Menu & Search

GJÖRNINGAKLÚBBURINN

GJÖRNINGAKLÚBBURINN

Hillbilly hitti Gjörningaklúbbinn í vinnustofu þeirra við Grandagarð 2 um miðjan maí 2016. Jóní og Eirún gáfu sér dágóðan tíma til þess að spjalla við Hillbilly en Sigrún, þriðji meðlimurinn er tekin við starfi deildarstjóra myndlistardeildar Listaháskólans og er í starfsleyfi frá Gjörningaklúbbnum um óákveðinn tíma. Gjörningaklúbburinn varð tuttugu ára á þessu ári (2016) og er mikill heiður fyrir Hillbilly að að tala við þessar reyndu listakonur. Tuttugu ára afmælisárið hefur haldið þeim vel uppteknum, eins og reyndar öll hin tuttugu árin. (Hillbilly efast ekki um að það tuttasta og fyrsta verði ekki síður troðfullt.)

Heitapottamálin voru rædd; Hótelamiðbæinn og Panamaskjölin – sem voru það allra heitasta þetta vorið. En engin í Gjörningaklúbbnum á peninga á aflandseyjum. Við ræddum líka samvinnu og ástina, sem sigrar jú allt. Við sammældumst um að listin sé sem blóm sem lætur ekki traðka sig niður.

Meðlimir klúbbsins urðu fyrir áhrifum frá ömmum sínum, sem voru mikið að skapa með höndunum. Handverkið spilar nefninlega stóran þátt í verkum Gjörningaklúbbsins. Þær kalla það einfaldlega verkfræði ömmunnar. Í verkum sínum vilja þær taka allt svona „kvennadæmi“ inní sitt mengi og upphefja það. Setja það í stærra format, í listrænt samhengi.

J: Við munum allar eftir því að hafa verið 5 eða 6 ára þegar við vissum að við ætluðum að verða myndlistarmenn. Þess vegna völdum við leiðir í lífinu til að komast þangað. Ég fór á listabraut í FB, úskrifaðist ekki en kláraði alla undirbúningsáfanga til að komast inn í Myndlista- og handíðaskólann.

E: Ég man eftir því að hafa hringt í Myndlista- og handíðaskólann og spurt hvort það væri gott að vera með stúdentspróf til að komast inn og þau sögðu að það væri betra, og ég fór því í næsta menntaskóla, MR, reddaði stúdentsprófi og sótti svo um. 

Ég fékk alltaf svo mikið hrós í myndmennt og hugsaði „já ok ég er rosa góð í þessu“. Svo kom að því að velja sér tómstundir og ég vildi annaðhvort fara í ballet eða myndlist. Þá var ekki byrjað að skrá í ballet, svo ég fór á myndlistarnámskeiðið.

J: Hjúkketí!

E: Annars væri ég auðvitað svakaleg ballerína í dag.

H&H: Hvernig lærir maður myndlist og hvernig er manni kennd myndlist?

E: Þegar við vorum í skólanum var mikil áhersla lögð á handverksþáttinn og tæknina í flestum deildum, en í dag snýst skólinn meira um hugmyndavinnuna og aðstoða nemendur við að þroska og framkvæma eigin hugmyndir.

J: Við höfum báðar verið að kenna í LHÍ og ég í Myndlistaskólanum í Reykjavík og þá byggjum við kennsluna meðal annars á okkar eigin reynslu. Það sem við höfum sjálfar lært, og reynum að yfirfæra það á einhvern hátt yfir til nemandans. Það er mikill gróði fyrir nemendur að hafa mismunandi kennara með ólíkan bakgrunn, reynslu og aðferðir við að kenna.

E: Já, og að ýta undir það sem er í nemendum fyrir, aðstoða þau við að rækta eigin áhuga, reynslu og hugmyndir sem svo endurspeglast í verkum þeirra.

Gjörningaklúbburinn var stofnaður í Mynd- og Hand, á lokaönn árið 1996. Fyrsti gjörningurinn sem þær frömdu saman var sýndur á præm tæm á Rúv það sama ár, í þætti sem kallaðist Dagsljós. Þær voru þá að kynna gjörningakvöld sem Sara Björnsdóttir, samnemandi í skólanum stóð að. Fyrr á örlagaárinu 1996 var haldin ráðstefna listaháskóla Norðurlandanna í Helsinki sem þær fóru á á vegum skólans og þar byrjaði samtalið á milli stelpnanna.

J: Í Laugarnesinu, í fjöltæknideildinni voru nemendur sem voru á árunum á undan mér að gera mikið af gjörningum og mig klæjaði alltaf svolítið í fingurna að gera gjörninga. Þaðan komu áhrif en líka frá Marina Abramović og þeim listamönnum sem maður var að skoða í bókunum. Þetta var eitthvað kitl.

E: Aðgangur að upplýsingum var auðvitað allt annar þá en hann er núna. Það var ekkert internet svo við sáum bara erlend verk í tímaritum og á ljósmyndum eða ef maður var heppinn þá sá maður kannski upptöku af gjörningi á VHS spólu.

Kannski einstaka VHS spóla með dokkjúmenti af gjörningi.

Eftir listnámið á Íslandi fór Eirún til Berlínar í Hochschule der Künste Berlin, HdK sem núna heitir UdK, Jóní fór til Kaupmannahafnar í Konunglegu Akademíuna, Sigrún fór í Pratt Institude í New York og Dóra sem vann með þeim þá, var að vinna á auglýsingastofu. Þær heimsóttu hvora aðra þegar þær gátu og og svo hittust þær á Íslandi í fríum til að plotta. Þær voru þar að auki í stöðugu í sambandi í gegnum fax og síma. Það hlýtur að hafa verið flottur gjörningur; hver á sínum stað í heiminum að faxa hugmyndir á milli.

E: Við bjuggum til kynningarmyndbönd sem við sendum á rétta aðila…

…þetta var svaka mál, allt klippt analog og þurfti að panta Hi8 klippisvítuna í skólanum til þess að vinna þetta, heilt herbergi með fullt af græjum, núna gerir maður þetta bara í tölvunni sinni.

J: Já, það var soldið töff. Við dokumentuðum alltaf gjörningana og gerum auðvitað enn. Í einni heimsókn minni til Eirúnar í Berlín gerðum við kynningarmyndband með gjörningum og settum í umslög og sendum á gallerí. Núna er það þannig að ef fólk heyrir um okkur þá googlar það bara eða hefur samband, pantar með okkur fund og kemur í heimsókn á vinnustofuna. Við þurfum núorðið voða lítið að sækjast eftir verkefnum. En gerum það engu að síður þegar eitthvað brennur á okkur, eins og verkið Sálnasafn sem við gerðum á LOKAL listahátíð núna síðastliðið haust.

H&H: Hvað var Dóra lengi í klúbbnum?

J: Hún byrjaði mjög fljótlega að vinna með okkur og var til 2001.

H&H: Gefst ykkur tími til að hafa sólóferil?

E: Já, við gerum okkar eigin verk samhliða sem við höfum sýnt hér heima og erlendis. Þetta eru tveir ferlar en Gjörningaklúbbsvinnan hefur verið ansi plássfrek í gegnum tíðina.

J: Við erum mikið saman. Það hefur alltaf verið mjög mikið að gera og síðan höfum við verið að kenna líka. Við gerðum tvo glænýja gjörninga í fyrra sem og gamla í mjög nýjum búningum auk safnasýninga með nýjum verkum. Framundan er líka fullt af verkefnum hjá Klúbbnum.

H&H: Mörgum þætti það mögulega erfitt að deila hugmyndunum sínum. Hafiði ekki lært vel á góð samskipti?

J: Ein mjög góð regla; þegar allir finna að það sé komin of mikil spenna þarf að taka pásu og fara heim og koma aftur daginn eftir. Það finna það allir þegar þess þarf. Með tímanum höfum við líka orðið flinkari í þessu.

E: Það þarf ekki alltaf að halda áfram endalaust, gott að kæla stundum.

Daginn eftir eru stórmál bara smámál.

J&E: Síðan erum við líka með tvær meginreglur í Klúbbnum:

Við segjum ekki hver á hvaða hugmynd enda er oft erfitt að átta sig á því í svona náinni og langvarandi samvinnu. Við lítum svo á að Gjörnngaklúbburinn eigi hugmyndina. Hin reglan er að við segjum ekki hver gerir hvað innan klúbbsins.

Það hjálpar okkur sem heild. Minnkar líkur á ríg á milli okkar. Þessi flati strúktúr.

„Annars snýst þetta bara um að vera fínar manneskjur.“

J: Þetta er eitthvað júník. Við rífumst en við erum góðar vinkonur og kunnum að segja fyrirgefðu. En þetta er auðvitað ekki endilega eitthvað sem við höfum lært í Klúbbnum.

E: Bara reyna að vera almennilegt fólk.

J: Þetta er smá eins og hjónaband.

E: Við erum allar elstar í okkar systkinahópum. Kannski er eitthvað element þar sem við skiljum hjá hvorri annari.

J: Einhver ábyrgðartilfinning. Og stjórnunarelement, að hafa yfirsýn yfir hópinn. Kannski hjálpar það, án þess að við höfum sett fingur á það.

„Gjörningakúbburinn hann er bara fyrirbæri sem við höfum skapað saman, fjórði meðlimurinn. Við erum hér til að aðstoða þessa veru til að komast áfram.“

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni? 

E: Þetta er náttúrulega bara rugl fjárhagslega.

J: Já. Það er ekki eins og það sé einhver markaður hér á Íslandi, bara örfáir að kaupa samtímamyndlist. Við erum með eitt gallerí á Ítalíu, Pinksummer.

E: Hér á Íslandi sjáum við sjálfar um sölu. Við erum með mikið af verkefnum en þau gefa ekki endilega mikið af sér fjárhagslega, þess vegna er það óstjórnlega mikilvægt að fá starfslaun listarmanna til þess að geta unnið að þeim, starfslaunin eru ein af undirstöðunum fyrir nýsköpun og rannsóknir í listum.

Starfsumhverfið er svolítið skrítið.

H&H: Fyrir ykkur, er myndlist mikilvæg fyrir samfélagið?

J: Já, hvar værum við án listar yfirleitt? Myndlistin setur hlutina í nýtt samhengi og fær mann til þess að spyrja spurninga.

E: Myndlistin er með ólíkindum, hún neitar að láta drepa sig.

J: Rótin er svo sterk.

E: Það eru alltaf nýjir og nýjir sem eru tilbúnir að fara út í hana. Fólk er kannski ekki að pæla í því þegar það byrjar en það er rosaleg mismunun á milli listgreina í opinbera kerfinu…

„…Myndlistasjóðurinn er t.d. með miklu minna fé til úthlutunar heldur verkefnasjóðurinn sem sjálfstæðir leikhópar geta sótt um í. Starfsumhverfi myndlistarinnar er svona 50 árum á eftir sviðslistunum, þess vegna er átakið Við borgum myndlistarmönnum sem SÍM stendur fyrir algjör nauðsyn. Fólk dembir sér bara út í hlutina af ótrúlegri eljusemi og ást til listarinnar…“

…það eru alltaf nýjir aðilar sem fara út í listamannarekin rými t.d. nýútskrifað myndlistarfólk. Frábært ef það væru settir meiri peningar í svoleiðis starfsemi svo fólk geti haldið áfram. Það er ótrúlegt að Kling og Bang sé ennþá á lífi, svakalegt sjálfboðaliðastarf sem búið er að vinna þar, sem gefur af sér til alls samfélagsins.

Ég ætla víst að vera til!

Bkv. Myndlist

E: Það er svo skrítið að listir og listafólk er markvisst notað í landkynningar en á sama tíma er talað gegn listafólki og sagt að það séu afætur, það finnst mér ósanngjarnt. Það er ekki verið að pæla nóg í raunverulegum verðmætum og styðja nægjanlega við það sem gerir okkur að einhverju öðru en bara verstöð úti í ballarhafi, reyndar fallegri, en það er heldur ekki borin nógu mikil virðing fyrir náttúrunni.

J: Rosa fínt að nota þetta sem rós í hnappagatið, útá við.

E. Einmitt, en hafa um leið ekki nægjanlegan skilning á þessari mikilvægu menningu sem er í gangi. Troða öllum ferðamannabúðunum og gistiplássunum í miðbæinn og eyðileggja senuna og smáþorps stemninguna sem þar hefur þrifist og margir sem heimsækja landið sækjast eftir að upplifa.

Mottó Gjörningaklúbbsins er Ástin sigrar allt, ástin sigrar allt tvímælalaust. Á ensku kalla þær sig The Icelandic Love Corporation. Hillbilly er forvitin um hvort kom á undan, kossinn eða ástin?

J: Þegar við gerðum kossagjörninginn sem var okkar fyrsti gjörningur, framinn í beinni útsendingu í sjónvarpinu, vorum við búnar að skýra okkur Gjörningaklúbbinn. Þegar við þurftum erlent nafn þá kom Performanceclub ekki til greina. Við vorum búnar að vera að vinna mikið með hugtakið ástina, ástina á lífinu og ástina á listinni, hvernig ástin sigrar allt. Þaðan kom love-ið. En kossinn kom á undan.

E: Með enska nafnið þá var Icelandic bara staðreynd og Corporation kom því við vorum hópur, þó við værum alls ekki neitt fyrirtæki í venjulegum skilning. Nafnið varð í rauninni til í frekar kærulausum spuna, við vorum að fara til útlanda með Klúbbinn og vantaði enskt nafn.

J: Það er mikill munur að vera þrjár í staðinn fyrir ein, þú nærð að gera töluvert meira með því að vera í samtali. Geta rætt og krufið hlutina saman, í samanburði við það að vera einn. Þá er möguleiki á því að allt fari í hringi í hausnum. Gott að geta treyst og talað saman þá gerast hlutirnir hraðar…

E: …stundum hægar samt.

J: Já, rétt, en oft er það gott og svo auðvitað líka gott að hafa möguleika á því að skipta á milli sín verkum.

H&H: Hvað finnst ykkur um að titla, eða útskýra verkin ykkar?

J: Mér persónulega finnst mikilvægt að hafa titil, mér finnst eitthvað vanta ef verk er án titils. Ekki bara til að útskýra verkið, mér finnst gott að verkið hafi nafn.

Maður sendir ekki barnið sitt nafnlaust útí heiminn.

H&H: Hvar vinniði?

J: Fer eftir því hvað við erum að gera, stundum gott að vera heima. Þetta ár höfum við t.d. verið að standa mikið í umsóknarferlum, þá er gott að vera sitt í hvoru lagi og bera svo saman bækur sínar

E: Við vinnum mest á vinnustofunni þegar við vinnum í höndunum og gerum tilraunir og svo tökum við auðvitað á móti gestum hérna.

Gjörningaklúbburinn hefur verið á Grandagarði 2 í sjö ár. Eða kannski nær fjórum þar sem mikið viðhald var á húsinu, það hefur gengið á ýmsu og ekki alltaf vinnuhæft. Það fór allt á flot á veturna sem gat verið stressandi og svo getur orðið mjög kalt. Húsið er væntanlega að fara á sölu svo þær gætu misst húsnæðið bráðum. Hillbilly vonar með Klúbbnum að sá sem kaupir húsið vilji enn hafa listamenn í húsinu sínu.

J: Við kynntumst Ingunni Wernes sem átti þetta hús og hún vildi hafa listafólk í því en hér eru líka aðrir listamenn, Hrafnkell Sigurðson og Sigurður Guðjónsson eru t.d. hér við hliðiná okkur núna en það hefur róterað svolítið.

E: Þegar Reykjavíkurborg eignaðist húsið fengum við að vera áfram. Spurning hvað gerist með öllum breytingunum í miðbænum, það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að finna húsnæði. En við höfum verið naskar og duglegar að finna rými.

Hillbilly fékk að heyra söguna um stúdíó í gegnum öll tuttugu árin, hér er hún í stuttu máli:

1. Gamalt sjávar-útvegsfyrirtæki við hliðiná núverandi húsnæði. Mikil fiskifýla. Húsnæði rifið og seinna byggðar íbúðirnar sem eru þar núna 2. Lítið herbergi á Klapparstíg. 3. Klink og Bank. Húsnæði rifið. 4. Hverfisgatan hjá Hjartagarðinum. Á labbi sáu þær tómt hús, RvkBorg taldi það óíbúðarhæft, en þær tóku það yfir. Mölflugur og ónýtt klósett, en góður andi. Húsnæði rifið. 5. Kjallari á Klapparstíg, leki í húsinu, mjög lítið rými. 6. Grandagarður 2. Mjög fínt og algjör lúxus þrátt fyrir ýmislegt.

H&H: Hefur stúdíóið áhrif á vinnuna ykkar, verkin, sköpunarferlið?

J: Já mjög mikið. Á Klapparstíg vorum við í rosalega litlu rými, þar gerðum við Behind The Eyes, sem voru bara minni verk og video verk.

E: Já og flokkuðum ljósmyndir. Arkív vinna.

H&H: Ómissandi hlutur í vinnustofuna / í sköpunarferlinu?

J: Á Hverfisgötunni þá vorum við með altari, tímabundið. Lukkudót fyrir peningastreymi en við erum ekki með neitt altari á þessari vinnustofu.

E: Það er eitt sem hefur verið með okkur frá Hverfisgötunni! eftirprentunin sem við fundum í húsinu þegar við tókum við því.

J: Já, það er eftirmynd af Skagen málverki, rómantísku malerísku dönsku tímabili, þrjár konur í hvítum dressum við ströndina, táknrænt fyrir okkur.

J: Við erum rosalega heppnar með veður þegar við gerum gjörninga, það styttir alltaf upp, eða hlýnar eða eitthvað.
E: Við gerum ekki ráðstafanir, veðrið er bara óvissuþátturinn.
J: En í rauninni ekki því það er alltaf gott veður. 

H&H: Hvar fáið þið efnivið í verkin ykkar?

J: Við þurfum oft að kaupa efni í verkin en við höfum einnig verið nýtnar og heppnar.

Til dæmis þessar sokkabuxur, við fáum þær frá sokkubuxnaverksmiðju í Finnlandi.

Gallaðar sokkabuxur sem við höfum meðal annars notað í fjaðrir, vefi, búninga og fleira. Verkfræði ömmunnar, þær gerðu blóm úr vír og sokkabuxum en lituðu sokkabuxurnar reyndar sjálfar. Amma gerði heilu blómvendina, fór á námskeið í sokkabuxnablómagerð í sveitinni. Okkur finnst spennandi að taka þetta handverk og gera eitthvað póst-módernískt, framúrstefnulegt.

E: Við tökum þessa hefð, sem konur hafa nýtt sér þar sem unnið með þetta efni á svipaðan hátt þar en reynt er að líkja sem mest eftir náttúrunni en við gerum stærri blöð, stærri víra og setjum þetta í allt annað samhengi og nýtum þetta eins og okkur sýnist.

H&H: Fyrir ykkur, er munur á listamanni og handverksmanneskju?

E: Það er grátt svæði þarna á milli þar sem hlutirnir geta skarast. Handverksmanneskjan getur t.d. gert eitthvað nýstárlegt eða mjög sérstakt sem teygir sig yfir í að verða list, ekki bara listagott handverk heldur eitthvað umfram það. En myndlistamaður sem er farinn að fjöldaframleiða og endurtaka sig verður kannski meira einsog handverksmaður, hálfpartinn farinn að kópera sjálfan sig eða sumir mundu segja að ná fullkomnun á mjög afmörkuðu sviði, það er spurning.

J: Það skiptir máli hvernig og í hvaða samhengi hlutirnir eru settir fram. Bætir þetta einhverju við eða snýr upp á hugsunina eða samhengið.

E: Þetta snýst um að fara ekki bara eftir uppskrift, það er ekki svo skapandi.

Börn hafa af og til poppað upp í umræðunni. Hillbilly spyr:
Breytti það ykkur sem myndlistarmanni að verða foreldri?

E: Maður hugsar betur um tímann sem maður hefur og verður skipulagðari. Svo er þetta líka mikil reynsla að ganga með og fæða barn, sem er viðbót í reynslubankann og hefur þannig áhrif.

J: Mér finnst ég hafa lifnað aftur við og hafa meiri þörf til að gera myndlist en áður. Kannski var þörfin þarna alltaf en hún lifnaði við eða endurnýjaðist. Lífið breyttist.

H&H: Hafið þið einhverntímann upplifað raunverulega þrá til þess að skapa, og  hafið þið fengið sköpunarstíflu?

E: Það er það sem ég geng fyrir. Að það sé eitthvað sem mig langar ótrúlega mikið að verði til. Ef sú þrá er ekki til staðar, þá er erfitt að láta hugmynd verða að veruleika. Stundum þarf ég auðvitað líka að bæta á tankinn og sjá hvað annað myndlistarfólk er að gera, lesa, fara í leikhús, bíó, á sýningar, hitta fólk, fara í frí. Þessi þrá er soldið einsog lækur, stundum er mikið í honum, stundum minna.

J: Undanfarið hefur mig langað að gera svo mikið sjálf en hef ekki haft tíma því það er svo mikið að gera í Gjörnginaklúbbnum, jákvæð hindrun, en á sama tíma þrái ég að fara að gera ákveðna hluti. Þá er bara að bíða þar til ég kemst í þá. Það er mjög erfitt þegar þörfin er og ég kemst ekki í að svala henni.

H&H: Hefur ykkur langað að gera eitthvað, en ekki gert það?

J: Mér dettur strax í hug að okkur hefur langað til að sýna í Japan við höfum reyndar gert það en ekki farið saman sem Gjörningaklúbburinn. Ég vil að við gerum sýningu þar. Það væri gaman. Nú hef ég sett þessa hugmynd út í loftið. Hver veit nema það bíði tölvupóstur…
H&H: Stendur eitthvað uppúr á ferlinum?

J: Þessa dagana stendur uppúr að við höfum verið saman í þessu í 20 ár.

E: Það er oftast það sem við erum að vinna að hverju sinni sem mér finnst mikilvægast.

Skrítið en ég man best eftir fyrstu verkefnunum, þau eru ljóslifandi fyrir mér. Hvar ég var þegar ég sagði eitthvað ákveðið. Núna er þetta orðið meira eðlilegt, venjulegt, rennur meira saman, en í mjög góða tilfinningu.

J: Við vorum ungar, tíminn leið öðruvísi. Allt var svo spennandi og gaman. Líka núna, en öðruvísi. Öðruvísi tilfinning, þroskaðri tilfinning.

E: Við vorum meira til í allt. Gjörningur um helgina? Gerum það. Ef einhver myndi biðja okkur um það núna myndum við sennilega segja nei. Við þurfum að skipuleggja okkur svo langt fram í tímann núna. Allt öðruvísi tempó.
H&H: Er eitthvað mjög mikilvægt fyrir ykkur sem þið hefur lært frá/af listinni ykkar?

E: Að sætta mig við að ég get ekki haft stjórn á öllu og að verkin taki stundum yfirhöndina, sleppa takinu.

J: Með tímanum hefur listin kennt mér að nýta tímann og það þarf meiri tíma í hlutina stundum en ég held. Það sem ég held að taki viku tekur örugglega tvær vikur. Gefa sér nægan tíma í allt. Þetta er ekki komið 100% samt.

H&H: Týpískur dagur?

E: Það er enginn týpískur dagur.

J: Það eru allir dagar bolludagar. Það fer oft mikill tími í að svara emailum, skrifstofudjobbið og alls konar samskipti.

H&H: Draumadagur?

J: Það er gaman þegar það gengur vel. Draumadagur er þegar það er verið að bjóða manni á spennandi staði. Þá fær maður fiðring í magan.

E: Þegar maður lítur til baka yfir daginn og sér að maður hefur náð að leysa einhverja spennandi þraut í verkinu sem maður er að díla við.

J: Sér áþreifanlegan árangur.

H&H: Hvað myndum við fá að borða ef þið byðuð okkur í kvöldmat?

J: Humar.

E. Hvalkjöt, ef Klúbburinn væri að bjóða. Ef þið væruð að koma til mín og ég væri ein heima myndi ég stinga uppá að fara út að borða í nágrenninu. En ef maðurinn minn væri heima þá mundi hann elda eitthvað rosalega gott.

J: Já og humarinn gerði ég ekki heldur, það væri maðurinn minn.

H: Einhver lifandi eða liðinn listamaður sem væri drauma fjórði listamaðurinn í klúbbinn? 

E: Það væri gaman að fá allskonar gestalistamenn.

J: Við höfum aðeins verið með gestalistamenn með okkur í Klúbbnum. Ragnar Kjartans túraði með okkur á tímabili svo höfum við unnið með fleiru gæða fólki, leikurum, dönsurum, tónlistarfólki og öðrum félögum í myndlistinni.

E: Já við höfum unnið með fullt af frábæru fólki en það kæmi ekki til greina að fá einhvern til langframa. Bara í ákveðin verkefni. Það væri líka örugglega mjög skrýtið fyrir einhvern nýjan að koma inn í þetta dæmi okkar til lengdar.

J: Það eru svo margir flottir. Það væri gaman að fá einhvern reynslubolta og læra af þeim aðila einhver brögð.

E: Það koma aðallega listakonur uppí hugann í augnablikinu.

J: Pippi Lotti Rist og Marina Abramović … og þær allar in the seventy’s. Performans týpur. Þetta er skemmtilegur leikur. Hvernig væri að hafa Gerði Helgadóttur eða Hannah Wilke á hliðarlínunni?

E: Svo væri gaman að fá Beuys með í smá samstarf, afa gamla. Prófessorinn minní Berlín, Katharina Siverding, og Jóníar í Kaupmannahöfn, Ursula Reuter Christiansen, voru nemendur hans á sínum tíma og þannig erum við Jóní þriðju kynslóðar Beuysarar. Afi Beuys.

J: Afi Beuys. Hann er alltaf með okkur í anda.