Menu & Search

JÓNA HLÍF & VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

JÓNA HLÍF & VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

Jóna Hlíf útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistarskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA í listkennslu frá Listaháskólanum 2012. Samhliða listsköpun er hún formaður SÍM. Hún er líka ötull baráttumaður fyrir bættum kjörum myndlistarmanna. SÍM og hún sem formaðurinn standa fyrir herferðinni Við borgum myndlistarmönnum. Margir koma að verkefninu. SÍM leitaði til listamanna og fagaðila úr stéttinni til a taka þátt í herferðinni. Listamaðurinn Ásdís Spanó var fengin sem verkefnastjóri starfshópsins, sem vann drög að Framlagssamningnum.

HVAR STANDA ÞESSI MIKILVÆGU MÁL Í DAG?

H&H: Hvað var fyrsta skrefið?

J: Fyrstu skrefin voru að gera könnun á högum félagsmanna SÍM og fara í samtal við helstu safnstjóra listasafna landsins.

Í könnuninni voru lagðar fyrir ýmsar spurningar sem tóku mið af stöðu félagsmanna árið 2013. Sambærileg könnun var gerð 1995 sem tók mið af stöðu félagsmanna árið 1993. Helstu niðurstöður fyrri könnunarinnar, og það sem vakti athygli, var bágborin lífsafkoma listamanna og sú staðreynd að menntun virtist ekki tryggja listamönnum viðunandi tekjur. Ennfremur var vakin athygli á litlum stuðningi við listamenn í formi fjárstyrkja og starfslauna. Nú, tuttugu árum síðar, þegar könnunin er endurtekin hafa aðstæður listamanna lítið sem ekkert breyst þrátt fyrir stofnun Listaháskóla Íslands.

Samtöl við helstu safnstjóra listasafna landsins leiddu til þess að settur var saman starfshópur sem var ætlað að móta tillögur að framlagssamningi fyrir listamenn sem sýna í opinberum listasöfnum á Íslandi.

H&H: Hvað felst í verkefninu?

J: Tilgangur herferðarinnar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er að kynna drög að Framlagssamningi en hann er samningur um þóknun fyrir þátttöku og framlag listamanna til sýningarhalds.

Á sama tíma og við vorum að vinna að herferðinni fór af stað herferð listamanna í Bretlandi undir yfirskriftinni “PAYING ARTISTS” og Norðmenn settu af stað herferðina „LAUN FYRIR VINNU“ á samfélagsmiðlum. Þetta lá greinilega í loftinu.

„Myndlistarmenn eru á vissan hátt minnihlutahópur á Íslandi og erum við að vinna að hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni gagnvart okkar fagi ásamt því að breyta hefðum vegna sýningarhalds. Og til þess að það takist þá var mikilvægt að fara af stað með herferð.“

Dæmi eru um að allir sem komi að sýningu fái borgað fyrir sína vinnu, nema listamaðurinn sem heldur sýninguna. Er þetta kannski bara gömul klisja?

Ólöf Nordal from SÍM on Vimeo.

H&H: Hvað hafið þið lært af því að vinna að þessu málefni? Hefur komið í ljós afhverju virðist vera „normið“ að borga ekki endilega listamönnum fyrir vinnu sína? Hvernig hefur ykkur sem að þessu koma þótt viðhorf almennings og stjórnvalda vera?

J: Ég hef lært mjög margt eftir alla rannsóknarvinnuna og samtölin sem ég hef átt við myndlistarmenn, safnamenn, lögfræðinga, stjórnmálamenn og almenning.

En það sem stendur upp úr, er að þetta snýst um jafnrétti, mannréttindi, gegnsæi og að skapa heilbrigt vinnuumhverfi.”

Ég held að það sé ekki eitthvað eitt sem veldur því að myndlistarmenn fá ekki greitt fyrir sitt vinnuframlag og litla sem enga þóknun fyrir að taka þátt í sýningum í opinberum söfnum, heldur eru þetta margir þættir.

Hefðin á stóran þátt en myndlistin hefur breyst mjög hratt seinustu árin, Það eru ekki mörg ár síðan myndlistarmenn leigðu Kjarvalstaði til þess að vera með sölusýningar, en það sem fáir vita er að listasöfn á Íslandi í dag mega ekki vera með sölusýningar, sem telst vera brot á samkeppnisreglum.

Listasöfnin eru fjársvelt og skilningur stjórnvalda ekki nægur, sem má rekja til þekkingarleysis og mögulega vegna takmarkaðrar myndlistarkennslu í skólum landsins.“

Hillbilly telur sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að listasöfn sumsstaðar í útlöndum reiði sig á fjölda gesta mánaðalega; Því fleiri gestir, því betri fjárhagur – hærri fjárstyrkir.
Hillbilly óttast (ekkert að deyja samt) að listasöfnin myndu neyðast til að velja vinsælli list til að sýna innan sinna veggja, til þess að laða að sér fleiri gesti.


Það er flókið að tala um hvernig myndlist er góð myndlist. Hillbilly hefur á tilfinngunni að það sé ekki endilega tilraunastarf myndlistarmanna það sem sem flestir fíli.
Almenningur hefur skiljanlega skoðanir á því í hvað þeirra skattpeningur fer.

Það sem Hillbilly vildi sagt hafa: Hvaðan eiga peningarnir að koma og gæti þetta haft áhrif á hver fær að sýna, og þ.a.l. fá borgað fyrir að sýna?

„Listasöfnin eru nú þegar rekin af opinberu fé og það er svartur blettur í starfsumhverfi myndlistarmanna að allir fái greitt innan veggja safnana fyrir framlag sitt til sýninga nema myndlistarmennirnir.“

J: Það eru ekki öll söfn á Íslandi sem eru með aðgangseyri, en þau söfn sem eru með aðgangseyri finna fyrir auknum tekjum. Fjöldi ferðamanna sem áhuga hafa á menningu og listum á Íslandi hefur hefur fjölgað til muna á síðustu árum og fer fjölgandi.

Listasafn Reykjavíkur áætlar að tekjur vegna heildaraðgangseyris árið 2017 verði 60.301.000 kr, en það er 23% aukning frá árinu 2015. Ég tel að þetta styrki okkar baráttu fyrir því að listamenn fái greidda þóknun, enda er hún samkvæmt drögum að Framlagssamningi reiknuð út frá gestafjölda á ársgrundvelli og tímalengd sýningar. Listasafn Reykjavíkur áætlar að greiða til listamanna sem sýna árið 2017 3.400.000 kr, en ef Listasafnið færi eftir Framlagssamningnum og myndi greiða lágmarksþóknun, vinnuframlag og listamannaspjall þá væri áætlaður heildarkostnaður 10.332.000 kr. …

Þessar 10 milljónir eru einungis lítill hluti eða rúm 15% af áætluðum aðgangseyri 2017.”

SÍM hefur lagt mikla áherslu frá byrjun herferðarinnar að söfnin fái aukafjárveitingu til þess að greiða eftir Framlagssamningnum. SÍM telur að ákjósanlegasta leiðin væri ef ríkið myndi stofna þóknunarsjóð myndlistarmanna með sjálfstæðri úthlutunarnefnd. Þar gætu listasöfnin sótt um fjármagn til þess að greiða þóknanapartinn í samningnum, síðan myndu sveitarfélögin, sem reka söfnin, veita söfnunun aukið fjármagn til að greiða fyrir vinnuframlag listamannana.

„Viðhorf almennings og stjórnvalda eru áhugaverð að mörgu leyti. Margir halda til dæmis að listamenn séu að fá greitt fyrir sitt vinnuframlag í sýningum í opinberu söfnunum og margir átta sig ekki á hvað felst í vinnu myndlistarmannsins.“

Nú hef ég kynnt bæði stöðu myndlistarmanna og Framlagssamninginn fyrir mörgum stjórnmálamönnum
og finnst mér verða vitundavakning hjá þeim eftir samtalið og það er mikill vilji að byrja að greiða myndlistarmönnum fyrir framlag sitt til sýninga í opinberum söfnum.

J: Þessar upphæðir eru litlar í stóra samhenginu. Við erum að ræða um innan við 10% af heildarútgjöldum safna sem færu í að greiða myndlistarmönnum. Hvert samfélag þarf á öflugu listafólki að halda, hvert samfélag þarf að styðja við list ef það vill dafna sjálft.

Fyrir Jónu er þetta mjög einfalt:

„Ef við viljum búa í samfélagi þar sem jafnrétti og mannréttindi eru virt þá þurfum við að byrja að greiða myndlistarmönnum.“

Hvernig kemur herferðin inn í umræðuna um listamannalaun?

J: Listamannalaunin eru mikilvægasti stuðningur hins opinbera við listsköpun en því miður hefur úthlutuðum mánuðum vegna listamannalauna ekki fjölgað síðan 2012. BÍL hefur barist fyrir því að þeim verði fjölgað í 2000 og að mánaðargreiðslan verði hækkuð í 450.000 kr.

  Listamannalaunin koma herferðinni Við borgum myndlistarmönnum við að því leytinu, að þau eru veigamesti hluti hins opinbera stuðningsins við myndlistamenn. Listamannalaunin gefa listamönnum tíma til að rannsaka og skapa og mjög oft fáum við að sjá afrakstur þess í söfnum landsins.

  

H&H: Gætu samningar sem þessir hugsanlega leitt til þess að færri listamenn fengju að sýna á listasöfnum?

J: Ástæðan fyrir því að SÍM hefur lagt svo mikla áherslu á að söfnin fái aukið fjármagn til þess að greiða eftir samningnum, er vegna þess að við viljum ekki að söfnin þurfi að fækka sýningum.

Hillbilly skrollaði aðeins niður yndislesturinn í kommentakerfi íslenskra fréttamiðla er. Þar er margur á móti listamannalaunum. Eftir því sem Hillbilly kemst næst er það vegna þess að það er erfitt að segja hver er listamaður og hver ekki. Einhver segist vera að mála gólflistana heima hjá sér og vill fá listmannalaun. Og svo er það hin skiljanlega biturð yfir því að öryrkjar fái minna en þessir listamenn…

 

„Ef ég ætti að gefa einfalda mynd af því hvernig ég tel að eðlilegt væri að styðja við starfsemi myndlistarmanna og safna og stuðla að heilbrigðu listalífi, þá þyrfti Myndlistarsjóður að úthluta að lágmarki um 100 milljónum króna einungis til myndlistarmanna, Safnasjóð þyrfti að tvöfalda og einungis fyrir söfn landsins. Þóknunarsjóður ætti að vera um 100 milljónir króna sem söfn og gallerí gætu sótt í og svo ættu Listamannalaunin að vera sama baklandið og verið hefur, og fara stigvaxandi.”

H&H: Er Ísland betur eða verr statt en önnur lönd í þessum efnum? Segðu mér stuttlega frá MU samningnum í Svíþjóð. Eigum við langt í land? Ættum við að taka hann til fyrirmyndar?

J: Ég tel að myndlistarmenn á Íslandi séu verr settir en myndlistarmenn í Svíþjóð og Noregi, en erum á svipuðum stað og Danmörk og Finnland, ef ég miða okkur við Norðurlöndin. VIð gerð Framlagssamningsins leit starfshópurinn til sænska MU samningsins, en sænska ríkið skrifaði undir samning um þóknun til listamanna, sem sýna verk sín í opinberum listasöfnum í Svíþjóð, árið 2009. Slík þóknun er viðbót við greiðslur fyrir flutning, uppsetningu og útgáfu á efni fyrir sýningar listamannsins. Í samningnum er kveðið á um að greiða þurfi sérstaklega fyrir alla vinnu sem listamenn taka að sér í tengslum við sýningar, bæði fyrir, eftir og meðan á sýningu stendur.

Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn og segja að við eigum ekki svo langt í land. Það er vitundarvakning í gangi hjá almenningi og stjórnmálamönnum. En til þess að ná í land þá þurfum við myndlistarmenn að standa saman og óska eftir því að fá greitt eftir Framlagssamningnum þegar okkur er boðið að sýna í söfnum landsins.

Starfshópurinn sem vann að drög að Framlagssamningnum leit til MU samningins og eru þeir byggðir eins upp.

 

Hillbilly pælir í því að þeir sem sýna á stórum söfnum er oft nú þegar komnir á góðan stað. Farnir að hafa tekjur af list sinni. Er það eitthvað til að hafa áhyggjur af, að það gæti breikkað bilið á milli nú þegar þekktra listamanna og þeirra óþekktari?

J: Það eru mjög fáir myndlistarmenn sem lifa af listinni á Íslandi í dag og ef ég vitna aftur í könnun SÍM frá 2015 þá unnu 80% aðra vinnu meðfram myndlistinni og voru 51,18% undir lágmarkslaunum sem voru 204.000 kr. á mánuði á þeim tíma. Einnig seldu einungis 4% myndlistarmanna fyrir meira en 2.000.000 króna á árinu 2013. Þeir listamenn sem lifa af listinni eiga jafn mikið skilið að fá borgaða þóknun fyrir sitt vinnuframlag í sýningarhaldi í opinberum söfnum eins og þeir sem lifa ekki af listinni.

„Ég held að við myndlistarmennirnir þurfum að standa saman, þekktir sem óþekktir. Við erum komin með drög að samningi þar sem við getum óskað eftir að allir fái greidda lámarksþóknun án tillits til aldurs og fyrri starfa, en auðvitað er það söfnunum í sjálfsvald sett ef þau vilja greiða þekktari myndlistarmönnum hærri þóknun.“

 

VIÐ BORGUM MYNDLISTARM0NNUM – Þórdís Erla Zoega from SÍM on Vimeo.

H&H: Hvað er næst á dagskrá? 

J: Næst á dagskrá er að hitta nýjan mennta- og menningarmálaráðherra og kynna fyrir honum herferðina og samninginn og einnig erum við hjá SÍM að undirbúa málþing sem við ætlum að halda með vorinu.

Við ætlum að fá Hilde Tördal, myndlistarmann og formann NBK í Noregi til þess að segja okkur frá tilraunaverkefni sem var farið af stað með árið 2013, en þá fengu fjögur söfn og gallerí fjárstyrk frá yfirvöldum til þess að greiða myndlistarmönnum í því skyni að móta fyrirkomulag sem hægt væri að nota á landsvísu.

Árið 2014 var 8 söfnum bætt við og nú er verið að vinna úr niðurstöðum tilraunaverkefnisins. Katrín Oddsdóttir mannréttindalögfræðingur mun halda erindi og vonandi endar námskeiðið á skemmtilegu örnámskeiði í samningatækni.

 H&H: Getur þú sagt mér kostina og gallana við þessa herferð?

J: Kosturinn við að setja af stað herferð er að fjölmiðlar veita því athygli og allir sem hafa áhuga geta leitað eftir upplýsingum um herferðina á einum stað. En einnig hefur þessi herferð aukið samtalið á milli myndlistarmanna og almennings, sem ég tel að sé mjög mikilvægt.

 

„En ókosturinn við herferðina er að hún lifir einungis ef myndlistarmenn halda henni á lofti, með því að deila heimasíðunni, myndböndum, greinaskrifum á samfélagsmiðla og halda samtalinu gangandi. Það getur reynst erfitt þar sem við erum fámennur hópur og höfum mörg járn í eldinum til þess að ná endum saman.“