mitt.

H&H: Hvenær verður listaverkið til? Er það þegar regndropinn dettur í hausinn?
F: Já spurning hvort það sé orðið til þegar ég er komin með hugmyndina eða þegar ég er búin að gera það eða sýna öðrum það? Ég hugsa að listaverkið hljóti að vera orðið til þegar maður er búinn að framsetja það og framreiða það fyrir aðra. Á meðan er það er bara hugmynd eða leyndarmál sem enginn hefur séð. Það verður listaverk þegar einhver annar hefur upplifað það eða þegar það er allavega búið að framreiða það. Þá er það orðið verk.

Listamaðurinn er bara farartæki og miðlar verkunum áfram. Það er svo stór partur af þessu, ekki bara að gera heldur líka miðla.

H&H: Kannski er verkið alltaf í ferli, það er til á mörgum tímapunktum, bara breytist.
F: Verður það kannski til þegar einhver sér það og hefur skoðun á því? Hvort sem manneskjan sé innblásin, impóneruð eða hafi óbeit á því? Ef einhver setur fram listaverk og enginn fattar að það sé listaverk, er það þá ekki orðið listaverk? Þó að pælingin hafi verið að gera listaverk sem enginn fattar að það sé listaverk, þá verður það samt ekki verk fyrr en maður setur það fram og miðlar þeim upplýsingum áfram. Því við erum komin inní samtímalistina þá snýst þetta svo mikið um samspil áhorfandans og listamannsins. Þetta eru bara pælingar, ég gæti skipt um skoðun.

H&H: Núna getur fólk sett allskonar dót á instagram og hashtaggað #listaverk.

F: Já þá hlýtur það að vera listaverk einhvers konar, það er enginn að segja að þetta verði að vera gott listaverk sem um ræðir. Það getur verið mjög vont og aumt.

Mér finnst þetta soldið gott, ég er ánægð með ákvörðunina að vera listamaður og ég er ánægð með hluti sem ég hef verið að gera. Það veitir mér rosalega mikla lífsfyllingu að vera að stússast í þessu en þó ég sé ánægð með það sem ég geri þá getur vel verið að ég sé bara aumur og vondur listamaður, eða mikill og frábær, en samt er ég listamaður. Ég verð bara að halda áfram með það sem ég er að gera. Svo kemur aldrei í ljós fyrr en löngu síðar hvort það sé vit í þessi sem maður er að gera.

Það eru svo margir að skapa og dómurinn svo stór partur af leiknum, að sum list sé góð sum list ekki nógu góð og jaríjarí. Eru allir að gera góða myndlist? Bara sumir? Getum við yfir höfuð dæmt það? Þetta skiptir mig engu máli að því ég er listamaðurinn sjálf og það er öllum frjálst að dæma um það hvort ég sé aum eða góð. Það mun allavega ekkert stoppa mig.

Kannski er ég bara lélegur listamaður og þá mun ég bara halda áfram að gera lélega myndlist útí rauðan dauðann. Það verður bara að hafa það. Kannski er léleg list, það eina rétta.

H&H: Þetta mun lifa sem kvót eftir þig. Myndi jafnvel sóma sér á legsteini.
F: Sorrý hvað ég er lélegur listamaður ég bara get ekki hætt.

H&H: Mjög gott. Fylgistu með listasenunni á Íslandi í dag? Er það mikilvægt?
F: Já mér finnst mjög mikilvægt að fylgjast með senunni. Mér finnst mjög vont þegar ég missi af sýningum sem hefur verið að gerast svoldið því ég hef verið erlendis. Og svo kem ég heim í stuttan tíma og hef ekki dag þar sem ég get farið á sýningar og mér finnst það afskaplega vont. Þá veit maður ekki hvað fólk er að gera. Maður hittir sama fólkið á hverri einustu opnun, við erum svo lítil fjölskylda, og maður verður að vera búin að sjá síðustu… annars bara skammast ég mín. Þetta er svo lítil borg svo maður ætti að gera skroppið.

En það er alls ekki gott bara að vera að skoða sýningar hérna heima, það er gott að geta farið í helgarferð bara til að skoða eitthvað í útlöndum. Ég fór í fyrsta skiptið á Fenyjartvíeyringinn i ár og finnst fáránlegt að ég hafi ekki farið áður. Þetta kostar sitt en það er mikilvægt að fara þetta fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist. Maður verður að vera duglegur að setja það útí kosmósið að maður vilji skoða svona stórar sýningar.

Ég er samt ekki nógu dugleg að mæta opnanir, kannski því ég stend allar opnanir í Ekkisens og klára tjitt-tatt orkuna mína þar.

H&H: Hvernig finnst þér senan?
F: Mér finnst hún bara merkilega sterk miðað við okkar smæð og stöðu í menningarmálum. Við búum í landi þar sem fáir eiga fasta búsetu eða með fasta vinnustofu. Það er lítið öryggi og mikið rót og mikil upplausn. Gallerí alltaf að flytja og hætta. Miðað við það er senan rótsterk. Mér finnst mjög leitt samt að vita af því hvað þetta er mikið puð. Mér finnst ég oft finna það á fullorðnum listamönnum hvað þeir eru bugaðir og þreyttir og orðnir neikvæðir. Dauðþreyttir eftir allt þetta puð og mig langar ekki að verða svoleiðis þegar ég verð stór.

H&H: Langar þig að vera listamaður á Íslandi?
F: Ég er mjög heimakær. Það sem mig langar mest er að eiga eitt heimili hér og geta kíkt út. Ég er rótbundin, finnst mér, fólkinu mínu, vinunum og svona. Mér þætti eitthvað skrítið að flytja út en kannski gerist það af brýnni nauðsyn, getur alveg verið.

H&H: Afhverju er mikilvægt að hafa listamenn í samfélaginu?
F: Listamenn þurfa að minna fólk á að hlusta á sinn innri listamann. Það eru allir með sinn innri listamann eins og listamenn eru með sinn innri bissnessmann og verkfræðing.

En það er mikilvægt að tapa ekki tenglsunum við innri listamanninn því það hefur svo mikið að gera með frjóa hugsun, velta hugmyndum fram og til baka, sjá eitthvað nýtt í hlutunum og staðna ekki.

Að geta verið í tengslum við það hjá sjálfum sér og að vera næmur fyrir listsköpun hjá öðrum, taka það og velta því fyrir á milli handanna. Það er verið að mata fólk á líki menningar í samfélaginu og ó-listrænum afurðum. Það skapar heiladauða og stöðnun. Samtímalistasenan er í fararbroddi því hún skoðar nýjar hugmyndir. Fólk er svo mikið á móti, því það er ekki frætt um mikilvægi hennar. Það er harla engin listasögukennsla í skólakerfinu og ekki samtímalistmiðuð myndmennt (að minnsta kosti ekki þegar ég var skólabarn). Það mætti auðveldlega kenna það í menntaskóla eða gagnfræðaskóla og það myndi stuðla að auknum skilningi hjá upprennandi kynslóðum. En þetta er náttúrlega ekki gert því þá yrðu allir svo sjálfstæðir og sniðugir, það er svo hættulega valdeflandi að vera í tengslum við sinn innri listamnn. Hitt er afbragðs stjórnunartæki. En ef allir væru í sambandi við sinn innri listamenn værum við í miklu betri málum hérna. Fólk tæki málin í sínar hendur og yrðu skaparar í eigin lífi.

H&H: Og við yrðum öll Michelangelóar okkar eigins Davíðs…
Hefur myndlistin þín kennt þér eitthvað?

F: Já. Hún kenndi mér að vera akkúrat manneskjan ÉG, en ekki ég sem var búin til af því samfélagi og aðstæðum sem ég var fædd inní. Það hefði ekkert annað getað kennt mér að vera til eins og myndlist gerði. Námið er byggt upp á frelsi til sköpunar og það flæddi inní mitt eigið líf og mína listspeki. Þó ég hafi alist upp í kringum listamenn og skoðað list þegar ég var lítil þá var gerðist þetta ekki hjá mér fyrr en ég fór sjálf inní þessar aðstæður að verða listamaður. Allir þyrftu á svona námi að halda, námi sem byggist á svona miklu frelsi, því það er ekki það sem er verið að bjóða börnum uppá.

H&H: Það mættu líka fleiri skólar bjóða uppá svona mikla sjálfskoðun, gæti verið gott fyrir samfélagið.
F: Já það gat verið drama að vera í Listaháskólanum. Þú byrjar að finna fyrir egóinu þínu og sjálfsmyndinni þinni og það eru áhugaverðir árekstar sem verða þarna. Ef þú krífur þá til mergjar þá leiðir þetta til svo mikillar sjálfsþekkingar.

Ég er svo ánægð með að MR murkaði úr mér lífstóruna á eðlisfræðibrautinni svo ég gæti tekið þessar snilldarákvörðun, að hrökklast inní listnám. Það var það besta sem komið hefur fyrir mig í lífinu. Takk menntahroki og ömurð í Menntaskóla Reykjavíkur, þeim lærða skóla.

Mér hefði mögulega tekist það að verða efnafræðingur eða verkfræðingur út af einhverjum mótþróa gegn því bóhem fransí sem ég ólst uppí, unglingaveiki bara. Ég hefði örugglega hrökklast til baka með eina BS gráðu í vasanum, en mér finnst fínt að þetta gerðist ekki seinna. Þetta var alveg nógu löng leið að því að verða listamaður fyrir. Fornámið, Listaháskólinn og fyrstu skref. Það tekur svo langan tíma að verða listamaður. Ég var búin að sóa fjórum árum af lífi mínu í MR og gott að það voru ekki þrjú ár til viðbótar í einhverjum háskóla.

Ég upplifði ótrúlega mikla lífsfyllingu þegar ég útskrifaðist úr Listaháskólanum. Búin með það nám og orðin listamaður. Mér finnst það snilld, alveg sama hvað gerist núna, ég er bara listamaður og það mun bara ganga einhvernveginn. Ég bara er það og er svo glöð. Svo ég var ekki með neina nostalgíu til Listaháskólans þó það hafi verið mjög gott að vera þar.

Ég hef bara aldrei verið jafn spennt fyrir lífinu og þegar ég útskrifaðist úr Listaháskólanum, fannst ég geta gert hvað sem er.

H&H: Hvernig er venjulegur dagur í lífi þínu? Og hvernig er draumadagur?

F: Mér finnst ég alltaf vera að redda einhverju, stundum redda mér fyrir horn. Sýsla og redda, sækja um styrki, reyna að finna lítil jobb. Bara stúss og redd, færa hluti hingað og þangað. Svo er ég alltaf að pakka ofaní ferðatösku. Það er aldrei venjulegur dagur, nema ég fæ mér alltaf banana í morgunmat.

Það er rótfestan í mínu lífi. Banani í morgunmat, stundum banani líka í kvöldmat. Þeir eru svo ódýrir! Svo snobba ég fyrir góðum rauðrófusafa sem kostar eins og fjórir bananar.

…það er svona lúxus.
Draumadagurinn væri alveg eins og aðrir dagar í lífi míni eru en aðeins meira fjárhags- og heimilisöryggi. Mér finnst rosa gaman að vera stússast allan daginn en svo kemur flutningapanik ofaná það og fjármálapanik og það er svo leiðinlegt. Það væri líka svo gaman að eiga vinnustofu. Það var maður frá New York School of Visual Arts með fyrirlestur í listaháskólanum og hann var með tvö góð ráð til allra nemenda; eigið heimili, hvar sem það er í heiminum, eigið stað þar sem þið getið haft dótið ykkar svo þið séuð ekki að henda listaverkum og efnivið, hljóðfærum og mikilvægum hlutum. Ég hef fundið hvað þetta er mikilvægt þar sem ég er alltaf að flytja og það stelur svo miklum tíma og peningum frá manni. Tími og peningar eru sérstaklega mikilvægir í lífi listamanns.

Hitt ráðið var að prófa ofskynjunarlyf. Sem mér fannst svolítið fyndið að hann skyldi segja í fyrirlestrarsal Listaháskólans. Hvað skal segja… Listin er svosem nógu mikil víma í sjálfri sér, maður getur listað yfir sig og speisað út.

H&H: Draumaverkefni?
F: Að vera listamaður í friði. Hvernig gerir maður það? Fá listamannalaun kannski. Eiga heimili og vinnustofu og pikköpptrökk, til að brussast til og frá með verk. Og halda áfram að vera með svona gallerí, það er svo gjöfult. Verða betri í að spila á gítar og trompet. Og harmónikku.

H&H: En verkefni? Vinna með einhverjum t.d.?
F: Það væri náttúrlega Björk. Ég er ekki mikill aðdáandi í mér en Björk er mín listagyðja. Hún er svo mögnuð og hættir aldrei að vera mögnuð. Hún er alltaf í þróun, alltaf að gera eitthvað nýtt. Hún hefur nú verið með listamenn með sér í allskonar. Ef ég myndi einhverntímann fá að vinna með Björk þá myndi mér kannski finnast eins og mér eflaust hefði tekist að miðla einhverju merkilegu og væri mikilvægur listamaður.

Ég verð ringluð í hausnum á að hugsa um þetta.

Það hafa nú nokkrar listakonur unnið með Björk og mér finnst yndislegt þegar listamenn vinna með öðrum listamönnum, eins og til dæmis með Björk, þá er listin komin inní búninginn hennar, plötukoverið, vídjó. Hún vinnur bara með snillingum og allt sem kemur frá henni er alltaf svo gómsætt fyrir listunnenda að sjá.

H&H: Vonandi les hún þetta. Þetta er allvega komið útí kosmósið. Ég skrifa þegar ég pósta viðtalinu „Freyja ræðir við Hillbilly um framtíðarsamstarf sitt við Björk“. Það ætti að ná athygli Bjarkar.