Menu & Search

STELLA & FRIÐGEIR

STELLA & FRIÐGEIR

Hillbilly hitti Stellu Dóttur og Friðgeir son í sýningarplássi listarsýningar þeirra, Ramskram, á Njálsgötu. Einn fjórði partur rýmisins er gluggi og mars-veðrið lék á alls oddi. Aðeins fjölbreyttara en það sem mæðginin hafa fengið að venjast í sólríku Kalíforníu síðan árið 1986. Friðgeir hefur oft heimsótt Ísland en Stella ekki. Enda getur hún ekki skilið öll dýrin sín og búðirnar eftir. Hún kom reyndar heim í viku ári eftir að hún flutti út.

Þegar Hillbilly kom inní Ramskram fóru allir sem inni sátu að tala. Í þeim sem talaði hæst, Friðgeiri, heyrðist best. Hillbilly handskrifaði gullkorn Stellu á post-it miða á meðan gullkorn Friðgeirs voru tekin upp á hljóðupptökugræjuna. Í þeim sem talaði hæst, Friðgeiri, heyrðist best. Hillbilly handskrifaði gullkorn Stellu á meðan gullkorn Friðgeirs voru tekin upp á hljóðupptökugræjuna.
Stella segir að þetta sé klassískt karla mál. Einn fer að tala hátt þá kemur annar og talar hærra og annar hæst. Stella hélt áfram að tala frekar lágt, en skýrt, á meðan hún skrollaði í gegnum allt instagrammið sitt. Þar eru hún aktív. Póstar málverkum, tískuljósmyndum, kisumyndum…

… og dúfu-og hænu myndum. Stella á tvær hvítar dúfur og tvær kolsvartar hænur heima hjá sér í LA. Dúfurnar Óðinn og Freyja komu til hennar ein jólin. Reyndar hefur allt í lífi hennar bankað uppá og hún hefur aldrei borgað neitt eða óskað eftir neinu. Hvorki ljósmyndara né make-up artista fyrir myndatökur. Fólk bara bankar uppá.

Við skrollum áfram.

SD: Já ég kom hingað sem handrukkari.

H&H: Já, ókei. Að rukka pening?

SD: Fyrir sjálfa mig. En ég var ekki nógu sterk sko. Þau voru ekkert hrædd við mig. Ég fékk náttúrlega ekkert. Þá flýtti ég mér bara til baka. Ég hef ekkert að gera með að koma hingað.

Ég fer aldrei neitt erindislaus.

 

SD: Mér finnst gaman að búa til hatta.H&H: Hey, saumaðiru ekki hatt fyrir Michelle Obama?SD: Jú ég er nú ekki með neina mynd af því.

Við instagram myndirnar skrifar Stella oft langa texta sem fólki finnast ljóðrænir en Stella skilur ekkert í því.

Stella nam í góðum skóla sem heitir Álfaskóli. Þar kenndi henni enginn neitt en hún fékk meistaragráðu frá huldukonum.

H&H: Þú hefur verið fatahönnuður allt þitt líf, en þú lærðir aldrei?

SD: Jú ég er útskrifuð úr besta skóla í heimi,  hann heitir Álfaskóli. Það er voðalega erfitt að komast inn í hann. Og þegar þú kemst inn í hann þarftu ekkert að borga. En þú lærir öll leyndarmálin.

H&H: Er þetta langt nám?
SD: Sko, þegar þú ert einu sinni búinn að fara í Álfaskólann þá ertu alltaf með álf eða huldukonu með þér og hún sér um allt fyrir þig.

Stella talaði enga ensku árið 1986 þegar hún ákvað að fara til Ameríku. Það var engin enskukennsla í Álfaskólanum. Hún og hundarnir hennar tveir töluðu saman leynimálið íslensku.

Hundarnir töluðu ekki heldur neina ensku.

LJÓSMYND FRIÐGEIRS OG MÁLVERK STELLU AF ÆSKURÚMI STELLU.

Við veltum fyrir okkur orðinu Hillbilly. Þau eru bæði hillbillíar að eigin sögn. Stella er sveitalubbi, eða dreifbýlistútta, hvar sem hún er – líka í LA.Sveitalubbar eru svo sterkir, borðuðu svo mikið slátur þegar þeir voru litlir.

F: Ég er meiri redneck en hillbilly.

SD: Hvað heitir það þegar fólk safnar og safnar og hendir engu?
F: Hoarder?
SD: Já en á íslensku?
H&H: Safnari?
SD: Nei. Fara bara með drasl upp á loft. Það er nefnilega málið, það er aðaltískan að sýna það á flottustu galleríunum í Los Angeles.
H&H: Safnað drasl?
SD: Já í stærsta og flottasta galleríi í heimi. Við smygluðum okkur inn á opnunina, og það voru 1000 manns að bíða fyrir utan og inni voru tuskur og hræðilega ljótt drasl af teppum. Svo hengdi listamaðurinn upp í loftið eitthvað hörmulegt, eitthvað drasl.
Svo var eitt herbergi bara fullt af drasli, skítugar plastfötur, kústar, svo voru gamlar skítugar dýnur. Manstu ekki?

F: Jújú, í Hauser og Wirth. Þetta var Jason Rhoades frægasti framúrstefnu nútímalistamaður í heimi – en hann er nú ekki á lífi lengur, hann drap sig á kókaínneyslu.
Ég og Stella svindluðum okkur inn á listasýninguna. Það var svona maður með ipad fyrir utan „Who are you?“. „My name is Mr. Helgason, I’m on the list“. Einhver Helgason var á listanum og ég sagðist bara vera hann. Fórum inn og fannst voða lítið til sýningarinnar koma.

SD: Svo fór ég á aðra stóra sýningu og það var fullur salur af einhverju svona drasli og fullur af plastjólatrjám. Þau voru bara sett þarna, alveg hræðilega ljót. Maður myndir ekki vilja hafa þau í húsinu á jólunum.
F: Myndi bara eyðileggja jólin.

F: Fyndin ýmis nútímalist sem maður fer að skoða. Ég veit ekki hvort maður verði að hafa mastersgráðu til að skilja hana.

SD: Ætli maður verði ekki að hafa doktorsgráðu til að skilja hana. Eða bara vera klikkaður. Ætli það sé ekki bara best.

F: Talandi um list, þá finnst mér vanta núna vandað handverk. Conseptið er svo stór hluti núna. Mér finnst það ætti að haldast svoldið í hendur, ekki vera bara hugmyndin.

Stella bendir á að tíminn sé of verðmætur til að vera að gera svona ljótt. Hún ber mikla virðingu fyrir fortíðinni og þá gat fólk ekki eytt tíma eða peningum í að gera eitthvað ljótt.

Það eru allir að gera svona lekandi málverk núna. Ég segi „Þarna er annar með lekanda.”

Nú þegar ferðinni var heitið til Íslands í mars varð Stella auðvitað að fá sér kápu. EN aldrei hefur hún farið inní fatabúðir eða dottið í hug að vera í „annara manna fötum, því það er nú bara eins og að halda fram hjá sjálfri mér.” Hún saumaði sér því kápu og buxur í stíl. Glansandi og mjúkt flauel, mosagrænt og það er feldur innaní. Hnapparnir eru líka glansandi mjúkir úr mosagrænu flaueli.

H&H: Hvað tók það þig langan tíma að gera hana?
SD: Á ekki klukku. Tek aldrei tímann. Tíminn er lotterí! Hann líður svo misfljótt. Ef þú ert úti að dansa líður hann hratt og í vinnu kannski…
H&H: Stendur hann í stað?
SD: Fer bara aftur á bak!

UM ANNAÐ MÁLVERK:
S: ÉG ER AÐ MÁLA ÞETTA OG HVAÐ HELDURU AÐ HAFA GERST? ÖNNUR FRIÐARDÚFAN SKEIT Á ÞAÐ. ÉG SEGI EKKI KAUPANDANUM EN ÉG HEF ÞAÐ AÐEINS DÝRARA.

H&H: Getið þið mæðgin ekki komið til Íslands án þess að það sé tekið viðtal við ykkur?
F: Annars kem ég ekkert.
Þetta er í þriðja skipti sem að mamma kemur hingað – flutti út 1986 og kom hingað í eina viku 1987 til að handrukka. Svo kom hún ekkert fyrr en ég gifti mig 2013. Svo núna.

SD: Ég hef allaf verið með rekstur og fyrirtæki, kisur og hunda og fugla. Það er ekkert hægt að fara frá börnunum litlu. Maður gerir það ekki. Þau fara bara að gráta.

H&H Fórstu frá þeim 1986? 
SD: Nei ég tók hundana mína auðvitað með. Svo bættist alltaf í hópinn og ég gat ekkert verið að fara í einhver ferðalög. Og með búðir og svona dót, það er ekkert hægt að rjúka bara í burtu. Maður þarf náttúrlega að telja peningana.

H&H: Algjörlega.

Friðgeir hefur búið úti næstum jafn lengi og Stella, en eins og hefur komið fram kemur hann oft til Íslands. Þau komu saman heim þegar Friðgeir gifti sig sinni amerísku Susan árið 2013.

F: Já, konu númer þrjú. Allt er þegar þrennt er! Svo ég kem hérna og byrjaði að ljósmynda 2006.
Ég átti að koma 2008 og aðstoða tvo fræga bandaríska ljósmyndara það sumar, svo ég hætti í vinnunni sem ég var í. Kvöldið áður en ég flýg til Íslands fæ ég símtal um að þeir séu hættir við að fara. Og ég var með alveg helling af filmum og var búinn að bóka flug. Svo ég kom bara til Íslands og var hérna allt sumarið og þetta var eiginlega það besta sem gat komið fyrir mig. Ég fór bara að vinna að mínu eigin stöffi.

H&H: Síðan þá hefurðu bara unnið í þínu eigin dóti?
F: Já. Ég byrjaði þá á seríunni Stemningu sem var sýnd á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Það tók mig alveg átta ár að gera hana. Allt gert í stækkara á gamla mátann. Geri fyrst litlu myndirnar og vel síðan úr og geri þá stærri myndir.
Þegar mamma bað um myndir til að mála þá var ég með fleiri fleiri kassa af þessari litlu stærð og ég valdi bara slatta handa henni og lét hana hafa. Góð not fyrir svona gamlar myndir.

H&H: Líka svo fallegt saman. 
F: Hún gerir hverja mynd algerlega að sinni. Og gerir þær oft bara miklu flottari. Logoið hennar kemur alltaf inná.

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni?

F: Það er kannski smá að byrja. Hér seldist næstum allt upp á laugardaginn. Fjögur verk eftir. Seldi líka fínt á ljósmyndasafninu. Ekki nógu stabílt samt. Ég er að fara að vinna á Flatey í sumar sem kokkur. Ég hef reyndar alltaf unnið sem kokkur.

H&H: Svo þú kemur og býrð hér í sumar?

F: Já, þá verð ég bara á Flatey.

H&H: Lærðiru að vera kokkur?

F: Ég segi alltaf að ég sé alveg sprenglærður kokkur þó ég hafi aldrei lært í skóla. Það er tvennt ólíkt í mínum huga. Ég lærði á bestu veitingastöðum í New Orleans.

H&H: Byrjaðiru bara í skítnum og vannstu þig upp?

F: Já alveg eins og maður á að gera. Byrjaði á botninum. Reyndar byrjaði ég að kokka sem peyji út á sjó með pabba. 13 ára var ég að vinna á lúðubát. Þegar ég var 16 ára sagði ég pabba að ég hafði engan áhuga á að vera sjómaður. Þá var strax byrjað að þjálfa mig til að verða sjómaður. Allir karlarnir í fjölskyldunni, aftur til sautján hundruð og súrkál voru sjómenn. Ég hugsaði ég að nennti þessu alls ekki. Pabbi soldið spældur fyrst.

Ég vann rokkspurningakeppni framhaldsskólanna. Hún var haldin af flokki ungra framsóknarmanna og ég vann í úrslistakvöldinu á Hótel Borg. Þá rétti Steingrímur, forsætisráðherra Íslands mér miða til Evrópu og ég tók við miðanum og áleit þá að ég væri útskrifaður úr skóla og fór til Evrópu. Fór aldrei aftur í skóla..

Þegar forsætisráðherrann réttir þér miða til Evrópu þá ferðu bara til Evrópu.

Svo fór ég ekkert í skóla fyrr en ég var 38 ára aftur. Þá bjó ég á Skid Row í LA. En ég ákvað – ég er með króníska kvikmyndadellu, hef verið með síðan ég var barn –  að verða leikstjóri, ætlaði loksins í kvikmyndanám. Ég bjó á hæli fyrir heimilislausa á Skid Row og fór í kvikmyndanám. Þurfti ekkert að borga og fékk pening frá ríkinu og allan pakkan. Eftir svona eitt og hálft ár var ég ekkert að fíla það neitt sérstaklega. Það að búa til kvikmynd er svo mikil vinna, maður þarf að stofna fyrirtæki og ráða hundrað manns í vinnu. Ég þurfti að taka einn bekk í ljósmyndum og þá fann ég mig alveg. Switchaði yfir í ljósmyndum bara strax. Þetta var bara ég, myndavélin og heimurinn. Og ég gat strax byrjað að búa til list. Strax. Ekkert vesen…

Ég þurfti bara að fara út og vera ljósmyndari.

H&H: Þá fórstu í ljósmyndanám?

F: Já

H&H: Í sama skóla?

F: Já, sami skóli. En ég bjó á Skid Row.

Ég var fyllibytta og róni.

Myndirnar eru teknar af instagram síðu Stellu.  
Friðgeir sat stundum fyrir, bráðmyndalegur klæddur í jakkaföt Stellu Dóttir. „Eins og Wallstreet peningarmaður. Eins og útrásarvíkingur! Hann var það náttúrlega nema hann þénaði engan pening. En í tökunum hann fór oft að drekka, og hverfa, í miðjum tökum.”

H&H: Varstu ekki með áhyggjur af honum?
SD: Þetta var bara hans. Hans mál. Fólk gerir bara það sem því er ætlað. Ég ól hann aldrei upp. Hvernig átti ég að gera það?

F: Ég var fullur í 23 ár. Þá var ég sko fullur allan tímann. Það endar á því að maður verður bara róni. Þá fór ég í hús þar sem ég fékk koju og að éta þrisvar á dag. Engin meðferð. En þú varðst að vera edrú ef þú vildir vera þarna. Þá hætti ég bara alveg.

H&H: Bara sísvona?
F: Já, ég var nú búinn að fara í helling af meðferðum. Sem gekk aldrei neitt. Þar bjó ég í tvö ár. En fór í skóla eftir 6 mánuði.

H&H: Fluttirðu út af hælinu?
F: Já ég fékk mér bara lítið herbergi og svo kynntist í konunni minni og við fórum að búa saman. Bjó bara tveimur götum frá húsinu. Var alltaf í hverfinu. Þangað til fyrir 3 árum, þá var gentrifiað svo svakalega.

H&H: Gentrifiað?
F: Gentrification. Þegar hipsterarnir flytja inn og reka alla aðra burt, breyta. Ég var orðinn gamall og fúll og nennti ekki að vera með ungu fólki sem er að skemmta sér allan daginn svo ég flutti upp í fjöll. Alveg bara æðislegur staður í fjöllunum fyrir ofan LA.
Mikið af trjám, við erum með 6 appelsínutré og sítrónutré. Með stúdíó í labbfjarlægð. Konan mín er listamaður. Það er bara æðislegt að búa þarna. Ef ég flytti til Íslands eftir 30 ár færi ég bara upp í sveit. Fínt að vera í klukkutíma fjarlægð svo ég geti komið og farið á listasýningar og í bíó.
Frábært að búa í LA samt. Kemst til eyðimerkurinnar á 45 mínútum, er þrjá tíma í fjöll og þrjá tíma í hina áttina, að wine country. Þrjá tíma á flotta strönd. Það eru allar tegundir þarna. 327 sólardagar á ári. Hitinn fer aldrei niður fyrir 20°.

SOLD! Hillbilly er farin til Cali!

H&H: Hvernig er að horfa á Ísland úr fjarlægð?
F: Kómískt. Mjög kómískt. Það fá allir svo mikið móðursýkiskast, allir saman. Þetta er meðvirkasta þjóðfélag á jörðinni. Ísland er bara eins og ein stór disfunctional family. Er samt eins og family. Það er soldið sterk kennd, samheldni á Íslandi.             Bandaríkin eru hrikalega disfunctional. Allstaðar annarsstaðar í heiminum væri borgarastríð ef það væru 30 þúsund manns myrtir á ári. Í öðrum þjóðfélögum væri það stríðsástand. Svona hefur þetta þjóðfélag verið frá upphafi – blossandi ofbeldi bara út í gegn. Þjóðfélagið er auðvitað byggt á fjöldamorðum indjána.

Hillbilly og Friðgeir ræða byssumálin í Bandaríkjunum. Sjálfur hefur hann aldrei átt byssu. En hann hefur orðið fyrir skoti. (Eins og 100.000 Ameríkanar árlega (skv. laufléttu googli Hillbilly. Það er örugglega raunhæf tala).
F: Já ég hef verið skotinn. Ég var að fara út í búð að kaupa viskí. Á sunnudags eftirmiðdegi í New Orleans. Það var bara verið að ræna mig. Ég átti 5 dollara, en hann tók ekki viskíið mitt. Það var ágætt.
Flutti til New Orleans 1996 til að fara í kokkinn. Ég var í tvær annir og svo fannst mér þetta bara bullshit því ég var kominn með vinnu, undir einum topchef á eftir öðrum. Og vann bara hjá öllum bestu chefunum. Var með allt í gangi en svo var ég bara orðinn svo svakaleg fyllibytta svo ég eyðilagði það allt fyrir mér bara með drykkju.

H&H: Þetta helst stundum svoldið í hendur. 
F: Já það er alveg ástæða fyrir því að ég valdi þetta. Ég var auðvitað alki þegar ég byrjaði. Valdi djobbið þar sem ég gat verið alltaf fullur, í borginni sem er með mesta brennivínið í öllum heiminum. Og svo gerðist ég mesta fyllibyttan í New Orleans. Varð heimsmeistari. Og þetta lifði ég af.

Ég var nefnilega undrabarn og settur í bekk með eldri krökkum, en svo 14 ára dett ég í það. Það er fulltime job að vera fyllibytta. 

H&H: Sérðu eftir einhverju?
F: Neinei. Þetta er bara svona. Það þýðir ekkert að sjá eftir þessu.

H&H: Ánægður að vera kominn út úr þessu?
F: Já. Bara æðislegt að vera til í dag.

            Þegar ég fann ljósmyndina, þá fór allt af stað.

H&H: Fannst þína köllun?
F: Jáaaa bara tilgang og köllun og allan pakkann. Lífið varð bara meira spennandi. Sem listamaður, maður er alltaf í slag við sjálfan sig sem listamaður. Þó maður sé búinn að ganga í gegnum alla þessa miklu sjálfsskoðun… Lífið er miklu meira spennandi og skemmtilegra sem listamaður.

H&H: Ertu eitthvað þekktur úti?

F: Nei ekki neitt. Ég er sko með safnsýningar hér á Íslandi, en gallerí úti myndu ekki einu sinni líta á portfólíuna mína.

H&H: Afhverju er það?
F: Ég veit það ekki, mér er alveg skítsama. Ég nenni ekki að taka þátt í því. Þar þarf maður að vera kyssa rassa frá 9-5 átta daga vikunnar til að hitta einhvern merkilegan. Ég nenni því bara ekki. Öll mín list er bara algjörlega á mínum forsendum.

H&H: Hvar ertu annars að vinna núna?
F: Ég er búinn að vera vinna mikið sem einkakokkur í LA. En núna er ég geðveikt spenntur fyrir Flatey.

NORÐURLJÓSIN MÁLUÐ EFTIR MINNI OG TILFINNINGU

H&H: Einkakokkur í LA – fyrir eitthvað frægt lið?

F: Ég hef verið að vinna á topp meðferðarstofnunum, litlum, þar sem eru kannski 20 klæentar. Síðustu tvö ár hef ég verið að vinna fyrir áfangahús – það eru átta áfangahús í Beverly Hills og það var fyrir stjörnurnar og ríka fólkið, villur. Fyrir börnin þeirra. Alveg gjörsamlega fucked up, þessir krakkar. Svo hittir maður foreldrana, og þá fattar maður afhverju krakkarnir eru svona fucked up, foreldrarnir eru verri.

Nú er ég hættur þessu. Fæ ekki mikla útrás fyrir sköpunarþörf. Manual vinna. Mér finnst gott að taka tarnir í þessu svo taka mér löng frí og vinna bara í ljósmyndun. Öll mín ljósmyndun er eiginlega on the road. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að vera on the road. Ég hef stundum hugsað hvort það að vera ljósmyndari sé afsökun fyrir því að fá að vera on the road. Það er ekkert æðislegra til í heiminum en að vera on the road í Bandaríkjunum. Að vera að keyra út í buska í Ameríku, New Mexico, Texas… Það er fokking toppurinn. Það toppar það ekkert. Náttúran, fólkið sem maður hittir, algert frelsi. Það er æðislegast. Ef ég gæti verið að því stanslaust væri ég sáttur. En ég tek eiginlega bara ljósmyndir þegar ég er að vinna aðprojecti.

Sand/Snow – ég var í allan gærdag og keyrði um Ísland að ljósmynda snjóinn. Nota tækifærið. Ég sótti um listamannalaun og fékk þau ekki. Svo plan B var að halda sýningu á Íslandi, selja allt og fara on the road á Íslandi.

H&H: Geturðu líst sköpunarferlinu?
F: Já. Fyrst kemur hugmyndin, alltaf eitthvað tengt veginum. Það er fyndið ég var búinn að vera að fara í eyðimörkina að ljósmynda í tvö ár. Svo kom ég heim 2016 og þá var ég eiginlega hættur því – sá að það var ekki að virka. Ljósmyndaði snjóinn. Samtalið á milli Suðurríkjanna og Íslands, og með þessari seríu var komið svona framhald af þeirri seríu. Kuldinn og hitinn. Eyðimörkin er minn uppáhaldssstaður.

H&H: Búið þið nálægt hvort öðru?
F: Nei mamma er ennþá niðri í bæ, en það tekur bara svona 40 mínútur að keyra þangað. Það er bara skreppitúr í LA.

Stella er með eitt trikk uppí erminni, að biðja aldrei um neitt heldur þakka. Hún þakkaði til að mynda í sex mánuði fyrir sýninguna með Friðgeiri í Ramskram áður en hugmyndin að sýningunni kom upp. Hún biður ekki til neins man-made gaurs, Jesús eða Mohammed en hún veit að það er æðri kraftur. Það er ekki snefill af efa, enda fær hún allt sem þú þarf.

Friðgeir segir söguna á bakvið sýninguna í Ramskram svona:

F: Hún byrjar á þessari mynd af saumavélinni, sem ég tók mynd á Hörgshóli (æskuheimili Stellu) sumarið 2008. Svo fór ég til LA og sýndi mömmu þessa mynd og hún bara „afhverju komstu ekki með hana!“ Ég ætlaði ekkert að vera að dröslast með þessa níþungu saumavél alla leið, 50 kg saumavél! Bara mynd af henni. Mamma hengdi hana upp á vegg og málar svo myndina. Og ég sá þetta og fannst alger snilld og lét hana hafa bunka af myndum og síðan hefur hún verið að mála alveg á fullu. Snorri Ásmunds var gestur í stúdíóinu mínu í LA og er vinur mömmu líka og hann hafði orð á því að við ættum að sýna myndirnar saman, þær væru svo flottar saman. Svo þegar Bára bað mig um að hafa sýningu hérna, þá ákvað ég að hafa þessa sýningu af því að mamma skýrði galleríið. Ramskram. Hún var að fylla út tollaskýrslu þegar hún sendi heim mynd af hrúti og á hana skrifaði hún Ramskram sem er náttúrlega ekki orð. Ram er hrútur og skram er bara eitthvað úr hausnum á henni…

H&H: Er þetta fyrsta samsýningin ykkar?
SD: Já, hún kom svona bara. Hún átti að koma.
F: Bara svo mamma gæti komið og verið í kápunni.
SD: Nei þetta er ekkert okkur að þakka, eða neinum að þakka. Þetta er bara forsjónin sko. Þetta átti að vera. Við komumst ekki hjá því að gera þetta ekki. Hún ákvað að við hefðum sýningu saman. Þá urðum við bara að gera það.

H&H: Er allt ákveðið fyrirfram?
SD: Auðvitað. Því að ef þú ferð ekki eftir innsæinu sko þá. Þig getur ekki langað í eitthvað ef það er ekki framtíð. Ef þig langar alveg rosalega mikið í eitthvað, fara eitthvað, flytja eitthvað, gera eitthvað þá er það framtíðin þín sem er að segja við þig hvað þú átt að gera þá átt þú bara að hlýða því. Engar afsakanir.

H&H: Hefur þú alltaf hlýtt?
SD: Já, auðvitað. Maður verður að gera það.

H&H: Hvað langar þig núna?
SD: Mig langar til að selja fyrirtækið mitt og ég ætla að gera það. Mér er sagt það. Eiga fullt af peningum, margar milljónir.

H&H: Hvað viltu gera þegar þú ert búin að selja það?
SD: Gefa Friðgeiri peningana.

H&H: Vá, en hann heppinn. 
F: Já ég er svo latur. Þá þarf ég ekki að vinna.
SD: Kannski bara hreinlega fæ ég mér lítið hús á Grettisgötu eða Njálsgötunni.

H&H: Hvað mynduð þið bjóða upp á í kvöldmat?
SD: Soðinn þorsk með smjöri.
F: Ah. Ég skildi hins vegar byrja á að framreiða foie gras með trufflum. Nei, ég myndi gera soul food.Sálar mat. Ég vann náttúrlega á flottustu veitingahúsunum lengi, en svo lærði ég að búa til soul food af svörtu kerlingunum sem voru að vinna með mér í eldhúsinu. Fried chicken. Red beans and rice. Beans.

H&H: Týpískur dagur:
SD: Ég náttúrlega vakna á morgnana. Það eru allir dagar góðir, þá byrja ég á að segja „þakka þér fyrir góðan dag.“ Eini dagurinn sem ég hef er í dag og það er besti dagurinn. Besti dagur sem ég hef nokkurn tíma lifað. Og það er eini dagurinn. Þú getur ekki lifað í gær og ekki á morgun.

Stella hefur málað mynd á dag í heimsókn hennar til Íslands.

SD: Ég er myndlistarkona, skáldkona og þerapist og þvottakona og bara, ég er bara kona. Þú veist að konur geta allt. Skiptir ekki máli hvað það er. Ef hún ætlar sér að gera eitthvað og trúir því getur hún bara allt. Maður á að trúa því. Og ekki vera að væla eitthvað „ohh ég er kona, ég fæ ekki nógu mikið borgað fyrir það sem ég geri.“ Svo eru karlarnir alltaf að klípa í brjóstin á manni. Mér finnst það nú bara ágætt. Mér finnst ekkert að því.
Ég skal bara segja þér það, ég hef aldrei farið til læknis á ævinni. Ég hef aldrei orðið veik, ég fæ enga verki. Svo hitti ég alla mína vini þeir eru með svo mikla verki, eru orðnir sjúklingar. Konur á mínum aldri og það er það eina sem þær tala um. Það er bara eins og þau séu að hjúkra þessum verkjum. Að vera svona upptekin af þeim. Í staðinn fyrir að henda þeim bara í burtu, minnast ekki á það.

Ég veit ekki hvernig ég á að geta dáið. Ég verð örugglega bara að ráða mér leigumorðingja.

F: Ef þú pirrar mig voða mikið, þá get ég kannski bara gert það ókeypis.
SD: Allt í lagi! Þá eyði ég bara peningunum sem ég hef safnað. Fínt! Eða ég set þá í bauk.
Veistu hvað mér finnst svo gaman? Að sjá fólkið, íslendinga. Þeir eru svo fínir.

H&H: Fínir í tauinu?
SD: Það er einhver reisn yfir þeim.

H&H: Öðruvísi en í Bandaríkjunum?
F: Það eru allir bara í Wall Mart tískunni þar.
SD: Já og mér finnst það svo skemmtilegt, en maður sér túrista alveg um leið. Og konurnar hérna, sem eru svo miklu flottari en karlarnir, á öllum aldri. Þær halda sinni reisn þótt þær séu orðnar gamlar.

H&H: Finnst þér það mikilvægt?
SD: Auðvitað. Er það ekki mikilvægt? En í Ameríku, gamlar konur sem eiga pening, þær líta bara alveg út eins og gamlar barbie dúkkur. Allar í face lift.
F: Já, það er svoldið gaman að fara á opnun í Beverly Hills!

H&H: Tengirðu betur við RVK eða LA?
SD: Ég bara tengist fólki. Skiptir ekki máli hvaðan það er. En mér finnst voðalega gaman að sjá fólkið hérna. Mér finnst að allir eigi bara að vera í sínu skinni. Það eru margir að fara í annarra manna skinn.
Það var einhver þjóðsaga um drauga sem tóku skinnið af líkinu og klæddu sig síðan í það og héldu að þeir gætu verið töframenn og galdramenn. Þú myndir labba hérna niður götuna og sjá einhverja fræga leikkonu sem lægi bara dáin. Tækir af henni skinnið og héldir að þú værir hún. Þú myndir draga hana heim til þín, fá frið til að geta flennt af henni roðinu. Svo kæmi náttúrlega lögreglan. Og hún er komin þarna og allir að taka myndir af leikonnunni, þér, og fara í sjónvarpið og öll blöðin.

 

Smávegis um málverkið hér að ofan: Stellu finnst á snúrunum hanga svo leiðinleg föt á ljósmyndinni hans Friðgeirs svo á málverkinu hafði hún málað skemmtilegri föt. Heimasætan fór víst á ball og er að þvo fötin. Lakið líka, því hún kynnntist skemmtilegum manni um nóttina. Það hangir aðeins einn sokkur, tilvísun í Öskubusku. Annarsstaðar í sveitinni er annar maður með einn sokk að leita að eigandanum.

Stella bendir Hillbilly á stuttermabol sem hengur á snúrunni á ljósmynd Friðgeirs.

SD: Svo leiðinlegt, þessir T-shirts… Ég hef aldrei farið í T-shirt í lífi mínu. Ég myndi ekki deyja í … ég myndi ekki sofa í T-shirt. Ég geri aldrei neitt sem mér finnst leiðinlegt. Það er bara ekki hægt. Það er alltaf spaugileg hlið. Ef maður er í fýlu þá gerir maður ekkert. Er bara í fýlu. Ég er aldrei í vondu skapi.
Stella segir aldrei neitt ljótt um neinn.

 

Orð fara útúr þér og útum allt og koma svo aftur til þín.

Stella lýgur heldur aldrei. Hún veit framtíðina. Hún spáir ekki í framtíðinu heldur veit hún hana. Það bregst ekki að það sem hún segir rætist. Enda lýgur hún ekki.