Menu & Search

GYLFI FREELAND SIGURÐSSON

GYLFI FREELAND SIGURÐSSON

Living the listamannslíf í kjallaraherbergi með stórum glugga. Gylfi nýtti plássið vel og stóð að minnsta kosti þrisvar á hverjum hálfum fermetra á meðan viðtalinu stóð. Meira að segja uppá stól og snerti loftið á meðan hann svaraði nokkrum laufléttum spurningum. Boðið var uppá instant kaffi í stórum bolla, en bara í einum stórum bolla, sem við deildum.

G: Ég svaf svo vel í nótt. Dreymdi ég væri í veislu sem var með endalaust af pulsum í pulsubrauði sem var búið að skera í svona þrjá bita. Ég var bara að borða og borða… Og svo kom barn í barnavagni og barnið var með stóra pulsubrauðshúfu. Ég borðaði það líka.

Góður draumur, maður. Þess má geta að Gylfi var að sofa í rúmi í fyrsta skipti í langan tíma nóttina áður en Hillbilly kom í heimsókn.

H&H: Hvar ólstu upp?
G: Ég ólst upp í Litla-Skerjó, með afskaplega góðu fólki. Í stórri fjölskyldu. Við hliðiná okkur bjó listafólk og þar á eftir rithöfundar, leikarar og fleira listafólk.. Já og Sirrý.

H&H: Svo það var list í kringum þig í uppvextinum?
G: Tvímælalaust. Pabbi er náttúrulega listamaður og mamma hannyrðakona og listáhuga-manneskja. En samt er þetta allt mjög ómeðvitað. Sá staður sem ég er á núna, í myndlist, tónlist og í áhugamálum og vinahópum, það er eins og allt lífið hafi verið að leiða upp að því. Maður gerir sér kannski ekki grein fyrir því að tónlistin sem maður var að gera 10 ára í heimilistölvunni er að hafa mikil áhrif.

H&H: Hver er fyrsta eða sterkasta æskuminningin þín?
G: Ég man alltaf mjög vel þegar ég kúkaði á stéttina hjá Ragnheiði og Jóni, nágrönnum okkar. En annars finnst mér ég vera að gleyma meira og meira úr æskunni. Jú ég man rosa vel eftir því þegar ég og Vala systir mín vorum að tína lauf af trjám nálægt þar sem við bjuggum og notuðum sem peninga. Held við höfum bara safnað mjög mörgum laufum og þóst vera rík. Man ekki hvort við fórum í búðina eða ekki.

Gylfi lærði myndlist í Listaháskólanum og útskrifaðist vorið 2016.

H&H: Afhverju fórstu að læra að myndlist?
G: Mér fannst alltaf skemmtilegast í myndmennt í Melaskóla og Hagaskóla. Einhvernveginn hentaði mér ekki annað nám. Fór á málabraut í MH og kláraði grunndótið og svo í FB þar sem ég var bara að læra myndlist. Líka í Listaháskólann og útskrifaðist vorið 2016. En ég veit ekkert af hverju ég vildi fara í þennan skóla. Stundum hugsa ég hvað væri ljúft að vinna á búðarkassa frá níu til fimm og síðan fara heim úr vinnunni og horfa á sjónvarp. Engar áhyggjur, ekki hugsa of mikið og pæla. Vinnan búin og ég horfi á sjónvarp samviskubitslaust.

„Ég get ekki horft á bíómynd án þess að fá samviskubit. Finnst ég alltaf þurfa að vera að gera eitthvað.“

Okkur datt í hug að Gylfi gerði gjörning þar sem Gylfi væri að horfa á sjónvarpið. Þá væri hann að minnsta kosti að gera eitthvað á meðan.
Þetta er samt bara hrá grunn hugmynd.

H&H: Hvernig fannst þér í Listaháskólanum?
G: Mjög gott. Frábært. Ég get bara ekki ímyndað mér hvernig lífið væri ef ég hefði ekki farið. Í fyrsta lagi get ég það bókstaflega ekki en ég er nokkuð viss um að hann gerði mér mjög gott. Fór að hugsa betur, öðruvísi. Fínustu kennarar.

H&H: Er það mikilvægt, fyrir þér að læra myndlist?
G: Já að læra myndlist, ég held það breikki út hugsunina. Bara fyrir sjálfan þig.

H&H: Nauðsynlegt?
G: Þetta er náttúrlega persónubundið. En ég held maður fái meira út úr sjálfum sér ef maður fer í skóla því þá er maður alltaf að. Þessi verkefni sem maður fær, fær mann til að prófa að hugsa öðruvísi. Allskonar útilokunaraðferðir.

H&H: Hvernig lærir maður myndlist?
G: Með því að ögra sjálfum sér. Prófa eitthvað og sjá til hvort maður fíli það. Maður lærir mismunandi vinnusluaðferðir við að gera myndlist. Hjá Olgu Bergman þurftum við einu sinni að búa til Alter Ego hvernig það hugsaði, áhugamál þess… og gera svo myndlistaverk sem þetta Alter Ego. Og þar gerði ég eitthvað alveg steikta hluti sem ég fíla ekki beint en það er samt eitthvað því. Það þarf ekki endilega að vera eitthvað sem maður fílar sem myndlistin verður.. Það er bara gott að skapa sko.

H&H: Hvaða leið fórstu í þessu verkefni?
G: Ég fór í einhvern geimkall. Sci-Fi eitthvað sem var óskiljanlegur en geðveikt kool. Ég krómspreyjaði plasthluti og notaði salt og einhverjar uppstillingar.

H&H: Þó þú sért nýskriðinn út úr Listaháskólanum, hvernig hefur gengið að lifa á þessu? Að markaðsetja þig og verkin.
G: Það hefur gengið alveg dásamlega vel. En ég hef ábyggilega eytt meiri tíma í að búa til list heldur en að fá borgað úr henni.

Ég er búinn að vera á listamannalaunum nema, námslánum, og maður getur lifað villt og galið af þeim. Nú er það búið.

Ég er að selja peysu sem ég bjó til og ég er byrjaður að gera föt og svoleiðis. Svona lítil zines, blöðunga og teikningar. En það er alltaf frekar leiðinlegt og asnalegt að markað-setja sig. Með facebook síðu. En þegar fólk gerir það er mér alveg sama. Þetta er bara eitthvað asnalegt stolt. Ætti kannski að markaðsetja andlitið mitt meira

H&H: Hvað finnst þér um að titla verkin?
G: Mér finnst mjög gaman að titla. Maður verður að vera meðvitaður um hve mikið maður vill útskýra þau og vera meðvitaður um að stundum þarf ekki að útskýra neitt.

H&H: Hvar vinnur þú að list þinni?
G: Þar til nýverið var ég uppí skóla. En núna er ég að leita að vinnustofu, er svolítið út um allar trissur. Væri kannski gott að fá skrifborð hingað inn. Flest fer bara fram í hausnum mínum. Úr haus í hönd og úr höndinni yfir á blað og þá átta ég mig betur á hvað ég vil gera. Kannski er ég að vinna fyrir einhverja sýningu. Ég get verið frekar flexible með vinnuaðstöður. Vantar eiginlega bara borð og stól. Stundum aðeins í tölvunni en mér finnst best að teikna og skrifa með höndinni. Þarf að fylla fullt af blöðum með teikningum og velja svo úr.

H&H: Hefur stúdíóið og vinnuumhverfið áhrif á vinnuna, sköpunarferlið og verkin?
G: Nei, eða ég tek ekki eftir því. Gæti auðvitað verið að ef ég fengi stórt stúdíó færi ég að vinna stærra. Annars er ég bara að vinna svolítið ómeðvitað.

H&H: Eitthvað ómissandi í sköpunarferlinu?
G: Penninn er númer 1, 2 og 3.

Gylfi er bæði tónlistarmaður og myndlistarmaður. Hann er trommari og fyrir utan tvo sneriltrommugjörninga notar hann tónlist ekki í myndlistinni sinni. Hann vill hafa þetta aðskilið, ótengt. Þetta eru tveir sköpunar-punktar samkvæmt Gylfa. Hann var í Retro Stefson sem var að hætta störfum á dögunum. Var reyndar ennþá í fullum gangi þegar Hillbilly kíkti á hann í vor.

G: Ég er í hljómsveit með öðrum en myndlistina á ég alveg einn.

H&H: Hefur þú upplifað raunverulega þrá til þess að skapa? Hvernig lýsir sú tilfinning sér, og hvað gerðiru?
G: Þessi spurning er stærri en lífið. Stundum langar mig alveg geðveikt mikið að teikna. Brenn í skinninu. Og þá verða oft bestu hlutirnir til, þegar ég iða í skinninu. Einhver er að kalla „gerðu eitthvað núna!“ Man ekki hvað ég ætlaði að segja. Einu sinni var ég með svona phílósóphíu ef ég gerði mynd og væri ánægður með hana, að hún hefði aldrei orðið til ef ég hefði ekki byrjað á henni á augnablikinu sem ég byrjaði að gera hana. Það sama með texta. Maður byrjar bara einhverntímann að skrifa og allt í einu er komið gott og snöggt, það hefði aldrei orðið til ef maður hefði ekki byrjað akkúrat á augnablikinu sem maður byrjaði að skrifa, eða ákvað að byrja. Þá varð ég skíthræddur, eins og ég talaði áðan með að fá samviskubit yfir að horfa á bíómyndir, hræddur um að vera að missa af einhverju mómenti. Ætti að vera að skapa einhverja snilld.

Kannski ef ég ýti á pásu og fer að gera eitthvað verður til meistaraverk.

Ef ég get verið að teikna þá teikna ég, vil alltaf vera að.

H&H: Hefurðu fengið sköpunarstíflu og hvað geriru þá?
G: Já það gerist alveg, ekki gaman. Ég verð bara leiður og svo hættir það. En stundum er gott að hvíla sig.

Kannski er þetta bara þreyta.

H&H: Fyrir þér, er munur á listamanni og hinum skapandi eintakling?
G: Kannski veit skapandi einstaklingurinn ekki að hann geti orðið listamaður. Maður verður að vera meðvitaður um að maður sé listamaður. Ég þekki ótrúlega margt skapandi fólk, en það er ekki allt listamenn. Svo eru ekki allir listamenn skapandi. Mamma er skapandi hannyrðakona en myndi ekki stimpla sig sem listamann.

Orðið listamaður er notað mjög mikið en það er kannski annað að vera myndlistarmaður.

‘FLÓTTAMENN Í GÖNGUTÚR’

H&H: Fylgistu með listaseninu á Íslandi? Er það mikilvægt?
G: Jájájá, mjög mikilvægt að fara á sýningar og skoða hvað er að gerast og svona. Held það sé mjög hollt.

H&H: Ferðu frekar í einhver listasöfn en önnur?
G: Fer svolítið jafnt í þetta. Gaman að fara í gallerí þar sem er reglulega skipt út. Port verkefnarými, Ekkisens, Harbinger og Mengi er oft með myndlistargjörninga. Hverfisgallerí er líka geggjað. Persónulegri rými og oft lítil. Maður getur ekki breytt svo miklu eins og í Hafnarhúsinu er kannski allt í einu kominn veggur í miðju rýminu.

Stundum held ég að þetta sé leikur hjá stjórnmálamönnum. Þeir þurfa ekki að setja peninga í þetta því myndlistin deyr hvort eð er ekki. Það er bara mikil heimska á þinginu og þetta er ósanngjarnt og ég er ósáttur.

H&H: Hefur þú búið annarsstaðar en á íslandi?
G: Ég bjó í Berlín í átta mánuði áður en ég byrjaði í Listaháskólanum, með hljómsveitinni. Bjuggum í tveimur svefnherbergjum og kústaskáp, Logi svaf þar. Mjög fyndið allt saman. Var á sumrin á Siglufirði þegar ég var strákur.

H&H: Hefur þig einhverntímann langað að gera eithvað en ekki gert það?
G: Nei. Ekkert. No regrets. Man ekki eftir neinu. Jú, ógeðslega mikið ógeðslega mikið. Ég er samt bara sáttur hér. Er að vinna mig upp í að sjá eftir einhverju.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem myndlistin þín hefur kennt þér, sem þú hefur lært af þinni myndlist?
G: Jákvæðni. Ekki það að ég hafi verið mikið neikvæður einhverntímann. Það er alveg hægt að hafa áhyggjur endalaust en það er líka hægt að sleppa því. Ég skrifa mikið, ljóð, smásögur, styttri texta. Engar skáldsögur enn. Les bækur og ég læri mikið í gegnum það.

Sorgin er gríma gleðinnar og lindin sem er uppspretta gleðinnar er oft full af tárum. Hvernig ætti það öðruvísi að vera. Þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta manns þeim mun meiri gleði getur það rúmað … Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín …

H&H: Draumaverkefni:
G: Að mála hús

H&H: Bara eitthvað hús?
G: Já eða bara svona stóran gafl. Eða það væri alveg næs að vera með einkasýningu á stóru listasafni eftir svona 15, 20 ár. En já, mála hús. Það væri svolítið næs. Mála sko á það, málverk.

H&H: Hvað myndir þú bjóða Hillbilly í kvöldmat?
G: Vítabix? Ég kann að búa til svona chilli con carne í papríku. Eða einhverja geggjaða örbylgjupítsu. Eða ég kæmi kannski bara í mat.

H&H: Er einhver liðinn listamaður sem þú vildir spyrja að einhverju?
G: Ég myndi spyrja Picasso að einhverju…

eða Leonardo DaVinci; Hvað er eiginlega
málið með flugvélamat?