Menu & Search

ÞÓRDÍS ERLA ZOEGA

ÞÓRDÍS ERLA ZOEGA

Hillbilly hitti nágranna sinn með glansandi symmetrísku silkiflétturnar, Þórdísi Erlu Zoega, í íbúð hennar í Vesturbænum. Kristján kærasti Þórdísar vék ekki frá þungaðri konu sinni eitt andartak og var með í viðtalinu. Sagði reyndar ekki mikið en var á verði og við öllu viðbúinn. Hann skaut inn nokkrum bröndurum og hellti upp á nokkrar könnur, sumsjé: hin fínasta viðbót í viðtal.

 

AÐDÁUN NÁÐIST Á MYND

Þórdís lagði nýverið undir sig stofuna vegna undirbúnings sýningar, sem var komin niður þegar viðtalið var tekið. Það var aðallega myndlist eftir Þórdísi á veggjum. Það er fínt að hafa góða og gilda ástæðu til þess að fylla íbúðina sína af eigin listaverkum, það getur nefnilega verið svolítið spes að hafa það svoleiðis sé maður ekki að setja upp eða taka niður sýningu.   Finnst sumum. Þórdísi finnst reyndar fínt að hafa myndirnar sínar í kringum sig þegar hún er að vinna að nýjum. Oft eru þær 

nefnilega ekkert tilbúnar þó þær séu fullkláraðar. „Stundum er ég til dæmis of fljót á mér og instagramma og svo bara fuck!” Hún er ekkert endilega að gera lítil verk þó hún sé heima í lítilli íbúð og það gerir ekkert til þó fína tekkborðið rispist aðeins.

Hún er með aðstöðu til afnota á Fiskislóð en vegna bílleysis fer hún ekki mikið þangað og henti öllu dótinu í íbúðina sem er víst mjög kósí. Þórdís hefur líka unnið þónokkuð utandyra, til dæmis

                                               hérna,

                                                                                                                                       hérna

                 &hérna.

 

ÞEZ: Jú ég hef verið beðin nokkrum sinnum um að gera eitthvað. Ég gerði veggteppi niðrí bæ á Listahátíð í fyrra, í Hjartagarðinum, á Canopy hótelið. Þeir tóku alla gömlu graffíti listina í burtu úr garðinum og borguðu fyrir nýja list í staðinn. Fannst svolítið kool að gera svona götulist.

Fór á Prikið stundum, fékk að hoppa á klósettið þar, þá var mér tekið sem einum af gröffurunum.

Það var gaman að prófa að vera partur af þeim hóp þó ég álíti mig ekki sem street-listamann.

Við veltum fyrir okkur skilgreiningu á graffítí, án Googles, í smá stund og komumst að því að það hljóti að þurfa vera gert í leyfisleysi, en hipphopphlust er valfrjálst með.

Mér finnst það allavega ekki mjög „graffíti“ ef einhver kemur til mín og segir „hæ ég ætla að borga þér peninga fyrir að … mála … þennan vegg.“ Það vantar soldið svona kúlið í það. Rappkúlið.

Þórdís sýnir Hillbilly skissur af veggverkinu.

ÞEZ: Veggurinn var þrjár hæðir, maður getur séð gömlu íbúðirnar á veggnum. Svo ég notaði það sem mælistiku fyrir veggverkið. Svolítið kaldhæðið, mér finnst hótelin vera að taka yfir allan bæinn og taka yfir önnur hús og svo er ég að gera verk fyrir eitt hótel.

H&H: En þú settir teppi utan um gamla húsið 🙂

ÞEZ: Claiming her space. Það var alveg klósettkassi, innstungur í veggjunum. Mér finnst svo nice að skilja það eftir og leyfa listamönnum að vesenast í því.

H&H: Er ekki viss um að það hafi verið tilgangurinn hjá hótelfólkinu, að skilja það eftir fyrir listamennina.

ÞEZ: Ekki? Og ljósmyndarana…

H&H: Hvernig er sköpunarferlið hjá þér?

ÞEZ: Ég vinn margar myndir í einu… Ég er með svona nokkur, svona týpur af verkum. Fæ ógeð af einni týpu og fer þá í aðra. Hef verið með optical illusions, bæði innsetningar og teikningar.

Þórdís sýndi innsetningu þar sem hún notaði filmur yfir gler, sem eru jafn gegnsæjar og þær eru speglandi. Hún sýndi verkið meðal annars í yfirgefnum sturtuklefa í Berlín.

ÞEZ: Maður er oftast einn í sturtu og þess vegna fannst mér spennandi að sjá þetta verk í sturtuklefa. Þarna er manneskja með þér en það er tekið yfir prívatið þitt á annan hátt því það er tekið yfir andlitið þitt. Þetta er algjört mind fuck. Þegar þú raðar andlitinu þínu, augunum, á móti hinu andlitinu í sömu fjarlægð frá glerinu þá falla andlitin inní hvert annað. Svo getur maður verið að gera eitthvað svona (Þórdís snertir líkamann sinn) við sjálfan sig og hin manneskjan er alveg bara „eeeeeeeegh”. Sumum fannst þetta bara mjög óþægilegt. Augun finna ekki hvernig þau eiga að fókusa. Þegar þú stendur svona fyrir framan einhvern sem þú þekkir ekki getur þetta orðið óþægilegt, þetta er of náið.

Fólki líður eins og það sé verið að horfa inní það.

H&H: Gerðiru þetta fyrir eða eftir að filterinn á Snapchat kom, face swappið?
ÞEZ: Þetta var útskriftarverkið mitt úr Rietwelt, 2012, þannig að þetta var á undan. Snapchat var ekki til þá. Ég var á undan Snapchat. En þetta er náttúrulega líka bara svona analog Photoshop, þessi innsetning.

H&H: Einmitt. (Hillbilly fær hugdettu) Hey! þú gætir rukkað pör fyrir að sjá hvernig barnið þeirra muni líta út. Eruð þið búin að athuga?
ÞEZ: Jájá, við prófuðum þetta.
Kristján: Það var mjög krípí.

Umræðan fór út í eitthvað annað en myndlist og Hillbilly ritskoðar allan óþarfa.

ÞEZ: Svo er ég að gera svona symetríu jafnvægis málverk. Mér leið alveg smá cheesy, ólétt að gera þetta… þetta er nefnilega smá hugleiðsla. Eitt leiðir af öðru og ef þú tekur ákvörðun verður þú að fylgja henni eftir. Hvert strik sem þú gerir verðir þú að spegla. Ég vinn motturnar líka svona. Svo gerir maður eitthvað sem eyðileggur myndina alveg. Ég reyni stundum að telja línur, en gleymi mér svo. Ég mæli ekkert fyrir fram eða ákveð. Þær eru mjög skakkar.

En takmarkinu er náð þegar ég næ að gera þær heilar fyrir augað þó þær séu skakkar.

Pabbi var að hjálpa mér að hengja þessa (Þórdís bendir á eina mynd), það tók hann nokkrar tilraunir „Alveg rammskökk…
…Nei, hún var rétt áðan.”

H&H: Þetta er einmitt líka svona analog Photoshop, eins og þú talaðir um með speglaverkið. Svona reglulegt symetrískt munstur en handgerð og ófullkomin.

ÞEZ: Ákkúrat.

H&H: Hvernig gengur að selja?

ÞEZ: Bara vel! Seldi fimm myndir á síðustu sýningu.

H&H: Geðveikt.

ÞEZ: Það er geggjað nice. Fínasta sumardjobb.

H&H: Geturðu lifað á þessu?

ÞEZ: Stundum. Ég hef verið mjög heppin, fengið mikið af verkefnum. En svo eru engir svakalegir peningar í þessu á Íslandi. Held ég.

H&H: Hefuru farið eitthvað aftur út til Hollands?

ÞEZ: Nei, eiginlega ekkert. Bara að ná í eitthvað drasl. Allir vinir mínir eru fluttir þaðan. Ég flutti reyndar í eitt ár til Berlínar eftir Amsterdam.

H&H: Hvað varstu að gera í Berlín?

ÞEZ: Djamma. Hehe.

Ætlaði mér að komast inní listasenuna þar en svo fattaði ég að það eru allir listamenn þarna. Hver einn og einasti. Eða DJ.

Þannig að ég hugsaði með mér, ef mig langar að komast inní senuna þarna þá væri auðveldara að komast inní hana héðan. Það er auðveldara að búa sér til nafn hérna og fá þá sýningartækifæri úti. Svo var ég líka bara löt. Nennti ekki að læra þýsku, fékk enga vinnu nema á burrito stað, 6 evrur á tímann. Ekki alveg það sem ég hafði í huga, svo ég flutti heim. Það er fínt. Gaman að vera fullorðin á Íslandi. Flutti út til Amsterdam tvítug.
Fjögurra ára BA nám í Rietwelt. Þetta var ekki svona theoretical. Mjög frjálst. Maður gerði bara það sem maður vildi, fannst það mjög nice. Svo hef ég heyrt að þessu braut sé búin að breytast mikið. Árgangurinn var svo tight, það skiptir svo miklu máli.

H&H: Hvernig er týpískur dagur hjá þér?

ÞEZ: Núna er ég bara ólétt heima.

En ég var að klára skóla, var í vefþróun. Núna kann ég að búa til vefsíður og forrita. Var að gera mína.

Þetta er nýtt tveggja ára nám í Tækniskólanun, við erum fyrsti árgangurinn. Þegar það er lítið að gera í myndlistinni þá mun ég alltaf geta tekið að mér svona verkefni. Það var svo mikið að gera á meðan ég var í skólanum, skil ekki hvernig ég náði. Var að vinna sem búningahönnuður í DADA dans í borgarleikhúsinu á meðan. Það var geðveikt. Draumaverkefni fyrir myndlistarmenn. Dada er náttúrlega myndlistarstefna og þær (Rósa Ómarsdóttir og Inga Huld Hákonardóttir í samstarfi við ÍD) voru að reyna að finna dadaisma í dansi. Sem hefur ekki mikið verið gert, ekki mikið verið skrifað um, ekki mjög áberandi. Og ég fékk að gera búningana! Ég bjó til alls konar svona ready-made búninga.

Basically henti bara einhverju drasli í þau „Dansiði eitthvað með þetta.

H&H: Dansararnir voru bara að dansa með listaverk eftir þig á sviðinu?

ÞEZ: Já eiginlega. Ég var samt aðallega með bala eða þvottakörfur og breytti þeim aðeins. Svo gerðu þau eitthvað við þetta.

Dansarar eru svo kreisí. Þau hugsa öðruvísi með líkamanum en fólk.

H&H: Til dæmis hvað á að gera við bala?

ÞEZ: Já! Ég var eitthvað „þú getur sett þetta svona oná hausinn og .. svo dansað eitthvað”. En þau settu balann á rassin á sér og fóru að gera eitthvað allt annað. Bjuggu bara til einhverjar verur úr hlutunum. Það var ógeðslega kúl.

H&H: Hvernig fékkstu þetta gigg?

ÞEZ: Mmmmm. Ég veit það ekki alveg. Ég var bara beðin um það. Þær heita Rósa og Inga sem gerðu verkið, ég og Rósa vorum í ballett saman þegar ég var lítil. http://id.is/da-da-dans/

H&H: Vanstu ekki Grímuna, eða varst tilnefnd? (Kartafla, kartvaffla)

ÞEZ: Ég var tilnefnd, búningahönnuður Ellý vann. Þetta var soldið fyndið, ég mætti haldandi að þetta væri eitthvað red-carpet. Sjónvarpað og ég var tilbúin með ræðu ef ég skyldi vinna. En svo var þessu bara rumpað af áður en útsendingin byrjaði. „Það eru nokkrir flokkar sem við ætlum ekki að sjónvarpa…”

H&H: Æ J

ÞEZ: Sat bara aftast.

H&H: Fór sá sem vann samt uppá svið að segja takk þó því væri ekki sjónvarpað?

ÞEZ: Já… Ég var mjög stressuð að þurfa mögulega að labba uppá svið. Fór meira að segja og keypti mér skó sem væri ólíklegt að ég dytti í, svo ég tæki ekki Jennifer Lawrence á þetta.

H&H: Frábær markaðsetning samt.

ÞEZ: Það væri týpískt ég og ég var búin að sjá það fyrir mér með hryllingi. Svo ég er bara ánægð að ég vann ekki. Myndi gleyma nöfnum. Ég fann alveg að fólk var smá stressað, fólkið bak við tjöldin. Ekki leikararnir, þeir eru vanir. En svo mikil vinna í leikhúsi er bak við-vinnan; sviðsmynd, búningar, hljóðheimurinn. Og þetta var allt bara drifið af.

En þetta má ekki vera of langt. Verst fyrir mömmu og pabba, og ömmu, sem biðu spennt fyrir framan sjónvarpið og fengu sms: Þið þurfið ekkert að horfa á þetta, okkar er búið, vann ekki.

Nema þetta skilaði sér ekki til ömmu. Hún horfði allan tímann.

H&H: „Æj ég hefði ekki átt að skreppa að pissa!”

ÞEZ: Hefði bara átt að segja henni að ég hefði unnið en hún hefði akkúrat verið að pissa.

H&H: Hvað myndiru bjóða uppá í kvöldmat?
ÞEZ: Ég myndi láta Kristján gera Tacos handa þér.
H&H: Næsh
ÞEZ: Eða pizzu.
H&H: Næsshh
ÞEZ: Vúhú! En ef Kristján væri ekki heima myndi ég gera gums fyrir þig.
H&H: Mmmm… mmmm..
ÞEZ: Grænmetis-osta-tómatagums.Dísugums.

H&H: Hvað hefur myndlistin þín kennt þér? 

ÞEZ: Þolinmæði. Mér mun aldrei þurfa að leiðast en aftur á móti mun ég alltaf hafa það í hausnum að finnast ég verða að vera að gera eitthvað. Það er bæði geðveikt nice.

Ég get ímyndað mér að það sé nice þegar maður er gamall. Maður hefur alltaf nóg að gera.

H&H: Hefurðu fengið svokallaða sköpunarstíflu?

ÞEZ: Nee. Maður þarf oft að taka… eins og ég tók svaka syrpu núna. Vann fullt af verkum á stuttum tíma. Var að klára syrpu í að mála og geri núna ekki meira í bili. Það er stífla að því leytinu til að maður hefur ekki þörfina lengur.

H&H: Búin að fullnægja henni í bili

ÞEZ: Það er langt síðan ég var með sýningu síðast og vildi gera þessa áður en baby kemur svo ég myndi koma tilfinningunni út.

Til að geta notið þess að eignast barn og svona.

H&H: Ertu ánægð með ákvörðun þína að hafa farið út í myndlist?

ÞEZ: Já mjög… ég held að það hafi ekkert annað komið til greina. Ég held að maður velji ekki þetta starf.