Menu & Search

ÚLFUR KARLSSON

ÚLFUR KARLSSON

Úlfur Karlsson fæddist í Svíþjóð árið 1988, frá Svíþjóð flutti hann á Hvammstanga, svo beint útá Álftanes þar sem hann ólst upp, þaðan niðrí bæ og síðan aftur til Svíþjóðar í Akademin Valand. Nú hefur Reykjavík tælt hann til sín á ný. Úlfur bauð Hillbilly á vinnustofu sína á Nýlendugötu þann 26. janúar 2017. Vinnustofan er ekki stór, mætti lýsa henni sem lítilli en langri. Það getur eflaust verið bæði gott og slæmt að geta ekki séð verkin sín úr fjarlægð á eigin vinnustofu. Hann vinnur í miklum smáatriðum sem mynda oft risastórt veggverk. Á veggnum er listaverk í vinnslu sem glætir vinnustofuna lit og lífi.

Í verkinu er ég að fara aftur í barnæsku mína. Í menninguna sem ég ólst upp í; að safna körfuboltaspjöldum, horfa á bandarískar bíómyndir og fleira sem margir Íslendingar ólust upp í.

H&H: Hver er sterkasta æskuminningin þín?

Ú: Vera lengur en til tólf úti með vinunum.

Ú: Hugmyndin um hina bandarísku menningu, ameríska drauminn, snýst upp í andhverfu sína. Hvað er hið góða og hið illa? Við erum alin upp við að líta á heiminn sem einfaldan en þegar við eldumst og myndum okkar eigin sjálfstæðu skoðanir sjáum við hlutina frá öðru sjónarhorni.

Hérna kemur Osama Bin Laden inn, sem eitthvað tákngervi bandarískrar menningar og síðan Kastró fyrir kommúnismann. Frankenstein er miðjudepillinn afþví ég hafði mjög gaman að bíómyndunum sem barn. Ég er hérna með 92 liðið (Úlfur bendir á menn í íþróttafötum). Á síðustu sýningu málaði ég Don King. Hann er umboðsmaður boxara, mjög umdeildur, álitinn spilltur. Hann stýrir bakvið tjöldin, svo ég bar hann saman við þá sem eru á bakvið stríð; herforingja sem láta aðra berjast fyrir sig. Ég notaði boxheiminn, mér fannst það áhugaverð samlíking, að vilja slást, vilja fara í stríð, fara ekki sjálfir heldur senda aðra.

Ég er að nota uppáhalds litasamsetninguna mína sem er gulur og blár.

Titillinn Los Animales – í verkinu er ég að blanda saman mannlegu og dýrslegu eðli, trú og íþróttum. Allt keppni þar sem einn vinnur og hinn tapar.

H&H: Hvernig tengirðu trú í dýrslegt eðli?

Ú: Ég held að það sé elsta leiðin til þess að reyna að beisla dýrslegt eðli mannsins og reyna að gera það formlegra og láta það líta betur út. Svo eru nýrri hugmyndir til þess núna. Ég vinn að því að gera mörkin á milli mannlegs og dýrslegs eðlis óljósari.

H&H: Hvar lærðiru myndlist?

Ú: Í Gautaborg. Ég byrjaði reyndar á Akureyri fyrsta veturinn í fornámi og fór síðan út til Gautaborgar árið 2009 og lauk þar BA gráðu.

Hillbilly vill alltaf vita afhverju myndlistarmenn ákváðu að fara að læra myndlist til að byrja með. Úlfur byrjaði í kvikmyndagerð, var í Kvikmyndaskólanum 2006-2008. Í miðju náminu fór hann að huga að námi eftir skólann og skoðaði námið á Akureyri út frá því að vera kvikmyndagerðar-maður. Á þeim tíma vann hann mikið með minimalisma. Breytti meðal annars verki Yoko Ono, White chess set, úr hvítur gegn hvítum í svartur gegn svörtum. „Sem var svona svartsýn útgáfa af því.“ Á þessum tíma var Úlfur ekki byrjaður að mála. Hann fór hinsvegar að læra listasögu í skólanum. Þar kviknaði á einhverju.

Ú: Þegar ég fór til Svíþjóðar var það í fyrsta skiptið sem ég fékk mína eigin vinnustofu og gat meira að segja búið í vinnustofunni. Svo þegar ég byrjaði að mála málaði ég eiginlega bara á það sem aðrir voru að henda eins og tréplötur. Fór að spreyja það og þannig byrjaði ég að mála sjálfur

H&H: Er nauðsynlegt fyrir myndlistarmenn að læra myndlist?

Ú: Það er svoldið lagt upp úr því að maður þurfi að kunna tækni sem ég er ekkert endilega sammála en ég held að gott sé að vita stefnur og hvernig það sem maður er að gera tengist inn í listasöguna.

Já ég held að það sé gott að kunna listasöguna, upp að einhverju marki.

H&H: Hvernig tengist það sem þú ert að gera inní listasöguna?

Ú: Listasaga tuttugustu aldarinnar er mótuð af öfgafyllstu breytingum mannkynssögunnar. Þessar stóru breytingar og þá sérstaklega þær miklu breytingar sem urðu upp úr 1950, bjuggu til farveg fyrir nýjar listasöfnum sem höfnuðu öllu gömlu, minimalisma, abstrakt list kúbisma. Ég myndi segja að mín list tengist mest inní þá list sem var í hámarki í kringum 1980 og var kallað Neo-Expressionismi. Auk þess er ég undir áhrifum frá fornaldar list og þá sérstaklega frá Inka listaverkunum. Svo er ekki að neita að Pop listin sem var kannski í hámarki í kringum 1960 hefur haft mikil áhrif á mig.

 

H&H: Hvað finnst þér um að titla verkin þín?

Ú: Titlar finnst mér mjög mikilvægir í málverki en mínir koma yfirleitt eftir á. Nema að það sé texti á verkinu sjálfu. Það er ólíkt eftir verkum hversu auðvelt það er að titla. Ég reyni að vanda mig af því að verkin hafa yfirleitt einhverja þýðingu fyrir mér. En það mikilvægasta fyrir mér þegar ég sýni verkin mín eru sjónrænu áhrifin. Ég vil að fólk upplifi fyrst og svo getur það skoðað titilinn ef það vill vita meira.

Þegar Úlfur kom til Íslands frá Svíþjóð 2012-13 var hann í bílskúr foreldra sinna á Egilsgötu, þar sem hann vinnur reyndar ennþá. Hann hefur svo verið í SÍM Stúdíói á Nýlendugötunni í fjögur ár. Hann heldur að þetta verði síðasti veturinn, heyrst hefur að breyta eigi þessu húsnæði í eitthvað annað… 

Mér líður mjög vel hérna. Það var svona Berlínarstemning yfir húsinu fyrst. Það var svona að detta í sundur, svoldið huggulega sjúskað. Núna er það orðið of sjúskað. Það var einu sinni spánverji hérna af úkraínskum ættum og hann sagði að þetta væri svipað því að koma inn í íbúðarhús í úthverfi Kiev…

Ú: Annars vil ég ekki hafa þetta of snyrtilegt. Ég vandist því í Gautaborg að vinna í rými þar sem má sletta og sulla og koma með opin kaffimál inn.

H&H: Sérðu mun á að læra úti og hér heima?

Ú: Ég þekki ekki alveg til LHÍ en ég held að úti sé meira frelsi. Miðað við það sem ég kynntist á Akureyri var meira frelsi í náminu í Gautaborg. Örugglega útaf plássi. Og það var i fyrsta skipti sem ég gat verið með eigin vinnustofu og ég held að það ættu alltaf að vera vinnustofur fyrir nemendur ef þeir vilja kynnast sjálfum sér. Það takmarkað vinnuna svo mikið að hafa ekki vinnustofu. Svo var það frelsið fyrir svíana. Það eru alls konar hlunnindi sem ég vissi ekki af sem svíar og danir hafa fram yfir okkur.

Þá fá þeir nánast eða að mestu leyti styrk fyrir náminu. Þurftu ekki að hafa áhyggjur af útborgun frá LÍN eins og ég.

H&H: Afhverju Gautaborg?

Ú: Ég fór í viðtal í Gautaborg og UMEO. En valdi Gautaborg vegna þess að mér leist vel á fólkið sem var í viðtalinu. Þægilegra samgöngulega séð – fara til Köben og flúga heim. Það var líka hefð fyrir því að íslenskir myndlistarmenn voru þar, til dæmis Svavar Guðnason og mér fannst gaman að vera hluti af þeirri hefð. Ég tók líka þátt í sýningu um hann, Hard Days Night sem haldin var í ASÍ. Þá tókum við Magnús Helgason eldri verk eftir Svavar og blönduðum saman verkunum okkar allra.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?

Ú: Það er oftast auðvelt. Það hefur breyst. Fyrir sýninguna í Listasafni Reykjavíkur þá vann ég á kvöldin, kannski af því að það var ekki mikil pressa tímalega. Ég var alltaf að vinna í verkinu jafnt og þétt og leit á það sem endalaust verk. Eftir sýninguna þar þá hélt ég sýningu í Vínarborg og þá varð ég að skila inn fimm stórum verkum á stuttum tíma svo ég breytti um lífstíl um leið. Ég fór að vinna á morgnana, eyddi ekki tíma í neitt annað, nema vinnuna sem ég var í, og sleppti oftar djamminu. Það tókst. Ferlið er öðruvísi undir tímapressu.

Ég þarf að fylla út í allt verkið en þarf um leið að vera skapandi.

Ég er núna með aðra sýningu og ég þarf að vinna undir tímapressu. Ég kaupi mér alltaf kaffibolla í 10 11 eða dunkin donuts, svo ég geti labbað með það og sparað tíma. Þá þarf ég ekki að stoppa til að laga kaffi.

H&H: Er erfitt að vinna ekki verkin þín endalaust?

Ú: Þetta verk til dæmis er mjög langt frá því að vera tilbúið en þegar ég finn – þegar ég get horft á það úr fjarlægð, sem er yfirleitt þarna frammi. Þá finnst mér ég sjá betur hvað ég þarf að gera.

H&H: Verkferli við þessa mynd: Byrjarðu alltaf á einum punkti? Hvar?

Ú: Ég byrjaði út frá miðju og er búinn að skapa ákveðið landslag fyrirfram. Með bláa og gula og bleika litnum.

Svo málaði ég reyndar þennan hérna, bláu risaeðluna, yfir allt. Mér fannst vera komið eittthvað bil hérna á mili. Það var mjög erfitt því ég var búinn að eyða miklum tíma í að vinna í þessu öllu hérna bakvið en mér fannst henta betur fyrir myndbygginguna fyrir alla myndina.

Svo bara kill your darlings. Setti hann yfir Bítlana hérna.

H&H: Hefur þú upplifað raunverulega þrá til að skapa?

Ú: Já. Þegar ég er búinn að vera í burtu frá verkinu þá finnst mér ég hafa meiri þörf til að skapa. Þegar ég er búinn að vera mjög mikið ofan í verkunum þá er það ekki beint þrá, þá virkar það meira eins og rútína.

Það er öðruvísi tegund af þrá. Það er eins og að maður hafi lyft lóði nógu lengi svo maður geti bætt við einni þyngd.

Af því að maður er búinn að venjast rútínunni. En það er ekki sköpun beint. Þráin finnst mér koma þegar ég er búinn að vera í ferðalögum. Nýlegasta dæmið þegar ég fór í ferðalag til Spánar. Ég fór í tannígræðslu implant, sem eitt verkið mitt heitir, sem var x-ray af tönnunum. Þegar ég kom frá Spáni þá fór ég að nota ljósari liti – kannski einhver áhrif frá sólinni – fór að nota ljósari gulan, ljósari bláan.

Þegar ég er búinn að vera erlendis eða út á landi – í fjarlægð frá verkinu, tala við fólk sem hugsar öðruvísi en ég þá finnst mér ég fá annað sjónarhorn á verkinu og þá finnst mér ég fá þörf til að skapa.

H&H: Hefuru fengið sköpunarstíflu?

Ú: Já. Þegar ég fæ sköpunarstíflu þá reyni ég að… ég verð að vinna, afþví að ég get ekki leyft mér annað. Ef ég fæ stíflu þá fer ég að vinna í minni atriðum í myndinni. Eða stærri en þá fer það stundum illa.

H&H: Þú heldur sumsé áfram.

Ú: Ef ég verð að klára verkið fyrir ákveðinn tíma. Eða ég fer að vinna í hinu verkinu. Fá annað sjónarhorn á það.

H&H: Þú sagðist hafa verið í kvikmyndaskólanum – hefur það haft áhrif á myndlistina þína?

Ú: Já vegna þess að ég held að kvikmyndagerðin… mestu áhrif sem ég hef orðið fyrir var í Garðaskóla, áfanga sem hét Kvikmyndasaga. Kenndur af Reyni Engilbertssyni. Ég hafði aldrei horft á gamlar kvikmyndir þá. Kennarinn var að sýna verk eins og The Birds, The Good, The Bad and The Ugly, og mynd sem er mér sérstaklega minnistæð, Midnight Cowboy. Með Dustin Hoffman og Jon Voight. Eftir að ég sá þær myndir, þegar ég var búinn í skólanum, þá leið mér öðruvísi. Ég hugsaði mikið um þessar myndir og eftir að ég hafði séð þær höfðu þær ennþá áhrif á mig. Þannig virka góðar myndir á mig. Ég er að reyna að skapa ákveðna kvikmyndaupplifun í verkunum.

H&H: Minnir svoldið á senur í mörgum lögum…

Ú: Já pælingin er að þetta sé eins og bitar úr bíómyndum en það er búið að stoppa tímann úr ólíkum römmum í myndinni, úr ólíkum bíómyndum.

H&H: Fyrir þér, er munur á myndlistarmanni og hinum skapandi einstakling?

Ú: Ég held að skapandi einstaklingur, sá sem er skapandi í lífinu, er alltaf skapandi en myndlistarmenn eru það ekki alltaf. Gömul klysja en ég held að meiri hlutinn af myndlistinni sé utan þess sem er skilgreint myndlist í verkum. Og arkitektúr og tónlist og öllu mögulegu. Ég held það sé gott fyrir skapandi einstakling að komast inn í myndlist.

Hlutverk myndlistar er mest að sjá hlutina út fyrir boxið og ekki leitast við að vera innan þess sem er í tísku eða upp á pallborðinu á hverjum tíma, vera alltaf gagnrýninn á samfélagið í kringum sig.

 

H&H: Hvernig gengur að lifa á listinni?

Ú: Ég sel einstaka sinnum verk en ég lifi ekki á listinni. Ég vinn á frístundamiðstöð uppí Grafarholti á daginn. Svo vinn ég að listinni restina af deginum.

H&H: Fylgistu með listasenunni á Íslandi?

Ú: Já, ég geri það. Margt spennandi í gangi núna, t.d. Davíð Örn og Steinunni Eldflaug og svo hef ég mjög gaman að mörgu sem hefur komið frá þessum þekktustu, Ragnari Kjartansyni og svona. En af þeim sem hafa undanfarið verið með sýningar þá hef ég mjög gaman að Unndóri Agli Jónssyni.

H&H: Finnst þér mikilvægt að fylgjast með?

Ú: Ég reyni að vera inní þessu, síðarmeir sérstaklega. Ég kaupi tímarit erlendis frá til að sjá hvað er nýtt í myndlistarheiminum. Legg nöfn á minnið og fer á sýningar erlendis.

Það er mjög auðvelt ef maður býr á Íslandi og er í öðru starfi að detta úr þessum heimi. Ólíkt því þegar maður er í háskóla erlendis að læra.

H&H: Hvert er draumaverkefnið?

Ú: Ef ég mætti ráða þá myndi ég gera eins og Erró gerði í Breiðholtinu, nema ég myndi vilja nota tankana þrjá upp í Grafarholti. Vegna þess að þeir sjást útum alla Reykjavík. Og fá að varpa málverkjum eftir mig á þá. Eða Perluna.

Reyna bara að hafa góð áhrif á samfélagið nálægt mér og lífga upp á pínu óspennandi hluti. Óspennandi en verða meira spennandi með listaverki á.

H&H: Hvað hefur myndlistin þín kennt þér? 

Ú: Ég hlusta oft á Rás 2 hérna á kvöldin og um daginn var viðtal við Mugison og hann sagðist ímynda sér að hann myndi deyja á morgun, á hverjum degi. Ef maður ímyndar sér það þá kemur ósjálfrátt inn hamingja.
Ég held þetta sé ákveðin hringrás; alltaf þegar manni gengur vel þá setur maður markiðið aðeins hærra svo dettur þetta alltaf niður í smá tíma og svo koma tímabil þar sem maður vill hætta og svo koma aftur tímabil það sem maður vill sigra heiminn.

Ég held það sé bara jafnvægi í ójafnvæginu. Líf listamannsins.