Menu & Search

STEINGRÍMUR EYFJÖRÐ

STEINGRÍMUR EYFJÖRÐ

Þegar Hillbilly var að leggja bílnum var Steingrímur akkúrat að fara út með pappír. „Ah, hann endurvinnur, flott“ hugsaði Hillbilly.

H&H: Hvar ólstu upp?
S: Í Hlíðunum og Vogunum. Svo fór ég í sveit líka. Í Mýrdalnum.

H&H: Var það ekki fínt?
S: Já, mér finnst eiginlega að það eigi að senda börn í sveit.

H&H: Að vinna?
S: Já. Ég var í sjö sumur, hef verið svona 6 eða 7 ára. Það var auðvitað þannnig að börn voru bara auka vinnuafl.

H&H: Núna væri þetta álitið sem barnaþrælkun.
S: Já í dag…

Maður kemst í tengsl við náttúruna. Að koma inn á stað þar sem maðurinn réði ekki ríkjum. Að finna náttúruna. Maður á þær upplifanir einhvernveginn inni.        Fegurðin er allt öðruvísi í náttúrunni.

S: Allt sem maðurinn gerir er partur af náttúrunni, gott og slæmt.

H&H: En svo ógnar maðurinn náttúrunni eða náttúran manninum. Þá köllum við oft á Guð til hjálpar.
S: Guð eða mömmu.

H&H: Já, það virðist líka vera einhver eðlishvöt.

H&H: Hefurðu alltaf búið á Íslandi?
S: Nei ég hef búið í Finnlandi, Hollandi og Sviss og dvalið í Svíþjóð og Noregi. Nam í Hollandi og Finnlandi. Og svo eru þetta vinnustofudvalir.

H&H: Afhverju fórstu út í myndlist?
S: Ég veit það ekki. Hef ekki hugleitt það. En fyrst þú ert að spyrja mig, þá gæti það verið vegna þess að það var það eina sem ég gat hugsað mér að gera. Gæti verið frelsið sem listin gefur þér og vera ekki að vinna fyrir einhvern annan en sjálfan mig.

Grafísk hönnun kemur sem svona lifibrauð. Eða var það á tímabili en er ekki lengur, ég er orðinn svo gamall, dottinn útúr þessum bissíness.

H&H: En lifirðu á myndlistinni?
S: Nei ég lifi ekki á henni. Lifi á starfslaunum og örkennslu. Þetta er alltaf mánuð eftir mánuð, ár eftir ár.

H&H: Vanstu sem grafískur hönnuður á auglýsingastofu?
S: Bæði á stofu og freelance, já.

Og myndlist alltaf með. Eða hún er ekki með, hitt er með.

H&H: Myndlist er aðal.
S: Myndlist er aðal, já.

till fugl hvíslaði að Hillbilly að í denn hafi þið félagarnir verið með það hugarfar að ekkert væri verra en góð krítík. Að vera vinsæll var ekki gott.

S: Já, fyrir 1980 má segja að maður hafi upplifað eitthvað Avant Garde. Og fyrir ’80 þá er viðhorfið þannig að maður hélt sýningu og…

… ef það komu of margir gestir og gagnrýni – og ef þú seldir eitthvað líka – þá þyrftirðu að setjast niður og hugsa þinn gang, þú værir ekki á réttri leið.

Þetta var viðhorfið á þessum tíma. Svo eftir ’80 þá snýst blaðið við og þá fara listamenn að tala um senu og sýningar og frama. Og þá kom upp Kunstmessur, sem áður þóttu botninn, að hafa svona listmessur. En það er núna orðinn drifkrafturinn, þessi gallerí heimur.

H&H: Hvað eru listmessur nákvæmlega?
S: Artfairs, festivöl, þar sem verið er að selja myndlist.

H&H: Hvernig læt ég. Breyttistu með umhverfinu eftir ’80?
S: Ég breyttist… já kannski, án þess að fatta það.

H&H: Þú lærðir myndlist eins og áður sagði…

Það er ekki hægt að læra myndlist. Maður er annað hvort myndlistarmaður/kona eða ekki.

H&H: Afhverju ákvaðstu að læra þá?
S: Það er auðvitað bara gott að æfa sig skilurðu, fá þjálfun. Að vinna með höndunum og að vinna með huganum.

H&H: Fannst þér námið hjálpa þér?
S: Auðvitað gerði það það. En mér finnst einhvernveginn, að við lifum á því tímabili þar sem er verið að afneita þessari grunnþjálfun í listaskólum, að það sé verið að vinna með höndunum. Í myndlist og grafískri hönnun. Ég tel til dæmis að í grafískri hönnun á fólk að byrja að vinna með höndum og síðan að nota tölvuna. Vinnan verður til með höndunum. Það verður líka öðruvísi, oft svona, flottari, útkoma. Það deyr eitthvað í tölvunni.

Ég tek alltaf dæmi með leir. Þú hnoðar leir kannski í viku og þú finnur að eftir nokkra daga að skynjunin breytist.

Ætti kannski að vera á söfnum að fólk ætti að fá að leira. Þá fær það meiri ánægju af því sem það mun skoða. Sér öðruvísi og upplifir heiminn öðruvísi.

H&H: Góð hugmynd.
S: Þeir sem gera þetta finna að skynjun þeirra breytist.

H&H: Hvernig var þér kennt?

S: Það er að þjálfa, þjálfa einhverja eiginleika. Listamenn eru svo misjafnir. Þeir finna sína leið, hvað þeir vilja æfa og þjálfa og kynnast. Svo eru fáir sem halda áfram í myndlist, allavega af minni kynslóð.

H&H: Afhverju hélst þú áfram?
S: Af því ég vildi komast út. Sjá eitthvað meira.

H&H: Afhverju komstu aftur til Íslands?
S: Ég sé svoldið eftir því sko.

Ég man eftir þessu þegar ég kom til baka áttatíu og eitthvað, þá var ekkert hérna. Ekki neitt. Það var svona eina menningar-sjokkið sem ég hef fengið á ævinni, var að koma aftur. Held ég sé ennþá í þessu sjokki.

H&H: Hvar vinnurðu að listinni þinni?
S: Er með gömlu vinnustofuna mína í Myndhöggvarafélaginu, sem ég var með fyrir tólf árum síðan.

Það er ekki sniðugt að blanda saman heimili og vinnustað.

H&H: Nei, þarftu að komast út?
S: Þarf að komast út. Og líka að fá fjarlægð, vera ekki alltaf ofan í því sem maður er að gera.

Ég held að maðurinn sé fæddur til þess að skapa. Hannaður þannig af Guði.

Það er sagt sko, ef við förum út í það, segjum að Guð hafi skapað heiminn úr engu, að það hafi ekkert verið til áður. Að maðurinn hafi verið skapaður til að gefa heiminum nafn.

Í rauninni er maðurinn þannig gerður að ekkert sem hann gerir, ekkert sem hann býr til, hefur ekki verið til áður. Ekkert nýtt undir sólinni, ef við hugsum það þannig.

Við höfum aldrei gert neitt sem hefur ekki verið til áður, í einhverju formi eða möguleika. Einföldum þetta, að á einhvern hátt er það sem við erum að tjá einhvers konar nafngift. Hún dregur fram það sem var hulið áður. Með nafngift, skilgreiningu. Við eigum að gera eitthvað úr honum.

Við getum sagt að þessi hugmynd um að Guð hafi skapað okkur, heiminn og manninn til að gefa heiminum nafn. Það segir um þessa sköpun að það séu allir skapandi.

Í myndlistinni og fleiri listgreinum sem virðast vera í samfélaginu, þá hefur þetta svæði fengið að vera fjálst. Og af því að það er skilgreint sem frjálst, þá eru önnur lögmál í gildi heldur en hjá fólki sem ákveður að fara einhverja aðra braut í lífinu.

Merki þessa frjálsa svæðis er að þú þarft ekki að vita hvað þú ert að gera. Það eru tvö meginöfl sem reyna að ná tálgarhaldi á þessu frjálsa svæði:

Annars vegar markaðsvæðingin og hins vegar skriffinnsku stjórnun á neyslu, sem tilheyrir markaðsvæðingunni.

Svo förum við í það nýjasta, eins og Listaháskólann til dæmis. Hann virðist vera að díla við frjálsa svæðið, sem við getum kallað sköpun, og síðan réttlætingu á þessu frjálsa svæði með því að koma með einhverjar reglur og skilgreiningu á því hvað það er.

Og við það kemur þessi krafa, af því að þetta er háskóli, þá koma kröfur inn á þetta svæði sem passa ekki inn í raunveruleikann. Vegna þess að krafan er alltaf hjá listamönnum að halda þessu frjálsa svæði.

Það þarf ekki að útskýra. Ég segi að listamaður þarf ekki að vita hvað hann er að gera. Og einmitt með sköpunarferlið – þá veit maður ekkert oft fyrr en eftir á hvað maður var að gera.

H&H: Er það þannig hjá þér – bara byrjar á einhverju sem verður eitthvað?
S: Nei, í rauninni ekki. En þetta eru svo margir þættir sem spila saman.

H&H: Ferlið fer kannski bara eftir því hvernig verk hverju sinni, hvenær á lífsleiðinni… bara eftir aðstæðum?
S: Já, það eru tilfinningalegir þættir og það sem er að gerast í manns eigin líkama. Líka það sem maður er að innbyrða frá einhverju öðru og öðrum. Og bara líka það sem kveikir áhuga manns.

Þannig að það er eins og þetta ferli sé bara alltaf. Það er alltaf í gangi. En maður hefur umburðarlyndi gagnvart því að leyfa sér, einhvernveginn, að gera ekki neitt.

Það er sérstakt, þegar maður er að vinna eitthvað verk, að því meiri tíma sem maður gefur verkinu, þó það sé ekki endilega verið að vinna verkið, kannski með hléum, því betra verður það. Eins og það skili sér eitthvað inn í verkið. Það er svo merkilegt. Þessar pásur á verkinu er líka partur af ferlinu.

H&H: Hvenær byrjar verkið?
S: Hvenær verður það til? Það er eitt sem ég er alltaf að verða meira og meira sannfærður um, en það eru margir sem telja það vera algjört bull og hjátrú, en ég held að stundum þá verður verkið til áður en það varð til. Til dæmis, þú ert hér að tala við mig. Ég held að við séum búin að gera þetta. Við erum búin að fæðast og við erum líka búin að deyja. Ég held þetta sé af því við upplifum tímann bara núna, sekúndu fyrir sekúndu. Þá er líka hægt að segja að ævin okkar sé nú þegar til staðar.

H&H: Já, þetta eru mjög skemmtilegar og hættulegar pælingar. 
S: Þetta eru mjög hættulegar pælingar. En svo er heldur ekkert mjög gaman að vita allt fyrirfram.

H&H: Einmitt. Sammála. Ég hef fengið þessa tilfinningu, að allt sé búið að gerast og því þýði ekkert að vera með fortíðarþrá og eftirsjá.

Kannski aðeins aftur að LHÍ…

S: Það var mjög fínt. Kennararnir börn síns tíma… en mér finnst eins og nemendur hafi haft miklu meira áhuga á því sem þeir voru að gera heldur en nemendur í dag. Það virðist sem þeir hafi miklu minna frumkvæði, en kannski hef ég rangt fyrir mér.

H&H: Afhverju finnst þér það?
S: Af því að það er búið að stilla dæmið upp þannig að það þurfi að sýna einhvern árangur, vinna sér inn einhverja punkta og þannig að ekki það sem þau eru að gera sjálf, heldur til að ljúka náminu – ná einhverju takmarki. En í myndlist er það ekki þannig. Þú ert bara alltaf í þessu ferli.

Ég veit ekki einu sinni hvort er hægt að tala um myndlistarnám sem nám.

En þetta er bara einfalt. Annað hvort nærðu að fara í gegnum skólann eða ekki. Það er ekki hægt að meta neitt, hvort þú sért góður eða slæmur. Þess vegna er alltaf verið að reyna að ná utan um þetta frjálsa svæði, þar sem þú átt ekki að vita neitt.

Afþví við erum svo lítið land og fáir einstaklingar þá þurfum við samt að viðurkenna breiddina, að það séu til fleiri tegundir af námi í myndlist en það sem er verið að bjóða upp á. Stefna sem hefur verið er svoldið víkjandi annarsstaðar. Það er boðið upp á meiri möguleika í námi í myndlist heldur en hérna. Og kannski verið að gera meiri tilraunir. Meira fjármagn. Það er meiri samfélagslegur stuðningur.

H&H: Ekki nógu mikill hér?
S: Umgjörðin er ekki nógu mikill hluti af öðrum þáttum í samfélaginu.

H&H: Út frá þessum pælingum, hvernig finnst þér senan vera á Íslandi í dag?
S: Mér finnst hún vera algjört kraftaverk miðað aðstæður hér á landi. Svo er spurning hvort hún er ekki meiri á samfélagsmiðlum en í raunveruleikanum, en allavega er núna sprengja af nýjum verkum og listamönnum. Það er kominn tími á að gefa út yfirlitsrit yfir alla þessa nýju listamenn og nýju verk, þannig að verði til fagurfræðilegt samtal. Ef innviðir listarinnar á Íslandi væru í eðlilegri þróun þá væri búið að gefa út slíkt rit. Samband íslenskra myndlistarmanna SÍM hefur staðið að átökum að styrkja innviðina, með því til dæmis herferðinni Borgum myndlistarmönnum og að félagar SÍM geti gerst félagar í BHM. Það má þakka Jónu Hlíf formanni SÍM fyrir það starf. Þess má geta að SÍM hefur verið að kortleggja innviði myndlistarinnar, meðal annars til að hægt sé að átta sig á hvar er þörf fyrir breytingar og sérstaklega styrking á virkni umgjörð myndlistarinnar.

http://heildarmyndin.blogspot.is )

H&H: Já, algerlega frábært vinna unnin af Jónu Hlíf og félögum í SÍM! Og rétt, það eru allir með einkasýningar útum allt á instagram. Ferðu á sýningar í raunheimum?
S: Ég fer, helst á opnanir ef ég kemst.

H&H: Er það mikilvægt fyrir þig?
S: Mér finnst það mjög mikilvægt. Þar er etthvað samfélag listamanna sem er alveg nauðsynlegt.

H&H: Afhverju er mikilvægt að hafa listamenn í samfélaginu?

S: Það er erfitt að svara þessu. En það er svo merkilegt þegar samfélag hrynur, hverfur bara í sandinn, molnar og ekkert er eftir nema minningar og sögur. Hvað er það sem stendur eftir? Það er nákvæmlega það sem listamaðurinn gerir. Það sem stendur eftir er menningin og það að búa til myndlist er hluti af þeirri heild.

Og svo ég segi það enn og aftur þá þarf að passa upp á að halda þessu svæði eða rými frjálsu.

H&H: Annars verður allt bara eins og ekkert spes… eða…?
S: Nei, þá verða ekki settar hömlur og reynt að stýra hvað er gert og hvað er ekki gert.

H&H: Já, algerlega. Það er rétt. En það er erfitt að komast hjá því, til dæmis það er listasafnafólk sem velur hvað fer inn á söfn, hvað sé sýnt inn á listasöfnum. Það verður að vera eitthvað sem fólk vill sjá, listasöfnin vilja auðvitað fá gesti.

Jájá. Það er eiginlega nýtt. Þá er verið að velja, reyna að þóknast einhverri ímyndaðri þörf almennings.

S: Það kemur í ljós að túristar halda þessu uppi, listasafninu og tónlistarlífinu. Og flestir sem koma á söfn eru túristar, sem er svoldið merkilegt. Það eru ekki íslendingar.

H&H: Á fastar sýningar á stórum Listasöfnunum? Eins og á Louvre í París, örugglega mest túristar þar líka.
S: En það er auðvitað miklu stærra, en þar koma heimamenn á opnanir.
H&H: Þetta er líklega ekki sambærilegt hvort eð er.
S: Mhm.

H&H: Ert þú alveg laus við að reyna að þóknast almenningi?
S: Ég geri það örugglega ómeðvitað. Ég hlýt að gera það.

Steingrímur þóknast allavega almenningnum Hillbilly    😉

H&H: Hvað hefur myndlistin þín kennt þér?

S: Hún hefur sjálfsagt kennt mér almennt á umhverfið, á einhvern hátt. Að það hljóta að vera fleiri möguleikar í tilveru mannsins og vinnu heldur en það sem er boðið upp á. Af því að í myndlist þá ræðurðu nákvæmlega hvað þú ert að gera, þú ert ekki að vinna fyrir neinn annan, þetta frelsi. Þess vegna finnst fólki listamenn vera óskiljanlegir á einhvern hátt. Í raun og veru er margt sem tengist myndlsit á einhvern hátt mjög abstrakt í grunninn.

Þeir tala um hluti sem þeir hafa haft tíma til að hugsa um og gera.

Verða svoldið framandi. Einmitt þetta ætti að kynna inn í almenna vinnu.

H&H: Vilja ekki flestir vera frjálsir, sínir eigin herra?
S: Jú, ég held það. Það eru margir sem kannski treysta sér ekki í að fara út í myndlist. Að eyða ævinni í það. Það eru svo margir sem eru hikandi. Það þarf að kasta sér útaf brúninni. Það er til fullt af fólki sem hætti við að kasta sér fram af og fór að gera eitthvað annað. Margir talentar sem hverfa inn í eitthvað annað og þeir verða að Sleeping Beauties.

H&H: Svoldið mikil óvissa.
S: Já óvissa.

S: Já óvissa.
Þetta er sko martröð tengdamóðurinnar.

 

Hún vill ekki að dóttirin giftist listamanni. Þetta sagði Marcel Duchamp um stöðu listamannsins á árunum fyrir fyrri heimstyrjöldina.

H&H: Það á sumsjé ennþá við, peningalega séð.

S: Hann kallaði stöðu listamanna á þessum tíma að vera eins og það sem kallað er „pariahs“, sem er á einhvern hátt að vera ósnertanlegur og fyrir utan hina formlegu stéttaskiptingu. Tilheyri ekki neinni stétt. Og auðvitað var til þá það sem kallað er Bohemia og Avant-garde…

Núna er ekki lengur spurning um hvað þú ert í raun og veru, heldur byggir það sem þú ert á framsetningu og selur öðrum hvað þú stendur fyrir og er samþætt neyslumenningunni.

Undirskrift listamannsins var áður fyrr trygging fyrir að ákveðið verk hafi verið skapað að ákveðnum listamanni, en í dag er undirskriftin orðin að vörumerki.

Á einhvern hátt er undirskriftin orðin að blæti sem er dýrkað eins og um skurðgoð væri að ræða og listamaðurinn hlutgerður og gerður að vöru. Blætisdýrkun á listaverkinu er miklu eldra, en meira afgerandi í dag en áður og með nýjum formerkjum. En reyndar eru allir hlutgerðir eins og um vöru væri að ræða með tilkomu hugmyndarinnar um mannauð, sem er einhver tegund af afmennsku.

Ég man eftir þeim tíma þegar hið eiginlega avant-garde var við lýði en hin svo kallað Bóhemia var orðin að skopstælingu af sjálfri sér. Bæði hugmyndin um Bóhemhemíuna og avant-garde eru orðin að framsetningu án veruleika sem er ákveðin uppvakning á dauðum hugmyndum, en hafa þó hlutverk sem þar sem það er látið líta út fyrir að um nýjung sé að ræða, Sem dæmi um þennan sýndarveruleika, eru verk eftir Ragnar Kjartansson þar sem hann virkar eins parodia af tálsviptum bourgeoisie sem gerist Bóhem og nær alltaf að vera í karakter hvað sem það kostar, eins og reyndar Andy Warhol sem var alltaf í karakter.

Warhol var að leika eða birta vitundariðnað Bandaríkjanna en Ragnar leikur hina rómantísku minningu um Evrópu, á einhvern mjög trúverðugan hátt og vegna þess að við trúum ekki á sjónarspilið sem á sér rætur, jafnvel í hirðsiðum og ritúali fær það fagurfræðilegt líf vegna þess að það eru ekki lengur kvaðir um einhverskonar hollustu og hræðslu.

Ég vil nefna eitt fyrirbæri sem á einhvern hátt einkennir verund listamannsins á okkar tímum og það er þessi viðspyrna við markaðsvæðingunni. Í okkar samhengi hefur þessi viðspyrna verið til staðar allt frá lokum seinni heimstyrjaldar og getur komið fram í átökum listamannsins milli þeirrar freistingar að fylgja straumnum og tryggja þar með fjárhagslega afkomu sína eða stíga út úr þeim sérstaka ramma inn á svæði þar sem tilheyrir hugmyndinni um algjört frelsi og um leið veldur hæggengi vinnunnar.

Svo við víkjum aftur að Duchamp, en þá lagði hann til að listamaðurinn dveldi neðanjarðar og yrði aftur hinn svokallaði „pariahs“. Eitthvað sem minnir á Slow-Science og núna nýveriði Slow-Art sem er yfirlýst næsta stóra mikla hreyfingin í listum.

En allavega eru þessi átök alltaf til staðar hjá starfandi myndlistarmönnum.

Síðan vil ég nefna að hugmyndin um samvinnu listamanna er að verða meira og meira áberandi. Gjörningaklúbburinn er dæmi um slíkt samstarf og á einhvern hátt brautryðjandastarf og algjörlega sjálfssprottið fyrirbæri. Ég hef verið í samstarfi til dæmis með Friðrik Þór Friðrikssyni Á Loftandaveiðum, Veðrahvolfið ásamt Margréti Blöndal og Guðlaugi Kristni Óttarsyni, The Leyline Project ásamt Ulriku Sparre, Töfrafjallið og verkinu sem ber vinnuheitið Skortur. Sýningarstjórinn er einnig farinn að vera hluti af vinnuferlinu.

Ertu ánægður með þessa ákvörðun þína… að vera myndlistarmaður?
S: Já. Svo merkilegt þegar þú talar um það, það er eins og þetta sé eitthvað afl sem ýtir manni áfram. Ég held að flestir listamenn upplifi það. Þú hefur ekkert val. Það kemur, þú færð svo margt, eitthvað sem margir komast aldrei í snertingu við.

H&H: Nei, ég held þetta sé alveg rétt. En svo er margt sem listamaðurinn upplifir ekki sem aðrir upplifa.
S: Svo kemur það. Þetta er fyrir utan allt, deyja inn í annað líf.

H&H: Hvernig er týpískur dagur í lífi þínu?
S: Ég vinn á vinnustofunni allan daginn. Fer kannski eftir því hvað er í gangi. Tek tarnir.

H&H: Hvernig er draumadagurinn þinn?
S: Að vera á vinnustofunni minni.

H&H: Ekki að fara í nudd eða eitthvað?
S: Sameina aðstæður.

H&H: Hvað er draumaverkefnið þitt?
S: Sleppa út öllum dýrum í öllum dýragörðum heimsins.

H&H: Ertu bara living the dream?
S: Já. Ég tek mark á draumum.