Menu & Search

HALLSTEINN SIGURÐSSON

HALLSTEINN SIGURÐSSON

Það var ævintýralegt að vera í vinnustofu myndhöggvarans Hallsteins Sigurðssonar og reyndar fyrir utan hana líka og líka í íbúðinni sem er staðsett fyrir ofan vinnustofuna. Eins og myndirnar sýna eru listaverk allsstaðar, hvert sem augum er litið eru strúktúrar eftir Hallstein, stórir og smáir, úr leir eða stáli eða járni. Hillur eru þéttskipaðar, stór verk á gólfi og mörg hanga úr lofti. Hallsteinn er útum allt. Hillbilly finnst þessi vinnustofa hans merki um að lifa drauminn til fulls, og Hallsteinn virðist afar sáttur við sitt. Hann er að vísu orðinn svolítið þreyttur í bakinu en hann getur unnið mikið sitjandi, sýður t.a.m. við járnborðið sitt í stól sem hægt að hækka og lækka.

Hann segir Hillbilly að nafninu sínu fylgi bölvun. Kvenleysisbölvun. Frændi hans sem bar sama nafn var aldrei við konu kenndur og sjálfur er Hallsteinn harðógiftur.

H: Sitjum bara í þessum stólum hérna.

Er til brjóstsykur einhversstaðar?

H&H: Þetta er fínt. Hvar ólstu upp?

H: Í Fossvoginum, á móts við þar sem að Grímsbær er í dag.

Hús mömmu og pabba var ósköp einfaldlega brotið niður þegar nýr vegur var byggður. Múrsteinshlaðið hús. Held það hafi verið lítil fyrirstaða þegar var búið að taka allt nýtanlegt úr því.

H&H: Er það rétt hjá mér að þú og pabbi þinn byggðuð húsið sem við erum í núna?

H: Jújú, við pabbi byggðum þetta saman. Íbúðarhúsið og vinnustofuna. Hann var skrifstofumaður alla tíð. En bara bráðlaginn og duglegur. Kunni að bjarga sér.

H&H: Heldurðu að pabbi þinn hafi kannski viljað gera eitthvað annað en skrifstofustörf?

H: Hann hafði einhverjar taugar til myndlistar. Smíðaði húsgögn, stóla, einn hvíldarstól. Held honum hafi leiðst þessi skrifstofuvinna, var aðalbókari.

H&H: Var list í kringum þig?

H: Nú vissi ég ekkert voðalega mikið. Ásmundur Sveinsson er náttúrlega föðurbóðir minn. Ég var í Laugarnesskólanum fyrstu fjögur árin í skóla, einhver skipti kom það nú fyrir að ég missti af skólabílnum og labbaði bara heim og labbaði þá framhjá þeim Ásmundi og Ingrid, það hét konan hans, hún var dönsk. Og ég vissi af þessum frænda mínum þarna en af einhverri feimni kom ég aldrei þarna við. Ég var bara ekkert að því, en svo man ég alltaf eftir þegar hún Ásdís dóttir þeirra, hún er árinu yngri en ég, man þegar ég kom í fermingarveisluna hennar og þá fór að kvikna áhugi hjá mér að gera eitthvað í myndlist.

Það var samt ekki fyrr en í fjórða bekk í gagnfræðiskóla sem ég byrjaði virkilega, gat ekki stoppað. Varð óstöðvandi eftir það.

H&H: Voru svona margar styttur í garðinum hjá Ásmundi?

H: Já, svo fer ég að hjálpa honum að stækka myndirnar sem eru þarna austanmegin. Tröllkonan og fleiri. Það var búið að stækka lóðina upp í suður og þá voru þær færðar þangað. En jájá, þetta eru orðin nokkuð mörg ár síðan að það var gert. Ég var byrjaður að hjálpa honum strax, sumarið eftir fjórða bekk í gagnfræðiskóla. Þá var ég að hjálpa honum að stækka myndir. Það er eins og það hafi ekki verið aftur snúið. Þá var ég búinn að vera seinniparts vetur í kvöldskólanum í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Og þar var Ragnar Kjartansson að kenna. Og að vera með þennan leir, þetta er svo gaman.

H&H: Ávanabindandi?

H: Nei þetta var ekki eitthvað sem maður vandi sig á…

 … þetta varð að ástríðu.

H&H: Varst þú insperaður af þessum styttum?

H: Já, það má segja það, þetta er það nálægt mér.

En svo sagði pabbi mér frá Sigurjóni Ólafssyni út á Laugarnesi og ég man að ég hjólaði út á Laugarnesið. Það leið nú ekki langur tími, ég held bara strax morguninn eftir. En Sigurjón kemur út og fer að tala við mig. Held þetta hafi verið á sunnudagsmorgni og hann spyr mig hvað ég heiti, ég segi að ég heiti Hallsteinn. Svo var bara ekkert meira. Svo aftur vikunni seinna þá er ég kominn að skoða betur, lagði hjólið frá mér og man sérstaklega myndirnar sem voru höggnar í stein, þær eru virkilega merkilegar. Þau verk eftir Sigurjón. Og þá kemur Sigurjón aftur út og spyr mig aftur, „Hvað sagðistu heita?“ „Ég heiti Hallsteinn.“ „Nú! Þá veit ég hver þú ert.“ Málið er það að ég er skýrður í höfuðið á Hallsteini Sveinssyni bróður pabba og hann var stundum að vinna að sameiginlegum sýningum fyrir Ásmund, að pakka inn myndum og svona, þá voru þeir stundum að vinna saman, Sigurjón og Hallsteinn þessi og þá hefur hann verið fljótur að draga ályktanir. Að þetta væri eitthvað úr sömu fjölskyldu.

H&H: Ekki margir Hallsteinar á Íslandi kannski?

H: Nei, Hafsteinar þeir eru mun fleiri, og Hólmsteinar og Unnsteinar.

Ég man alltaf að hann sagði þetta: Þá veit ég hver þú ert!

H&H: Hvar lærðir þú myndlist?
H: Í Myndlista- og handíðaskólanum. Í rauninni byrjaði ég í Myndlistarskóla Reykjavíkur eins og svo margir gerðu. Fór í teikningu hjá Hringi Jóhannessyni og svo eftir það í Mynd- og hand. Og fór þessa hefðbundnu leið. Margir í SÚM hópnum fóru út í Akademíuna í Kaupmannahöfn. En ég fór nú aldrei þangað, en svo fór ég út til London og var þar í sex vetur, mér líkaði svo vel að vera þar.

H&H: Í hvaða skóla?
H: Fyrst var ég í einhverjum byrjendaskóla, veturinn ’66-’67, en það var allt í lagi, ég var aldrei góður í teikningu og þá var ég bara í því að teikna allan þann vetur. En svo notaði ég tímann til að leita að skóla, aðallega til að finna út hvernig vinnusaðstaðan væri. Þá fann ég skóla sem hét Hammersmith College og er í vestur London. Þar var líka svona góð vinnuaðstaða.

H&H: Vissirðu þá að þú vildir gera skúlptúra?
H: Já, ég var slæmur með það – að vilja að halda mig við það!

H&H: Þú sagðir áðan að í gagnfræðiskóla hefðiru byrjað af alvöru. Afhverju ákvaðstu að læra myndlist? Hvernig ákvaðstu þetta?

H: Ég og Leifur Breiðfjörð listamaður höfum fylgst að af tilviljun, en ég sá hann vera með það sem kallaðist hreinsegisstrokleður, kennaratyggjó hefur það verið kallað. Það er mjög þjálft og hægt að móta úr því. Svosem ekkert efni fyrir myndhöggvara en hann var bara að leika sér með þetta að búa eitthvað til. Og ég spurði hann hvar hann hefði fengið þetta, ég man ekkert hvort það hafi verið í Málaranum eða annarri búð, enda skiptir það engu máli, og ég fór bara úr gagnfræðiskóla Austurbæjar og keypti mér svona tvö stykki og byrjaði að móta eitthvað úr þessu. Ég sýndi pabba einhver andlit, og hann segir „keyptu þér nú alvöru efni, ekki þetta strokleður“. Honum leist ekkert á þetta! Nú, hvar fæ ég leir? Örugglega í Málaranum. Ég var furðuduglegur að bjarga mér sjálfur, ég bara fór að spyrja. Ég man að pabbi hringdi ekki fyrir mig úr vinnunni þótt hann hafi verið með símann á skrifborðinu hjá sér. Ég fór eftir skóla, um tvö leytið, ég var á morgnana í skólanum, labbaði niður Skólavörðustíginn, og ég kom heim með tvo leirpakka. Og byrjaði að móta um eftirmiðdaginn.

H&H: Hvar fékkstu pening fyrir leirnum?

H: Ég var í vinnu á sumrin, byrjaði nokkuð snemma í einhverri vinnu. Svo var ég líka hjá bróður pabba sem var bóndi í Borgarfiðrinum. Ég fékk nú kannski ekki mikið kaup þar en strax þegar ég var kominn í einhverja sumarvinnu hjá einhverjum verktökum þá fékk ég vikulega borgað út. Þá fór það í bankabókina mína.

H&H: Og strax byrjaður að eyða í myndlistina!

H: Jájá, þetta er svona leir sem er þarna fyrir aftan þig, sem hægt er að nota aftur og aftur. Ég nota hann enn í dag.

H&H: Hvernig lærir maður myndlist?

H: Best er náttúrlega að teikna, fara í módelteikningu, hlutateikningu. Ég held að það fari ekkert á milli mála. Svo náttúrlega ef fólk er að hugsa um þriðju víddina þá að gera alls kyns skissur hvort sem það er úr leir, verk sem hægt er að skoða frá öllum hliðum. Ég byrjaði ansi snemma að nota bara vír og blikk og lóða það saman, nota lóðbolta og mikil ósköp sem mér fannst þessar skissur mínar fátæklegar eftir á.

Hillbilly er nokkuð viss um að þessar gömlu skissur séu mjög áhugaverðar. Af lýsingunni að dæma virðist Hallsteinn hafa haldið sínu striki öll þessi ár. Hallsteinn bendir Hillbilly á verk útum alla vinnustofu, píramídaform, stór og lítil, Skeljaform svokölluð eru í neðstu hillunni, bogaform í miðhillunni. Mörg verkanna eru stækkuð útum allan bæ. „Þetta ryðgaða verk útí enda er við lækinn í Hafnarfirði, við lækinn rétt áður en þú ert að koma inn í bæinn.”

H&H: Þú ert með útilistaverk út úm allt, ekki satt?

H: Ja, það er nú ekkert út um allt en það sem Reykjavíkurborg á, það eru tvö eða þrjú. Þetta er nú mest bara hérna heima. Svo á holtinu upp í Gufunesi, Reykjavíkurborg á það.

H&H: Er mikilvægt að læra myndlist?

H: Jón Gunnar Árnason hann var voðalega mikið sjálfmenntaður og bjargaði sér alveg afskaplega vel. En hann var líka afskaplega mikill hæfileikamaður. En ég er ekkert alveg viss um að aðrir leiki það eftir. Og ég hefði ekki treyst mér til þess. Þannig að ég verð bara að viðurkenna það að fyrir mig var það mikilvægt og mér finnst líka eftir á að ég hafi verið eitthvað óvenju seinþroska að vita hvað ég vildi gera. Þannig að mér fannst ég vera voðalega, ekki beint ruglingslegur, en ekki gera nógu góð verk, sem ég var sáttur við eftir á. Vantaði ekki ósköpin, alltaf hélt ég áfram, en ég hef líka eyðilagt alveg fullt af verkum.

H: Ég sýndi eitt sinn á Korpúlfsstöðum og Aðalsteinn Ingólfsson skrifaði voðalega gáfulega gagnrýni á þá sýningu.

H&H: Fannst þér vont að fá þessa gagnrýni?

H: Nei, Aðalsteinn var mjög rökréttur. Nei nei, ef gagnrýni er málefnaleg og svona svo maður geti botnað í henni þá er hún bara rökrétt og þá er fólk svona að talast á. Valtýr var gagnrýnandi líka við Morgunblaðið, mjög lengi, einstakt að sami gagnrýnandi hafi verið við sama blaðið svona lengi, þrjátíu ár.

Manni fannst þetta svo skrítið, hvaða metnaður var þetta? Einmitt að vera með endurnýjun í þessu eins og öðru.

H&H: Hvernig hefur gengið að lifa á listinni?

H: Ég hef verið með litlar afsteypur, og það var hér einu sinni, mesta furða hvernig mér gekk að framfleyta mér á þessum litlu myndum. En svona framyfir sextugt, framundir það að ég fékk að fá eftirlaun. Þá smámsaman fór þetta að ganga, maður í Gallerí Borg sagði allt í einu við mig „tími myndanna þinna er liðinn“. Og þá seldust þær ekki nógu vel fyrir hann, þá fékk hann ekki sína álagningu. Hann var nú giftur skólasystur minni, afskaplega ágæt. En þá var ég ekkert að þreyta manninn ég bara tók myndirnar heim. Ægir og Freyr og Týr. Ég var að gera svoldið af þessu.

H&H: Þú vinnur hér að listinni þinni?

H: Já, síðustu fjörutíu ár. Tíminn líður hratt…

Ég á afmæli 1. apríl. Það er mesta furða að ég sé hraustur.

Mér hefur alltaf þótt rauðvín gott en hef aldrei reykt. Systkini mín tvö voru mjög dugleg við það bæði tvö.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið hjá þér?

H: Það er nokkuð fastur liður, ég geri skissur að myndum. Hér er nú t.d. ein leirskissa sem er byrjuð að síga niður. Hvort að mér takist að bjarga henni…

H&H: Hvernig er týpískur dagur hjá þér?

H: Ég er að reyna að vera svolítið árrisull, en ég er ekki jafn árrisull og ég var, en ég er lengur að komast í gang á morgnanna. Hálf átta – átta.

Læt vekjaraklukkuna vera svolítið langt frá rúminu.

H&H: Ertu svo hér á vinnustofunni alveg frá því að þér tekst að slökkva á vekjaraklukkunni?

H: Ég reyni að komast í gang að fá mér morgunmat og svona. Ég er ekki alveg hlaupinn hérna í einum hvelli. Svo fer ég í mat hérna upp í Seljahlíðina. En ég eyði tímanum hérna.

H&H: Hefur þú upplifað sköpunarstíflu?

H: Jájá, já, mig minnir að eftir að við vorum búnir að byggja húsið. Ég var náttúrlega stopp alveg í rúmlega tvö ár. Þá hérna, var líka eitthvað heilsuleysi sem herjaði á mig. Af því ég fór að vinna hérna og ég hafði ekki síma og það var nú einhver blanda af einhverju öðru líka. Það var svoldið skrítið, hafandi þessa fínu vinnustofu, þá flutti ég mig aftur upp á Korpúlfsstaði, ég var svo hlægilegur! Þeir voru þar ennþá Gunnar Örn og Helgi Gíslason, og Sverrir, ágætt að umgangast hann blessaðan kallinn. Ég held það hafi líka verið félagsskapurinn, hérna var ég líka svoldið seinheppinn. Þetta var blanda af ýmsu. Hérna fékk ég ekki síma, það var verið að stækka símstöðina. Fólkið sem var að flytja hingað var alltaf að flytja símann með sér. Ég var bara að fá síma í fyrsta skipti og ég supplifði mig allt í enu voðalega einan hérna. Við erum svo vön þessu, tala nú ekki um í dag, allir með síma eða farsíma í skyrtuvasanum. Þarna allt í einu leið mér ekkert vel.

H&H: Losaði þetta um stífluna, að fara aftur á Korpúlfsstaði?

H: Já, svo líka var gamall sjúkdómur, flogaveiki, að hrella mig og þá sagði hún móðir mín „fluttu nú bara í þitt gamla herbergi hjá okkur“. Og þá gerði ég það. Var svo sittáhvað að vinna hér og upp á Korpúlfstöðum og svona. Var nú búinn að kynnast þessum nágrönnum hérna, allt afskaplega indælt fólk og sumt er hér enn. Ekki undan neinu að kvarta í sjálfu sér.

H&H: Fylgistu með listasenunni?

H: Hérna heima, já. Ég hef ekki verið voðalega duglegur að fara til útlanda. Það er heilmikil breyting eftir að Septemberkynslóðin… hún var voðalega dómínerandi. Og gagnrýnendurnir hjá dagblöðunum voru voðalega mikið af þeirri kynslóðinni. En það hefur átt sér stað heilmikil breyting sem betur fer. Það fer ekkert á milli mála.

H&H: Hvað er Septemberkynslóðin?

H: Þeir kenndu sig við… þeir héldu samsýningar, það var kannski bara tilviljun að það var í septembermánuði. Svo kölluðu þeir þetta haustsýningarnar, sem voru alltaf í september. Septemberhópurinn. Þetta voru Jóhannes Jóhannesson, Kristján Davíðsson, Valtýr Pétursson. Valtýr var nú þeirra gagnrýnandi, og dásamaði allt. Guðmunda Andrésdóttir. Ég er nú að gleyma einhverjum. Sigurjón Ólafsson og Ásmundur. 

Nú er meiri blanda. Ekkert eitt í gangi.

 

 

 

H&H: Hefur þig langað til að gera eitthvað en ekki gert?

H: Ég er svoldið upptekinn af því núna að klára hálfkláruð verk. En nei, jah, ég man það ekki svona í svip. En ég haft mín áhugamál, ég var að safna tímaritum um tíma og það var eitthvað sem ég hafði gaman að. Löngu hættur þessu, hugsaði bara ekki meir, ég fylli bara bókaskápa. Það voru önnur áhugamál sem ég hafði og það er doldið fráleitt þegar maður fer að hugsa útí þetta.

H&H: Þig hefur ekkert langað til að ferðast?

H: Ég hefði gaman af því að hafa gaman að því. En þegar ég var að smíða myndirnar sem eru upp í holtinu upp í Gufunesinu þá fóru bara allir mínir peningar í því að kaupa 5 mm álplötur. Það var enginn afgangur af álplötum. Þær eru 5 metra langar og 2 metra háar og þeir komu með þetta bara hingað heim. Myndirnar voru náttúrlega dággott verk að framkvæma og ég hafði svo gaman að þessu. Og ég fékk þessa stóru hurð til að koma þessu út, ef þær komust ekki út standandi þá að leggja þær lágréttar.

H&H: Á Reykjavíkurborg ekki verkin í Gufnuesi?

H: Jú.

H&H: En þú borgaðir efniviðinn?

H: Ég bara stækkaði verkið og borgaði fyrir það. Það var ekkert mál. Ég var ekkert sérstaklega að sleppa ferðalögum, þetta var bara svona.

H&H: Ertu ánægður með þessa ákvörðun, að hafa valið myndlist?

H: Já… ég er yngstur af fjórum syskinum. Pabbi og mamma voru bara vön því að börnin ákváðu hvað þau vildu taka sér fyrir hendur. Systir mín er hjúkrunarfræðingur og fór í sérnám síðan.

Bróðir minn er íslenskufræðingur, svoldið að monta sig af því að hafa skrifað doktorsritgerð og svoleiðis en það skiptir ekki máli.

H&H: Foreldrar ykkar hljóma eins og þau hafi verið mjög stuðningsrík.

H: Já, þau hafa litið á það sem sjálfsagt mál að styðja okkur í því að ræða um hluti. Pabbi var svoldið svartsýnn að eðlisfari en þegar ég var farinn að móta myndir þá sagði hann „ertu nú alveg viss? Ásmundur var nú skammaður fyrir járnsmiðinn og vatnsberann.“ Ég held hann hafi verið svoldið að prufa mig, vita hvernig ég myndi bregðast við. Það voru stundum skammargreinar um Ásmund í blöðum. Þær þóttu svo ljótar stytturnar hans og svona. Við ræddum þetta ekkert heima mikið og ég tók gagnrýnina ekkert alvarlega.

Pabbi var svoldið svartsýnn að eðlisfari en þegar ég var farinn að móta myndir þá sagði hann „ertu nú alveg viss? Ásmundur var nú skammaður fyrir járnsmiðinn og vatnsberann.

H&H: Hefurðu sótt um listamannalaun í gegnum tíðina?

H: Mig minnir að ég hafi einu sinni verið svo heppinn að fá þriggja ára starfslaun, en nú held ég að það sé búið að leggja þetta allt niður.

H&H: Nei það er enn hægt. Held það sé algengast að sækja um rafrænt í gegnum netið.

H: Já ég er ekki mikill tölvumaður. Það er alveg voðalegt að vera svona fullorðinn maður.

H&H: Hvert er draumaverkefnið núna?

H: Að klára hálfkláraðar myndir.

H&H: Hvað hefur myndlistin þín kennt þér?

H: Mín eigin myndlist…

Hallsteinn hugsaði sig um vel og lengi.

H: …hvað mér hefur liðið vel. Mér dettur það allra helst í hug. Hvað mér líður vel þegar ég er að vinna við þetta.

Ég til dæmis sá nú með pabba að hann vann sem skrifstofumaður í 30 ár og ég veit ekki hvort hann hafi sem ungur maður bara ekki fyllilega vitað hvað hann vildi en svo fór þetta nú að verða nokkuð skýrt hjá honum, hann langaði til að smíða húsgögn.

Ég fann þetta nú út bara strax í fjórða bekk í gagnfræðiskóla hvað ég vildi gera. En svo hef ég auðvitað eins og aðrir þurft að gera eitthvað til að vinna fyrir brauði mínu og þá hef ég fundið svo greinilega muninn, að þurfa að vera í einhverri byggingarvinnu á sumrin.

En svo hef ég auðvitað eins og aðrir þurft að gera eitthvað til að vinna fyrir brauði mínu og þá hef ég fundið svo greinilega muninn.

H&H: Svo gott svar. Myndlistin þín kenndi þér að líða vel.

H: Já að hafa ánægju að því sem ég geri.