Menu & Search

HULDA HÁKON

HULDA HÁKON

Hulda Hákon tók á móti Hillbilly í vægast sagt smekklegu stúdíói. Hún fór að fyrirmælum Hillbilly og tók ekki til. Hátt til lofts, góður hljómgrunnur fyrir þýsku drengjakirkjukórstónlistina sem ómaði. Verkin hennar hafa haft mikil áhrif á Hillbilly, þau eru svo skrítin og dásamleg og stíllinn hennar er sérstakur. Henni finnst gott að hafa aðstöðu í stúdíóinu, hvenær er myndlistarmaður að vinna sem myndlistarmaður og hvenær er hann bara heima? „Myndlistarmenn eru alltaf í vinnunni.“

H&H: Hvar ólstu upp?
H: Viljiði kaffi eða rauðvín?

H&H: Kaffi og rauðvín!

H: Hvar ólst ég upp? Fyrstu árin átti ég heima á Lindargötunni þar sem Skuggi er núna, síðan flutti ég til Keflavíkur til 9 ára aldurs, svo var ég alltaf í sveit á sumrin.

H&H: Hver er sterkasta æskuminning þín?
H: Á Lindargötunni, þegar það kom loks snjór einn veturinn og við fórum út í glugga og horfðum niður Vatnsstíginn og ætluðum að fara út að leika okkur og mamma sagði að þetta væri mjólk.
Ég var svo lítil – þegar mamma segir eitthvað þá trúir maður því – samt fannst mér þetta rosa skrítið.

H&H: Afhverju fórstu að læra myndlist?
H: Bara eins og allir hinir;

Alltaf að teikna sem krakki. Saga allra myndlistarmanna.

Nema það að mér fannst að það væri eitthvað sem ég gæti hvorteðer gert þá varð ég að gera eitthvað annað. Þannig að ég fór í menntaskóla og …

Notarðu mjólk?
H&H: Nei

H: … ég ætlaði alltaf að fara í eitthvað háskólanám, spurði strákinn í næsta húsi hvað hann ætlaði að læra og hann ætlaði í Listaháskóla í útlöndum. Þá fattaði ég að ég gæti farið í lista – háskóla líka.

H&H: Varstu með einhverja hugmynd um hvað þú ætlaðir að læra annað?
H: Nei, ég var að hugsa um lögfræði.

En svo þegar ég var búin með menntó var ég komin með barn, þá var ég rosa mikið að spá í iðjuþjálfun. Ég er mjög fegin að ég fór ekki í það.

Ég fór fyrsta árið í fornámið í Mynd- og Handíðaskólanum og svo á Nýlistadeild. Það var algert kjaftshögg. Ég hélt það nægði að vera flinkur að teikna og þannig kæmist ég einhvernveginn í gegnum þetta en það var svo rosalega góður skóli, að kynnast þessu attitjúdi sem var þar. Ég er þakklát fyrir að hafa farið.

H&H: Hvað var að gerast í Nýlistadeildinni?
H: Konseptlist tröllreið öllu.

Svo kynntist ég flúxus – mér fannst það alveg frábært. Mér finnst ég alltaf hafa einhvern grunn í flúxus.

H&H: Er nauðsynlegt að læra myndlist sem myndlistarmaður?
H: Já. Mér hefur sýnst að þeir sem gera það ekki… að það sé ekki nógu gott. Ég held að þessi skólun sé mjög mikilvæg. Mér finnst líka eins og þú verðir að vera menntaður – til þess að vera gjaldgengur. Eins og hérna á Íslandi, ef maður fer ekki í gegnum listaskóla einhversstaðar þá er svo auðvelt að snúa fólk niður. Þetta er harður heimur.

Ég hitti Egil Sæbjörnsson, ofsalega cocky ungan mann og hann ætlaði ekkert að fara í skóla. Honum fannst bara að hann gæti þetta en ég hugsa að hann væri ekki þar sem hann er í dag ef hann hefði ekki farið í skóla.

Ég held að manni sé ekki hleypt svo auðveldlega inn í senuna.

H&H: Hvernig lærir maður?
H: Svo er það eiginlega bara sjálfnám. Að fylgjast vel með og skoða. Við bjuggum út í New York og besti skólinn var bara að fara á sýningar, sjá hvernig fólk vinnur.

Við vorum t.d. að tala um Einar Jónsson myndhöggvara. Hann var svo stórhuga – alinn upp í torfbæ en kemur heim með þessar stóru styttur.

Það er svo margt annað í kringum listina en bara að búa til verkin. Að stjórna þessu, þessu apparati.

Það lærir maður bara af þeim sem hafa gert það. Ekki af kennurum sem hafa ekki gert neitt.

 

HEIÐA ER AÐ LEITA SÉR AÐ KÆRASTA, SITUR ÚTÍ GLUGGA OG RÍFST. HÚN BÍÐUR NÚ EFTIR SHEFFER HVOLPI SEM HÚN ÆTLAR AÐ ÆTTLEIÐA. MJÖÐMIN LEYFIR EKKI EIGIN BARNEIGINIR.

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni? 
H: Það hefur náttúrulega gengið brösulega. Við stofnuðum Gráa Köttinn til þess að hafa eitthvað, einhverjar tekjur, til að geta unnið að listinni. Það er gott að hafa fyrirtæki til að hoppa í ef mann vantar pening – og stjórnað þessu svoldið sjálf. En það er auðvitað þreytandi.

H&H: Standið þið vaktina á Gráa Kettinum?
H: Nei við erum hætt því, það er farið að ganga miklu betur. Við þurfum þess ekki lengur. Erum að spá í að selja bara.
Allt þetta sem er umlykis og þegar maður rekur fyrirtæki þá hefur maður ekki orku í að reka hitt fyrirtækið, myndlistina, sig sjálfan.

H&H: Hefurðu markvisst markaðssett þig? 
H: Ég er sextug. Það hefur alltaf gengið ágætlega hjá mér. Undanfarin ár hef ég alveg getað lifað á myndlistinni. Ég hef ekki markaðsett mig markvisst. Markaðurinn hér heima er líka svo lítill. Ég held að fólk verði bara að fara út.

H&H: Til að meika það?
H: Til að vera í stærra samhengi á stærri markaði. En svo núna eftir að við urðum svona vinsælt túristaland þá kemur svo mikið af fólki sem hefur áhuga á myndlist og ég hef selt svoldið út.

H&H: Hvenær keyptuði þetta stúdíó?
H: Það var á það merkisár, 2007. Við fengum okkur svona myntkörfulán og tókum bara allan pakkann.
Þetta var alveg frábært – þegar við keyptum þá var bara ekkert hérna. En núna er þetta eiginlega að verða of fínt. Mér finnst til dæmis rosa gott að vinna úti, en núna get ég það ekki lengur vegna umferðar.

Þórdís Aðalsteinsdóttir myndlistarskona sem býr í New York var að segja mér að í þessum hverfum þar sem er ennþá hægt að fá ódýrt húsnæði, vilja þau ekki leigja listamönnum. Af því að fyrst koma listamennirnir, svo kemur einhver hipp og kúl stemning við það og síðan kemur fólk sem á peninga og hverfið verður svo dýrt að listamennirnir geta ekki búið þar lengur. Þeir flytja þá annað og sagan endurtekur sig. Svo núna eru einhverjar aðstæður að ef þú segirst vera listamaður þá vill fólk ekki fá þig í hverfið.

Mér finnst svoldið improverandi að tilheyra svona hættulegri stétt.

 

H&H: Hvernig gekk að vera úti með son ykkar? (Hillbilly hugsar alltaf um börnin)
H: Sonur okkar var 8 ára þegar við fórum út. Ef hann fór út að leika sér þá þurfti hann alltaf að láta vita hvar hann væri og hvað hann væri að gera og svona. Svo fór hann heim eitt sumar og uppgötvaði að hann gæti verið á hjólinu allt kvöldið og gert það sem íslenskir krakkar gera og neitaði eiginlega að koma aftur út.

H&H: Voruði í master þar? 
H: Nei, Jón Óskar hætti í Mynd- og hand og fór út og ég fór á eftir honum. Og hann kláraði undergraduate. Þetta var svo klikkað hérna heima, ég var búin með Mynd- og hand en dæmd þannig að ég væri underqualified fyrir master en overqualified fyrir undergraduate. Ég komst ekki inn í kerfið. Svo ég var bara þarna á einhverjum special student status. Ég fékk að fara í þá kúrsa sem ég vildi, fékk einkunnir og allt, en er ekki með neitt próf þaðan.

H&H: Hvar vinnurðu að listinni þinni?
H: Hér og eiginlega meira í Vestmannaeyjum. Við erum með stúdíó þar líka.

H&H: Tekurðu bara Herjólf á milli?
H: Já.

H&H: Hversu oft?
H: Ég reyni að vera mikið þar en svo tekst mér það misvel en ég er lengi í einu. Eins og núna þá er ég að fara út svo það tekur því ekki fyrir mig að fara til Eyja.

Svo vinn ég mikið í Myndhöggvarafélaginu og hérna eru trönurnar mínar. Ég er svo lengi að gera verkin, geri þau til dæmis í Myndhöggvarafélaginu og kem svo með þau hingað og mála þau.

Við eignuðumst einu sinni pening og þá hugsuðum við að það væri best að kaupa sér vinnustofu og fórum að leita.

 

H&H: Afhverju Eyjar?
H: Það var allt alltof dýrt hérna í bænum svo við fórum til Hveragerðis og þá var einhver smákofi þar sem var til sölu sem við hefðum kannski getað keypt…

En svo var svo fínt veður og Herjólfur var að fara úr höfn svo við ákváðum bara að fara til Eyja og skoða þar. Þannig fundum við húsið okkar.

 

Ég er svo sóðaleg þegar ég er að vinna. Fékk smið í Eyjum til að smíða handa mér búr, svona glerbúr. Þar sem ég má vera rosalegur sóði. Það er gluggi á því. Það er mjög fínt því þá get ég verið þar, opnað gluggann og slípað og subbað.

Ég elska þetta búr.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?
H: Það er ekkert ofsalega skipulagt. Það er aðallega þegar ég er slök að ég fæ hugmyndir. Og svo er ég bara að grautast fram og til baka í öllu ferlinu einhvernveginn. Ég bara tek eitthvað sem ég gerði einhverntíman og geri það núna aftur einhvernveginn öðruvísi og ég skrifa niður hugmyndir og krassa á einhver blöð en ég er ekki með svona skissubók, er ekki að skissa. Ég er svo rosalega hæggeng. Ég kláraði eina stóra í sumar, ég var þrjá mánuði.

Það sem að mér finnst vera best er að lesa og fylgjast með, þannig fæ ég hugmyndir. Og að tala við fólk sem veit eitthvað sem ég veit ekki. Mér finnst það svo æðislega gaman.

Hillbilly kallar það „að fá lánaðan heila.” (Copyright 2017). Á trönunum við borðið standa allskonar verk í biðstöðu. Meðal annars Makríl mynd. Á fiskunum stendur silfrað í hástöfum RÁS.

H: Rás er staður í hafinu fyrir utan Þorlákshöfn. Á makrílmyndum eru oftast nöfn á miðum í kringum landið. Ein fór til Grænlands og á hana setti ég nafn á grænslensku kennileiti.

H&H: Tengist textinn alltaf verkinu sjálfu?
H: Stundum tengist hann ekki neitt. Stundum finnst mér gaman að vísa í eitthvað út í buskann; Hundurinn geltir! Eða eins og þessi texti: Fáfræði er ástand annarsstaðar og hjátrú sem henni fylgir nær ekki hingað.Hefur ekkert að gera með gæsirnar. Ég nota þetta líka sem titla.

Ég nota texta mikið. Það er flúxus.

H: Ég var í Eyjum og fór út að veiða með sonarsyni mínum út á bryggju, það var svo mikill makríll að koma að landi og hann veiddi strax makríl. Ég var svo hissa þegar ég sá fiskinn, hann var svo brjálæðislega fallegur. Svo ég ákvað að gera makríl mynd.

Hann er sko með silfurlitaða tungu, hann er ótrúlega fallegur.

H&H: Tekurðu mót af fiskinum sjálfum?
H: Nei ég geri frummynd af honum. Ég geri fyrst leirfisk, svo tek ég mót af honum, síðan steypi ég í Hydrocal og skrúfa síðan og móta allt saman.

H&H: Hefuru upplifað raunverulega þrá til þess að skapa?
H: Jájá ég geri það alveg. Þá verð ég bara að klára eitthvað, fæ einhverja hugmynd og verð bara að klára verkið. Ég hef stundum hugsað um ef ég myndi hætta… ég held ég geti ekki hætt.

Einu sinni kom Stefán frá Möðrudal upp á Korpúlfsstaði þegar Myndhöggvarafélagið var þar, mér fannst hann alltaf svolítið leiðinlegur kall…

En, hann sá þar pensil. Fyrst sá hann pensil, þá fór hann allur að titra og byrjaði að leita út um allt. Svo fann hann þarna einhverja plötu og svo hljóp hann með pensilinn og plötuna út um allt. Á endanum fann hann svarta málningu, þá VARÐ hann að mála Herðubreið. Hann varð bara að mála hana. Tók pensilinn og skutlaði einni Herðubreið upp.

Hjá mér er þetta er svoldið eins og, oft þegar ég er að skemmta mér, ég skemmti mér semsagt við að gera verkið. Ég verð að gera það, því mér finnst það svo skemmtilegt. Það er eitt verk hérna sem mér fannst svo gaman að gera, það er eldgamalt. Þegar við vorum í New York, þá voru kallamálarahetjur vinsælar.
Julian Schnabel, amerísk málarahetja og þjóðverjarnir Markus Lüpertz og Jörg Immendorf voru að pósa svona fyrir eitthvað tímarit. Ég gerði þessa mynd af þeim með hundinum mínum. Ég man hvað mér fannst gaman að gera hana, ég varð að klára hana. Hafði þá alla vel kýlda og ýki vöðvana, því þeir voru að segja okkur hvað þeir voru svakalegir gæjar. Svo ég gerði þá að svakalegum gæjum.

Ég mótaði þetta beint í leir, þetta er frekar viðkvæmt verk en það er í góðum höndum.

H&H: Er ekki alltaf gaman að gera verkin þín?

H: Jú, ég hef verið að gera sjómenn núna. Núna er ég ofsalega hrifin af neonlitum. Ég hlakka til að fara að prófa að nota þá. Var að kaupa í Litalandi.

Svo var Jón á útsölu og keypti liti handa mér. Keypti þennan bláa. Ég var eitthvað að skammast í honum fyrir að kaupa svona mikið að skærbláum. Hann sagði mér bara að blanda þetta.

Þið sjáið kannski á næstunni voða mikið af bláum myndum frá mér. Því maðurinn minn fór á útsölu.

H&H: Hefurðu fengið sköpunarstíflu?
H: Nei, þá hef ég ekki orðið vör við hana af því að ég get alltaf gert eitthvað. Eins og talandi um, ef mér finnst ég vera eitthvað föst get ég farið að einhverju gömlu verki. Mér finnst eins og maður sé að gera rjóður, maður er alltaf að vinna inn í þessu rjóðri, að höggva tré eða eitthvað að dunda, maður á plássið inn í þessu rjóðri. Þess vegna, ef ég hefði ekkert að gera, þá er kannski fínt að ganga að eldri mynd sem ég er ánægð með og láta hana segja framhaldið. Oft kemur eitthvað gott út úr því.

Það er kannski frekar ótti við stíflu. Það er rosalega gott að hafa aðstæður til að geta skapað óheft.

Ég verð ennþá mjög æst yfir verkunum sem mér finnst alveg frábært, fæ svona high þegar ég er búin.

En það er eitt sem ég sakna. Þegar ég var yngri var ég kannski high í viku, en núna eru það kannski þrír klukkutímar. Mér finnst það svo spælandi.

Af því að maður er svo sjálfsgagnrýninn. Ég fer strax að sjá eitthvað mikið að því en það verður alltaf að koma þetta high eftir myndirnar. Ég vinn þangað til að það er komið.

H&H: Hefurðu alltaf gefið þér tíma í að vinna?
H: Ég var að vinna á auglýsingastofum og svona þegar ég var yngri. En það var lykilatriði fyrir mig í þessari vinnu minni þegar ég fór inn í Myndhöggvarafélagið.

Þar með hef ég aldrei getað nota vinnustofuleysi sem afsökun.

 

Mér finnst það vera svo gott, það getur verið erfitt að koma sér af stað aftur eftir að hafa verið í fullri vinnu. Ég fór þar inn þegar ég kom heim frá NY, ‘85-‘86 – og þykir rosalega vænt um félagið.

H&H: Er munur á myndlistarmanni og hinum skapandi einstakling?
H: Ég held að hver og einn verði bara að skilgreina sjálfan sig. Það er mjög mikilvægt að fólk skilgreini sig. Að það finni sér sinn farveg. Það getur verið truflandi að vita ekki hvort einhver sé listamaður eða hönnuður eða eitthvað. Það nægir mér ef fólk telur sig vera myndlistamenn. Helst lærðir.

Í skólanum lærir maður vissan aga að geta beint þessu í réttan farveg. Ég hefði ekki komist upp á dekk án þess að hafa verið í skóla.

H&H: Ertu ánægð með ákvörðun þína í lífinu að verða myndlistarmaður?
H: Já, ég er mjög ánægð með það. Ég hitti alveg fólk sem að langaði alltaf en tók ekki þetta skref. Ég held að ef þú hefur sterka þrá í þessa átt er eina ráðið að gera eitthvað í því. Annað gæti skapað vanlíðan.

H&H: Ert þú hamingjusöm?
H: Já ég held ég sé hamingjusöm.

H&H: Fylgistu með listasenunni í dag?
H: Ég gerði það þegar ég var ung, en ekki svo mikið núna. Ég fylgist með þeim sem ég þekki. Stundum finnst mér líka bara ágætt að vera bara í mínu, þá mengar mig ekkert, ég sé ekki hugmyndir annarra á meðan.

Ég vann sem vörður í PS1 í New York. (Núna er það rekið af MoMa.) Ég sat yfir sýningu þar sem hafði mikil áhrif á mig. Það var sýning frá Mexíkó sem fjallaði um Dag hinna dauðu og Mexíkóskan kúltúr. Þarna voru litlar trúarlegar myndir sem ég varð alveg heilluð af. Þær hafa pottþétt farið inn í verkin mín. Málaðar á málmþynnur og fengnar að láni frá gömlum kirkjum í Mexikó. Ef þú lendir í miklum hremmingum, ert t.d. að drukkna þá heitiru á einhvern verndardýrðling, að ef hann bjargi þér úr þessum hremmingum þá skulir þú láta mála mynd í þorpskirkjunni af því kraftaverki. Svo þetta voru allt litlar myndir af einhverjum atburðum sem fólk hafði lent í; sjúkdómum, óhöppum og slysum. Þetta var alveg frábært. Þarna var líka minningaraltari ástsæls glímukappa. Það var flutt í heilu lagi til New York. Myndir af honum og fullt af persónulegum hlutum í kringum hann, drekkhlaðið plastblómum, allt rosalega skrautlegt.

H&H: Þú varst í Kína… 
H: Jú ég var þar. Það var praktískt, ofsa fínt að vera þar en kínverkur kúltúr hreif mig ekki. Ég næ ekki tengingu við gömlu kínverku listina, þó hún sé mjög flott.

Ég var svo stór þarna, eins og Gulliver í Putalandi.

Einu sinni ætlaði ég að fara á ströndina og það voru einhverjir kínverkir bisness menn sem sáu að ég væri að labba niður á strönd og plöntuðu sér fyrir aftan mig, frekar nálægt, að bíða eftir að ég færi í baðfötin mín. Rosa stór og hvít. Mér fannst þetta mjög óþægilegt.

Einu sinni var ég að spyrja einhverja stelpu til vegar og hún gat ekki hætt að hlæja.

H: Einu sinni fór ég í strætó þarna og ég ákvað bara að fara eitthvað út í buskann því ég vissi að hann færi í hring og svo fór ég að taka eftir því að bílstjórinn var allaf að gjóa augunum aftur í bílinn, augu okkar mættust í baksýnisspeglinum; Hann var voða mikið að fylgjast með mér. Svo alltaf þegar einhver nýr kom inn í vagninn spurði hann þau mikið á kínversku og horfði á mig. Ég veit ekki, hann hefur haft einhverjar áhyggjur af því að ég væri að villast. Svo loks kom einhver til mín. „Hi, how are you?“ Hann kunni ekkert annað. Bílstjórinn hefur örugglega spurt hann hvort hann kynni ensku. Ég fór bara út úr vagninum.

Við vorum fjórir listamenn sem leigðum okkur saman íbúð. Mér fannst það svo fyndið, ég hitti íslenskt par í Kína, þau voru svo svakalega ánægð – búin að ná sér í frábæra íbúð í blokk. Ég kannaði málið og fann rosalega fína íbúð, á 16.000 kr á mánuði. 4000 kr á mann.

H&H: Hefurðu verið einhversstaðar annarsstaðar en í New York, Kína, Vestmannaeyjum og Reykjavík?
H: Nei. Við höfum verið svoldið í Finnlandi. Svo vorum við smá tíma í Berlín, það var líka fínt. Annars finnst mér bara best að vera hérna. Ég er búin að ferðast, vera í Ástralíu og alls staðar. Mig langar ekki að ferðast. Mér finnst bara fínt að vinir mínir ferðist og sýni mér myndir.

Ég er að fara núna í helgarferð því mamma hefur aldrei farið til Parísar og hún er að bjóða mér og systur minni með sér.

H&H: Eru einhverjar sýningar í nánd?
H: Nei ég var með þrjár sýningar á síðasta ári og ég ætla bara að slaka á. Er það ekki?

H&H: Jú það hljómar mega vel. 
H: Ég er núna að vinna prótótýpu fyrir skúlptúr, útilistaverk. Ætla að reyna að setja það upp í sumar. Það gæti verið vesen því það er svo massívt.

Svo var ég með sýningu á Nordica, það verður líka næstu þrjú árin. Og ég er farin að hallast að því að sýna bara þar sem verður bara næstu þrjú árin. Nenni ekki að standa í þessu – og finna pláss fyrir verkin þegar þau eru komin niður. Við leigjum geymslu og svo getum við alltaf sett inn í húsið í Eyjum.

Þetta er samt hali. Fólk nær sér í svona hala. Stundum líður mér eins og ég sé með hala á eftir mér.

Síðastliðið sumar var ég með sumarsýningu í Hallgrímskirkju og líka sýningu í Safnasafninu og sú sýning var alveg í sex mánuði. Það er voða þægilegt.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem myndlistin þín hefur kennt þér?
H: Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessu. Ég er alltaf að reyna að vera svo hógvær. Vinur minn einn er sálfræðingur, ég er alltaf hálfhrædd við hann af því ég er svo hrædd um að hann geti lesið mig í gegnum myndirnar. Það er kannski svoldið þannig, ég er kannski svoldið að opinbera mig í verkunum. En þau hjálpa mér allavega að halda sálarró. Mér líður best með verkunum, að vera að vinna.

Mér leiðist myndlist sem snertir bara hornhimnuna. Ég vil að verkin fari inn í kollinn.