Menu & Search

MARGRÉT SESSELJUDÓTTIR & SIGURÐUR ÁMUNDASON

MARGRÉT SESSELJUDÓTTIR & SIGURÐUR ÁMUNDASON

Beðmál í borginni. Hún er alin upp á bóndabæ og hann af listaverkasöfnurum í borg óttans.

Það var hreint yndislegt og temmilega kaótískt að ræða við Sigga og Margréti um listina og hamingjuna. Þau búa með syni sínum og vinna, harka, læra og slá í gegn, svo eitthvað sé nefnt, í Vesturbænum. Siggi bíður Hillbilly inn í kaffi en Margrét er í sturtu, var að koma af kvöldvakt.

SÁ: Við erum allir þrír myndlistarmenn. Svo eru kærustur þeirra líka myndlistamenn. Við erum þrjú listapör.

H&H: Verðið þið ekki að fara að gera eitthvað saman?

SÁ: Jú við ætlum að hafa einhverja nepótisma sýningu.

H&H: Frændhyglislistaþema, gott konsept.

H&H: Var myndlist í kringum þig þegar þú varst að alast upp?
SÁ: Já, pabbi er grafískur hönnuður og pabbi mömmu er myndlistarkennari. Mamma og pabbi eiga ótrúlega mikið af listaverkum eftir íslenska myndlistarmenn.

H&H: Eru þau svoddan safnarar? 

SÁ: Já, það er allavega mjög gaman að fara í heimsókn til þeirra.

H&H: Heldurðu að það hafi haft áhrif á að þú fórst á þessa braut?

SÁ: Já, það hlýtur eiginlega að vera. En svo vorum við alltaf að spá í kvikmyndum. Ég og Öddi bróðir, það er bara eitt og hálft ár á milli okkar og við vorum alltaf að safna plakötum úr Myndböndum Mánaðarins. Áttum safn að því. Smá í tónlist líka. Ég ætlaði alltaf í kvikmyndagerð, en ákvað svo að fara í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

H&H: Afhverju ákvaðstu að fara í Myndlistaskólann í Reykjavík?

SÁ: Ég kláraði ekki menntaskóla, svo ég þurfti einhvern grunn. Til að geta komist í kvikmyndaskóla erlendis. En svo fékk ég bara áhuga á myndlist og fannst auðveldara að teikna en að leikstýra. Það er svo leiðinlegt að leikstýra fólki, eða vinum sínum. Allt svo lélegt og hallærislegt. 20 ára krakkar að gera einhverja kvikmynd. Það er ekki hægt að gera það.

H&H: Reyndirðu það samt?

SÁ: Ég reyndi eitthvað en ég fékk bara kjánahroll.

H&H: En þú gerir gjörninga, þar sem þú leikstýrir fólki?

SÁ: Já, jú, einmitt í raun og veru.

Margrét mætir á svæðið og joinaði viðtalið. Hrein og fín.
Einhvernveginn var viðtalið farið útí það að vera frægur.

MS: Það er svo auðvelt að vera Íslandsfrægur.

H&H: Maður þarf bara að skrifa góðan status á facebook.

SÁ: Eða vera gaurinn sem hleypur nakinn niður Laugaveginn eða gera eitthvað svona.

MS: Nú veit ég afhverju þú ert alltaf að hlaupa nakinn út á götu!

SÁ: Ég vil bara verða frægur!

H&H: Ég veit að það var list í kringum þig, Sigurður Þórir Ámundason, á veggjunum og andanum, þegar þú ólst upp. En í kringum þig Margrét Helga Sesseljudóttir?

MS:  Nei, það var engin myndlist í kringum mig. Ég ólst upp á bóndabæ og það var enginn með myndlistaráhuga og það hefur enginn myndlistaráhuga í minni fjölskyldu, nema ég.

H&H: Áhugavert. Hvernig fórstu útí þetta?

MS: Ég ætlaði alltaf að verða arkitekt þegar ég var yngri en svo fattaði ég að það væri skemmtilegra að vera myndlistarmaður. Fattaði það frekar snemma, ég var 17 ára eða eitthvað.

H&H: Hvaðan kom arkitektaáhuginn?

MS: Ég man eftir að hafa horft á hönnunarþætti á RÚV og byggingarlistasöguþætti, sem mér fannst mjög spennandi. Ég vissi alltaf að ég myndi verða listamaður eða hönnuður þegar ég var krakki. En já, fjölskyldur okkar Sigga eru mjög ólíkar að þessu leiti.

H&H: Nú ertu komin í einhverja mega myndlistarmafíu.

MS: Það er önnur dýnamík.

H&H: Afhverju að læra myndlist?

MS: Ég fór í fornámið í myndlistarskólanum þegar ég var 18 ára og vissi bara um leið að ég ætlaði að verða myndlistarmaður, hætti við þessa arkitektahugmynd mína. Maður getur gert hvað sem er sem myndlistarmaður á meðan hönnuður þarf að búa til eitthað sem að öðrum geðjast miklu frekar heldur en myndlistarmenn. Þeir geta gert eitthvað sem enginn fílar. Minni kröfur, meira frelsi.

SÁ: Svipað með mig og kvikmyndagerð. Ætla að vera með sama svar.

MS: Samt er myndlistin mín mjög tengd arkitektúr alltaf. Rosa mikið tengd rýmum, hefur mjög mikið með rými og byggingar að gera. Við erum bæði kannski svoldið ennþá að gera það sem við ætluðum að gera sem börn. Nema við fundum aðra leið til þess, sem hentaði okkur betur.

SÁ: Ég ætla samt að fara í kvikmyndagerð seinna. Ég ætla að gera allt. Bækur og kvikmyndir og leikhús og allt.

MS: Ég held það sé svoldið bara hugarfar.

H&H: Hvernig lærir maður myndlist?

SÁ: Jú, kannski. Ég veit það ekki. Maður gerir það samt. Kannski, áður en maður fer í myndlistarnám veit maður ekki alveg hvernig maður á að miðla því sem mann langar að miðla, svo fer maður í námið og lærir tæknina, hittir alla þessa listamenn, fær leiðsögn til þess að komast að því sem maður vill gera. Og gerir það betur. Ég var miklu betri listamaður eftir skóla heldur en á meðan.

MS: Það er fínt að læra það þegar maður er ungur, en ef maður fer síðar í myndlistarnám þá er maður kominn með einhverja lífsreynslu og kannski mótaðri sýn. Það getur líka verið gott.

H&H: Fólk er líka kannski svoldið áhrifagjarnt þegar það er yngra. Gæti verið betra að fara í listnám þegar maður er orðinn eldri, fyrir suma.

MS: Ég held að við séum öll alltaf að kópera aðra, alltaf. Ómeðvitað. Tískustraumar og allt það sem er í gangi hefur geðveikt mótandi áhrif á mann sem manneskju og myndlistarmann og hvernig fötum maður gengur í. Ég held það komi algerlega fram í myndlistinni manns, þess vegna eru stefnur í samtímamyndlist. Ég held maður sé alltaf undir áhrifum.

H&H: Svo sést það svo vel þegar tíminn líður og við lítum til baka.

MS: Mér finnst það geðveikt jákvætt, þegar einhverjir ákveðnir hópar, t.d. ungir myndlistarmenn eru að gera eitthvað svipað. Mér finnst það spennandi, að tíska birtist í fatavali, í tónlistarsmekk, í myndlist. Þetta fangar essence í tíðarandanum. Kjarnar ótrúlega mikið eitthvað eitt augnablik, á ákveðnum stað, hjá ákveðnu fólki. Sem mér finnst fallegt.

H&H: Það getur einmitt mikil tíska verið í myndlist.

SÁ: Það er svo leiðinlegt að vera í tísku!

MS: Mér finnst tíska svo jákvætt orð.

SÁ: En að vera myndlistarmaður sem er í tísku, sem síðan dettur úr tísku. Ég held að það sé hundleiðinlegt.

MS: Maður vill kannski ekki vera sá sem var í tísku og datt úr tísku en mér finnst þetta sem gerist vera skemmtilegt.

SÁ: Ef þú gerir hittara, þá gætirðu orðið flotti gæinn sem dettur úr tísku, ég held það sé alltaf mikilvægt að þróa alltaf það sem þú ert að gera og prófa áfram mismunandi svo þú sért ekki bara staðnaður sem þessi gæi. Eins og Clint Eastwood gæti aldrei leikið neitt annað en Clint Eastwood. En hann reyndar bjargaði sér upp úr því með því að fara að leikstýra.

H&H: Það er auðvitað svo mismunandi tíska til.

MS: Já, þótt hún endist ekki, er svo gaman að hún sé til.

H&H: Hvernig gengur að lifa á myndlistinni?

MS: Siggi er á sex mánaða listamannalaunum.

H&H: Til hamingju!

SÁ: Takk.

MS: Það eru held ég flestir myndlistarmenn á Íslandi í sama pakkanum, vinna aðrar vinnur. Láta það virka.

SÁ: Ég held að allir listamenn séu alveg klárir, við erum engir vitleysingar.

Ég held að flestir myndlistarmenn gætu alveg fengið vellaunað starf hvar sem er. Við erum alveg með hugann á herðunum. Við gætum alveg verið rafvirkjar eða auglýsinga-markaðs-eitthvað. Og fengið milljón á mánuði þannig séð, en við kjósum bara að vera myndlistarmenn og maður getur einhvernveginn ekki gert neitt í því, getur ekkert gert tvö störf í einu.

H&H: Kannski ekki vel, allavega.

MS: En það eru margir myndlistarmenn að gera það.

SÁ: Ég held að þeir myndu frekar vilja vera bara myndlistarmenn. Þeir myndu gera meiri myndlist þá. Vinna 9-5 í einhverju og svo ferðu heim og þá – hversu marga tíma hefurðu í viðbót til að vinna að listinni?

H&H: Þetta er náttúrlega bara hobbí. En þess vegna er fólk líka oft í vaktavinnu.

MS: Já ég er búin að vera að gera það. Tek oft næturvaktir. Á eftir til dæmis. Á sambýli. Það hentar mjög vel.

H&H: Vinna sem maður tekur ekki með sér heim.

SÁ: Engin pappírsvinna.

MS: Nei það er enginn að hringja í mig. Ég er ekki með neina yfirmannsstöðu, enginn leitar ráða til mín um helgar eða eitthvað.

H&H: Myndlist er auðvitað ekki vinna eins og aðrar vinnur.

SÁ: Nei, einmitt, maður er alltaf að vinna. Alltaf með þetta í hausnum.

MS: Já, þetta á samt við um allar listgreinar, hvort sem þú sért dansari, eða tónlistarmaður, eða rithöfundur…

H&H: Ekki allir listamenn að selja verk, þeir eru bara að vinna að listinni sinni. Er það vinna ef maður fær ekki laun fyrir það?

MS: Já ég lít á það sem vinnu.

SÁ: Já.

MS: En svo er ekkert styrkjaumhverfi á Íslandi, við erum auðvitað með listamannalaun og Myndlistarsjóð en í öðrum löndum er miklu meira um styrki og maður getur verið að sækja um alls konar styrki. Ég á erlenda vini sem markvisst vinna í styrkumsóknum. Mikill hluti af þeirra lífi er bara að sækja um styrki. Miklu meira en íslenskir myndlistarmenn. Þau eru alveg að framfleytja sér með því að vera bara á styrkjum.
SÁ: Já, það er miklu meiri virðing fyrir myndlist í öðrum löndum í raun og veru. Íslendingar hafa bara ekki næga myndlistarsögu.

Við erum bara með Kjarval sem er elstur og hann er ekkert gamall þannig séð.

Önnur lönd vita gildi myndlistar því þau eiga mörghundruð ára meistara. Það er svo margt sem peningar fara í, eins og íþróttir eða Eurovison. Ég horfi á hvorugt. Fullt af pening í því, og það er frábært, því það er fólk sem er hrifið af því þannig að það á að fara peningur í það, það segir sig bara sjálft en afhverju að stoppa á myndlist? Hvað eiga túristar að gera hérna? Horfa á einhvern Eurovision karakter?

H&H: Er enginn að hugsa um túristana??

SÁ: Þetta er bara svona dæmi, kemur alltaf eitthvað fyrirbæri, eins og fótboltinn. Annað hvort þykistu fíla það eða viðurkennir að þú hatir það. En ef þú segist hata það þá ertu bara klysja. Það er svo mikil klysja að hata það sem er í tísku, en enginn þorir að gera það. Allir eru bara meðvirkir „Hmm, já þetta er skemmtilegt”.

H&H: Sjúklega flókið dæmi!

MS: Siggi er svona skápa fótbolta áhugamaður. Hann horfir á fótbolta þegar enginn sér til.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

SÁ: Já, og Eurovision. Alltaf með það í eyrunum. Það var bandarískur milljarðamæringum sem sagði að ísland væri með frábæra listamenn – en hræðilega viðskiptamenn. Reykjavík gæti alveg verið litla menningarborg norður evrópu. Gæti verið puntkurinn yfir i-ið. Fólk fer til að Berlínar, Parísar, London, Róm og svo stoppar það við í Reykjavík og þar er blómstrandi menning og gæti verið miklu meira. Það er fullt af efnilegu fólki sem fer í listaháskólann, svo hættir það bara útaf peningum. Verður að ýta meira undir þá, ýta meira undir það sem við höfum. Við höfum náttúru, vð höfum list. Það er það sem íslands snýst um.

MS: En það er svo næs í Reykjavík að það er rosalega mikið um listamanna framtak. Við erum með rosalega næs myndlistarsenu, sem er að mjög miklu leyti „artist inititiv“. Eins og Hillbilly.

H&H: *Roðn*

SÁ: Já, en það mætti alveg vera meira samt. Ef það væri peningur í því, því það er svo mikið af listamönnum. Reykjavík gæti alveg auðveldlega verið blómstrandi og þá myndi fólk vilja koma hingað – útaf náttúrunni og menningunni.

H&H: Já algerlega.

SÁ: Í öllum þessum bæjum, Patreksfirði, Seyðisfirði… Akureyri, Ísafjörður. Það hafi allir þessir staðir menningarsetur og gallerí. Ísland er að springa af list en það er alltaf bælt niður útaf fjárskorti.

H&H: Það þyrfti að setja smá olíu á þetta glóð.

SÁ: Ég held að ríka fólkið ætti að fatta þetta. Að markaðssetja Ísland sem þetta.

H&H: Þá er samt eitthvað farið.. eitthvað svona, paunk.

MS: Já, ég skil hvert þú ert að fara Siggi, en ég held það sé svoldið hættulegt.

SÁ: Ég held að pönkið verði samt áfram – fer bara að berjast gegn einhverju öðru. Það verður alltaf eitthvað nýtt, alltaf einhver andstæða.

H&H: Íslendingar eru alltof vitlausir í græðginni í til að vera góðir viðskiptamenn. (Sjá* kranavatn í plastflöskum). Bjarni Ben myndi samt taka sig vel út sem andlit íslenskrar listasenu.

H&H: Hvar vinniði að listinni ykkar?

MS: Ég er náttúrlega í skóla. (Margrét var í MA námi LHÍ þegar viðtal var tekið). Og er með stúdíó þar. Ég geri innsetningar, svo ég þarf ekkert stúdíó endilega. En ég er aðallega að byggja stóra skúlptúra fyrir tiltekið rými.

SÁ: Þú byggir líka bara hérna rétt áður en þú sýnir. Gerir verk fyrir sýninguna.

MS: Já ég geri oftast verk fyrir sýningar. En svo oft minni skala. Ég geri rosalega stór verk. Ég þyrfti að vera með eitthvað risa stúdíó ef ég ætlaði að vera að vinna að því alltaf.

H&H: Þú gerir líka oft lítil líka með er það ekki?

MS: Já, en seinustu tvö árin hef ég verið að gera stóra hluti.

SÁ: Ég vinn hérna heima svo erum við með vinnustofu á Nýlendugötu, Royal, svo er ég líka bara með bók sem ég gert hvar sem er, á kaffihúsi eða eitthvað. Ég er hættur að drekka en þegar ég var að drekka fékk ég mér kannski bjór og var bara að hanga með vinum mínum og teikna. En ég geri minna af því eftir að ég hætti að drekka.

H&H: Drekkurðu ekki kaffi með vinum þínum?

SÁ: Oftast fæ ég mér bara kaffi hérna heima og teikna.

MS: Nei, nú vill Siggi ekki hitta vini sína lengur. Ef hann er ekki að drekka…

SÁ: Þá hef ég ekkert að segja! En annars hefur allt gengið betur eftir að ég hætti að drekka.


H&H: Hvernig er sk
öpunarferlið hjá ykkur?

SÁ: Mjög mismunandi.

MS: Við erum með mjög ólíkar myndlistarpælingar- og aðferðir. Ég geri verk sem eru mjög miðuð að einhverju húsi eða byggingu. Arkítektúrsáhuginn spilar inní. Svo verkin mín eru mjög mikið í takt við andrúmsloft, ástand, stemningu. Ég reyni að skapa eitthvað svona ástand sem átti sér stað áður. Þetta er tímatengt. Kannski eitthvað sem hefði getað gerst í gamla daga. Pæli mikið í andrúmslofti, stað, rými, en, já, verkin mín eru mjög miðuð að því hvar þau verða sýnd.

H&H: Þannig að þú þarft fyrst að sjá rýmið og svo byrjarðu að hugsa um verkið?

MS: Já. Ég teikna upp milljón sinnum, aftur og aftur og aftur, og aftur og skrifa eitthvað. Svo þegar ég er búin að gera það í langan tíma vinn ég verkið.

SÁ: Við spyrjum líka oft hvort annað um allt..

MS: Ég spyr rosa mikið fólk almennt. Mér finnst rosa gaman að spyrja.

SÁ: Ég spyr bara þig… nú eftir að ég hætti að drekka! Þú ert alltaf í skólanum svo þetta er auðveldara fyrir þig.

MS: Mér finnst bara svo gaman að spjalla um myndlist.

SÁ: Ef ég er að sýna þá spyr ég aðstandendur sýningarinnar.

H&H: Sko, hann spyr ekki bara þig Margrét hehe.

SÁ: Og hafðu það!

H&H: Hvernig er ferlið frá hugmynd af verki?

MS: Þá er ég bara með einhverja stemningu í huga og einhverja liti og lýsingu og lykt, áferð og svoleiðis. Sem ég vinn útfrá. Og það er þungamiðjan í verkunum mínum. Svo teikna ég það sem ég ætla að gera.. útfærslur. Svo þegar ég er búin að ákveða hvað ég ætla að gera þá bý ég það til.

H&H: Og tekst það alltaf til eins og þú hafðir hugsað þér/ teiknað upp? – Í fyrstu tilraun?

MS: Ég myndi segja að lokaniðurstaða verksins verði oftast í grunninn eins og ég hafði séð það fyrir mér. En Siggi er meira svona… þú ert ekki með lokaniðurstöðu?
SÁ: Þegar ég byrja að teikna veit ég ekkert hvað ætla að gera. Ég bara byrja að teikna og veit ekkert

MS: Það er meira ferðalag í gangi í þinni myndlist.

SÁ: Stundum virkar það ekki. Ég byrja og það virkar ekkert og þá stroka ég það út og byrja upp á nýtt þangað til það byrja að virka, þá held ég áfram og vinn í því þangað til ég veit bara að það er búið.

H&H: Byrjarðu með kúlupenna?
SÁ: Stundum. En oftast með blýanti.

H&H: Þegar þú gerir stóra mynd, skissarðu áður myndbygginguna (eða eitthvað annað orð)?
SÁ: Nei ég skissa ekki neitt.

MS: Byrjar bara einhversstaðar og svo heldurðu áfram.

SÁ: Já, ég byrja oftast á andliti. Þá hægra auganu, vinstra megin mín megin. Það er bara vani. Og oft byrja ég með blýanti og ef það byrjar að vera flott þá nota ég kúlupenna og ýki það og það breytist. Svo kemur allt í einu haus, eða hendur, eitthvað flæði.

H&H: Þú ert ekki að skissa fyrir verk, hvað gerirðu þá í skissubókina þína? Sem þú teiknaðir í yfir bjór í þá gömlu góðu?

SÁ: Ég geri bara minni myndir. Langoftast verður ekkert úr því, það verður ekkert flott. Þá skipti ég um blaðsíðu þangað til það verður flott og þá gerist eitthvað. Þá teikna ég bara þangað til það er búið.

H&H: Þú varst alltaf með einhvern karakter einu sinni.

MS: Goggi!
SÁ: Já, Goggi Grallaraspói. Ég geri hann ennþá þegar ég fer í Listaháskólann, þá teikna ég hann á töfluna. Held að enginn viti hvað þetta er.

MS: Nema vinir þínir sem eru að vinna þarna.

SÁ: Já, þetta er svona einkahúmor. Þetta er bara ljótasti karakter… eins og barnabók frá 1980.

H&H: Smá Einar Áskell?

SÁ: Nei það er flott teiknað. Þessi er meira svona…

MS: Asnalegur.

H&H: Eins og unglingsstrákur myndi kannski teikna..

SÁ: Early 90‘s Breiðholt… ætlaði alltaf að halda sýningu með honum, graffa hann útum allt, með einhverjar ömurlegar setningar..

MS: Ég er er mjög mikið á móti Gogga.

SÁ: Já, hún hatar hann.

MS: Ég bið hann um að gera ekki Gogga.

H&H: Gefðu mér dæmi um setningar frá Gogga.
SÁ: Focus on life, long learning. Follow your heart.. alltaf eitthvað svona ömurlegt, klysjukennt.

H&H: Svona insperasjónal veggjalímmiðalist?

SÁ: Já, einmitt, þýðir ekkert.

H&H: Hvernig er týpískur dagur hjá ykkur?

SÁ: Teikna allan daginn.

MS: Mig langar ekki að eiga typískan dag þess vegna vil ég ekki svara spurningunni.

SÁ: Ná í barnið í leikskólann.

MS: Finna kvöldmat.

SÁ: Síðan horfa á danskan sakamálaþátt.

H&H: Eruð þið með einhverja morgunrútínu?

SÁ: Nei ég er morgunfúll. Kaffi.

MS: Nei ég er ekki mikil rútínumanneskja

SÁ: Ég teikna samt ekki bara. Ég er alltaf að reyna að fara út úr þægindarammanum mínum.

MS: Þú ert byrjaður að gera svoldið mikið samstarfsgjörninga.

SÁ: Já, og þegar það er búið vil ég aldrei gera það aftur. En svo daginn eftir langar mig strax að gera það aftur.

MS: Siggi er líka sjúkur í að teikna. Hann verður veikur, bara brotinn maður ef það líða nokkrir dagar. Ef hann teiknar ekki gengur ekkert. Og hann er líka svo ástríðufullur, ef hann er að teikna og finnst teikningin ekki hafa gengið nógu vel þá er hann svo fljótur að finnast allt hræðilegt.

SÁ: Þá finnst mér ég bara vera frekar glataður.

MS: Svo líður klukkustund og myndin orðin flottari og þá ertu strax skárri.

Myndlistin mín virkar allt öðruvísi.

SÁ: Þú ert miklu sjálfsöruggari í þinni myndlist. Er það ekki?

MS: Jú, kannski. Ég ætlaði samt að segja að það getur liðið geðveikt langur tími þar sem ég er bara að hugsa um eitthvað en ég er ekki með þessa verklegu þörf sem Siggi hefur. Ég get verið að hugsa í nokkrar vikur og mér líður vel. Mér finnst rosa gott að fara í göngutúr, mjög gott myndlistarlega séð fyrir mig. Ein að labba og hlusta á tónlist. Það er mjög productive fyrir mig sem myndlistarmann. Þá sé ég fyrir mér hvað ég ætla að gera.

SÁ: Já, það er líka rosa gott að hoppa út fyrir þægindarammann. Í teikningu meira segja líka. Ég á það til að gera fígúrur ofan í vatni. Ég geri það alltaf en reyni alltaf að gera öðruvísi en ég gerði seinast. Ég geri það mjög oft.

MS: Mér finnst það styrkur, að endurtaka. Að vera með einhverja sýn sem maður er alltaf að þróa og dýpka. Ekki slæmt.

SÁ: Hún var alveg miður sín um daginn..

H&H: Margrét?

MS: Siggi teiknaði tvær naktar ógeðslega ljótar konur með sigin brjóst og illa vaxnar..

H&H: Var það Margrét?

MS: Já hann er alltaf að teikna mig, ég er í mörgum myndunum hans. Ljóshærð kona með topp, augljóslega ég, báðar konurnar. Ég sagði að hann mætti ekki gera þetta. Að hann yrði að skipta um andlit á þeim.

SÁ: Mig langaði ekki að gera fallega líkama..

SÁ: Kúlupenni er svo næs getur ráðið hvort hann sé smá eða mikið. Dökkur eða ljós.

H&H: Hefurðu fengið sköpunarstíflu?

MS: Nei. Ég hef aldrei upplifað það. Það tekur tíma að lenda á niðurstöðu sem ég er sátt við, en ég hef aldrei hugsað svona „Nei bara ekkert. Nú eru hugmyndirnar búnar.”

H&H: Þá ferðu bara í göngutúr.

SÁ: Ég hef lent í þessu. Sumar teikningar koma bara beint út en stundum get ég bara ekkert gert.

H&H: Pínirðu þig þá áfram?

SÁ: Já klára.. Stoppa kannski og geri aðra mynd.

MS: Ég kem og segi þér að henda.

SÁ: Þá fer ég að efast rosalega mikið og hugsa að ég eigi bara að gera eitthvað annað, ég sé ekki myndlistarmaður. En svo um leið og myndin virkar þá er ég ánægður með mig.

H&H: Þú getur allavega talað um þetta.. áttar þig á þessu. Þetta er kannski ekki svo djúpt.

SÁ: Já, mér líður kannski þannig stundum en innst inni veit ég að það er ekki satt. Er með eitt trikk, ég stel stílum af mörgum, ekki bara einhverjum einum því þá er augljóst að ég sé að stela. Stel af mörgum í einu og þannig finn ég minn eigin stíl og fjarlægist listamennina sem ég stel af.

MS: Ég hugsa að ég hefði aldrei getað verið ég ef ég hefði lært eitthvað sem væri ekki tengt listum og væri að starfa við eitthvað annað, hefði ég aldrei notið mín eins og ég get gert þegar ég er myndlistarmaður. Ég væri samt örugglega alveg hamingjusöm.

H&H: Eruði ánægð með ákvörðun ykkar að verða myndlistarmenn?

SÁ: Ég myndi frekar vera myndlistarmaður heldur en að vera hamingjusamur. Ég vel það yfir hamingju.

MS: Fyrir mitt leiti, ef mér líður ekki vel þá finnst mér mjög erfitt að gera myndlist. Mér finnst hamingja vera mjög inspirerandi í minni myndlist.

SÁ: Þegar ég er ekki hamingjusamur og geri myndlist þá teikna ég oft ofbeldi eða þess háttar. Þannig díla ég við það.

MS: Ég held að gamla klysjan um myndlistarmanninn, vansæla fyllibyttan, hafi ekki góð áhrif á framleiðslugetu þína. Almennt ef manni líður vel er maður líklegri til að gera hluti. Ef maður er í krísu verður allt miklu flóknara.

Hillbilly finnst mjög skemmtileg pæling að tengja listina við hamingju. 

H&H: Hvert er draumaverkefnið?

MS: Mitt er að fá eitthvað risastórt hús, til að gera innsetningu í.

SÁ: Heimili eða bara eitthvað hús?

MS: Bara heilt hús og garð.

SÁ: Mitt er svipað – bara stærra.

MS: Ók, ég ætla að breyta svarinu mínu. Ég ætla að fá blokk.

SÁ: Hey. Mig dreymdi að ég væri staddur í endalausum kastala. Tók marga daga eða vikur að labba i gegnum og nokkrar hæðir og salir, samkomusalir eða eitthvað. Kastali sem er eyja út á hafi og að utan er þetta bara eins og fjall í hafinu. Surtsey eða eitthvað. Ein hliðin er bara glergluggar. Alls konar myndlistarmenn og mismunandi sýningar. Ef ég væri Jeff Besos myndi ég fá mér þetta.

H&H: Hvað hafið þið lært af myndlistinni ykkar?

MS: Bara það að ég tók þá ákvörðun að verða myndlistarmaður hafði mótandi áhrif á hvernig ég upplifi sjálfa mig, hvað samfélagi ég ákvað að tilheyra. Ég veit ekki hvort ég geti sagt að myndlist hafi mótað mig heldur frekar þessi ákvörðun um hvaða hópi ég vil tilheyra. Það er svoldið mikil ákvörðun að staðsetja sig í hópi myndlistarmanna. Ef þú ert hluti af þannig kreðsu þá hefur það mótandi áhrif á hvernig manneskja þú ert.

SÁ: Eitt praktískt sem ég hef lært af myndlistinni minni – gjörningarnir mínir – ég var mjög feiminn en ég lærði að koma út úr skelinni minni við að gera gjörninga. En maður verður framlenging af sjálfum sér. Mér finnst að allir ættu að gera þetta að einhverju leyti. Bara til að kynnast sjálfum sér. Maður skugga í verkunum myndlistarvina sinna; „auðvitað myndi þessi gera svona verk“.

MS: Verkin endurspegla manneskjuna.

SÁ: Eins og framlenging.

H&H: Góð svör.

H&H: Hvað myndum við fá í kvöldmat ef þið væruð að bjóða í mat?

SÁ: Við keyptum fisk í raspi.

MS: Fisk í raspi!

H&H: Með remúlaði og hrásalati?

MS: Já.

SÁ: Margrét er mjög góður kokkur. Tekur bara eitthvað hráefni. Ég myndi aldrei fatta að það væri gott hráefni en það verður alltaf ótrúlega gott. Sýður þetta, steikir þetta, blandar því saman, kryddar það. Skil þetta ekki!

MS: Hvað eldar þú? Kannt að elda tvo rétti.

SÁ: Ég vaska mjög oft upp. Ég er mjög duglegur.

MS: Þú ert mjög duglegur. Þér finnst bara svo leiðinlegt að elda.

SÁ: Mig langar ekki að finnast það leiðinlegt.

H&H: En finnst þér gaman að vaska upp?

MS: Ég er komin með geðveikt góða aðferð við að vaska upp. Ég horfi alltaf á raunveruleikasjónvarpsþætti á meðan ég vaska upp, í símanum mínum. Ég geri öll húsverk á meðan ég horfi á raunveruleikasjónvarpsþætti. Allt leiðinlegt verður skemmtilegra. Mér finnnst svo gaman að sjá hvað það er til mikið af alls konar fólki. Sumt fólk er bara skrítið.

S: Þú hefur rosa gaman að skrítnu fólki.