Menu & Search

GERLA

GERLA

(UM KVENNALISTANN OG KVENNALISTINA)

Guðrún Erla Geirsdóttir þolir ekki tuð. Ef þú ætlar að tuða og telur þig geta gert betur, skelltu þér bara í pólitíkina. Eins og Gerla gerði. Hún er líka listfræðingur, kennari og síðast en ekki síst myndlistarmaður. Hún hefur reyndar valið nafnið myndhöfundur. „(…) í mínum huga lýsandi, fallegt og ekki eins kynbundið (…) mun meiri virðing er borin fyrir höfundum sbr rithöfundum og höfundum fræðirita.”
 Gerla var ein af stofnendum Kvennaframboðsins 1982, hún stóð að stofnun Sambands Íslenskra Myndlistarmanna árið 1979, hún tók þátt í borgarmálpólítíkinni að meira og minna leyti í um aldfjórðung og sat m.a. í stjórn Kjarvalsstaða, Ásmundarsafns og í Menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar.
Gerla hefur staðið fyrir mörgum viðburðum og stórum og merkilegum samsýningum. Til þess að nefna nokkur var hún verkefnastjóri Listahátíðar kvenna 1985, var í sýningarnefnd sýningarinnar Guerilla Girls 1994 og stóð á sama tíma fyrir úttekt á stöðu kvenna í íslenskri myndlist. Hún er einnig hugmyndasmiður og verkefnastjóri fleirri stórra samsýninga eins og t.d. Hér og nú, 1985, Landlist við Rauðavatn, 2000 og Undir berum himni, 2013 og sýningarraðarinnar Argintætur í Myndlist sem Gerla skipulagði í tilefni 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna.

            Eftir að þetta brot af ferilskránni er upptalið, kemur það ekki á óvart að þegar Hillbilly googlar Gerlu er hún oft orðuð við Kvennaáratuginn. Hillbilly veltir fyrir sér afhverju þessi áratugur sé helgaður konum og hvort hinir áratugarnir hafi verið karlaáratugar. Hvað var í gangi á þessum kvennaáratug?

G: Sameinuðu þjóðirnar létu boð út ganga að aðildalöndin ættu að helga áratuginn 1975 til ’85 konum, til að vekja athygli á gífurlega stóru framlagi þeirra til samfélagsins. Hér á landi hófst áratugurinn með Kvennaverkfallinu 24. október 1975 og lauk með Listahátíð kvenna. Of langt mál væri að telja upp allt það sem félagasamtök og hið opinbera gerðu til að rétta hlut kvenna á þessum ártug. Sem betur fer varð vitundavakning sem enn er að bera ávöxt á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Viltu te eða kaffi?

H&H: Hvað ætlar þú að fá þér?
G: Ég ætla að fá mér te.
H&H: Þá fæ ég mér te líka. Drekk of mikið kaffi. Reyni að segja alltaf já þegar boðið er upp á te.

G: Þessi áratugur kemur frá Sameinuðu Þjóðunum, þessi hugmynd.
H&H: Þannig að þetta var alþjóðlegt?
G: Ég veit ekki alveg hversu alvarlega önnur lönd tóku þessu. Íslendingar tóku þessu mjög alvarlega.

G: Ég nota hugtakið Kvennaverkfall, ekki frí. Almennt talað um Kvennafrídaginn. Sjálfstæðisflokkskonurnar tóku ekki annað í mál en að kalla þetta frí og þær hömruðu á því þannig það festist við daginn.
H&H: Spes.

Ef þú gengur út úr vinnunni án þess að fá leyfi þá ertu að fara í verkfall, þú ert ekki að fara í frí.

G:  Í Kvennaframboðinu ákváðum við að setja konur með sérþekkingu í nefndir. Ég fór því í stjórn Kjarvalsstaða, sem m.a. sá um að úthluta sýningaraðstöðu og ákveða listverkakaup borgarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði borginni þá og ég átti gott samstarf við einn fultrúa hans Huldu Valtýsdóttur, dótttur Kristínar Jónsdóttur málara. Það var mikið Huldu að þakka að borgin samþykkti hugmyndir mínar um að láta Kjarvalsstaði og Gerðuberg undir sýningar á Listahátið kvenna sem og að í Ásmundarsafni var sýningin Konur í list Ásmundar Sveinssonar. Við Hulda vorum samtaka í því að reyna að rétta hlut kvenna m.a. með þvi að stjórnin færi á sýningar kvenna ekki síður en karlar með það í huga að kaupa verk fyrir borgina. Þegar Ingibjörg Sólrún tók við sem borgarstjóri breyttist margt. M.a. var farið að nýta kynjagleraugu til að rýna með áður en ákvarðanir voru teknar. Sem betur fer er núverandi borgarstjórnarmeirihluti einnig meðvitaður um að láta skoða hlutina með hagsmuni beggja kynja, sem og barna og eldri borgara, í huga.

Gerla átti hugmyndina að Listahátíð kvenna. Hún var ráðin af opinberri nefnd sem „keypti” þessa hugmynd hennar; að leggja áherslu á list kvenna við lok kvennaáratugarins.

G: Við í Kvennalistanum og aðrir aðilar fengum boð um að það ætti að gera eitthvað á þessu ári, þ.e. við lok Kvennaáratugarins. Í brain-stormi stakk ég upp á að halda Listahátíð kvenna. Vinkonum mínum í Kvennalistanum fannst þetta góð hugmynd en mjög stórt og mikið verkefni. Hvernig ætluðum við að framkvæma þetta? Mér datt svo í hug nokkrum dögum seinna; Kvenfélagasamband Íslands var og er til, og hefur verið til síðan aldamótin 1900. Þetta eru mjög sterk félagasambönd. Ég „seldi” þeim svo þessa hugmynd; að þær myndu standa á baki þessu. Þá var svo einfalt að segja „Kvenfélagasamband Íslands styður þetta – ég er hér í nafni Kvenfélagasambandi Íslands.” Ég hafði samt aldrei setið fund í Kvenfélagi samt. Þá var ég komin með þennan fína stimpil.
Það var líka svo mikið af körlum sem áttu eiginkonu og/eða mæður í kvenfélagi og alls konar. Ef kona er að skipuleggja hluti þarf hún að vera útsjónarsöm við að finna hvar og hvernig og hvenær eitthvað opnast.

Tilgangurinn helgar meðalið, stundum. Ef þú vilt endilega berjast fyrir því að eitthvað gerist þarftu stundum að nota rök sem þú ert ekkert endilega alveg viss um að séu réttu rökin en veist að þau ganga ofan í þennan eða þessa. Stundum er það svoldið hallærislegt en bara andskotinn, stundum þarf það að vera svoleiðis.

Það voru 400 konur sem tóku þátt, úr öllum listgreinum. Við fengum tvær erlendar kvikmyndagerðarkonur – algerar kanónur í kvikmyndabransanum frá Frakklandi var það Agnes Varda og frá Þýskalandi Margrethe Von Trotta. Myndlistarsýningarnar voru haldnar á Kjarvalstöðum, Listasafni Íslands, Gerðubergi, Hafnarborg, Nýlistasafninu, Ásmundarsal, Norrænahúsinu, Hafnarborg, ASÍ á Grensásveginum… þetta var bara allur bærinn! 30 árum síðar var svo ein sýningin endurtekin, Hér og nú, Kjarvalstöðum.

H&H: Hefur þú kannað hvernig staða kvenna í myndlist er í dag í samanburði við úttekt þína árið 1994? Hefur jafnrétti kynjanna verið náð í samfélaginu þegar kemur að myndlist?        
G: Þegar við settum fram tölfræðilegar staðreyndir 1994 var ekki hægt að líta framhjá skertum hlut kvenna og í framhaldinu breyttist ýmislegt. Í fjölmiðlaviðtali benti ég á að kona hefði aldrei verið fyrir hönd Íslands á Feneyjartvíæringnum og nefndi Steinu Vasúlku og Rúrí sem kandídata. Þremur áðum síðar fór Steina sem fulltrúi landsins og Rúrí nokkru síðar. Og útilistaverkum eftir konur fjölguðu verulega í höfuðborginni í kjölfar úttektar okkar. Nýlegar úttektir mínar og annarra sýna að betur má ef duga skal.

Þrátt fyrir að konur hafi verið í miklum meirihluta þeirra sem hafa menntað sig í myndlist frá miðjum áttunda ártugnum og séu í dag um 75% meðlima SÍM, ná þær ekki að vera helmingur þeirra sem eiga verk á opinberum sýningum á list síðustu áratuga og dagsins í dag.

 

Ég spyr hvernig standi á að enn hafi ekki einu sinn náðst 50% og vitna í Fríðu Björk, rektor Listaháskólans, „Tæplega vill nokkur maður halda því fram í alvöru að gæði myndlistar séu kynbundin.” Mér fannst þetta flott hjá henni, hún setur þetta svo rétt fram. Þegar boðið er að senda inn undir dulnefni hugmyndir að verkum á sýningar hefur útkoman verið konum í hag. T.d. var þannig valið á Landlist við Rauðavatn.Þegar farið var að skoða hvaða hugmyndir urðu hlutskarpastar, þá reyndust þær vera eftir 2 karlar og 14 konur. Undir berum himni var opin öllum í SÍM, Nýló og ný útskrifuðum listmönnum en þar voru um 80% sýnenda konur. Það segir okkur að ekki vantar áhuga hjá konum heldur sýningartækifæri.

H&H: Veistu hlutfall fólksins sem sendi inn til að taka þátt í Rauðavatnssýningunni?
G: Ég man það ekki, en það var ekki svona rosalega mikill munur á kynjunum.

Ung Björk ómar og kisan Amelie mjálmar í kringum okkur. Eigandi kisunnar, dóttir Gerlu, er úti í Berlín í námi og sonur hennar er í Mið-austurlöndum að vinna að myndlistarverkefni. Gerla sagði Hillbilly fallega hluti um börnin sín, engar áhyggjur krakkar. Hún talaði líka vel um Amelie. „Þetta er ofsalega góð kisa. Hún fer eiginlega aldrei út, bara þegar það er sól og blíða, þá fer hún í smá sólbað. Hún þolir ekki ógeðslegt, blautt gras, svo mikil dama.”

G: Ég læt þig fá bollana sem ég erfði eftir ömmu.
H&H: Ah. Fína stellið. Hvenær á maður eiginlega að nota það?
G: Núna.
H&H: Einmitt, afhverju alltaf að spara það… kannski eyðist fína mynstrið við mikla notkun.
G: Kannski. Hver var það sem sagði þetta…

Lífið er of stutt fyrir spariföt.

Svo satt. Ég er að erfa þetta stell frá mömmu minni sem erfði þetta frá mömmu sinni.
H&H: Þær hafa kannski bara notað þetta þegar einhver gifti sig?
G: Jájá, hjá ömmu kannski í borðstofunni sem var opnuð þrisvar-fjórum sinnum á ári. Annars var hún bara lokað herbergi, til hvers?
Þegar við systir mín vorum svona 6-7 ára fór mamma með okkur til frænku okkar sem gaf okkur gos í vatnsglasi. Svo kom maðurinn hennar inn sem var málari og mikill fagurkeri og sagði „Maður á ekki að drekka úr svona ljótum glösum,” náði í handskorin kristalsglös og hellti í. Drykkurinn bragðaðist miklu betur.

Það fagra skiptir svo miklu máli í lífinu.

H&H: Hvernig kom til að þú fórst að halda utan um sýningar sem markvisst koma konum í myndlist á framfæri innan íslenska myndlistarheimsins?
G: Margt kom til, m.a. að þegar ég var í listsögutímum í MHÍ var ekki minnst á konur…

…en við stelpurnar vissum að í Bandaríkjunum og Evrópu voru femínískir listfræðingar að grafa upp gleymdar myndlistarkonur fyrri tíma og konur að krefjast þess að fá sinn sess innan listheimsins.

Ég fylgdist einnig með baráttu rauðsokkunnar Hildar Hákonardóttur við karlaveldið í MHÍ þegar hún var þar skólastjóri. Og í framhaldsnámi mínu í Rietveld Akademíunni í Amsterdam – þeim hæpaða skóla í dag – var ég á internship í De Appel, eina sýningarsal Evrópu sem þá sérhæfði sig í gerninga- og vídeólist. Hann var rekinn af femínistanum og listfræðingnum Wies Smalls. Hún vann öturlega að því að koma því framúrstefnulegasta á framfæri – sem oftar en ekki var list kvenna. Hún sá mig sem kandídat til að þess sama á Íslandi. Nýlistasafnið var þá nýstofnað og mér fannst upplagt að listamenn De Appel kæmu og sýndu þar og hóf skipulagningu þess. Verkefnið var síðar yfirtekið af karli.

Þetta var fyrsta, en ekki síðasta skiptið, sem karl fékk kredit fyrir það sem ég átti hugmynd að. Slíkt herðir konu.

 

Ég lét ekki deigan síga og skipulagði ásamt vini mínum dagskrá í Nýló Verk háð tíma og rými (1981) með gerninga- og vídeólist, þar sem við pössuðum upp á að kynjahlutföll væru jöfn, sem var þá óþekkt hér. Sama ár aðstoðaði ég Svölu Sigurleifs við kvennasýningu í Ásmundarsal. Ég gerði mér betur og betur grein fyrir því hve mikið hallaði á konur í myndlistinni og þar sem ég er með sterka réttlætiskennd þá þróaðist það þannig að fór ég að berjast fyrir kynsystur mínar innan lista og það var ein ástæða þess að ég tók þátt í stofnun Kvennaframboðsins.

Taldi að pólitíkin væri góður vettvangur til að ná fram breytingum. Sem reyndist rétt.

GADDAVÍR INNÍ OG HÁR ONÁ. TEXTÍLVERK, SÚKKULAÐIKAKA A LA GYLFI GÍSLA.

H&H: Er ekki rosa mikið vesen að fá styrki fyrir öllum þessum myndlistarverkefnum?

G: Ja… í meistaraverkefni mínu í Menningarmiðlun við HÍ gerði ég m.a. úttekt á útisýningum hér á landi og komst að því að aðeins örsjaldan fengu myndhöfundar greitt fyrir þátttöku. Sem dæmi þá fékk ég einnar milljón króna styrk til að standa að Undir berum himni í Þingholtunum og á Skólavörðuholti. Hann dugði fyrir góðri heimasíðu, veggspjaldi, sem einnig var sýningarskrá, og opnunarteiti. Hvorki myndhöfundarnir, ég, né nemar í HÍ sem aðstoðuðu fengu krónu. Gífurlegur fjöldi fólks naut verkanna og yfirstjórn Listahátíðar var mjög ánægð með sýninguna. Ég var kölluð á fund til að ræða um að endurtaka leikinn…

Þegar ég fór að tala um að höfundarnir og aðrir fengju greitt, dofnaði áhuginn og eftir nokkra fundi, þar sem ég stóð föst á þessu, fjaraði áhuginn út.

Ég veit það er bæði þörf og áhugi hjá myndhöfundum að gera sýningu sem þessa að föstum lið, t.d fjórða hvert ár. En þá verður að greiða þeim fyrir.

H&H: Hver er þín skoðun á herferðinni Við borgum myndlistarmönnum?                                                    
G: Að sjálfsögðu eiga myndhöfundar að fá greitt fyrir vinnu sína fyrir opinbera aðila eins og aðrir. En ég er ekki sátt við aðferðafræði SÍM í höfundaréttarmálum vegna verka á netinu í eigu myndlistasafna. Ég hefði viljað að farin hefði verið leiðin sem bókasöfn landsins búa við.

Árlega greiðir ríkið beint í sjóð sem greitt er úr til rithöfunda sem fá x-upphæð fyrir hverja bók sem lánuð er út á almenningsbókasafni. Í myndlistinni væri t.d. hægt að hafa það þannig að myndhöfundar fengju greitt fyrir einn smell á ári frá IP-númeri tölvu sem skoðar hvert verk.

 

Það að ríkið greiddi beint í sjóð kæmi í veg fyrir að einstök söfn teldu sig ekki hafa efni á að setja myndlistarverk sín á netið. Í mínum huga er aðgangur að myndlist á netinu almannahagsmunir, rétt eins og aðgangur að bókum á almenningsbókasöfnum.

ÚR NORNABOÐI GERLU (ÞÝÐING NEÐAR Í VIÐTALI)ÚR NORNABOÐI GERLU (ÞÝÐING NEÐAR Í VIÐTALI)

 

Hillbilly reynir að fókusa á viðtalið en það er míní-hlaðborð í boði með te-inu. Það borgar sig greinilega að vera gift kokki. Fullkomið mangó. Hvað er betra en fullkomið mangó? Bjössi sér um allt matarstúss á heimilinu, segir Gerla. Hann kaupir líka alltaf inn.

G: Jæja, hvað viltu vita meira? Skóstærðina mína? Kynlífið?

H&H: Hmmm.. hvað leggur þú til heimilisins?

G: Bara uppá punt. Nei annars, ég svona skipulegg hlutina. Við ferðumst mjög mikið, aðallega til að skoða myndlist, þá plana ég allt. Mér finnst gaman að vera á netinu og finna skemmtileg hótel og íbúðir, áhugaverða staði, ligg yfir þessu.

H&H: Þú hefur það líka eiginlega að lifibrauði að skipuleggja hluti, ekki satt?

G: Já ég er mjög góð í að skipuleggja. Það passar mér mjög vel. Í gegnum tíðina hef ég verið að skipuleggja alls konar hluti. Ég tók tvær greinar í Rietweld, monumental textile og leikmynda- og búningahönnun. Ég kom hérna heim ’81 og fór að vinna í leikhúsinu… fram til 1991. Í um einn áratug gerði ég rosalega mikið af leikmyndum og búningum. Fyrir á milli 30-40 sýningar. Allt frá barnaleikritum sem Baltastar Kormákur og Steinunn Ólína léku í – og  upp í Macbeth með Erlingi Gíslasyni. Allt þar á milli.
Mjög skemmtilegar nokkrar sýningar sem ég gerði, svona kvennasýningar – ein sem hét Klassapíurþar voru 7 leikkonur sem léku. Við vorum algert kvennagengi. Ég gerði líka leikmynd og búninga fyrir Beisk Tár Petru Von Kant eftir Fassbender. Sýndum það í fundarherbergi á Kjarvalsstöðum. Það var líka al-kvenna sýning. 5 konur sem léku, Sigrún Valberg leikstýrði og ég sá um leikmynd og búninga. Og ég vann að fleiri al-kvenna sýningum. Væntanlega fyrstu – meðvituðu – kvennasýningunum.
Ég hugsaði alltaf um hvernig nýta skyldi rýmið. Til dæmis þessi í fundarherberginu, við fengum  menningarverðlaun DV fyrir þá sýningu. Sýningin fjallar um lesbíu og samband hennar við ástkonu sína, móður, dóttur og einkaritara. Leiksviðið var gólfteppi, grábleikur þríhyrningur, eins og nasistarnarnir notuðu til að merkja…

Ásamt því að vinna leikmynd og búninga var mikilvægt fyrir Gerlu hvernig leikkonurnar væru staðsettar í rýminu og nota þessa myndrænu hugsun sem hún hafði menntað sig í. Eftir 9 ára myndlistarnám. „Nýta þjálfunina í myndbyggingarhugsun.”

G: Var alltaf að vinna á mörkum leikhúss og myndlistar. Var t.d. með vídeó í leikmynd í Þjóðleikhúsinu. Líklega fyrsta vídeóið í leiksýningu hér á landi. Fann oft mjög óhefðbundin rými fyrir leikhópa að sýna í. Gerði t.d. tvær leikmyndir inn í Nýló. Á efri hæðinni (í Nýló á Vatnsstíg) kom leikkona inn um glugga og Koss köngulóarkonunnar sem við sýndum niðri á Vesturgötu 3 í kjallaranum var ég búin að láta búa til vegg úr járnrimlum, eins og í fangelsi, þegar komið var inn salinn.

Og þegar allir áhorfendur voru komnir inn þá kom fangavörður og lokaði. Læsti áhorfendurna inni.

H&H: Tók fólk ekki vel í þetta?
G: Jújú. Ég lenti einmitt í svo skrítnu fyrir ekki svo löngu. Ég var að koma af sýningu í Þjóðleikhúsinu og fór í boð. Þar var ég að tala við einhverja konu og segja henni frá sýningunni. Þá segir hún „það toppar samt ekkert sýningu sem ég sá einu sinni niðri í bæ“ svo fór hún að lýsa sýningunni og ég hugsaði með mér að hún væri að fíflast í mér, vegna þess að þetta var sýning sem ég bjó til! Koss köngulóarkonunnar. Hvað það hefði verið ofsalegt að láta loka sig svona inni. En ég komst að því hún vissi ekkert hver ég væri og mundi ekki hver hefði gert þessa leikmynd.

Gerla hefur viljað notast við náttúrulegan efnivið þegar hún er að búa til leikmynd. Þá getur ýmislegt óvænt gerst eins og í eitt sinn þegar verið var að sýna verk Árna Ibsen, Skjaldbakan kemst þangað líka, í Nýló, hafði Gerla moldarhrúgu á gólfinu, og laufblöð. Til þess að hafa moldina fallega dökkbrúna á litinn þá spreyjaði hún hana alltaf fyrir sýningu og þá fór að vaxa rosa fallegt gulgrænt gras upp, útaf hitanum frá kösturum og því.

H&H: Og tóku allir vel í svona al-kvennasýningar?
G: Já. Auðvitað voru einhverjir sem voru ekki ánægðir með þetta. En það er alltaf til einhver sem er fúll á móti í öllum hlutum. Við fundum bara mikinn meðbyr.

En almennt á þessum tíma var svo margt af því sem Kvennalistin var að benda á svo mikið réttlætismál, að það var ekki hægt að deila um það. Það voru t.d. ekki leikskólapláss fyrir börn gifts fólks, samt voru flestar konur að vinna úti, þó þær hafi verið heima 20 árum áður. Kerfið verður að þróast með fólkinu.

Þegar Gerla var komin með tvö börn þá hætti hún í leikhúsinu. Vinnutíminn hentaði ekki. Ekki þegar hún var ein að ala upp börnin, með manninn að kokka úti á sjó. Hún vildi vera í páska-, jóla og sumarfríi þegar börnin væru í fríi. „Af því að ef maður eignast börn um fertugt þá ætlar maður að hugsa almennilega um þau, ekki bara drusla þeim með sér út um allt eins og ég gerði með eldri strákinn minn þegar ég var ung í námi.”


Núna er hún stundum höfundur leikmynda og búninga. Hún tók líka BA í listfræði um leið og það var farið að kenna það í háskólanum. Svo beið hún eftir að masterinn yrði kenndur og beið eftir því í 10 ár. Á endanum tók hún master í menningarmiðlun í staðinn. Þegar hún var ákkúrat að klára það var farið að bjóða uppá mastersnám í listfræði. Hún skellti sér að sjálfssögðu í það og á bara eftir að klára lokaritgerðina. Já hún er líka með myndmenntakennarapróf úr Mynd- og hand. Og eitthvað fleira.

G: Tók myndmenndakennarapróf og eitt ár í textíl í gamla daga í MHÍ. Kenndi þar stundakennslu fyrstu árin eftir að ég kom úr framhaldsnámi í Amsterdam. Dustaði svo rykið af kennaraprófinu og réði mig inní Langholtsskóla þegar ég var komin með tvö yngri börnin. Þá var ég í borgarmálapólitíkinni en fór í hálfa stöðu sem myndmenntakennari og hef verið þar síðan. Svo kenni ég listfræði hérna í Kvennó, sem er í næsta húsi – get farið yfir á náttfötunum. Í Kvennó fer ég yfir listasöguna. Er mikið að reyna að fá þau til að meta myndlist, að kveikja áhuga þeirra þannig að t.d. ef þau fara til útlanda fara þau á söfn og sýningar.

H&H: Hver er þín skoðun á kynjakvóta sem er oft í umræðunni? 
G: Ég tel kynjakvóta nauðsynlegan á meðan við komum á breytingum. Það tekur tíma að breyta viðhorfum sem mótað hafa samfélög í þúsundir ára og fela m.a. í sér að körlum sé betur treyst til mekilegra verka en konum.
Nýlegt dæmi sýnir að enn er langt í land: Nikon var núna í mánuðinum að kynna nýjustu myndavélina sína og tilnefndi 32 ljósmyndara sem ,,Ambassadora” fyrir vélina. Þeir voru allstaðar að úr heiminum en áttu eitt sameiginlegt; að vera karlmenn. Alþjóðasamtökin Women Photograph mótmæltu þessu og birtu lista með 32 frábærum kvenljósmyndurum. Ömurlegt að samfélagið sé ekki komið lengra og að konur þurfi enn að standa í svona ,,leiðréttingum”.

Gerla hefur síðustu ár haldið svokölluð Nornagleði þar sem eingöngu konum er boðið. 

H&H: Af hverju kvennaboð?

G: Kvennaboð er allt annað en boð. Það myndast allt öðruvísi orka þegar þú býður konum. Það er önnur orka þegar bæði kyn eru. Í samræðum verða karlarnir dóminerandi, fara að segja hvernig hlutirnir eru og hvernig þeir eiga að vera. Það er mjög algengt, veit ekki hvort þú hafir tekið eftir því, en karlar segja oft að hlutirnir séu.

„Þetta er svona.“ Þeir gera það ósjálfrátt. Konur eru miklu meira oft fljótandi, „mér finnst/þetta gæti verið.“
Einn karl sem ég þekki talar eins og Guð almáttugur.. Bíður ekki uppá neina umræðu. Ég er kannski hjartanlega ósammála en það er ekkert í boði nema rifrildi. Frekar en svona ping-pong.

Mér finnst eðlilegra að fólk sé ekki alveg visst um að hlutirnir séu á einn eða annan veg. Eðlilegra viðhorf til lífsins að þú sért ekki kominn með einhverja endanlega niðurstöðu. Það er svo ókreatívt.

Að ákveða að mér finnst þetta te best í heimi og ég ætla ekki að drekka neitt annað te. Ég kemst ekkert lengra.

 

Ef þú ert búinn að skilgreina eitthvað alveg fast niður þá ertu búinn að loka fyrir alla kreatíva möguleika. Mér finnst þetta kvennaviðhorf miklu lífrænna. Það leyfir hlutunum að vaxa og fljóta.

Status quo finnst mér hræðilegt.

MEÐ BANANA Á OPNUN GUERILLA GIRLS SÝNINGUNNI
SKIPULEGGJENDURNIR SVALA SIGURLEIFS, HARPA BJÖRNS, BRYNHILDUR ÞORGEIRS, GERLA OG ERLA ÞÓRARINS.

G: Ég er svo heppin að þekkja mikið af konum á öllum aldri innan íslenska myndlistarheimsins.

Í upphafi árs 2009, eftir að Guð hafði verið beðinn að blessa Ísland, var mikil mæða og svartsýni í samfélaginu. Baráttukonan í mér taldi að það þyrfti að gera eitthvað til að létta lundina og auka baráttuþrekið. Ég bauð því rúmlega fjörutíu konum til mín í það sem ég kallaði Nornagleði, en í mínum huga er norn kona sem þorir, getur og vill breyta.

 

Fullt af fólki var að verða gjaldþrota og mikill barlómur – ég bara varð að gera eitthvað gaman.

Ég taldi að við hefðum gott af því að hittast, hlægja saman og „peppa” hverja aðra upp. Ég hef gert þetta árlega síðan og fengið mikið þakklæti fyrir. Því þarna tala saman og kynnast konur á mismunandi aldri úr ólíkum myndlistargreinum og einnig listfræðingar.

Um leið og maður er búinn að festa sig, þá er komin stöðnun. Það er það hræðilegasta af öllu og öllu. Eins og trúarbrögð sem snúast um að einhver hafi á réttu að standa en ekki einhver annar.

G: Hver og ein/n verður að gera það upp við sig hvað orð hún eða hann velur að nota. Ég hef oftast valið að nota orðið myndhöfundur sem er í mínum huga lýsandi, fallegt og ekki eins kynbundið. Nær svo vel yfir það sem ég hef verið að gera… gerninga, innsetningar… Því miður er orðið myndlistarmaður stundum notað sem skammayrði og þá tengt einhverjum sem er afæta á þjóðfélaginu. Mun meiri virðing er borin fyrir höfundum sbr. rithöfundum og höfundum fræðirita.

 

H&H: Notar þú myndlistina í pólitískum tilgangi? 
G: Já og gjarnan hefur farið saman að verk mín eru persónuleg og kvennapólitísk. Sem er í samræmi við það sem haft var á orði í upphafi annarrar bylgju femínismans:

Hið persónulega er pólitískt.

H&H: Hvað hefur þátttaka þín í pólitíkinni kennt þér?         
G: Til að ná árangri þarf að undirbúa jarðveginn mjög vel, gefast ekki upp þó árangur náist ekki í fyrstu tilraun og að góðir hlutir gerast hægt. Í stjórnmálin hefur komið þó nokkuð af skapandi hugsjónafólki sem vill breytt samfélag. Það tekur tíma en hugsjónafók er yfirleitt óþolinmótt og hættir því fljótt. Eftir sitja gjarnan þverhausar og hagsmunapotarar.

Í pólitíkina vantar einstaklinga með menntun á sviði lista og húmanískra greina. Stjórnmálamenn eru of oft að lappa upp á eitthvað sem aflaga fer í kerfinu í stað þess að hugsa hlutina á skapandi hátt upp á nýtt.

 

G: Stundum skömmuðu kollegarnir í myndlist mig fyrir hitt og þetta sem aflaga fór í borginni, eða létu í það skína að það væri sóun á hæfileikum að vera í pólitík, þá langar mig að segja að það er margt sem ég átti þátt í að koma til leiðar í borginni, eða átti hugmyndina að, sem ég er stolt af. Flest er það praktískt og varðar almannahagsmuni en annað má að skilgreina sem fagurfræði. Eitt er hugmyndin að því að borgin setti niður haustlauka, þetta var stuttu eftir aldamótin. Fyrsta árið sem það var gert var fjöldinn gífurlegur eða um 140.000 og ég var svo ánægð með að sjá vetrargosa, krókósa, páskaliljur og túlípana blómstra um alla borg að ég brosti út undir eyru allt vorið.

Líklega má segja að það sé stærsta listaverkið sem ég hef verið höfundur af.