Menu & Search

HELGA PÁLEY & LOJI

HELGA PÁLEY & LOJI

Hillbilly fór í heimsókn til Helgu og Loja. Fullorðinslegt hverfi þar sem föstudagsdóminos pízzur og stöð tvö ríkja. Börn að leik og trampólín í görðum. Þegar komið er inn; risaskjár á gólfinu, playstation, sófi og list á veggjum og útum allt. Helga er með vinnustofu í húsinu þar sem hún vinnur alla daga. Ástrós systir hennar var á staðnum og bjó til rosa skúlptúra úr dóti á meðan við hin spjölluðum.

L: Ég kannski slekk á Fifa.

Við setjumst við borð. Loji færir nokkra stóla í burtu. „Já, það eru nokkrir stólar sem eru alveg að detta í sundur… þarf að fara með þá í viðgerð.“ Þegar Hillbilly kom í heimsókn í mars var allt í gangi. Helga var að undirbúa sýningu í SÍM salnum, Fullt minni, og Loji hafði verið með sýningu á Hönnunarmars, Upp með sokkana. Hann var líka að vinna að heimildarmynd sem hann vinnur ennþá að núna þegar viðtalið kemur loksins út.

H&H: Um hvað er myndin?

L: Bútasaumsklúbb sem heita Pjötlurnar.

H&H: Ertu hluti af þeim?

L: Nei, I wish samt.

Þetta eru konur á öllum aldrei, yngsta er 14 og elsta er að verða níræð. Þær hittast alltaf og sauma bútasaum saman. Svo einu sinni á ári, í maí, fara þær í svona stórar saumabúðir. Á Reykjanes í Ísafjarðardjúpi.

Magnað að búa sér til félagsstarf út á landi. Þær þurfa að gera eitthvað í gegnum veturinn. Þær hlakkar alltaf til að hittast og sauma saman.

H&H: Er þetta eitthvað svona listrænt?

L: Nah, þetta er bútasaumur. Margir eru náttúrulega að gera svakalega flottan bútasaum. Sauma bara úr gömlum hljómsveitabolum til dæmis. Það er allur gangur á þessu. Nú erum við farnir að hugsa um myndina sem bútasaum líka, taka upp allskonar formött og sauma þetta einhvernveginn saman. Tengja innihald myndarinnar við hvernig við vinnum hana.

H&H: Lífið er bútasaumur. Öll þessu litlu móment… þið vitið. Þú saumar saman alla litlu partana í því. Þetta gæti orðið rosalega djúp heimildarmynd.

L: Já þetta á eftir að verða heimspekileg og flott sko. Veit ekki. Ég vona fyrst og fremst að hún verði skemmtileg.

Helga kemur með kaffi. Tvær könnur, dugar ekkert minna til.„ Ætti maður kannski bara að kaupa eina, númeri stærri?“

H: Við eigum ekkert sætt með.

H&H: Hver er munurinn á myndlistarmanni og skapandi einstaklingi?

H: Er ekki bara listamaður sem ákveður að einbeita sér bara að þessu?

L: Já kannski er það bara málið. Myndlistarmenn vinna við það að vera skapandi.

H: Þeir eru kannski líka sérvitrari. Þú getur verið skapandi í öllum geirum, getur fundið skapandi lausnir…

L: Getur fundið skapandi pípara sem hugsar bara í lausnum.

H: Já, „setjum pípurnar út fyrir!“

L: Pípuverkið hans er kannski algert listaverk.

H: Já, nema ef hann myndi fara heim og halda áfram, færi út fyrir verkefnið og gerði það fyrir sig. Þá yrði þetta kannski meira svona hans. Sköpunin er meira fyrir sjálfan einstaklinginn þegar maður er listamaður.

L: Já, maður getur verið skapandi á svo margan hátt. Ég veit ekki alveg hvenær maður getur skilgreint sig sem listamann. Ekki beint. Maður á frænku sem er alltaf að prjóna á mann lopapeysu, hún er skapandi í því. Mamma mín saumar og saumar en hún, hún sjálf myndi aldrei flokka sig sem listamann þrátt fyrir að það sem hún gerir sé mjög vandað og virkilega flott og skapandi. Hefði alveg atvinnu af því ef hún myndi leggja sig alla í það.

H: Ef hún færi út frá uppskriftarbókinni, það er kannski munurinn.

L: Listamaður kannski óhræddur við að prófa einhverja nýja hluti. Og svo er það hvenær maður skilgreinir sig sem listamann.

H: Ég held að allir geti kallað sig listamann.

L: Já hvort maður sé listamaður á ja.is

H: Þú ert listamaður á ja.is

L: Já.

H&H: Hvað ert þú á ja.is Helga?

H: Ég held að ég sé pabbi eða eitthvað.

H&H: Finnst ykkur mikilvægt að læra myndlist?

L: Ég myndi segja það, já.

H: Já, upp á félagsskapinn. Maður hefur farið í svo mismunandi skóla og leið stundum eins og geimveru.. Það var gott að komast loksins í skóla þar sem fólk var… ekki eins, en hugsaði svipað. Vinnandi að sínu…. Loji, þú ert alltaf í viðtölum. Kláraðu þetta.

L: Já ertu komin í sjálfheldu?
Mér finnst líka mikilvægt að kenna myndlist í grunnskólum. Þetta er ekkert fyrir alla, en að fólk fái að snerta á einhverju skapandi. Öll erum við einhvernveginn skapandi. Eins og píparinn. En að skyggja epli í myndmennt er ekki leiðin fyrir alla. Það eru miklu fleiri hlutir sem hægt að gera og kenna á svo ótrúlegan hátt.

 

Það er gaman að vera skapandi, manni líður vel.

L: Ég verð að viðurkenna að ég var svoldið hræddur við orðið „listamaður“. Allt í lagi að vera skapandi en orðið listamaður er eitthvað…

H: Mér finnst, af því ég ólst upp út á landi, þá var alltaf eitthvað „Já svo þú ert svona listamaður.” *Stillir hnétu upp á glas á hvolfi* „er þetta list?“. Og ég eitthvað „mmm, ég veit það ekki.. finnst þér það?“ Allir ættu að fá að vera skapandi í sínu, að búa til eitthvað frá sínu höfði.

Ég hugsa þetta svoldið eins og íþróttir – það er hollt að hreyfa sig. Allir eiga að hreyfa sig, og allir eiga að skapa eitthvað. Það er hollt að skapa.

H: Það er sjálfsagt að allir séu að hreyfa sig, jafnvel að vera atvinnumaður í íþróttum. En ef þú ætlar að vera listamaður, þá er það stundum talið að vera ónytjungur. Af því að þú nennir ekki að vinna. Ekki sama virðingarstig.
Mér finnst líka svoldið sorglegt að þegar fólk fer á eftirlaun og fer það að mála, eitthvað sem það elskaði alltaf.

L: Sbr. Bush yngri.

H&H: Og Sævar Karl, listunnandi m.m.

L: Til að svara spurnigunni, fyrir mig persónulega skipti það öllu máli að læra myndlist. Það sem þú lærir, það er meira að hugsa gagnrýnið. Þú gætir farið hérna… eða þarna eða í hina áttina. Lærir að spyrja spurninga. Og svo þarf maður að finna sitt form, sinn miðil til að vinna í. En að læra, að læra listasöguna, hvernig allt þetta lið hefur hugsað. Sumt finnst manni geðveikt skemmtilegt, sumt dead boring. Allt eðlilegt.

H: Að sjá möguleikana víkkar svo heiminn.
L: Svo býr maður sér til tengslanet og kynnist öllum kennurunum…

Viðtalið stöðvast – Heyrist svakalegt öskur úti. Hillbilly hélt þetta væri rólegt hverfi.

L: Helga sá einhvern nakinn gaur hérna út um gluggann um daginn. Þetta er bara eðlilegt.

H&H: Ha, hvað var hann nakinn úti?

H: Já ég var bara í glugganum að vinna, máta myndir í gluggann og sé nakinn mann um tvítugt að læðupokast meðfram bílunum. Og svo sér hann mig og horfir á mig og sprettur upp götuna.

L: Var hann í skóm líka?

H: Nei ég held ekki.

L: Skrítið kombó.

Nakinn í skóm.

H: Líka, hinum megin við bílinn var lítil stelpa og mamma hennar var að koma á bíl. Ég vildi að hann hefði ekki séð mig.

L: Þá hefðiru tekið upp símann, tekið snapchat.

H: Tekið geggjað snap! Kannski var hann bara að leika einhvern leik.

H&H: Hvernig lærir maður?

L: Prófa. Fikta. Gera mistök. Gera eitthvað ógeðslega ljótt. Og svo finnst manni geðveikt gaman að gera eitthvað ljótt og masterar að gera einhvern viðbjóð. Eða fer að sauma eins og ég. Allur gangur á því hvernig maður lærir. Maður lærir líka mikið af félögunum.
Fólk hefur auðvitað hugmynd um hvað myndlist er og það er að mála. Það er það fyrsta sem kemur upp í hausinn á fólki. En eins og með það, þú þarft líka að æfa þig að mála. Líka ef þú raðar upp plastrusli, það er líka geðveik æfing í því að raða því, ákveða hvaða plastrusl þú vilt vera með. Geðveik æfing. Þó einhverjir aðrir hugsi „Vá þetta er bara bónuspoki og golfkúla“.  En það er kannski geðveikt löng leið þangað hjá listamanninum. Æfing skiptir ógeðslega miklu máli.

H: Já, maður lærir að þekkja sjálfan sig. Að fara í svona nám dregur þig út úr þínum þægindaramma. Að vinna sem listamaður getur verið svo einmanalegt. Að fara í skólann þá ertu að tengjast… svo er það kannski svoldið sjokk að þegar þú ert búinn í skólanum. Þá ertu bara einn á báti og þarft að fara að í stúdíó og vinna. Ekki lengur í einhverju komjúnití og þá þarf maður að skapa það sjálfur. Það er svo auðvelt að geta dottið í það að vera geðveikt sérvitur, raðandi plastpokum og hugsa „Þetta er geðveikt.“ Gott að hafa samtalið, segja upphátt hvað maður er að hugsa.

H&H: Er ekki svoldið gott að vera listapar þá?

L: Jú það er bara fínt. Nema Helga er alltaf að gagnrýna allt dótið hjá mér, ég vil alltaf bara að hún dáist að því og finnist það bara geggjað. Svo má ég alltaf laga eitthvað og bæta eitthvað. Það er reyndar rosa gott.

H&H: Deilið þið stúdíói?

L: Við erum bara hérna heima. Helga er búin að koma sér fyrir frammi og svo er ég bara fyrir framan Fifa að sauma.

H: Við erum með aukaherbergi frammi.

L: Við erum heldur ekki með mestu efnin, ekkert að skola mikið eða neitt svoleiðis.

H: Já, ég er samt byrjuð að þurfa að passa mig núna inn í herbergi.

H&H: Getur fólk verið myndlistarmenn án þess að læra myndlist?

L: Já, mér finnst það.
H: Jájájájá..
L: Þó það sé plús að hafa lært. Það er bara forskot að læra. Sumir hafa geggjaðan talent og elska þetta og æfa sig sjálfir.
H: Það er áhugavert líka þegar fólk kemur úr öðrum greinum og notar það í sína myndlist. Hafa lært eitthvað allt annað. En þegar þú lærir ekki, þá kannski festistu bara á einum stað.

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni?

L: Ég er náttúrlega með vinnu, eða ég er að vinna annað. Að selja rútumiða á BSÍ.

H: Svona normcore.

L: Hversdagsleikinn, eins og ég fæst við í myndlist. Það bara tekur tíma, þú fæðist ekkert stjarna og getur farið að gera allt sem þig langar til í heiminum. Mér gengur eiginlega agalega að lifa á listinni, myndi ekki geta það. Svo er það stóra spurningin, kannski á maður bara að segja „ég get alveg lifað á listinni“ og demba sér í það.

H: Þú ert samt að gera fullt annað en bara BSÍ.

L: Okei, jú, ég er að gera fullt annað. Fæ greitt fyrir að gera tónlist og það gengur vel með heimildarmyndina sem ég er að gera. Fékk styrk til að documenta arkitekt. Er að gera fullt on the side. Fæ bara ekki garanteraðan launatékka í lok mánaðar.

 

H: Ég er að vinna fyrir Hring eftir hring að gera skartgripi. Og svo vinn ég líka hjá NPA sem er persónumiðuð þjónusta við fatlaða og svo vinn ég líka hjá Háskóla Íslands að flokka próf á prófatímum. Það er öfug vinna við listamannastarfið. Flokkunarvinna…

H&H: Ertu að hanna hjá Hring eftir hring?

H: Já, ég byrjaði að gera skartgripi fyrir hana, þessi armbönd, Flugan. Svo fór Steinunn sem á þetta að búa til nýjar útgáfur af þessu. Aðrar týpur sem hétu ýmsum nöfnum. Hver og ein er sérstök.

H&H: Er þetta pælt sem veiðiflugur?

H: Já þetta er hnýtt eins og veiðiflugur, fjaðrir og svona. Svo gaman að hitta spennta karla „Eru þetta svona veiðiflugur?”. Ein frægasta flugan.. Rauða Francis? Ég ætlaði að lesa mér til um hana en það voru svona 20 blaðsíður sem maður verður að fara í gegnum. Hver byrjaði að hnýta hana, hver tók svo við því á Íslandi, við hvaða veiði er hún notuð. Svo ítarlegt. Allt annar menningarheimur.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið hjá ykkur?

L: Frá því að hugmynd fæðist þar til þetta er komið? Ég sé oft eitthvað fyndið dót, tek mynd af því og er með það í hausnum og hugsa hvernig ég á að sauma það út. Svo veit ég hvernig ég ætla að sauma það – þá sauma ég það út og festi á ramma. Mjög beisik. Efniviðinn fæ ég úr hinu hversdagslega lífi, blómapottar og straujárn og bara eitthvað. Eitthvað. Nánast. Kaffikönnu líka. Þetta borð er myndlist í mínum augum.

H: Við förum aldrei út úr húsi.

L: Nei, við erum bara hér! Já það er sköpunarferlið.

Reyndar á mamma mjög góða spretti. Oft segir hún mér frá einhverju nýju spori sem ég get saumað út eða sýnir mér nýtt efni eða garn eða nál og þá kvikna upp nýjar hugmyndir, eitthvað sem ég var búinn að vera með aftan í hausnum. Og þá bara „já mamma snilld, ég ætla að nota þetta dót.“

 

H&H: Kenndi mamma þín þér að sauma?

L: Já, mamma er búin að kenna mér fullt. Þetta byrjaði allt á því að hún gaf mér nál sem heitir flosnál. Ég var eitthvað að mála stundum og svo breyttust hugmyndirnar í flos. Og ég fór að flosa eins og að þeyta rjóma með höndunum. Bara nákvæmlega sama hreyfing, svo þetta er ekkert eitthvað sem maður þarf að læra. Svo hefur mig langar að bæta einhverjum hugmyndum við og þar hefur mamma hjálpað mér mikið með að stinga upp á einhverju.

H: Þau eru með svona sameiginlega pinterest síðu.

L: Já skissubókin mín er frekar þykk A4 mappa af myndum sem mamma prentar út í vinnunni af svona sporum og hugmyndum. A4 síður af pinterest.

H&H: Mamma þín er þín klappstýra? Og Helga harðasti gagnrýnandinn?

L: Já hún er klappstýran mín. Já, þetta er frábært. Ég æfði fótbolta þar til ég var 17 ára gamall og jú, hún mamma mætti stundum. En hún mætti bara af því hún þurfti þess. En núna fæ ég svo mikið hjarta frá henni. Hún hélt auðvitað með mér og hjartað hennar var með mér en ég finn fyrir því svo sterkt núna.

Hún er eins og pabbarnir sem öskra inn á völlinn, hún er þannig í saumaskapnum hjá mér.

 

H: Hún er atvinnumaður í bútasaum.

L: Já hún er rosaleg. En hvernig er sköpunarferlið þitt?

H: Ha. Já… Já. Mjög kaótískt……… Ég held maður sé bara alltaf að.

L: Ég elska þegar ég kom heim einhverntímann og þú varst að taka til eitthvað, og fannst málningu. Manstu eftir þessu?

H: Nei.

L: Og ég kem heim og þá varst þú bara búin að mála allt andlitið þitt.

H: Já. Það var nú ekki myndlist, ég var á leiðinni út á djammið! Nei það er mikilvægt vera alltaf að og að hafa dagssetningu þar sem þú tekur bara allt saman og byrjar að sortera hvað þú ætlar að fara að sýna. Afhverju er ég að þessu, þarf ég að vera í myndlist. Ég ætlaði í mannfræði og eitthvað svona, ætlaði ekkert að verða listamaður. Þetta er bara stöðugt hjá mér. Alltaf að gera eitthvað svona…dót. Svo gaman.

H&H: Er einhver ómissandi hlutur í ferlinu?

H: Blað og blýantur.

L: Beisik.

H&H: Hvað fær þig til að vilja teikna?

H: Það er bara eitthvað. Fæ kannski einhverja áráttu fyrir vissum formum. Alltaf að leita að einhverri línu, einhverri teikningu sem ég er ánægð með. Eins og Loji er geðveikt góður í að byrja  á mynd og klára hana. En blýanturinn getur orðið svo spontant. Það er áskorun fyrir mig að klára. Svo er maður með einhverja hluti í mengi sem virka á mynd.

H&H: Notarðu leirinn eins og teikningu?

H: Mér finnst augað vera komið svoldið fram úr manni. Finnst kannski eitthvað frábært og lítur svo á það seinna og það er orðið glatað. Eitthvað sem ég fílaði fyrir viku síðan. Á þá erfitt með að teikna þá stundina, gott að fara í annað miðil. Fara í þrívídd og það gefur mér einhverja aðra tilfinningu þegar ég sest aftur að teikningunni.

H&H: Hafið þið upplifað raunverulega þrá til þess að skapa?

L: Ég hef oft pælt í því afhverju ég er að gera þetta. Ég man að ég byrjaði að gera tónlist fyrst af því ég átti að vera að læra undir próf. „Ég á upptökuforrit í tölvunni minni.“ Það er kannski svona náttúruleg þörf til þess að skapa. Eitthvað sem tosaði mig í þá áttina. Kannski leti við að læra undir prófið. Þetta gerist bara ósjálfrátt. Ég vill búa eitthvað til og koma því frá mér.. ég er ekkert í miklum tengslum við afhverju ég er að gera þetta. Allt í einu er ég komin með einhver trilljón verkefni ofan á mig bara við að gera heimildarmynd, myndlistarsýning, gera plötu líka. Brjálað að vilja gera endalaust. Enginn rembingur. Gerist náttúrulega bara. Segja já við öllu sem tengist sköpun.

H: Er hún ekki bara alltaf í gangi einhvernveginn?

L: Ég dáist að Helgu. Ég kannski fer í Fifa en Helga er bara alltaf að teikna. Mér finnst það pínu vanta í mig.

H: Já, ég var að hugsa þegar þú varst að tala. En ég er búin að gleyma því. Mér finnst þegar þú ert að skapa… þú ert alltaf að skapa eitthvað sem skilgreinir þig. Kannski líka eins og tilfinningin þegar þig langar í ný föt, líður eins og þú átt ekki neitt. Þá finnst mér sama tilfinning, að ég þurfi að fara að búa til eitthvað nýtt.

Allt þetta gamla er ekki ég. Þarf að vera að búa til eitthvað nýtt til að halda í sína hugsjón. Augað er bara eins og vöðvi sem þarf alltaf að næra með alls konar, öllu sem þú sérð. Og myndar þér skoðun. Alltaf að þróa skyn eða smekk. Þú þarft að skapa til að mæta því… annars ertu alltaf bara í gömlu fötunum þínum.

H&H: Hafiði upplifað sköpunarstíflu?

L: Jajá, maður gerir það nú.

H: Já. Þá þarf maður bara að brjóta eitthvað upp. Að kunna að standa upp og fara að gera eitthvað annað. Vera með mismunandi miðla sem hjálpa líka. Eins og ég með leirinn. Eða bara hlusta á tónlist. Eða fara í HÍ að flokka próf. Fæ frí frá því að hugsa „hvað er ég?“ Fara í eitthvað sterílt, það er róandi finnst mér. Í LHÍ var maður í þrjú ár að taka inn og gefa af sér. Svo kemur maður út úr þessu, að gera allt upp á nýtt, frá sinni eigin sköpunarlöngun, ekki alltaf eitthvað viðmót frá kennara.

L: Ég er í miðri stíflu núna. Ég hef alltaf gert rosalega mikið af tónlist en núna bara, ég segi það bara officially núna: Ég nenni því ekki!

H: Bara fótbolti og Fifa.

L: Nei hugurinn er bara einhversstaðar annarsstaðar núna. Dettur ekkert sniðugt í hug að gera og langar ekki að gera neitt. Þá fer ég bara að gera eitthvað annað, að gera heimildarmynd með vini mínum eða fer að sauma á milljón.

H&H: Þú ert semsagt með stíflu í tónlistinni, ekki myndlistinni?

L: Já, neineinei. Ég held að það sé mjög sjaldgæft að fá svona overall stíflu í lífinu. Maður fer alltaf að gera eitthvað sama hvað. Sumir fara til Tenerife.

H: Einmitt. Kannski fær maður stíflu ef maður er of lengi heima hjá sér. Að reyna of mikið, að pína sig, þá þarf maður að hreyfa sig, borða rétt, fara út að hitta vini sína, tala við fólk.

L: Já ég held líka að þú gerir verstu hlutina þegar þú ert að reyna of mikið, ert að pína þig. Ert kannski í miðri stíflu og er bara „faack, djöfull þoli ég ekki þetta dót sem ég er að gera.“

Hillbilly kom með dásamlega myndlíkingu sem hana langar að deila með dyggum lesendum sínum: Ef þú reynir of mikið, rembist of mikið, þá verður listin bara gyllinæð. Hrikalegt! Moving on.

H&H: Eruði að fara til Tenerife?

L: Mig langar alltaf til Tenerife sko. Bara slaka á. Hlaða batteríin.

H: Það er svoldið svona hlutlaust svæði. Þá ertu bara inn í einhverju konsepti. En ég held ég yrði bara geðveik á Tenerife. Að sitja á sólbekk.

L: Þetta er bara málamiðlun. Við þurfum að finna einhverja millilendingu. Það er bara skemmtilegt til að takast á við.

H&H: Hafiði verið eitthvað erlendis saman?

L: Við fórum síðast til Berlínar. Þá var Helga í resedensíu þar. Ég held að það sé seinasta skipti sem við fórum saman til útlanda.

H: Já ég var í SÍM resedensíu. Ég hélt ég væri að fara í eitthvað kósí í september en það var brjálæðislega heitt. Bara 20° á nóttunni. Hélt ég væri að fara í eitthvað haust veður að teikna. En var bara sveitt.

H&H: Voruði saman þar?

L: Ég heimsótti hana bara.

H: Við fórum á fótboltaleik.

L: Já það var eitthvað sem mig langaði til að gera þarna.

H: Það var geggjað. Fórum á Ólympíuleikvanginn sem var byggður 1924 eða eitthvað. Ótrúlega fallegur leikvöllur.

L: Leikvangur.

H&H: Þið sem list-apar. Finnst ykkur það hjálpa?

H: Það væri alveg næs ef þú værir lögfræðingur.

L: Væri með steady tekjur. Ég er að reyna alveg eins og ég get!

H: Nei ég held ekki. Maður þarf kannski minna að útskýra hvað maður er að gera og afhverju því þú skilur ferlið.

L: Mér finnst þetta mjög þægilegt. Eða ekki þægilegt. Mér finnst mjög næs að við getum farið á listasýningar og svona. Það þarf ekkert að kynna eitthvað sérstaklega. Gengur bara smurt. Það finnst mér rosa þægilegt. Hjálpar mjög mikið til að geta gert eitthvað saman.

H&H: Kannski þætti fínum lögfræðingi skrítið ef þú værir heima að ryksuga máluð í framan.

L: Hún mætti fullkomnum skilningi hjá mér…

H&H: „…þú ert bara í þínu ferli… ég kíkji bara í Fifa.”

H: Loji með sitt útsaumshorn. Allt með mömmu sinni í sóni að sauma. Að plotta og hanna bútasumasgardínur.

H: Við erum búin að þekkjast síðan við vorum 16 ára.

L: Það hjálpar líka.

H&H: Hvernig kynntust þið?

H&L: Við vorum í FB saman.

H&H: Byrjuðuð ekkert saman þá?

H&L: Neineinenieni.

L: Mér leist ekkert á hana.

H: Ég þekki allar fyrrverandi kærusturnar hans! Mjög fínar stelpur. Svo vorum við bæði í sambandi í Listaháskólanum með sitthvorri manneskjunni.

H&H: Sitthvorri?

L: Þarf að taka það sérstaklega fram.

H&H: Þið voruð í Listaháskólanum á sama tíma?

L: Já ég útskrifaðist einu ári á undan.

Mamma Loja bútasaumaði teppið inní svefnherberginu. 

L: Það þarf stundum að stoppa hana af.

H: Vantar ekki gardínur í eldhúsið?

L: Hún vildi endilega gefa okkur dúk sem fer undir jólatréð. Og sagði eitthvað „þú og Helga, þið viljið pottþétt einhvern flippaðan er það ekki?“ og ég eitthvað „jújú ég er alveg til.“ Bjóst við einhverju skrítnu formi á honum eða eitthvað. Neinei, við fáum svona myntugrænan og hvítan. Ekki jólalegur.

H: Eins og baðherbergi.

 

L: Já, ef baðherbergið þitt væri dúkur þá væri það jólatrédúkurinn okkar.

H&H: Fylgist þið með listasenunni á Íslandi í dag?

L&H: Já.

L: Já við gerum það. Mættum samt vera duglegri við það.

H: Já en samt finnst mér allt í lagi að kúpla sig aðeins út. Ég held þetta komi bara í skorpum. Stundum er þetta allt alltaf í andlitinu á manni, á samfélagsmiðlum. Þegar maður eldist er gott að kúpla sig soldið frá. Svo kemur þetta í bylgjum.

L: Mér finnst allavega ógeðslega gaman að fara á opnanir og hitta fólkið.

H: Smá reunion.

L: Pínu þannig. Sýna sig og sjá aðra.

H&H: Frítt vín.

L: Það er einn gaur sem er frægur fyrir að koma á allar opnanir og fá sér. Alltaf mættur. Skiptir ekki máli hvort sem það er verið að kynna nýjan bíl í Brimborg eða opnun í Mengi.

H: Skipuleggur þetta vel.

H&H: Hefur ykkur langað til að gera eitthvað en ekki gert það?

L: Já! Ógeðslega oft.

H: Alveg pottþétt. Svo hefur maður bara gleymt því. Svo langar mann eitthvað annað…

…að reyna að ferðast meira kannski, tíminn bara líður svo hratt.

L: Ég hefði kannski átt að skipta um fótboltalið þegar ég var yngri.

H: Þá hefðirðu orðið atvinnumaður.

L: Þá hefði ég pottþétt orðið atvinnumaður.

H&H: Hefðirðu viljað það?

L: Þá, kannski. En núna verð ég bara atvinnumaður í þessu fagi – í saumskap.

Hillbilly fannst myndlíkingin góð hjá Helgu: Fótbolti er bara áhugamál, teikna er bara áhugamál, en svo geturðu ákveðið að verða atvinnumaður í þessu. Þá ertu listamaður. Eða fótboltamaður.

H: Mér finnst skipta jafn miklu máli – að hreyfa sig og að gera það sem er skapandi fyrir þig. Ég hef til dæmis hitt fólk sem á sér ekki neitt áhugamál. Mér finnst það svoldið sorglegt – það veit ekki alveg hvað það á að gera við sjálft sig, eða eitthvað þannig. Þetta er kannski manns statement inn í heiminn – hvernig maður klæðir sig eða heldur með einhverju fótboltaliði. Eða gera bæði. Loji er að brjóta þennan múr.

L: Já eins og með línuna með Tönju. Þetta er sameiginlegur landliðsbúningur fyrir listgreinar og íþróttagreinar.

H&H: Munu búningarnir verða framleiddir?

L: Já vonandi Þetta var samt bara – við vorum bara að starta einhverju.

H: Þau eru líka að fara á fund með Óla Stef.

H&H: Er það? Nei?

L: Geggjað. Jú! Hann var sko muse-in manns. (Ég hafði aldrei heyrt þetta orð en Tanja (Huld Levý) notaði það óspart). Við nefndum hann í hverju einasta viðtali sem við fórum í. Og svo bara einn daginn: Friend Request, takk fyrir.

Ég var svo alltaf að bíða eftir pókinu… það hlýtur að koma einn daginn.

Ég myndi segja að þessi lína hafi verið algerlega success bara útaf þessu, að verða vinur Óla. Það var ákveðið markmið.

H: Ég var svoldið sár. Ég nefndi hann líka í viðtali í fyrra en fékk ekkert Friend request. Held við ættum margt sameiginlegt. Ég skil hann, hann heldur kannski að enginn skilji sig.

Ég upplifi mig oft eins og Óla Stef á handboltaæfingu.

H&H: Lítur þú á þig, Loji, sem tónlistarmann eða myndlistarmann?

L: Ég er einmitt að lenda í einhverjum vandræðum með það… hvað ég ætti að vera. En ég held ég sé bara Loji sem gerir fullt af hlutum. Það er bara góð skilgreining á mér. Það væri samt alveg fínt og myndi auðvelda mikið að ákveða bara eitt. Ég kannski nota það meira – að vera myndlistarmaður. Þó ég hafi kannski gert meira í músík.

H&H: Blandarðu þessu saman?

L: Nei ég hef ekki mikið verið að því.

H: Þið Sudden (Sudden weather change, hljómsveit Loja) gerið það samt mikið. Þið gerið alltaf allt artwork og allt saman með tónlistinni. Sudden var bara Listaháskólaband. Allir nema Oddur útskrifuðust úr LHÍ og núna er Oddur að vinna í Lhí.

L: Já ég hef kannski gert það meira en ég held.

H&H: Fóruð þið í skiptinám?

H: Ég fór til Barcelona.

L: Ég var bara alltaf í Laugarnesinu.

H&H: Hvað myndum við borða ef þið mynduð bjóða í mat?

H: Dahl.

L: Já við myndum bjóða upp á dahl. Helga gerir rosa gott dahl.

H: Dahl.

L: Er það skylda að bjóða ykkur í mat?

H&H: Já þið verðið að gera það núna. Verð að smakka dahl.

Dahl.

H&H: Hvað hefur myndlistin ykkar kennt ykkur?

L: Ef ég mætti segja almennt það sem ég hef lært í gegnum að vera að gera eitthvað og skapa og búa til þá hefur það kennt mér að vinna með öðrum og búa til málamiðlanir og taka ákvarðanir saman í hóp. Kennt mér rosalega mikið í samskiptum. Ég myndi segja það.

H: Ég myndi segja að sleppa tökunum. Að vera í einhverju ferli og vinna úr því sem þú hefur. Treysta ferlinu. Æðruleysi.
Fyrstu sýningarnar sem ég hélt misheppnaðist allt. Vídjóið fór ekki í gang, óskrifanlegur dvd diskur… „Þetta er fyrsta myndlistarsýningin og ég er búin að FLOPPA!” Allt í einhverri taugaveiklun. Því oftar sem maður gerir þetta – þetta er einhver punktur og svo heldur maður áfram. Ekki að taka sig svona brjálæðislega alvarlega. Það er ekkert betra ef…

L: Þú ert að stressa þig á einhverju.

H&H: Hugsar maður það ekki alltaf eftir á?

H: Jú, svo getur maður bara búið til eitthvað annað úr þessu. Þó það sé ekki alveg eins og þú vildir hafa það þá lítur það kannski allt öðruvísi út fyrir áhorfandann. Svo finnst mér líka svoldið hressandi þegar það kemur eitthvað sem öllum finnst ógeðslega flott en þér finnst það bara það ljótasta sem þú hefur séð. Maður er alltaf að leita að því sem er rétt fyrir mann. Fullnægja, þókna sínu eigin fegurðarskyni.

Það þurfa ekkert allir að fíla dótið þitt.