Menu & Search

RAGNA RÓBERTS

RAGNA RÓBERTS

Ragna Róberts bauð Hillbilly í vinnuaðstofuna sína og í sýningarsal mannsins síns Péturs á Bergstaðarstræti. Þar vinnur hún nú ný verk fyrir stórt verkefni. Ragna ólst upp í Reykjavík en á ættir að rekja til Ísafjarðar og á nú bæ í Arnarfirðinum, sem þau hjón gerðu upp og þar dvelja þau á sumrin, restinni af tímanum eyða þau í Berlín. Á öllum stöðunum vinnur hún að list sinni þó svo það fari mikið fram úti í náttúrunni.

Hún rifjar upp að hverja helgi í æsku hafi hún farið með foreldrum sínum í útilegur. Það stendur uppúr að fara að Heklu og sjá allt hraunið.

Að alast upp á Íslandi hefur að sjálfsögðu haft áhrif á efnisval mitt.

Þó Hillbilly þykist vita að náttúran geti verið ágætlega stórbrotin, þá er eitthvað við það að sjá litina og efnin hvert í sínu boxi, hlið við hlið, í svakaháum hillum. Litapalletta náttúrunnar verður svo skír inná vinnustofu Rögnu. Þar er mikil ró, einfaldleiki og kyrrð. Ekki of mikið í gangi. Líkt og í verkunum hennar. Ragna vinnur í þögn en hlustar á tónlist þegar hún vill hlusta á tónlist.

Partur af myndlist Rögnu er að fara út að ná í efni, dvelja á staðnum, þvo efniviðinn, flokka, sortera, mæla, vigta, skrá…

Í stóru veggverkin mín nota ég aðallega vikur frá eldfjöllunum Heklu og Kötlu, og rauðamöl frá Seyðishólum. Ég nota líka skeljar frá Arnarfirðinum og núna er ég að vinna með salt.

RR: Leiðin lá bara aldrei neitt annað. Fór í Mynd- og hand þegar ég var 18 ára beint eftir gagnfræðiskólann. Var í fjögur ár og svo tvö auka ár í því sem við kölluðum Akademíuna. Svolítið eins og er núna, mastersnámið, í Listaháskólanum. Fór síðan til Stokkhólms í eitt ár. Var gestanemandi, í textíldeild en hafði mikið frelsi. Það var enginn að skipta sér af hvað ég gerði.

H&H: Afhverju fórstu til Stokkhólms?
RR: Það var bara auðveldast. Auðvelt að fara, auðvelt að fá námslán.

H&H: Er mikilvægt að læra myndlist?
RR: Fyrir marga en ekki alla, fólk ræður því.

Skóli er góður fyrir suma og suma ekki.

H&H: Hvernig lærir maður myndlist?
RR: Maður lærir ekki að búa til myndlist.

H&H: Hefurðu kennt?
RR: Þegar ég kom heim frá Stokkhólmi fór ég að kenna silkiþrykk-tauþrykk á kvöldnámskeiðum í Mynd og Hand og svo seinna kenndi ég í Fjöltæknideildinni hjá Ingólfi Arnarsyni. Svo tók ég líka nemendur í tíma, til að fara yfir lokaverkefnin með þeim og svoleiðis.

H&H: Hvernig kennir maður?
RR: Hvernig?  Ég reyndi að mennta fólkið í myndlistarsögunni, samtímalistinni og sýna þeim hvað aðrir væru að gera úti í heimi og hérna heima. Því þú þarft að vita hvað hefur verið gert. Mér fannst best að vinna þannig. Og auðvitað að fylgjast með því sem nemendur voru að gera og finna út hvað hverjum og einum hentaði, efla þau, hrósa þeim.

H&H: Ef það er ekki hægt að læra það er kannski erfitt að kenna það.
RR: Akkúrat.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?
RR: Það er stór partur af minni myndlist að fara á staðinn, að fara út í náttúruna og ná í efni og sortera og gera það tilbúið. Síðastliðin hundrað ár hef ég verið að fara upp að Heklu til að ná mér í efni.

Það fer svo auðvitað eftir því hvað ég ætla að gera, hvar ég er að fara að sýna. Oftast er það þannig að ég er beðin að sýna á einhverjum stað og fer þá oftast þangað til að skoða rýmið. Fyrir mér skiftir arkitektúrinn og rýmið mjög miklu máli. Ég finn út stærðir og annað á staðnum og kem svo aftur með efnið með mér til að setja verkið upp.

H&H: Er eitthvað ómissandi?
RR: Já, til dæmis þessar ferðir mínar sem ég fer í á sumrin að ná mér í efni. Það er einskonar ferli, t.d. að finna efnið, reyndar fer ég oftast á sömu staðina. Rauðamölin er úr Seyðishólum, vikurinn frá Heklu og Kötlu, skeljunum safna ég í fjörunni fyrir framan húsið mitt í Arnarfirðinum.

Náttúran er ómissandi.

H&H: Hefuru upplifað raunverulega þrá til þess að skapa?
RR: Já, auðvitað !

H&H: Hvernig lýsir sú tilfinning sér?
RR: Þú færð hugmynd, þig langar mikið að láta hugmyndina verða að veruleika og þú framkvæmir hugmyndina. Þú vaknar kanski upp um miðja nótt og þá ertu komin með einhvern vísir að hugmynd, hugmyndin er að gerjast í hausnum á þér, búin að vera lengi lengi að gerjast og síðan allt í einu er þetta komið.

Ragna var ein þeirra sem stofnuðu Gallerí Langbrók árið 1978 og var með þar til 1985 þegar Langbrókin hætti rekstri.

H&H: Segðu mér Gallerí Langbrók, takk.

RR: Það er svo langt síðan, guð minn góður. Við tókum okkur bara saman, stelpur sem vorum búnar að fara í gegnum Myndlista- og handíðaskólann. Þær voru nú flestar úr textíl og okkur vantaði einhvern farveg, einhvern stað til að sýna og selja verkin okkar og við leigðum okkur bara pláss þarna á Vitastígnum og þetta var ægilega skemmtilegt. Skemmtilegur tími.

H&H: Var þetta til að styrkja stöðu kvenna í myndlist?
RR: Það hugsa ég. Líklega fyrsta LISTAKONU rekna gallerí á Íslandi.

H&H: Voruð þið (stelpurnar) aðallega að sýna þar?
RRJá, en svo sýndum við líka aðra þegar við vorum komnar á Torfuna, þá vorum við með sýningar á öðrum listamönnum.

H&H: Líka körlum?
RR: Já, eitthvað aðeins, smávegis. Þeir fengu aðeins að vera með.

H&H: Finnst þér staða kvenna í listum hafa breyst síðan þá?
RR: Já þær láta meira í sér heyra. Jájájá, það hefur breyst mjög mikið til hins betra, en samt ekki nóg.

Þekktar listakonur út í heimi, tala um að þær séu aldrei metnar til jafns við karlanna. Þær fá ekki jafn mikið verð fyrir sína myndlist.

Og ég held það það sé alveg rétt.

H&H: Hvernig gengur þér að lifa á listinni?
RR: Ég er í gallerí i8 og hef verið síðan það opnaði fyrir 20 árum og þau sjá um söluna á mínum verkum. Það er ósköp misjafnt hvernig gengur, stundum ágætt, stundum ekki neitt.

Ég á verk á söfnum og í heimahúsum og á öðrum stöðum, gerði t.d. verk fyrir Hótel Natura núna nýlega.

H&H: Hefurðu unnið við eitthvað annað meðfram listinni?
RR: Bara kennt. Aldrei gert neitt annað en bara að kenna, en ég var auðvitað í alls konar djobbum þegar ég var unglingur og áður en ég byrjaði í skólanum en ég hef alltaf haldið mig við þetta.

 …látið karlinn bara vinna fyrir mér.

H&H: Eruð þið ekki svoldið saman í þessu?
RR: Jú, við höfum alltaf verið saman í þessu. Við vorum með Safn á Laugaveginum og erum núna með Safn á Bergstaðastrætinu og Safn út í Berlín. Höfum alla tíð verið með einhverskonar sýningarrými og keypt myndlist. Við eigum mjög mikið af myndlist.

H&H: Ein af fáum sem safna myndlist?
RR: Já það erunú ekki mjög margir sem kaupa myndlist á Íslandi, ekki margir safnarar hér. Það eru örfáir.

H&H: Hvar geymið þið listina?
RR: Það er sýning núnaá Listasafni Íslands á verkum úr okkar eigu, á sýningunni TEXTI. Svo eru verkin í geymslu og á skrifstofunni hjá Pétri. Þrátt fyrir að þau séu mörg fer ekki mikið fyrir þeim, mikið um samsett verk.

H&H: Eigið þið allt þar, líka blikkskiltið – Icelandick?
RR: Já, við eigum allt á sýningunni. Bæði eftir úlenda listamenn og íslenska.

H&H: Lánið þið Listasafni Íslands bara?
RR: Já. Við bara lánum þetta. Höfum gert svoldið af því að lána á sýningar.

H&H: Verandi þessir miklu listaverkasafnarar sem þekkja mikið af listafólki, er ekki alltaf verið að ýja að ykkur um að kaupa. Fólk jafnvel gert einhverjar vandræðalegar tilraunir?

RR: Jújú, en það er aðallega Pétur sem lendir í því. Hann er stærsti safnari landsins og þó víðar væri leitað. Hann kaupir auðvitað bara það sem hentar honum og okkur. Það er ekki hægt að plata neinu inná hann. Held að fólk viti það.

En þetta er eflaust svona allstaðar, hjá galleríum til dæmis. Skiljanlega vill fólk koma sér á framfæri, láta vita af sér. Það þarf að láta vita af sér til þess að fólk viti hvað maður er að gera.

H&H: Hefur þú markvisst markaðssett þig?
RR: Nei, ég er ekki mikið fyrir svoleiðs. En ég er með i8 gallerí sem sér um sölu fyrir mig og var líka með gallerí í Berlín. Ég hef ekki skap eða getu til þess að markaðssetja mig sjálf, og ég hef aldrei kunnað það. Og kannski heldur ekkert þurft þess, aðrir sjá um það.

H&H: Var það kennt þegar þú varst að læra?
RR: Nei, það var ekk kennt í þá daga. En sem betur fer er það eitthvað að breytast núna, held ég.

H&H: Það er varla nógu vel kennt, hálfgerður skyndikúrs. Það mætti kenna meira af þessu, hvernig á að vera verktaki til dæmis.
RR: Nú er það ekki meira ? en einmitt, þetta á auðvitað að vera inn í skólakerfinu.

H&H: Ertu ánægð með ákvörðun þína að lifa lífinu sem myndlistarmaður?
RR: Mjög, já. Ég get ekki ímyndað mér neitt annað. Mjög hamingjusöm með það. Við Pétur erum búin að vera saman í þessu alla tíð, en það er örugglega erfitt hjá mörgum sem eru með einhverjum allt öðruvísi hugsandi partner. þetta hefur verið mjög skemmtilegt ef ég á að segja eins og er.

H&H: Það er gott að heyra. Að eiga skemmtilegt líf.
RR: Já ég myndi segja það.

H&H: Hvað áttu mörg börn?
RR: Ég á einn son, sem er í myndlist líka, hann er sjálflærður myndlistarmaður.

H&H: Kannski eins konar skóli að vera alinn upp af ykkur?
RR: Já, líklega hefur myndlistin læðst inn í huga hans. Skólar geta verið mjög góðir fyrir suma og fyrir suma bara alls ekki.

RR: Ég raða skeljunum eftir tilfinningu og aldrei eins. Þannig er það líka með stóru veggverkin, þau verða aldrei alveg eins þó þau séu sett upp aftur á sama stað. Þau eru svo bara skafin niður þegar sýningu er lokið og efninu fleygt.

H&H: Hvernig helst þetta í hlíðarlaginu? Er eitthvað lím í þessu eða má bara ekkert hrista þetta?
RR: Nei, það á ekki að hrista þessi stóru glerrúðuverk, þau eru svo þung að þú hreyfir þau ekki mikið til, en ég hef líka verið með minni verk sem eru einskonar eldfjall í ramma sem þú mátt hreyfa og hrista til og getur búið til þitt eigið eldfjall.

Hristimyndir, sem ég kalla svo, vann ég út frá leikjum. Þær eru hugsaðar til að hafa á borði og að fólk geti leikið sér með þær, hrist þær til. Í þeim er efni úr sjálflýsandi akrýlögnum, sem ég fékk í Þýskalandi fyrir 20 árum. Þetta efni var notað í gamla daga til að henda á gólfið á diskótekum. Þetta hætti svo að fást þangað til núna fyrir 3-4 árum þá fann ég þetta sjálflýsandi efni aftur.

Hillbilly rekur augun í blaðsíður í búnka á stól. Fallega uppsettar, stílhreinar og beinar. „Við erum að gera bók núna. Já ég ætla að fara að gera bók um verkin mín í gegn um árin. Ég á endalaust af myndefni, hef alltaf passað mig á því að láta taka góðar myndir af verkunum mínum.”

H&H: Fylgistu með listasenunni á Íslandi í dag?
RR: Jú, ég fer auðvitað á sýningar og veit svona dáldið. Jújú ég geri það nú.

H&H: Finnst þér það mikilvægt?
RR: Já mér finnst mjög gaman að fylgjast með hvað er að ske.

7 KÍLÓ AF HEKLUVIKRI

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem þín myndlist hefur kennt þér?
RR: Þolinmæði.

Ég þarf að vera mjög þolinmóð í þessu sem ég er að gera og er það alltaf, en ekki í öðru. 

Myndlistin kennir manni svo margt, um manns eigin list og annara list. það er svo margt skemmtilegt sem skeður í myndlist. Það er svo gaman að fygjast með góðri myndlist og góðum listamönnum.

H&H: Hún hefur kannski kennt þér að skoða náttúruna?

RR: Já auðvitað, mér finnst það bara svo sjálfsagt að ég þurfi ekki að minnast á það.

Það þótti nú ekki fínt að vera að vinna með náttúruefni þegar ég byrjaði, þessi íslensku náttúruefni. En svo varð allt í einu spenging, líka í hönnuninni og allir að vinna með íslensk efni !

H&H: Hvernig líður þér þegar þú sérð íslenskt loft eða íslensk hraun til sölu á 5000 kr?
RR: Já, þetta er orðið svoldið klikkað. En mér er svosem alveg sama ef fólk er svona vitlaust að kaupa þetta. Í myndlist og hönnun eru alltaf einhverjir sem apa bara eftir raunverulegu listamönnunum.
Það var margt mjög gtott sem kom upp í þessari hönnunarbylgju eftir hrun. Margt gott og margt slæmt, eins og í öllu.