Menu & Search

PASADENA / ARNOR BIELTVEDT

PASADENA / ARNOR BIELTVEDT

ARNÓR, PASADENA, LOS ANGELES, USA.

Arnor Bieltvedt heiti ég. Ég er fæddur og uppalinn á Íslandi en flutti til Þýskalands eftir að hafa lokið námi við Verzlunarskólann. Ég nam hagfræði og félagsvísindi í Augsburg og flutti síðan til Bandaríkjanna til að nema markaðsfræði. Á meðan ég var í viðskiptanámi í Providence, Rhode Island, vaknaði mikill áhugi hjá mér á myndlist og ég söðlaði um yfir í málaralist við hinn virta Rhode Island School of Design. Eftir BFA og MFA gráður (Washington Univeristy í St. Louis) í myndlist hef ég unnið jöfnum höndum við listsköpun og listkennslu í St. Louis, Chicago og Pasadena í Kalíforníu. Í dag er ég yfirmaður myndlistardeildar Polytechnic School í Pasadena. Ég hef sýnt list mína alþjóðlega undanfarna tvo áratugi og hef umboðsaðila í Reykjavík, Hollandi, Danmörku og Bandaríkjunum.

Ég er 53 ára og bý ásamt eigin-konu minni og þremur börnum
(2, 5 og 8 ára) í Pasadena, sem er um hálftíma akstur frá Los Angeles borg.

H&H: Uppáhalds listasafnið/gelleríið í borginni?

A: Uppáhaldslistasafnið mitt í Pasadena er Norton Simon listasafnið sem hefur einstakt safn af 20. aldar list, þar á meðal nokkur gullfalleg Van Gogh málverk. Í Los Angeles er síðan LACMA og Gettysafnið á heimsmælikvarða.

H&H: Uppáhalds hangistaður í borginni?

A: Ég tek nú ekki mikinn þátt í kaffihúsamenningunni í Pasadena, en fer frekar á góðan sushi stað til að slaka á með eiginkonunni. Uppáhaldsstaðurinn okkar heitir Matsuri, sem er með einstakt sushi. Annars er gott að fá sér kaffibolla og líta í listabækur í bókabúðinni Vroman’s Bookstore í Oldtown í Pasadena…

…eða skoða fallega garða, plöntur, blóm og stoppa og fá sér te í the Huntington Gardens í Pasadena.

H&H: Hverju mæliru með að listunnendur og listamenn geri í borginni?

A: Old Town í Pasadena er skemmtilegt hverfi með kaffihús, veitingastaði og búðir. Annars er „must-see“ í Pasadena the Huntington Gardens garðarnir og söfnin þar. Þetta eru einhverjir fallegustu rósa og kaktusgarðar, Japanskur garður etc. sem hægt er að finna nokkurs staðar.  Síðan myndi ég ráðleggja fólki að fara annaðhvort á skíði í Big Bear sem er um tveggja tíma akstur austur, eða á eina af stöndunum sem eru 1-2 klukkutíma akstur vestur. Strendurnar, sjávarilmurinn, pálmatrén og birtan á ströndunum hér er einstaklega falleg og áhrifarík. Ég eyddi nokkrum laugardögum nýlega á Santa Monica Beach til að mála landslög.

H&H: Hvernig er listasenan í borginni?

A: Listasenan í Pasadena er frekar róleg og nokkuð hefðbundin. Maður verður að fara inní Los Angles og nágrenni til að sjá það nýjasta nýtt í listageiranum. Það er skemmilegt að heimsækja t.d. nýja safnið, the Broad Museumeda the Museum of Contemporary Art í miðbæ Los Angeles, eða galleria mollið Bergamot Station í Santa Monica.

Culver City er líka með mjög skemmtilegar galleria götur þar sem gaman er að heimsækja nokkur gallerí á opnunar kvöldi um helgi.

H&H: Hvað er á döfinni?

A: Ég var að enda við að taka þátt í hópsýningu í Gloria Delson Contemporary Art galleríinu í miðborg Los Angeles. Næst á dagskrá hjá mér er að huga að sýningu á íslandi á komandi ári og auðvitað að halda áfram að skapa og þróa listina sem hefur orðið meira og meira abstrakt á undanförnum árum.

H&H: Hefur þú fengið greitt fyrir vinnu þína sem myndlistarmaður, og vinnur þú aðra vinnu, alvöru vinnu?

A: Ég hef bara fengið greitt fyrir vinnu mína þegar ég hef selt málverk, prentverk, teikningar og skúlptúra. Ég tel mig vinna alvöru vinnu sem myndlistarmaður, sem ég vinn samhlia listakennslu.