Menu & Search

HILDUR ÁSA HENRÝSDÓTTIR

HILDUR ÁSA HENRÝSDÓTTIR

Hillbilly heimsótti Hildi Ásu Henrýsdóttur á vinnustofu hennar skrástrik heimili. Hún fílar að hafa stúdíóið heima vegna þess að hún þarf ekki að fara út þegar hún fær listaandann yfir sig. Hildur ólst upp á Þórshöfn á Langanesi, á N-A hluta landsins, eins og önd í laginu og Þórshöfn er í rassgatinu á öndinni; Hildur kemur lengst utan af rassgatinu eins og hún orðar það sjálf. Þegar hún var 16 ára flutti hún til Akureyrar til að fara í menntaskóla og rómantík á þeim tíma leiddi til þess að hún ílengdist þar og endaði í Myndlistarskóla Akureyrar. „Ég er ánægð núna að hafa stoppað við í myndlistinni, í rauninni fékk ég veiruna.“ 

Á meðan Hildur handmalar kaffi fyrir Hillbilly sem tekur um það bil korter talar hún um að vera málari sem er að reyna að hætta að vera málari.

H: Ég fékk eitthvað sem líktist ritstíflu, langaði að prófa eitthvað annað. Ég mála í þrívídd, realískt, fígúratíft og langaði að gera það í alvöru efni. Ég er hálfpartinn að móta í málverkinu, ég finn það núna þegar ég er að vinna með skúlptúra að það er eiginlega það sama. Nema bara annað hvort í rými eða tvívítt. Svipuð nálgun. Ég nota heilann svipað.

Er að láta málverkið flæða svoldið út fyrir rammann. Gæti verið að ég hafi stolið þessum quote af Ransu.

H: Notiði mjólk?

H&H: Nei.

H&H: Fyrsta/sterkasta æskuminningin þín?

H: Niðri við læk heima hjá mér, ég var í jaðri þorpsins. Það var í rauninni uppeldisstöðin mín að smíða litla báta til að láta fljóta. Var alltaf að smíða mitt eigið dót, úr fundnum spítum, að smíða lítil skip, að láta þau sigla. Á læknum, elta þá niður að sjó. Eða smíða einhvern kofa. Eða niður við bryggju að veiða marhnúta, ljóta botnfiska. Þeir eru ekki étnir, ég veit ekki afhverju við vorum að veiða þá. Við hentum þeim bara aftur út í.

H&H: Afhverju fórstu að læra myndlist?

H: Mig langaði að verða leikari lengi vel. Mig langaði alltaf að fara í eitthvað skapandi eða einhverja hönnun en ég var alltaf að rembast við að finna einhverja praktíska hlið á því. Afþví ég er kannski alin upp þar sem er ekki mikil þekking eða skilningur á myndlist, á svona litlu sjávarplássi út á landi. Þegar það er ekki mikil þekking á þessu þá er þetta ekki alvöru vinna. Svo ég fór að hugsa um að fara í húsgagnahönnun eða tækniteikningu án þess að vita hvað það var, hljómaði bara skapandi, sem það er ekki. Fór í nútímafræði, sem er svona þverfaglegt nám sem enginn fattar, svo kláraði ég það og það leiðir þannig séð ekkert, en það er góður grunnur í einhverju frekara hugvísindanámi.

Svo hugsaði ég bara æj fokk it, mig langar bara að gera myndlist. Sótti um í LHÍ og komst inn. Það að komast inn gaf mér eitthvað egóboozt til þess að hafa trú á sjálfri mér, að ég gæti þetta. Afþví ég var alltaf að reyna að réttlæta fyrir mér að ég þyrfti að fara einhverja praktíska leið þá hafði ég ekki trú á sjálfri mér, var í miklum sjálfsefa. Kannski erfiðara þegar mörgum að heiman finnst ekkert vit í þessu.

Ég tók ákvörðun, ég ætla bara að prófa myndlist. Í dag sé ég ekkert eftir því. Mér finnst það alger snilld – maður getur einhvernveginn verið hver sem maður vill sem myndlistarmaður.

H&H: Var gott að komast í annað umhverfi?

H: Að alast upp út á landi, það eru svo fáir þar. Þú hópar þig ekkert saman með fólki sem þú átt endilega samleið með, þú hópar þig bara saman með fólki sem er þar, fullt af skemmtilegum karakterum. Og þá þegar þú kemur á stærri staði, geturðu hópað þig saman með eins þenkjandi fólki og þér. Til dæmis fólki sem hefur áhuga á myndlist. Það styður við bakið á manni, hvetur mann áfram, gagnrýnir. Það var ákveðið frelsi að komast frá Þórshöfn. Að geta verið maður sjálfur.
Það var samt æðislegt að alast upp út á landi, mikið frelsi sem barn en þegar maður eldist er ekki jafn mikið frelsi, færð ekki að tjá þig á eins lifandi hátt, eða vera alveg þú sjálfur, því það eru fastar skilgreiningar á því hvernig þú átt að vera.

Ég held það sé góður eiginleiki að fullorðnast ekki. Ég held að maður verði aldrei fullorðinn. Ég held við ofmetum það að verða fullorðin. Við erum bara fólk sem þroskast.. eða ekki.

H: Það er einhver pakki sem maður á að gera, nú er ég að verða þrítug, þá á ég að vera komin á einhvern stað, ég á að vera komin með 2,5 börn og labrador og íbúð á Álftanesi og vera markaðsstjóri hjá einhverju heildsölufyrirtæki. „Já hvað gerir þú? Já hvað er að frétta af honum Jóni þínum? Já þriggja ára brúðkaupsafmæli? Við erum að fara í skíðaferð til Austurríkis.“

Hildur er utan að landi eins og áður hefur komið fram og Hillbilly var forvitin um hvað fólkinu á heimahögunum finnst um ákvarðanir borgarstelpunnar og hvað foreldar hennar fengjust við. 

H: Pabbi minn dó fyrir 10 árum. Hann var altmuligtmaður. Vann á áhaldahúsi bæjarins, sá um að moka göturnar, halda holræsunum í lagi og var líka slökkviliðsstjóri, hafnarvörður og sjómaður en hann var rafvirki. Hann var útum allt, kunni aldrei að segja nei, var alltaf til í að hjálpa og gat gert allt. Ótrúlegur. Allt á sama tíma sko… Ég veit ekki hversu langur sólarhringurinn var hjá honum. Í svona litlum þorpum eru oft sumir sem eru bara hálfgerðar stoðir, ganga í öll verk og finnst það sjálfsagt og finnst gaman að hjálpa. Partur af karakternum. Pabbi var frá Þórshöfn en mamma reyndar frá Reykjavík en á ættir að rekja á Melrakkarsléttu.
Mamma flutti aftur til Reykjavíkur árið 2011 og starfar á dagvistunarheimili hérna. Það var mjög gott að fá hana suður. Mamma er held ég hægt og rólega að fatta hvað ég er að gera. Ég fór nefnilega einu sinni norður, heim, og var að mála einhverjar landslagsmyndir. Ég fékk bara allt í einu einhvern styrk, langaði bara að fara og gera eitthvað. En núna halda allir (heima á Langanesi) að ég sé landslagsmálari. Það var eitthvað sem fólk tengdi við. Myndir af heimahögunum.

Það þekkja allir fallegt málverk sem er fyrir ofan sófann sem er ekki að stuða neinn. Það er svo auðvelt. Eftir það hugsuðu kannski margir: Já hún er listamaður, hún málar falleg sólarlagsmálverk.

H&H: Fékkstu þá samþykki frá fólkinu heima?

H: Já ég hélt einhverja sýningu og allt seldist upp. Það var barist um myndina af höfninni.

H&H: Nú verðuru að halda aðra sýningu með málverkum af undirhökum. Eða falleg íslensk landslög með þér í birth-of-venusarstíl málaða inná.

H: Já það segja margir „ég skil ekkert í Hildi, hún gerir svo ljótar myndir af sjálfri sér“ og ég hugsa „Jesssssss, SUCCESS.“

H&H: Er nauðsynlegt að læra myndlist fyrir þér?

H: Það er mikilvægt fyrir mig. Í rauninni kannski fyrir mig persónulega af því það dýpkaði minn eigin skilning og gaf mér bara verkfæri og sjálfstraust til að halda áfram. Held ég hefði aldrei haft nógu mikið sjálfstraust á eigin vegum, því ég var að brjóta niður einhverja múra sem ég var sjálf búin að byggja með því að fara í skapandi og uppbyggilegt umhverfi. Námið sem slíkt, það sem var í stundatöflunni skipti kannski ekki öllu máli, heldur þetta umhverfi, samnemendur og tengslanet.
Fór í skiptinám til Den Haag í málaradeild í hálft ár. Það var bara ógeðslega gaman.

H&H: Hvernig lærir maður myndlist?

H: Sennilega með því að ögra sjálfum sér og velta fullt af steinum, líka steinum sem maður myndi að öllu jöfnu ekki velta. Svo verður maður að leyfa sér að gera haug af mistökum og ljótu drasli, því þannig þróar maður tilfinningu fyrir því sem manni finnst ganga upp og ekki ganga upp. Sjálf er ég enn að reyna að læra að horfa á alla mína sköpun sem eitt langt ferli mistaka og tilrauna, heldur en að hengja mig á stök verk eða sýningar og ætlast til þess af mér að þau verði fullkomin.

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni?

H: Það bara gengur ekki.

Ég seldi verk í síðasta mánuði og það mínusaði út einn vísareikning, en ég á annan eftir.

…ætlaði að fara út að borða til að fagna en þá var bankinn búinn að taka peninginn. Fékk mér bara núðlur en var allavega laus við þessa vísaskuld. En ég er líka í dagvinnu – skrifstofustjóri hjá SÍM.

H&H: Hvað finnst þér um að titla verkin þín?

H: Mér finnst það ógeðslega erfitt.

Mér finnst ég stundum vera að opna á eitthvað sem er ekki þarna eða loka á eitthvað sem er þarna.

Ég er nýfarin að leyfa mér að skipta bara um titil á verkum löngu seinna, allavega á meðan þau eru í minni eigu. Vegna þess að stundum er ég búin að gera eitthvað verk og það kom enginn titill með. Stundum finn ég ekki neitt sem er ekki klysja eða of vítt eða of þröngt. Þá er bara betra að halda kjafti.

H&H: Hvar vinnur þú að listinni?

H: Í hausnum á mér, í stúdíóinu. Maður er oft rosalega mikið að hugsa eitthvað. Gæti stimplað mig inn og verið að hugsa; verið í vinnunni hvar sem er.

H&H: Finnst þér stúdíóið hafa áhrif á verkin?

H: Já ég geri auðvitað minni verk. Ég hef gert 2×2 olíumálverk, á meðan ég var upp í skóla með meira pláss. En núna minnka málverkin. Ég byrjaði líka að gera skúlptúrana núna í haust, þá er ég rosa mikið að nota bara það sem ég finn heima, nota gamla peysu í fyllingu í einhvern skúlptúr.

Það er líka element sem koma úr umhverfinu – að grípa það sem hendi er næst. Ég myndi ekki gera það ef ég væri í stúdíói þar sem ég væri með fyrirfram valda hluti.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?

H: Ég vinn oft útfrá ljósmyndum, þá er ég með grófa hugmynd og tek ljósmynd frá ýmsum sjónarhornum, yfirleitt myndir sem ég tek sjálf. Ég nota sjálfa mig svoldið sem efnivið. Maður er alltaf sjálfum sér innan handar. Það er líka önnur sögn að nota sjálfan sig heldur en önnur módel. Þá get ég líka stjórnað – ég veit kannski hvað ég vil fá, þá get ég látið sjálfa mig rembast þangað til ég fæ það fram. Eða eitthvað allt annað sem kemur fram á endanum. Svo teikna ég stundum upp myndina nokkrum sinnum til að gera hana aðeins lifandi. Og stundum varpa ég upp á striga en stundum teikna ég líka ef ég hef tíma, eða bara langar til að gera það. Svo byrja ég að smyrja á strigann. Og það er ekki bara gleði. Það getur verið innri fullkomnunarárátta að berjast við frelsi. Þegar maður er of passívur og stífur en finnst línan of stíf og leiðinleg.

Málverkið hjá mér er svona tvö skref fram á við, þrjú aftur á bak, tvö fram
á við, eitt afturábak.

H&H: Hefuru upplifað raunverulega þrá til að skapa?

H: Já. Í eirðarleysi. Jú, ég fæ stundum einhverja hugmynd. En hugmynd er auðvitað bara samansafn af ýmsu sem kemur, maður á enga hugmynd kannski alveg sjálfur, frá grunni. Og maður er bara eins og svampur, verður fyrir áhrifum frá ýmsu úr umhverfinu, svo er ég bara að melta án þess að vita það almennilega og þá kannski allt í einu lýstir upp einhverri hugmynd. Það er eins og hún fæðist bara. Og stundum er ég sitjandi á skrifstofunni fyrir framan excel skjal að fylla út í einhverja töflu og fæ einhverja hugmynd allt í einu. Og þá á ég erfitt með að klára daginn.

Eins og maður þurfi bara allt í einu að kúka eða eitthvað. Hugsar ekki um neitt annað. Búin að innbyrða eitthvað allskonar og svo verður það bara að koma.

Fyrir Hillbilly er þetta mögulega besta lýsing tilfinningunni. Einföld, skýr og allir tengja.

H&H: Hvernig upplifiru þá sköpunarstíflu? (pun intended uppað vissu marki.) 

H: Já, hún er sambærileg þránni. Hægðatregða, verður líka illt í maganum og getur ekki hugsað um neitt annað.

H&H: Fyrir þér, er munur á listamanni og hinum skapandi einstakling?

H: Það er náttúrulega skapandi einstaklingar í öllum geirum en svo eru listamenn, skapandi einstaklingar í listageiranum. Þú getur auðvitað verið skapandi forritari en myndlistarmenn hafa ótakmarkað frelsi og eru ekki endilega bundnir við einhvern ákveðinn tilgang. Forritari er t.d. að vinna með tölvur og er þá jafnvel að vinna undir einhverjum. Þar sem hann hefur takmarkað frelsi. En myndlistarmaðurinn er oftast að vinna á eigin vegum og hefur þar með ótakmarkað frelsi til þess að vera skapandi og getur líka hasslað sér völl inn á öllum vettvöngum.

Síðan eru myndlistarmenn líka innan afmarkaðra geira. Málarar leyfa sér t.d. kannski ekki að vera fullkomlega frjálsir, því þeir eru innan einhverrar ákveðinnar hefðar. Hversu mikið frelsi höfum við? Erum við ekki alltaf að vinna innan einhverra hefða og tíðaranda? En við höfum frelsið til að brjótast út úr einhverjum tíðaranda.

 

Að vissu leyti er það líka óöryggi að reyna að brjótast út úr hefðinni. Ég datt inní einhverja klassíska málarahefð, fann snemma að það var eitthvað sem ég gat gert. En svo fann ég að það að vera rosa klassískur málari er ekkert rosa trendy. Það er ekki það sem allir svölu krakkarnir eru að gera. Sem hristi kannski upp í mér á góðan hátt, þá fór ég að prófa að þreifa fyrir mér í öðrum nálgunum og efnisvali. Kannski afþví ég var ekki með nógu mikið sjálfstraust til að gera það á eigin vegum. Að standa bara með því að vera klassískur málari og segja Fuck the cool kids.

Það er eitthvað þroskaferli sem ég fer í gegnum. Ég er málari en er að reyna að gera það á eigin forsendum, í aðra miðla, í fagurfræði sem ég er ennþá að þróa og narratívu sem ég er ennþá að þróa.

…þetta er allt rosalega spennandi.

Hildur og Hillbilly sammælast um að tilveran sé byggð á augnablikum en ekki tímabilum og að það sé gott að þekkja vel einhvern grunn til þess að geta þróast áfram. Vera með báðar fætur vel á jörðinni til að geta flogið útum allt í huganum. „Við stöndum á öxlum risa…”

H: Við byggjum á öllu því sem kom á undan okkur. Okkar samhengi, okkar tíðarandi byggist á tíðarandanum á undan. Þegar maður pikkar upp þræðina sem voru á undan, í gömlu meisturunum eða hugmyndastefnum og þekkir innihaldið, þekkir söguna og aðferðirnar, þá er þá er maður leggri á hvað er að gerast í dag. Samanber ef maður þekkir hvernig Hitler komst til valda þá þegar við sjáum svipuð fasisma ummerki í dag þá erum betur í stakk búin að bregðast við því.

Sem myndlistarmaður þegar maður byggir á því sem kom á undan getur maður haldið samtalinu áfram og farið með það lengra.

H&H: Fylgistu með listasenunni í dag á Íslandi?

H: Já, ég geri það og finnst það mikilvægt og hef gaman að því. Kemst eiginlega ekki hjá því og finnst gaman að sjá hvað er að gerast.

Mér finnst ég vera svo nýfædd inní þetta, get ekki komið með þrusukomment á senuna.

Mér finnst bara ótrúlega gaman að sjá hvað fólk er að vinna ólíkt, og líka að sumu leyti hvað fólk er að vinna líkt. Það er ákveðinn kynslóðamunur, án þess að ég geti kastað hendi yfir hvað það er. Sena sem okkar kynslóð er í er svoldið feminísk. Svoldið líkamleg. Það gæti verið einhver sena.

Það kom smá bakslag eftir second-wave hreyfingunni,1990 feminisma. Það kom einhver lognnlíða, það var ekkert að gerast. Mikil hlutgerving í gangi, án þess að það væri út frá hlið konunnar. Konan var passíf til markatssetningar. Hún var ekki að claima her body. Eins og til dæmis í Free the nipple hreyfingunni og druslugöngunni. Eins og það hafi komið til þess útaf lognmollunni. Þá var þetta eitthvað sem þurfti að segja, að hrista upp í. Eins og við höfum fattað að við þyrftum að halda baráttunni áfram. Við erum ennþá hérna. Konur hafa sama tilverurétt og karlar og listamenn hafa sama tilverrétt og hinir…

Við borgum myndlistarmönnum er til þess að minna á listamenn. Rafvirkinn og manneskjan sem situr yfir á safninu fær borgað á listasafninu en ekki myndlistarmaðurinn sjálfur. Við erum líka mikilvæg!

 

H&H: Eitthvað spennandi í nánd?

H: Ég er að fara í starfsnám í vor, að aðstoða við uppsetningu á íslenska skálanum í Feneyjum. Með Agli Sæbjörnssyni.

H&H: Næs. Hvað myndum við borða ef við værum að koma í kvöldmat?

H: Pizzu.

H&H: Hver er uppáhaldsliturinn þinn?

H: Vá. Það fer eftir því hvort þú spyrjir mig í dag eða á morgun eða hvort það sé eitthvað sem ég á að klæðast eða… í dag er ég svoldill sökker fyrir appelsínugulum.

Í málverkinu þá eru allir litir, sérstaklega litir sem mynda einhvern sjúklega djúsí húðlit. Dökkblár, gulur, bleikur, rauður, hvítur…

H&H: Týpískur dagur og draumadagur í lífi Hildar?

Venjulegur dagur: Vakna snemma í vinnu eftir að hafa farið of seint að sofa. Fjórir kaffibollar fyrir hádegi og fjórir eftir hádegi. Fer heim eftir vinnu og legg mig með köttunum. Borða matinn yfir sjónvarpsfréttum. Sest inn í stúdíó og hugsa um myndlist í 3 tíma og dett svo í gírinn og sekk í málverkið til 3 um nóttina.

Drauma dagurinn: Sofa út og hanga ein yfir kaffibolla um drykklanga stund. Hitta svo góða vini í bröns niðri í bæ. Kíkja á góðar sýningar sem kveikja áleitnar og heimspekilegar pælingar sem við vinirnir skeggræðum yfir 2földum espresso á huggulegu kaffihúsi. Fá óvænt boð eitthvert flott út að borða með frábærum félögum. Vera svo sótt á einkaþyrlunni eftir kvöldmat og drifin heim, norður í rassgat, á alvöru sveitaball.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem listin því hefur kennt þér?

H: Að spyrja gagnrýnna spurninga. Ég hef líka bara kynnst sjálfri mér betur. Mín myndlist og myndlistin sem vettvangur, hvoru tveggja alltaf að kenna mér eitthvað. Þetta skapandi frelsi, að leyfa sér að sjá möguleika í öllu. Leyfa sér að þreyfa fyrir sér og velta steinum og…
…hættum bara þarna.