Menu & Search

SUNNEVA OG KATRÍNA

SUNNEVA OG KATRÍNA

Sunneva Ása Weisshappel og Katrína Mogesen hafa unnið saman síðan þær kynntust í Listaháskóla Íslands árið 2011. Bakgrunnur þeirra er ólíkur. Sunneva æfði á píanó og nútíma- og klassískan ballett. Katrína hefur skrifað og samið tónlist frá unga aldri. Leiðir þeirra beggja lá í LHÍ á myndlistarbraut og í gegnum sjónlistina fundu þær fyrir sterkum tengslum sín á milli. Saman hafa þær haldið fjölda sýninga og atburði, þær vinna t.d. saman að gjörningum, myndbandsverkum og ljósmyndum. Samstarf þeirra hefur hlotið viðurkenningar í listum. T.a.m. fyrir plötuumslag ársins 2013, fyrir plötu Mammút. Þær hlutu þrjár tilnefningar bæði á Íslandi og í Evrópu fyrir myndbandið við lagið „Þau svæfa“ sem tónlistarmyndband ársins. Nú vinna þær saman í sínu fyrsta samstarfi innan leikhúsheimsins, á uppsetningu Hamlet. Þær smelltu af nokkrum góðum fyrir Hillbilly á fyrstu æfingarvikunni.

Við erum fengnar inn í Hamlet sem myndlistarmenn og þar með leikum við okkur að mörkum myndlistar innan leikhússins.

H&H: Hvað felst í verkefninu?

Við erum að vinna við uppsetningu á Hamlet eftir Shakespeare, í Hannover, Þýskalandi. Það sem felst í verkefninu er meðal annars margra mánaða hugmynda-vinna og undirbúningur. Fundir og heimsóknir í leikhúsið fyrir æfingartíma og deildir innan þess, þar sem við skilum af okkur teikningum og grunnhugmyndum verkefnisins. Áður en æfingar hófust rannsökuðum við heima Hamlets, skoðuðum ólíkar túlkanir á verkinu og aðrar uppsetningar. Við vinnum náið með leikstjóra verksins frá upphafi, Þorleifi Erni Arnarsyni og leikmyndahönnuðinum Vytautas Narbutas. Við erum fengnar inn í Hamlet sem myndlistar-menn og þar með leikum við okkur að mörkum myndlistar innan leikhússins.

Það er mikill gróði fyrir verkefni að hafa myndlistarmenn vinnandi að þeim. Hillbilly leyfir sér að fullyrða það. Útundan sér hefur hún þó heyrt sögur um að ekki sé alltaf tekið mark á hugmyndum listamanna. En það er aldeilis ekki svo í dæmi Sunnevu og Kötu.

H&H: Virða aðrir sem koma að verkefninu ykkar listrænu innsýn og tillögur?

Við erum ráðnar inn í verkefnið með það að leiðarljósi. Við útfærum okkar eigin hugmyndir, útfærslur, myndræna tjáningu af sögunni, lög og ólík stig innan verksins. Myndmálið segir samhliða sögu við hið talaða orð. Allt er unnið í nánu samtali við leikstjóra og listrænt teymi varðandi hugmyndafræðilegar tengingar við verkið þó svo myndræn útfærsla sé í okkar höndum. Leikarar eru óvanir að vinna með búningahönnuðum á þennan máta (af okkar reynslu), þar sem búningar, litir og efni eru hluti af öllu æfingarferli. Þar sem þroski og þróun karaktera þeirra er í miklu samtali við okkur og vinna okkar á æfingum verður hluti af því sem gerist á sviðinu. Á æfingum erum við með okkar eigin vinnustofu á sviðinu, göngum inn í senur og setjum inn element, þetta er eins og dans eða samtal við leikara, tónlist og leikstjóra. Þar sem óvæntir þættir mætast og galdrar gerast.

H&H: Óneitanlega eru sumir sem kjósa að leikhús séu klassísk. (Sbr. gagnrýni Jóns Viðars Jónssonar um Óþelló.) Skiljið þið þetta áhyggjuefni?

Við myndum aldrei voga okkur neitt annað, af virðingu við skáldið, leikhúsið, Jón Viðar, Vatikanið, Jesú Krist og svo marga fleiri tímalausa klassíkera

Við elskum klassík og þess vegna höfum við þann klassa sem við berum með okkur. Shakespeare hefur samband við okkur á nóttinni og samþykkir hverja hugmynd sem við skilum svo af okkur á æfingum. Í rauninni erum við aðeins sendiboðar. Við myndum aldrei voga okkur neitt annað, af virðingu við skáldið, leikhúsið, Jón Viðar, Vatikanið, Jesú Krist og svo marga fleiri tímalausa klassíkera.

H&H: Hvert er hlutverk ykkar í verkefninu?

Þar af leiðandi fær maður frelsi til að leika sér, detta inn í flæði, gera mistök og tabú.

Titill okkar í verkinu er búningahönnuðir. Við erum að þróa vinnuaðferð sem er sjaldséð í leikhúsinu, við teygjum titilinn „búningahönnun“ inn í hreyfingar, tónlist, gjörninga, skúltpúra og innsetningar og förum þar með frjálslega með nafngiftina. En það er aðeins hægt ef leikstjórinn bæði treystir manni og gefur lausan tauminn sem og Þorleifur gefur okkur. Listrænt traust skiptir öllu máli í svona vinnuferli. Eftir hugmyndavinnu og undirbúning þá hefjast æfingar. Við vinnum í höndunum, beint í efni og þar með er viðvera okkar inn á æfingum mjög mikilvæg til að bæði fylgja og hafa áhrif á þróun verksins. Á æfingum leyfum við tilfinningum og athöfnum leikara, tónlistar og leikstjóra að kalla fram sjónræna túlkun okkar í form, sem við svo útfærum á miklum hraða. Okkar vinna fer á miklum hraða inn inn í æfingar, eins og skissur sem hafa svo áhrif á leikara. Þar af leiðandi fær maður frelsi til að leika sér, detta inn í flæði, gera mistök og tabú. Leikhúsið bíður upp á öðruvísi tíma til að melta, þróa og dýpka hugmyndir en t.d. gjörningar sem gerast í augnablikinu þar sem leikhúsið er endurtekning.

Í leikhúsinu mætast flest listform. Hillbilly velti fyrir sér hvernig það væri að skapa myndlist í heimi þar sem öðrum reglum þarf að fylgja. Fylgja þarf söguþræði, virða hefðir og vera háður öðrum þáttum, leikstjóranum, leikurum…

H&H: Sem samtímalistamönnum að vinna inní leikhúsi, fáið þið það frelsi til að skapa sem þið þurfið?

Myndlistin er fjársvelt (á Íslandi) en leikhúsið á peninga. Við getum útfært hugmyndir sem við tvær værum ófærar um að framkvæma.. 

Já og svo miklu meira. Leikhúsið er svo stórt, margar hendur sem vinna saman að sameiginlegu markmiði. Innan leikhússins vinna margar deildir og innan hverra deilda eru tugir starfsmanna/listamanna. Hugmyndir okkar fá að fara á allt annan skala. Myndlistin er fjársvelt (á Íslandi) en leikhúsið á peninga. Við getum útfært hugmyndir sem við tvær værum ófærar um að framkvæma án fjárs og aðstoðar. Leikhúsið er hraði og til þess að vinna á þeim hraða þá höfum við fimm aðstoðarmenn sem skipta á milli sín verkefnum til að koma hugmyndum og tæknilegum útfærslum í framkvæmd.