Menu & Search

HALLDÓR RAGNARSSON

HALLDÓR RAGNARSSON

Halldór bauð Hillbilly uppá besta kaffið í bænum að sínu mati. „Það kemur meira að segja manneskja að þrífa kaffivélina á hverjum morgni, svo þetta er… alvöru”.  Kaffið var sannarlega gott. Hillbilly dreymir um að verða kaffisnobb þegar hún verður stór. Ekki það að Halldór hafi verið að þykjast vera neitt kaffisnobb. Reiddi fram klassíska Björnsbakarískaramellukleinuhringi með – maður alþýðunnar.

Halldór eyddi fyrstu mínútum viðtalsins í að spyrja Hillbilly spurninga og sparaði ekki hrósin í hennar garð. Loks fékk Hillbilly orðið og startaði viðtalið.

Halldór ólst upp í Breiðholtinu, neðra Breiðholtinu. Hillbilly veit ekki muninn en skynjar að það sé einhver. Þar var hann þangað til hann var 16 ára þegar hann fór í skóla út fyrir hverfið. Að eigin sögn „Alger Breiðhyltingur… þó svo ég hafi þannig séð ekki komið þangað í 20 ár núna”.

Það var mjög ljúft að tala við Halldór á vinnustofunni hans, Rás1 í loftinu og allt í kring svart, hvítt og gult. Nema sokkarnir hans Halldórs, þeir voru appelsínugulir.

H&H: Var myndlist í kringum þig þegar þú varst að alast upp?
H: Bara núll.

H&H: Afhverju fórstu útí myndlist?
H: Byrjaði í kringum unglingsaldurinn, eins og flestir. Að pára, pæla, gera eitthvað með höndunum. Svo er ég mjög seinþroska í myndlistinni þannig séð. Alvöru flirtið byrjar ekki fyrr en ég fer í heimsspeki í Háskólanum. Þá byrja ég að setja hugsanir mínar í verk… skilurðu, frá haus til handar. Þó ég vissi ekkert hvað ég væri að gera fyrr en á öðru ári í heimsspekinni. Setti öll verkin sem ég hafði gert, svona 15 verk, í möppu og sótti um í Listaháskólann og komst inn einhvernveginn. Árið 2003.

H&H: Hvernig verk voru þetta?
H: Ég var snemma byrjaður að skoða… eða snemma? Seint þannig séð, ég byrjaði seint að skoða myndlist…

H&H: Snemma á ferlinum.
H: Ég var í upphafi rosalega hrifinn af New York málverkinu í kringum um ’40 – ’50. Jasper Johns, Rothko og þessir kallar, og 80’s líka, Basquiat, Schnapel og Haring og eitthvað svoleiðis. Og upp að vissu marki var ég bara að herma eftir því þarna í byrjun. Ég fattaði það eftir á að þetta voru bara æfingar. Ég var eiginlega að copy-a málverk. Ég var bara copycat. Það byrja margir þannig… það er líka frábær skóli.

H&H: Maður getur verið svo áhrifagjarn. Sér eitthvað sem maður fílar og vill bara gera það.
H: Já.. jájá. Þessi verk, ef verk skyldu kalla, voru svolítið svona action málverk. Dáldið svona bara að gera og koma einhverri ungæðislegri greddu út.

Andstæðan við hvernig ég vinn núna. Núna er ég lengi að pæla og lengi að framleiða hvert verk en þá var það bara að mæta og gera – „eitthvað“. Sem er alveg nauðsynlegt í byrjun. Svo kemur þroski kannski og þá fer maður meira að pæla og setja samhengi í hlutina og búa sér til einhverskonar heim.  

H&H: Hvernig var í LHÍ?
H: Það var góður skóli, í LHÍ, að gera bara eitthvað. Náði góðu sambandi við kennara eins og Einar Garibalda og Ingólf Arnarsson sem eru alfræðispekingar og flottir myndlistarmenn. Ég hékk þarna mikið eftir skóla að reyna að átta mig á eðli málningar og efnis. Byrjaði á því að copera aðra, eða fílinginn, og ná svo utan um þetta með efniskenndinni.

H&H: Fórstu í skiptinám frá Listaháskólanum?
H: Já.

H&H: Hvert?
H: Fór á öðru ári út til Berlínar í UDK. Þekkirðu málarann Daniel Richter?

H&H: Ekki Gerhard Richter?
H: Nei, Daniel. Samt alger bomba. Ógeðslega flottur. Hann var kennari þarna og sagði við mig á fyrsta degi „Þú talar ekki einu sinni þýsku. Farðu bara á barina, farðu bara á sýningar. Þarft ekki að mæta í tíma. Komdu bara á tveggja mánaða fresti og talaðu við mig. Þú ert með stúdíó og getur verið að gera hvað sem er.“ Svo var ég í Berlín í þessa mánuði og hann skrifaði undir alla pappíra. Þarna áttaði ég mig á því í fyrsta skipti kannski að þetta er eftir allt undir þér komið og til þess að vera myndlistarmaður þá verður maður að gera myndlist út frá sjálfum sér. Ég eyddi bara tímanum í mína myndlist. Ásamt því að vera líka á börunum auðvitað.

H&H: Ekki alltaf með áhyggjur af mætingu, einingum og svoleiðis…
H: Nei, Daniel sagði mér bara að fara og skemmta mér sem ég gerði.

H&H: Fórstu í frekara nám?
H: Ég útskrifaðist 2006-7 úr B.A. náminu. Ég hafði alltaf verið í hljómsveitum en var þarna í hljómsveit með strák sem ég kynntist í LHÍ sem heitir Sindri, kallar sig SinFang. Við vorum í hljómsveitinni Seabear og ferðuðumst um heiminn með henni eftir útskrift 2007 til sirka 2012.

Ég var ekki að gera mikla myndlist á þessu tímabili. Við vorum bara þarna öll saman að vera rokkstjörnur… „rokkstjörnur”.

Þarna um 2012 fann ég að ég þyrfti… fann þessa þörf til að gera myndlist. Fannst ég smá hafa misst af því að vera í stöðugri æfingu. Þú þarft alltaf að vera eitthvað að gera í höndunum. Þá fór ég, 2012, í mastersnámið í Listaháskólanum. Fyrsta árið sem það var.

H&H: Hvernig var það nám?
H: Þetta var náttúrlega bara að byrja, þau voru bara móta þetta. Þetta er örugglega orðið miklu stærra núna. Við vorum bara fyrsti árgangurinn og fyrir mér var þetta bara gefandi. Ég nýtti tímann rosalega vel og var alltaf að eftir skóla á meðan aðrir kannski fóru heim. Lærði kannski mest af því. Jújú, fullt af flottum myndlistarmönnum sem voru í þessu námi og mjög gaman sko.

H&H: Voru mikið af erlendum nemendum?
H: Ja, nei. Þau vilja held ég að þetta sé meira internasjonal. Það var bara einn eða tveir þarna í fyrsta árganginum. Mig grunar að þau vildu að þetta væru 80% útlendingar… eins og er kannski í mörgum öðrum mastersnámum úti.

H&H: Ég talaði við góða konu um daginn sem hafði áhyggjur af því að fólk sem lærði í LHÍ og færi svo í masterinn hérna á Íslandi líka myndi missa af reynslunni sem það að fara út í nám gefur manni… en þú varst búinn að vera svo lengi úti að ef þú hefðir líka farið í masterinn úti þá hefðiru kannski bara alveg misst tenginguna hérna heima, eða hvað?

H: Já þetta smellpassaði bara. Ég sá þetta óvart auglýst. Ég vissi alveg af því að þetta nám yrði einhverntímann, en var ekki mikið að spá í myndlistinni á meðan ég var í hljómsveitarlífinu. Eða ég var alltaf að hugsa um hana en var ekkert að vinna mikið í henni. Svo kemur þetta bara á borðið til mín.
Ég var ánægður með þetta. En þetta var svolítið lúðalegt. Við vorum 12 íslendingar og einn útlendingur en samt erum við öll að tala ensku og allir tímar á ensku. Maður var að halda fyrirlestur á ensku fyrir eiginlega bara Íslendinga.

H&H: Hvað gerðist ef eini útlendingurinn var veikur einn daginn?
H: Þetta var bara allt á ensku. Fyrir mér er heftandi að tjá mig á ensku. Sumir eru rosalega góðir í því. Auðvitað eru mastersnám langoftast á ensku en að vera í þessum kassa: Við vorum á Íslandi með eiginlega bara íslendingum…

Þetta var eins og Office þáttur. Á góðan hátt, eins og sitcom. Soldið.

H&H: Voru allir kennararnir íslenskir?
H: Já. En þó það sé ein útlensk manneskja þá auðvitað tölum við ensku og í námslýsingu og því dæmi er talað um að þetta nám sé á ensku. En stundum var maður hlæjandi inní sér. Ekkert á vondan máta, þetta var bara lúðalegt. Eins og við værum nokkrir lúðar á skrifstofunni.

H&H: Hvernig hefur þér gengið að lifa á listinni?
H: Það gengur ágætlega.. fer eftir því hvort það séu sýningar eða ekki. Sel reyndar dálítið af verkum út af vinnustofunni ásamt því að Listamenn og Hverfisgallerí hafa einnig verið að selja eftir mig. Suma mánuði er ég skítblankur og aðra kannski ekki.

Ég hef verið mjög heppinn að fá tvisvar sinnum listamannalaun og þau hjálpa alveg gígantískt.

Ég veit að það eru ákveðin verk sem ég get gert sem seljast en það verður strax boring, svona commission verk. En þetta gengur alveg upp að vissu marki.

Síðan tek ég að mér verkefni inn á milli, hef kennt í Myndlistarskólanum, hef verið með málaranámskeið á vegum Listasafns Reykjavíkur og Dídjeija stundum á einhverjum börunum. En eins og hjá öllum myndlistarmönnum á Íslandi, mjög erfitt. Það ætti að vera lagt meiri fjárlög í rótina.. sérstaklega grasrótina. Það er svo erfitt að byrja fyrir fólk sem er að skríða út úr skóla kannski 23 ára eða eitthvað. Það er öðruvísi að vera 45 ára gamall (eða ég er næstum orðinn það), ok 55 ára gamall listamaður og fá alltaf verkefni. Svolítið sama fólkið sem róterast á samsýningum og svoleiðis.

H&H: Þarf að hleypa nýjum inn?
H: Já og það er ekki hægt nema með því að styrkja þá einhvernveginn líka. Það eru svo margir góðir efnilegir myndlistarmenn sem bara hætta eftir skóla þar sem þetta er svo erfitt.

Fólk þarf að fá tíma til að vinna í draslinu sínu og þróast.

Þú ert alls ekki fullmótaður myndlistarmaður þegar þú ert búinn í B.A. námi. Það mætti vera meira gert fyrir yngstu kynslóðina. Þau ættu að fá meira break inn í t.d. listamannalaun.

H&H: Já eða hafa bara annan sjóð.
H: Já eða það. Algerlega.

H&H: Ekki allir að slást um sömu bitana.
H: Já þetta er mjög scary. Þegar ég sótti um fyrst, tvöþúsund og whatever, 11 eða eitthvað –  það var fráhrindandi að sækja um og sjá að þessi og hinn eru að sækja um. Fólk sem var búið að vinna í 30 ár. En ég efast ekki um að það sé staðið vel að þessu og er alls ekki að segja að þetta sé klíkuskapur eins og stundum er verið að tala um. Sem dæmi þegar ég fékk þau síðast (2016) þá var ég þannig séð ekkert með mikið af verkefnum framundan og fékk 6 mánuði, en svo sótti ég um ári seinna með fullt, fullt af sýningum og verkefnum framundan og fékk þau ekki. Þannig að þetta er algjört happdrætti sko. Allavega veit ég ekki hvernig þetta er metið.

En dómarar horfa einnig á CV hjá fólki og það er tekið inní dæmið og ef þú ert búinn að vinna í 20 ár þá ertu með meira break en manneskja sem er búin að vinna í 2 ár og kannski bara með B.A. próf á CV-inu sínu og eina samsýningu.

H&H: Það er talað um að það sé fínt að sækja um til að halda sér í formi, ákveða hvað maður ætlar að gera á næsta ári og svoleiðis, er það ekki? Yngra fólkið er oft í meiri óvissu með það, er það ekki?

H: Jú og það er frábært að nýta umsóknir í það. Fá æfingu í því, en ungt fólk kannski veit það ekki alltaf hvað er framundan hjá því þannig að þetta er snúið þetta umsóknarferli fyrir listamannalaunin. Ef þú ert Raggi Kjartans þá veistu náttúrlega alveg hvað þú ert að gera í desember á næsta ári og árið á eftir jafnvel líka.

H&H: Ungir listamenn þyrftu líka kannski að búa sér til einhvern vettvang. Það er mjög sniðugt held ég og hefur oft verið gert. Það deyr reyndar oftast út vegna hve dýrt það er að halda þessu uppi.

H: Við ungu myndlistarmennirnir…

Ástandið er annað en það var 2005, það var svo mikið af pening í bankanum og hús eins og Klink og Bank, það varð einhver afsprengja af því.

 

Ég var að leigja þarna á sama tíma þegar ég var í hljómsveit sem heitir Kimono og kynntist svo mikið af fólki í þessu listakomplexi. Ég græði ennþá á því inní mér, að hafa kynnst myndlistarmönnum og hönnuðum og allskonar. Þetta var eins og að vera í skóla, bara fullorðnari. Svona afsprengi gerast ekki lengur. Við gætum ekki búið svona til. Nema kannski á Akranesi? Það er ekkert húsnæði hérna. Fólkið sem á þetta vill bara hafa þetta tómt. Það er dáldið asnalegt. Finnst mér. En hey, mig langar í smá meira kaffi. Þig?

H: Já.

Göngum í halarófu útúr vinnustofunni fram hjá stóru verki eftir Halldór. Öryggiskerfið af, upp mjóan stiga og inní frekar fancy kaffistofurýmið þar sem Halldór hefur hengt upp nokkur verk eftir sig. Mikill hávaði í gæðavélinni… það er gott að hafa svona kaffistofu fyrir ofan stúdíóið. Þarna kemur Halldór með nestið sitt í hádeginu og snæðir með öðrum sem vinna í húsinu. Það er mikilvægt fyrir myndlistarmenn að tala við annað fólk þar sem vinna þeirra er oft unnin í einrúmi. „Þú ert fyrsta manneskjan sem ég tala við í dag” upplýsti Halldór Hillbilly og það var komið fram yfir kvöldmat. „Ég kom hingað kl. 7 og vann til 13.00. Var eitthvað slappur og fór heim og lagði mig og vaknaði kl. 16.00.”

H&H: Hvenær var það sem stúdíóið þitt brann?

H: Í maí 2016. Nei mars. Og ég var kominn hingað bara í maí. Eða í júní… Ólafur Arnalds vinur minn reddaði þessu fyrir mig. Er honum mikið þakklátur að koma mér aftur strax af stað því að ég þurfti að byrja að vinna aftur.

H&H: Þú ert með rosalega sterkan stíl.

H: Er það?

Halldór bendir á að hann noti ekki alltaf sama efniviðinn. Sumt, eins og lóðrétt, ílangt pappaverk á veggnum er gert af hreinni tilfinningu, nokkur blöð í lögum hengd upp með heimatilbúnni viðarfestingu. Annað er stórt, enn annað er lítið og ferkantað. Allt flört í verkum hans hefur þó sinn tilgang, hver beygla, krumpa, skráma og bylgja í pappír er þarna af ástæðu. Halldór smíðar bæði blindrammana og rammana í kringum verkin sín. Bæði er það vandræðalega margfalt ódýrara og þá getur hann líka ráðið algerlega þykktinni og stærðinni á striganum sínum. Strigana kaupir hann í rúllum hjá Járn og Gler eða í Litalandi. Strigarúlla sem er grunnuð, samt glær – strigalituð. „Hún kostar um 50.000 kall, kannski 100.000 en ég þarf ekki að spá í strigum aftur í tvö ár sirka. Ég get gert nokkur stór og hundrað lítil verk. Og rammarnir í kring, sem flestir taka kannski ekki eftir, eru fyrir mér að taka verkið alla leið, fylgja því eftir.” Að mati Hillbilly eiga rammarnir sinn part í að verkin hans Halldórs eru eitthvað svo heildarleg. Gott orð? 

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?

H: Ég fæ flestar mínar hugmyndir í sundi. Fer í sund á hverjum degi.

H&H: Hvaða laug?

H: Rúnta á milli allra lauganna en Sundhöllin verður oftast fyrir valinu þessa dagana.

H&H: Ferðu með einhverjum?

H: Nei.. fer einn af því að það er næs að vera einn og hugsa.

Ég fer samt ekkert gagngert til að vinna hugmyndavinnu á sundskýlu, heldur gerist hún einhvern veginn óvart þarna. Ég er einn, næ alveg að slökkva á mér og lífinu í kringum mig, þó svo að ég sé ekkert í yoga á sundlaugarbakkanum eða neitt slíkt.

H&H: Ferðu að synda?

H: Nei, ég gerði það einu sinni en núna er ég bara í heitustu pottunum að sjóða líkama og heila. Langoftast eru þetta hugdettur sem koma þar. Þá fara hugmyndirnar í banka sem ég vinn úr. Ég fer þá að spá í efniskenndina. Sleppi þá alveg hugmyndinni í bili og fer bara að spá í hvernig ég geti útfært hana í efni. Þetta eru alltaf orð og setningar sem ég vinn svo með. Útfrá þessu ferli fer ég að vinna;

A: Fer í sund,
B: Fer á vinnustofuna að grafla. Blýantur á blað, saga spítur í sundur, líma saman eitthvað, blanda efni, fá tilfinningu fyrir hlutunum.

Svo gerist eitthvað, eitt leiðir að öðru. Þegar ég er komin með góða tilfinningu fyrir efni og áferð sem ég ætla að fá, þá byrja ég að vinna með tungumálið. Núna er ég ástfanginn af því að nota handstimpla sem dæmi…

Halldór sagði nokkrum sinnum að hann sjálfur myndi ekki skilja neitt í því sem hann var að tala um. Hillbilly fullvissaði hann um að hún myndi hlusta vel og lengi, vel og lengi, á upptökuna og að það hlyti að koma skýrt í ljós, hver meining hans væri og þetta er útkoman.

H: Ok, ég semsagt enda á tungumálinu og byrja í sundi. Segjum það bara.

Ég vinn mikla undirbúningsvinnu fyrir öll verk mín og oft tekur langan tíma fyrir mig að vinna bakgrunninn í verkunum og þegar ég er búinn með hann þá vinn ég eins og vél og þá kemur textinn inn og slíkt. Textinn er svo oftast endurtekning, ja eða bara ein setning…

H&H: Næliru þér einhverntímann í setningu í heita pottinum?

H: Nei, oftast er þetta bara banki af setningum. Sjáðu hér.

Halldór sýnir Hillbilly lista á veggnum.

H: Þetta er banki sem ég hef verið með í sjö ár eða eitthvað sem bætist alltaf við. Svo er ég oft bara að vitna í sjálfan mig. Ekki því ég er svo merkilegur, alls ekki að meina það þannig.

H&H: Hvern annan ættiru að vitna í svosem?

H: Ég fer oft til baka og fram og til og baka og þetta verður samsuða. Og í mínum huga þá tengjast verkin á vissan hátt, gætu öll farið í einn kassa.

H&H: Það er auðsjáanleg lína á milli þeirra.

H: Í hausnum á mér er þetta allt svo skýrt, svo natural. Ég er þarna í heitapottinum og fer svo niðrá vinnustofu. Ekki natural því ég er svo mikill listamaður, ekki þannig. En þetta eru aldrei nein átök sem slík. Ég kubba saman einhverjum hugsunum alveg eins og þú kubbar eftir legóbæklingnum. Skiluru?

Legóteikningin í bæklingnum, þú veist, leiðbeiningarnar sem fylgja kubbunum, eru alltaf í hausnum á þér, svona a priori, og þú þarft einhvernveginn að finna leið til að komast að henni… Hey! Notaðu þetta.

H&H: Þetta var frábært! Já, nota þetta.

YES!

H&H: Hefuru upplifað raunverulega þörf til að skapa eitthvað?

H: Ég held að það sé bara með hverju verki sem ég geri. Það er raunveruleg þörf á bakvið það. Ég er aldrei ekki 100% í því sem ég er að gera hérna. Allavega eftir á þá sé ég að þetta var raunveruleg þörf. Þó hún sé óútskýranleg þá er það eitthvað svo gefandi að vera einn, alltaf einn, og vera með einhverjar leiðbeiningar í hausnum, en geta farið af veginum út frá þessum leiðbeiningum, og þá getur svo margt gerst á leiðinni og þar kemur þessi þörf… þörfin að láta koma sér á óvart.

H&H: Hefuru fundið fyrir því að ef þú uppfyllir ekki þessa þörf, þó hún sé óútskýranleg, að þá verðirðu bara pirraður? Kannski að það sé þar sem maður sjái vel hversu mikil þörfin er?

H: Algerlega. Og sérstaklega þegar eitthvað gengur ekki upp, þá áttar maður sig á hvað þörfin er mikil. Maður gerir eitthvað aftur og aftur og aftur þangað til að það gengur upp. Þar er þessi þörf – að takast eitthvað sem þú ert búinn að hugsa um í ákveðinn tíma og að ná að klára það og setja í hlut.

H&H: Mér datt þetta bara í hug núna, soldið ánægð með mig. Maður er allt í einu svo pirraður að maður gæti barið í vegg en veit ekki alveg hvað það er… Þá er það kannski því maður hefur ekki verið að svala þörfinni. Mér finnst þetta ágætis mælieining. Sömu áhrif og fíkn, samt ekki eins.

H: H: Þetta er ekki fíkn… Það er ekki fíkn að fara í sund þó ég þurfi að gera það, og ekki fíkn að borða þó við þurfum þess.

H&H: Nema matarfíkn… Nei nei, fíkn er náttúrlega ekki raunveruleg þörf. Við erum komin í hring. En hvenær verður listaverkið til?

H: Ja, það er … það er náttúrlega bara….

Hehehehe

H&H: Í heitapottinum, á frumstiginu?

H: Ja, kannski, nei það er orðið til þegar ég efast ekki um það daginn eftir… Maður er alltaf með efasemdir á koddanum og svo daginn eftir sé ég það, án þess að spá aukalega í því, hvort það sé tilbúið eða ekki…

H&H: Verkið er þá til þegar verkið er fullklárað?

H: Já, og það tekur allavega þennan tíma í að fatta það. Maður þarf að sofa á því.

H&H: Fylgistu með listasenunni á Íslandi?

H: Já, ég fer á flestallar sýningar. En ég er frekar anti-social svo ég fer ekki oft á opnanir. Anti-social í crowdi kannski frekar. En undanfarin 6, 8 ár hef ég held ég bara farið á flest allar sýningar sem eru hérna í Reykjavík og kring.

H&H: Er það mikilvægt fyrir þig?

H: Já mjög mikilvægt. Ekkert bara félagslega. En það er mjög mikilvægt að sjá hvað er að gerast, fá innblástur, hvernig sem það er.

H&H: Ertu ánægður með senuna?

H: Já. Það er ekkert allt eftir mínu höfði, margt ofboðslega fínt á meðan annað er lakara eins og gengur og gerist. En það er mjög hollt fyrir alla myndlistarmenn að fara útúr sínum heimi og skoða það sem er í kringum sig þó að það sé ekkert endilega eitthvað sem er eftir hans höfði. Fínt að fá allt spectrumið. Þá getur maður myndað sér skoðun á hlutunum. Ég er t.d. nýbyrjaður að gefa mér tíma til að horfa á vídjóverk. Ég gat það aldrei, ég er með ADHD og gat bara ekki vídjó verk.

Eftir að hafa verið að skoða instant verk og svo allt í einu þurfti ég að bíða… í 10 mínútur kannski. Núna er það eiginlega bara í uppáhaldi að setjast niður og gefa mér tíma í að horfa á vídjó.

 

H&H: Það eru einmitt mjög fyndnar tölur.. hvað er það, fólk eyðir nokkrum sekúndum fyrir framan málverk á sýningum. Listamaður þarf að heilla alveg upp úr skónum ef hann vill fá fleiri sekúndna áhorf. Þá er það bara spurning afhverju listamenn vilja sýna verkin sín, og hverjum og hvað viljum við öll fá útúr þessu?

H: Þegar ég er að sýna þá er ég að gera það bara fyrir mig. En það að halda sýningu er mjög egósentrískt. Þú ert bókstaflega að segja „Horfðu á mig. Sjáðu hvað ég er góður“. Af hverju er maður að sýna? Það er góð spurning.

En segjum bara, sem hagfræðingur viltu að það sem þú hefur verið að vinna að komi út í einhverri skýrslu. Þú vilt sjá afraksturinn auðvitað einnig sem myndlistarmaður – afrakstur í einhverri heild sem er fyrir utan huga þinn og þína búbblu..

H&H: Það er líka kannski gott fyrir fólk, listamenn og aðra, að vera að vinna að einhverju markmiði, í þessu tilviki að sýningu. Fólk kýs oft að vinna í seríum í sama tilgangi.

H: Núna er ég með árlega einakasýningu í Listamönnum þannig að ég er alltaf að vinna að sýningu. Svo er ég með önnur verkefni sem er þægilegt að komast í á milli inn á vinnustofunni.

H&H: Nice díll!

H: Já, mjög nice að vinna með Gumma. Við náum vel saman. Þá er ég að vinna að einni heild. Hvert verk í þeim sýningum er heild, ekki beint sería. Þá er ég að vinna að því sem mun passa inní þá heild. Það er annað með samsýningar þar sem sýningastjórinn kemur og velur verk sem passa með hinum. Í samsýningum sem ég hef verið með í eru oft verk til sýnis eftir mig sem passa ekki inn í neitt mengi hjá mér. Sem hentar mér vel.

Í viðtalinu komum við oft aftur að brunanum mikla sem skeði á vinnustofu Halldórs á Grettisgötu. Enda erfitt að horfa yfir listferilinn og hunsa öll verkin sem brunnu í duft.

Ég var bara með sundpokann þegar ég kom að brunannum.

H&H: Æ, með brakandi nýjar hugmyndir beint úr pottinum.

H: Ég endurgerði heila sýningu eftir brunann, það var ákveðinn healing prósess. Það var gott að vera með þessa sýningu sem átti að vera mánuð eftir brunann sem varð eldinum að bráð. Tók heilt sumar og endurgerði öll verkin á methraða og var tilbúinn aftur með sömu sýninguna í september. Verk sem hafði tekið mig meira en ár að gera. Þá var ég kominn með markmið, bilað markmið reyndar. Langaði að klára þetta. Og byrja svo uppá nýtt eftir það. Sé það samt núna að ég ofkeyrði mig á þessu ferli og vann á sama tíma ekki nægilega vel út úr þessu andlega en það er önnur saga. Maður lærir. Sem betur fer.

H&H: Var ekkert sem þú gast bjargað úr brunanum?

H: Nei, nei, þetta var bara duft. Tölvan var klessa, bara ekkert, svo mikill hiti frá eldinum. Hamarinn bráðnaður og eitthvað svoleiðis.

H&H: Tókstu einhverjar góðar myndir?

H: Nei, ég var ekkert að því. Átti erfitt með að vera þarna í rústunum. Ef ég væri Curver þá hefði þetta verið gullnáma.. Sett allt duftið í eitthvað ker og búið til gjörning í kringum það.

H&H: Blandað því í málninguna t.d.?

H: Ég er bara ekki alveg svona mikill concept gaur. Jú ég er reyndar concept gaur en samt ekki svona. En núna, ja, ég er ekkert ánægður að þetta hafi gerst, en þetta var rosalega mikil lífsreynsla sem gott er að hafa. Sem dæmi veraldlegir hlutir skipta mig litlu máli eftir þetta. Að eiga fancy hluti lætur sumt fólk kannski missa saur, en mér finnst það bara mjög sad að fá stjörnur fyrir augun fyrir þannig hlutum. Fólk ætti frekar að fá stjörnur fyrir augun fyrir fólki sem þarf að láta hlutina ganga upp dag fyrir dag í matarröðunum hérna. Að pússla dögunum saman með einhverjum krónum. Það er töff stöff sko, sem er alvöru töff.

En já, er bara ánægður eftir brunann að þó að fullt af hlutum fóru þá er ég eftir allt ég, og að þessi sami ég finnst alveg jafn gefandi að skapa eitthvað hérna á vinnustofunni. Þar fyrir mér eru demantar heimsins. Hlutir eru bara fokking hlutir og skilgreina ekki manneskju.

 

H&H: Þetta hlýtur að vera pirrandi samt. Ég er ennþá sjóðandi pirruð yfir að filman mín síðan ég var að sörfa í Portúgal hafi skemmst í framköllun, svitna og tárast við tilhugsunina.

Það er svona svipað og þú lentir í þegar allt sem þú áttir brann.

H: Já ég náttúrlega missti allt – öll gögnin mín og hátt í 70-80 verk ásamt umsókn fyrir doktorsnám sem ég hafði verið að vinna í í næstum ár sem var erfitt að sjá fara. Ég hafði reyndar óvart sett myndir af gömlum verkum og lokaritgerðina mína inná eitthvað ský þannig að það er eitthvað til. Svo er ég með heimasíðu en þar eru myndir af verkum/sýningum í svo lélegum gæðum að það tekur því varla að telja það með. Ekki sem eitthvað sem er hægt að nota svona prófessjónal.

H&H: Úff. En já svona er bara lífið, maður. Partur af lífinu. Eins og filman mín frá Portúgal. Gott að allir eru heilir. 

H: Já, við björguðum kettinum. Hefði getað farið miklu verr.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem þú hefur lært af þinni myndlist, eða sem myndlistin þín hefur kennt þér?

H: : Já, fyrst og fremst þolinmæði. Hef alltaf verið með rakettu í rassinum og átt erfitt með að einbeita mér að einhverju einu og með fókusinn útum allt. Þegar ég er að gera myndlist þá er ég með fókus og gleymi öllu öðru. Gleymi oft að borða, meira að segja. Það sem ég hef lært er að búa til þolinmæði í hausnum á mér.

Myndlist er mitt rítalín. Hún hefur líka kennt mér að ef mig langar að gera eitthvað að þá geri ég það bara. Alls ekki flókið.

H&H: Ertu ánægður með ákvörðun þína að verða myndlistarmaður?

H: Ég held að þetta hafi aldrei verið nein ákvörun. Þetta gerðist bara einhvern veginn. Ég hafði mikinn áhuga á þessu og grúskaði í þessu öllum stundum og geri enn. Akkúrat núna væri ég reyndar til í að vinna á lager í hálft ár eða eitthvað álíka. Það er búið að vera svo mikið að gera, extra mikið undanfarið eitt og hálft ár og ég finn að mig langar að fá mér einhverja „heilalausa“ vinnu í smá tíma, týna jafnvel rusl á túnunum hér í Reykjavík. Ráfa bara um og hlusta á músík. Fá skipanir frá öðrum og hlaða batteríin fyrir nýjar pælingar. Ekki vera alltaf hérna á vinnustofunni að finna út úr einhverju þó svo að ég elska það.

Breyta aðeins til bara í smá stund því maður er hvort sem er alltaf bara maður sjálfur sama hvað maður gerir. Verð alltaf myndlistarmaður, þó að ég myndi fara að týna rusl í einhverja mánuði.

Væri líka til í að vinna á gröfu. Ég er með gröfupróf, vann nefnilega í garðyrkju hér áður öll sumur.

H&H: Já, þetta er svona djobb þar sem maður tekur ekki vinnuna með sér heim. Ekki of mikil ábyrgð. En hvernig er týpískur dagur hjá Dóra?

H: Ég breytti algjörlega um lífsstíl fyrir nokkrum mánuðum og tók til á öllum sviðum lífsins. Vakna um 9-10. Kominn niður á vinnustofu klukkutíma síðar og er oftast til svona 19-20. Þar les ég mikið sem mér finnst mjög nauðsynlegt ásamt því að vinna í höndunum. Nota svo tímann eftir vinnustofuna í hluti sem eru uppbyggilegir fyrir mér, en auðvitað skemmtilegir eins og sundferðir, hitta vini, hugleiða og slíkt. Er oftast ekki kominn heim fyrr en um 22-23 þessa dagana og glápi þá á eitthvað út í nóttina. Er einnig með reglu einmitt núna að gera eitthvað nýtt í hverjum mánuði sem er æðislegt. Viðurkenni samt að ég hef verið aðeins of mikið hérna upp á vinnustofu undanfarna mánuði, allar helgar og allt. Þarf kannski að læra að slaka aðeins á en mér finnst þetta bara næs.

Ég hugsa þetta kannski barnalega, en til þess að gera hluti, þá verður maður auðvitað að gera þá, en ekki bara að hugsa eða tala um þá. Og þar kemur vinnustofan sterk inn.

H&H: En draumadagur?
Halldór tók smá tíma í að töfra fram draumadaginn.

H: Að liggja á ströndinni!
Er einmitt að fara eftir nokkrar vikur til Karabíska hafsins í nokkra mánuði að sigla um eyjarnar á skútu sem vinur minn á. Þannig að það verða margir draumadagar upplifaðir þar í röð örugglega.

H&H: Eitthvað draumamyndlistarverk?

H: Fyrir brunann var ég að vinna að „gólfskúlptúr“ sem fólst í hundruðum litlum pappírs- og tréskúlptúrum sem myndi þekja um 40 fm gólfpláss ef hann hefði verið kláraður. Var búinn að vinna í honum í eitt og hálft ár og hefði þurft kannski 2-3 ár í viðbót. Draumaverkefnið væri að klára hann. Það er mitt missjón sem ég mun aldrei ná að klára.

H&H: Afhverju ekki?

H: Ég var kominn svo langt með það og svo brann það…  á erfitt með að byrja aftur á honum.

H&H: Einn daginn.

H: Einn daginn.