Menu & Search

KAUPMANNAHÖFN / TUMI MAGNÚSSON

KAUPMANNAHÖFN / TUMI MAGNÚSSON

Ég heiti Tumi Magnússon, fæddur 1957. Ég er í Kaupmannahöfn þar sem ég hef búið í nærri 12 ár. 

Kom hingað vegna þess að ég fékk prófessorsstöðu við Konunglegu Akademíuna hér í bænum og vann þar í 6 ár. Eftir það ílengdumst við hér, þar sem það er að mörgu leyti þægilegt en möguleikinn að flytja heim er alltaf í bakgrunninum. Og sjálfsagt kemur að því fyrr eða seinna.  En héðan er t.d. minna mál að ferðast þangað sem maður þarf að fara vegna sýninga o.s.frv. Markaðurinn er stærri, möguleikarnir fleiri, meiri virðing borin fyrir listsköpun og í heildina séð, auðveldara að lifa af sem myndlistarmaður en á Íslandi.  

Ég sendi nokkrar myndir af tveimur innsetningum sem ég er nýbúinn að setja upp í Kyoto í Japan. Önnur er video og hljóð innsetning, hinn hljóð og prent innsetning. Ég er ekki ennþá búinn að græja videodokumentasjón af þeim svo þið fáið bara ljósmyndir og lýsingu.

Ég vel þessi verk aðallega af því að þau eru ný, en líka vegna þess að þau gefa mynd af þessum þremur aðferðum sem ég vinn mest með í innsetningunum mínum, video, hljóð og ljósmyndaprent.

H&H: Uppáhalds listasafn/gallerí í borginni?

TM: Ég á kannski ekki neinn einn uppáhalds stað, en oft eru góðar sýningar í t.d. Charlottenborg, (sem breyttist í Kunsthal fyrir nokkrum árum) Den Frie, sem er rekið af listamönnum, Nikolaj Kunsthal og Copenhagen Contemporary á Pappírseyjunni. Það getur verið mjög gaman að koma í Cisternerne, sem er neðanjarðar sýningarstaður í gömlum vatnstanki undir Søndermarken. Og það er auðvitað líka gaman að skreppa á Louisiana, eða á Malmö Konsthal.

Af galleríum má nefna Specta, Nicolai Wallner og Marie Kirkegaard. Svo er töluvert af listamannareknum stöðum sem koma og fara, t.d. Pirpa og Røm í Valby, SixtyEight Art Institute, og Sydhavn Station.

H&H: Uppáhalds tjill/hangistaður í borginni?

TM: Ég er ekki góður hangsari, en stundum fæ ég mér kaffi eða bjór á Holberg 19 á Holbergsgade.

SONY DSC

↑ “Directions” er videoinnsetning á 4 skjáum og 4 hátölurum.  Upptökurnar er gerðar á mismunandi stöðum í 3 löndum, á mismunandi göngutúrum.  Myndavélinni er beint niður á við, og hún snýr alltaf í norður, sama í hvaða átt ég geng.  Niðurstaðan er því sú að jörðin streymir framhjá í mismunandi áttir, og aldrei í sömu átt í öllum skjáunum í einu.  Fótatkið er líka tekið upp.  Það er auðvitað síbreytilegt, og mjög ólíkt eftir því á hverju var gengið, þó ég væri alltaf á sömu skónum.  Svo er allt heila klabbið leiðrétt í tíma og synkróniserað, þannig að öll videoin ganga í takt, fótatakið er í takt, og myndirnar hossast í takt.  Mig minnir að lúppan sé ca 10 mínútur.

H&H: Hverju mælirðu með fyrir listamenn eða listunnendur að gera í borginni? 

TM: Það eru auðvitað sýningarstaðirnir sem ég nefndi, plús Statens Museum.  Hönnunarsafnið er mjög fínt, og ef maður er hrifinn af gamalli asískri list má kíkja á Davids Samling í Kronprinsessegade.

Ef maður hugsar um dálítið sérstaka staði þá mundi ég segja að væri gaman að kíkja í Cisternernerne og kannski Clausens Kunsthandel, sem er gamalt gallerí í eldgömlu húsi nálægt Nýhöfninni.  Enda svo á Holberg 19, eða ef maður er í lúxus stuði á Library Bar bakvið brautarstöðina.

Ef maður vill listamannabar þar sem er fjör og reykingamennirir sitja inni en þeir reyklausu þurfa að halda niðrí sér andanum getur maður farið á Boby Bar eða Byens Kro.

H&H: Hvernig er listasenan í borginni?

TM: Listasenan er nokkuð aktív, alltaf einhverjar góðar sýningar.

Hún er í heildina séð kannski meira  „prófessional” en á Íslandi, bæði listin sjálf og sýningar-staðirnir, en um leið töluvert hefðbundnari.

H&H: Hefur þú fengið greitt fyrir vinnu þína sem myndlistarmaður? Við hvaða aðstæður og í hvaða landi?

TM: Ég hef oft fengið greitt fyrir vinnuna.  Td frá Listasafni Íslands vegna sýningar þar á síðasta ári. Hér í Danmörku greiða stofnanir alltaf eitthvað fyrir sýningar, jafnvel þó að það sé bara eitt verk á stórri samsýningu.  Einnig listamannareknir staðir sem hafa starfað einhvern tíma.  Annars er þetta misjafnt milli landa.

Norðurlöndin eru dugleg í þessu, nema kannski Ísland.

 

 “Travelstretch” er hljóð og prent innsetning í þriggja hæða ramp-uppgangi í Kyoto Art Center.  Húsið er gamall skóli, og hefur þótt henta að nota ramp þarna í stað stiga. Ég er ekki alveg ánægður með nafnið á verkinu, og á sennilega eftir að stelast til að breyta því þegar mér dettur eitthvað betra í hug.

Á veggina og loftið eru límdar ljósmyndir af ferðatöskum.  Þær eru allar í raun-hæð, en mismikið teygðar til hliðanna, frá 1.60m til 11.20m.

Í 6 hátölurum sem er komið fyrir enda hverrar brekku í rampinum er svo hljóð ferðatösku sem er dregin eftir sléttri götu.  Það byrjar í neðsta hátalaranum, og er þá mjög hægt og djúpt, nánast bara drunur.  Svo færist það hægt yfir í næsta hátalara og verður aðeins hraðara og hærra.  Svo koll af kolli með zig-zag hreyfingu þar til það er komið efst upp og er þá töluvert mikið of hratt.  Hljóðið færist líka hraðar á milli um leið og herðist á því.  Svo færist það niður aftur.  Ferðalagið upp og niður tekur eina mínútuog lúpast endalaust.

Af því að ég er ekki búinn að vinna dokumentationsvideoið af þessum verkum sendi ég ykkur doku af einu eldra verki með Það “heitir Telofonitis” og er 5 rása video-hljóð innsetning.  Ég sýndi það ma í Hverfisgalleríi 2014. Fimm símtöl voru tekin upp, mjög mismunandi að lengd, og öll gerð jafn löng.  Sum urðu því mjög hæg og með djúpu hljóði, önnur hröð með háu hljóði.  Í þessu doku videoi er þau sett saman í eitt.

 

↑ Telefonitis

2013

Video installation on 5 synchronized monitors in vertical position, 16:9 format HD, with sound.  

Duration 5:26 min

Peoples conversation on the telephone were recorded, starting with the ringing of the phone, ending when they turn off and put down the telephone.  Each conversation took a different length of time, but by adjusting the speed of the videos they wereeither stretched or compressed to a 5 minute duration.  This results in the videos being either too fast or too slow, and the sound therefore being either fast and high, or slow and deep.  The conversations are in Icelandic, English and Danish.

The installation is presented on 5 videomonitors in a row on a wall, with professional, synchronized players mounted on the wall behind them.  Supportetd by Statens Kunstråd.

Edition of 3
(Texti tekinn af heimasíðu Tuma)

H&H: Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

TM: Ég er næst með sýningu 10. júní í Galerie Kim Behm í Frankfurt, ásamt Ívari Valgarðssyni. Svo verð ég með í Rúllandi Snjóbolta á Djúpavogi í júlí, og svo er eitthvað fleira.

Hvernig standa yfirvöld í Danmörku sig í að borga myndlistarmönnum?

TM: Jú yfirvöld standa sig nokkuð vel hér. Það er viðurkennt að listamenn eiga rétt á þessu, og allar stofnanir borga manni honurar. Það er gert ráð fyrir því í fjárveitingum til stofnana, þar með talið  listamannnarekinna stofnana, að það þurfi að borga listamönnunum. Á Íslandi er alltaf þessi nánasarskapur og heimska í framlögum til menningar að allar stofnanir eru svo fjársveltar að þær geta varla lifað af hvað þá meira.  Á Íslandi er þó starfslaunakerfið í lagi, en hins vegar prójektstyrkirnir af skornum skammti.

 

H&H: Hver er þín skoðun á að borga listamönnum laun? 

TM: Listamenn eiga að fá greitt fyrir sína vinnu ekki síður en aðrir.

 

H&H: Vinnur þú „alvöru vinnu“ með myndlist?

TM: Frá 2011 þegar ég hætti í akademíunni hef ég bara starfað að myndlist, en þó auðvitað stundum tekið að mér workshop og önnur smá kennsluverkefni hér og þar. Einnig ýmis önnur minni listatengd verkefni, nefndasetu o.s.frv.

Þetta hefur einhvern veginn sloppið hingað til. Enda sé ég ekki hvernig ég gæti haft tíma fyrir fasta launavinnu.