Menu & Search

Arnar Herbertsson

Arnar Herbertsson

Hillbilly heimsótti Arnar Herbertsson á vinnustofu hans til þrjátíu ára, sem er jafnframt heimili hans. Hillbilly á sjálf glöggar minningar af málverkum Arnars, en nokkur þeirra prýddu æsku-heimilið og voru sjálfsagður partur af uppeldi hennar og umhverfi.

Hugarheimur Arnars er stór í sniðum, víðsýnn, og svo miklu stærri en ytri heimur hans. Þar tekst hann á við togstreituna á milli hinnar rómantísku fortíðarhyggju og stóískrar núvitundar. Málverkin dansa einhverstaðar á milli draums og veruleika, eru súrrealísk. Þau vísa til fornra helgisiða, þar má sjá tákn og rúnir; nýstárleg mynstur sem eru þó þeim eiginleikum gædd að virðast rótgróin, eins og þau hafi alltaf verið til. Um leið má lesa út úr þeim vélrænt skipulag, skýrskotun í mekanisma síldarverksmiðjanna á Siglufirði, æskuslóðum Arnars.

Þegar Hillbilly hringdi í Arnar og bað hann að vera fyrsti listamaðurinn í nýju vefriti HúsogHillbilly.com sagðist hann vita ekkert um myndlist og vera tómur í hausnum. En Hillbilly er sem betur fer temmilega þrjósk og listmálarinn samþykkti að lokum. En þó með semingi. Arnar bauð hana velkomna í heimsókn hvenær sem er, í dag eða á morgun en ætlaði sko alls ekki að segja neitt.

Þann 13. apríl 2016 mætti Hillbilly á heimili Arnars Herbertssonar. Hann leiðir hana upp þröngan, brattan stiga upp á efri hæð hússins þar sem hann málar og sefur. Hann biður hana að passa sig í stiganum. Uppi blasir við þröngur gangur. Við enda gangsins er lítið en bjart herbergi. Í því standa trönur, lítið borð og stóll. Nokkrum málverkum er raðað upp við vegginn. Á trönunum stendur málverk í vinnslu.

Hillbilly lætur í ljós dálæti sitt á málverkunum. Arnar svarar ekki á meðan hann færir til stól og býður Hillbilly að setjast. Sjálfur vill hann standa.

A: Þetta er kínverskt ljóð eftir Taoista. Mér fannst þetta svo fallegt að ég gat ekki sleppt því að setja það inná myndina. Ég varð að hafa þetta svona allt í belg og biðu því ég kom þessu ekki fyrir. Þetta verður bara að vera svona. Héðan af sko.

H&H: Þetta er svo fallegt svona. Hefurðu verið að nota texta eða ljóð í málverkið?
A: Nei.

H&H: Er þetta í fyrsta sinn?
A: Í fyrsta sinn? Nei sennilega ekki. Ég hef oft notað letur. En alltaf bara mjög lítinn texta. Ég var að lesa þessa bók. Þetta er svo fallegt.

Arnar sýnir Hillbilly ljóðið í bók með ævafornum austurlenskum fróðleik. 

Og hér sit ég
í friði og spekt
og geri ekki neitt.
Vorið er komið
og grasið grær af sjálfum sér.

Zenrin Kushû (The Way of Zen 134, 222)

H: Hannaðir þú letrið?
A: Ég málaði það bara

.

H&H: Er einhver tilgangur með þessum línum í sumum stöfunum?
A: Ja mér fannst það því þetta er svo rosalega þétt, þetta er bara eitthvað til að koma þessu á hreyfingu.

Þegar Hillbilly býr sig undir að leggja fyrir Arnar undirbúnar spurningar renna á hann tvær grímur.

A: Það er ekkert víst að ég geti svarað.
H&H: Þú bara segir pass.
A: Ég er löngu hættur að gera nokkuð nema bara fyrir sjálfan mig. Sko, ég er bara svona þegar ég er að mála.

Arnar sýnir hvernig hönd hans skelfur

H&H: Skjálfhentur meinarðu?
A: Já.
H&H: Það sést nú ekki á myndunum þínum.
A: Ég hætti bara ekki fyrr. Svo nota ég náttúrulega teipið alveg eins og ég get. Annars væri þetta ekki hægt sko.
H&H: Öll verkin þín virðast vera í sömu stærð, þó við munum eftir stærri og minni verkum sem máluð voru á viðarplötur.
A: Já málverkin eru flest 100 x 80 sm að stærð sem ég mála núna. Þetta var ekki svona. Ég var með litla kubba sem ég málaði á.
H&H: Ákvaðstu þessa stærð þá eftir að þú varðst skjálfhentur?
A: Ja þetta er ágæt stærð sko. Það auðveldaði þetta að stækka flötinn. Auk þess er vinnustofan svo lítil að þessi stærð hentar. Jú ég er hérna með lítil verk sem ég ætla að mála ef ég get. Ég veit ekki hvort ég geti málað þetta sko. Ég get náttúrulega teipað eitthvað og krassað eitthvað oní.

Arnar fæddist á Siglufirði árið 1933 og síldin var þá „á fullu“. Hann segir stemninguna í bænum hafa verið ólýsanlega. Þar hafi verið sérstök lykt sem hann hefur ekki gleymt. Mestur tími utan vinnu fór í að vera út á sjó eða í Héðinsfirði, „bara að leika sér, virkilega gaman“. En öðrum stundum vann hann á öllum þremur verksmiðjum í bæjarins, um 15 ára gamall. Það var um það leyti sem honum fannst stemningin hverfa. Ástæðuna telur hann vera að síldin hvarf skyndilega og Siglufjörður varð á tímibili eins og draugabær. Hann minnist sérstaklega verksmiðjunnar Rauðku (byggð 1913). Það var sú verksmiðja sem Siglfirðingar áttu. Í Rauðku var allt málað rautt, vélhúsin og blöndunarkranarnir – allt málað fallega rautt.

Mig grunaði nú aldrei að ég yrði svona stórtækur í þessu. Eða ekki stórtækur – en færi útí þetta.

H&H: Hver er fyrsta æskuminningin þín?
A: Ég hef alltaf verið með fortíðarhyggju. Ég hef alltaf verið í vandræðum með þetta. Ég er alltaf fyrir norðan. Ég er ekkert hérna fyrir sunnan.

Arnar bendir á höfuð sitt.

H&H: Hefurðu pælt í að flytja þangað aftur?
A Nei Kristjana vill ekki fara.
H&H: En væri alveg jafn gaman að vera þar núna og það var áður, á síldarárunum?
A: Nei nú er þetta allt öðruvísi. Það var mikil stemming þarna á meðan síldin var og mikið af fólki yfir hásumarið. Þetta var bara eins og stórborg. 10.000 manns kannski í þessum litla bæ. Svo bara hvarf þetta allt saman. Allt var rifið. Verksmiðjurnar og allt heila klabbið. Örlygur Kristfinnsson sér um Síldarminjasafnið. Þar eru allskonar minningar, hlutir úr verksmiðjunum sem hann hefur safnað saman og varðveitt þarna. Það er gaman að skoða þetta safn.

Héðinsfjarðargöngin hafa breytt miklu fyrir Siglufjörð og nágrannabæi. Arnar fylgist vel með gangi mála og nafngreinir einhverja athafnarmenn sem standa að mikilli uppbyggingu í bænum.

H&H: Fluttir þú til Reykjavíkur vegna þess að síldin hvarf?
A: Já það var ekkert annað að gera þarna. Ég fór í Myndlistarskólann, ekki Myndlistar- og handíðaskólann, heldur var það gamall skóli, í Ásmundarsal þarna uppfrá. Hann var þar þessi skóli. Þarna voru hinir og þessir karlar. Fyrst kom ég hingað einn og málaði gamla útvarpshúsið, ég lærði þá iðn af pabba. Lítið var að gera á Siglufirði og því litla vinnu að fá, en hér fékk ég vinnu strax. Eftir einn mánuð var ég komin með nóg af því að vera einn og snéri heim.

 

Arnar hitti þá í fyrsta skiptið Hörð Ágústsson. Sá var að „skreyta“ gagnfræðiskólann þar í bæ. Þetta var um 1950. Í sömu ferð hélt Hörður fyrirlestur og aðeins þrír bæjarbúar mættu til að hlýða á hann.

Þetta var málið með þessa smábæi. Enginn hafði áhuga á neinu nema vinna og sofa.

Arnar sýndi Herði myndir sem hann hafði unnið að. „Þú kemur bara suður“. Hörður hvatti hann til að sækja um í Myndlistar-skólanum og einu eða tveimur árum síðar fóru þau Kristjana suður. Arnar hugsar hlýlega til Harðar sem aðstoðaði hann í húsnæðismálum og útvegaði honum vinnu í skiltagerð þar sem Arnar starfaði í mörg ár. „Það var svo þægilegt hvað hann var góður við mig“.

H&H: Hefur þig einhverntíma langað að gera eitthvað, en ekki gert það?
A: Nei. En ég er bara allur í þessu gamla dóti öllu saman. Því miður, það er vont. En ég verð bara að hafa það. Þess vegna er ég að mála, til þess að dreifa þessu svolítið.
H&H: Fortíðarþránni?
A: Ég myndi alveg vilja fara Norður og vera þar bara það sem eftir er sko.
Ef ég mætti ráða einhverju.
H&H: Hefðiru kannski bara ekkert viljað fara frá Siglufirði?
A: Jújú, þetta var svona eitthvað skot sem ég fékk þarna í myndlistinni.

H&H: Hver er uppáhaldsliturinn þinn?
A: Blái liturinn er.. já bara himininn sko. Blái liturinn. Hann er í flestum verkunum mínum.

H&H: Hvernig er sköpunarferlið, er það alltaf eins?
A: Nei, nei, ekki alltaf eins. Ég þarf ekkert fyrir þessu að hafa þannig sko. Þetta bara kemur svona. Strax og maður fer að mála.

A: Ég á ekkert meira af þessu. Ég ætla bara að eiga þetta. Bara að gefa krökkunum þetta.

H&H: Hvar færðu efnivið í verkin?
A: Þetta er bara olía á striga, voða einfalt.

H&H: Strekkirðu strigann eða kaupir?
A: Ég kaupi striga í Pennanum. Þeir eru alltaf tilbúnir þar í þessari stærð. Það er stundum sem það munar nokkrum millimetrum. Ég átta mig kannski ekki á því fyrr en myndin er komin á strigann. Myndin er þá kolröng og allt í rugli sem maður er búinn að gera. Ég kaupi líka málningu þar. Svo er ég með dósir sem ég kaupi í Byko.

H&H: Finnuru stundum að þig langi að skapa en það er einhver hindrun? – Gæti verið kallað sköpunarstífla.
A: Nei, aldrei.

H&H: Málarðu bara þegar þú ert í stuði?
A: Já, og ég er alltaf í stuði. Ég er ekkert að hanga yfir þessu. Ég hef alveg minn tíma sko. Þetta er ekkert flókið. Þetta er afskaplega einfalt.

H&H: Fylgistu eitthvað með listasenunni á íslandi í dag? Listafólki, opnunum..
A: Nei ég er hættur að fara. Ég hef ekkert á móti fólkinu. Ég vil bara þögn og frið og jákvæða tilfinningu. Fólk má alveg haga sér eins og það vill mín vegna. En ég er einangraður félagslega, fer ekki á sýningar og opnanir. Svolítið vont að útskýra það, en bara hef ekkert með það að gera. Ég er þó heppinn með Kristjönu, börnin og barnabörnin. Mér er annars ekkert illa við fólk, síður en svo. En ég bara get þetta ekki, alls ekki. Ég hef látið þetta eiga sig og allt í lagi með það.

H&H: Er einhver eftirminnileg sýning sem þú hefur haldið?
A: Nei ekkert sem að skarar fram úr. Þetta er allt sama tóbakið.

H&H: Hvernig myndirðu lýsa þörfinni að vilja skapa?
A: Maður þarf ekkert að hafa fyrir því. Þetta kemur allt saman bara héðan. Þetta er bara í hausnum.

H&H: Er þessi þörf í okkur öllum?
A: Já. Þetta er í öllu fólki. Misjafnlega mikið. Kannski ekki allir sem eru meðvitaðir um að hafa þetta. En þessi sköpunarþörf er sko … ég veit það ekki. Ég er sko enginn sérfræðingur í þessu. Ég hef aldrei haft fyrir málverkinu. Ég bara byrja hérna efst fyrir miðju. Ég notast bara við þessi þrjú form – hring, þríhyrning og ferning. Og litirnir eru bara þrír – rauður, blár og gulur. Og svo getur maður saxað þessi form endalaust í sundur. Mjög frjálst. Engar reglur sem ég set mér í þeim efnum. Ég fer með þau bara eins og mér hentar. En það verður einhverskonar regla. Maður fer að endurtaka sig og þannig. Það er best að skipta yfir í eitthvað annað þegar það gerist, eða hafa alltaf nóg til að velja úr, vinna úr. Þegar myndin er fullkláruð þá finnur þú fyrir því í höfðinu og hjartanu eða finnur bara einhverja tilfinningu.

H&H: Hefurðu þörf til þess að sýna verkin þín?
A: Ég hef afskaplega litla tilhneigingu til þess. Jújú, mér þykir gaman að sýna svona ef ég fæ tækifæri til þess, annars hef ég enga sérstaka þörf fyrir það. En gott að fá smá vítamínsprautu. Maður er ekki að gera eitthvað sem er enskis virði. Svo er hægt að fara þannig í þetta að þetta skipti mann bara engu máli en það er gaman að mála. Það er oft sem ég fæ þessa tilfinningu að ég hljóti að hafa gert þetta áður.
H&H: Í lífinu þá?
A: Í öðru lífi.

Þetta getur ekki verið frá mér. Þetta hlýtur að koma frá einhverjum öðrum, eða undirmeðvitundinni. Ég veit ekki, ég kann ekki á þetta. En ég fæ þessa tilfinningu oft.

H&H: Hefur þú markvisst búið þér til nafn á íslandi?
A: Nei mér finnst það ekki gott. Ég er ekki hrifinn af því.

H&H: Gerðist það bara af sjálfu sér?

       Arnar hunsar spurninguna.

A: Ég vil bara vera hérna einhverstaðar, inní höfðinu, hvert sem ég vil fara, í huganum. Lesa góðar bækur og svona.

H&H: Segðu okkur aðeins frá SÚM hópnum.
A: Það var mjög gott. Góðir strákar, góður félagsskapur. En þetta var óregla og ég var óreglusamur. Svona fyllibytta og fleiri náttúrulega. En jú ég tók þátt í einhverjum sýningum. Sýndi fyrst í félagi íslenskra myndlistarmanna í gamla myndlistaskálanum við hliðina á Alþingishúsinu. Þar voru þessir gömlu; Hörður (Ágústsson), Þorvaldur (Skúlason), Karl Kvaran, Kjarval, Kjartan Guðjónsson og fleiri, margir ágætir menn. Þetta var nefnilega síðasta sýning skálans. Svo var hann rifinn.
H&H: Hvað voruði að gera saman?
A: Bara allt mögulegt. Ég var mest með Magnúsi (Pálssyni). Þau (Magnús og Francis) komu hérna um daginn. Hann var að fara norður. Hann var að fara að halda, hvað kallar maður þetta?
H&H: Sýningu?
A: Já en ekki sýningu, gjörning. Akkúrat, hann er alger sérfræðingur í þessu.

Arnar tekur upp bók, framan á stendur SÚM. „Ég veit ekki hvort ég á að vera að sýna ykkur þetta, frekar leiðinlegar myndir“. Við flettum í bókinni og skoðum þessar leiðinlegu myndir. Þarna er fræg ljósmynd Sigurðar Guðmundssonar „Hommage á Grieg. Á meðan ég hlustaði á tónlist eftir Grieg skaut ég tíu örvum uppí himininn“. Arnar og Kristjana eiga þessa ljósmynd niðrí stofu. „Við höfum lánað Sigurði myndina stundum, hún fór á sýningu í París um daginn og við héldum að við myndum ekkert fá hana til baka en hann skilar henni alltaf.“

Talandi um SÚM…

H&H: Var þetta góður tími?
A: Nei, það var svo mikil óregla.
H&H: Ertu ekki alveg hættur í… óreglunni?
A: Jújú, alveg steinhættur, fyrir mörgum árum sko.
H&H: Hefurðu verið að rækta líkama og sál, eins og sagt er?
A: Já, ég hef verið í jóga svolítið lengi. Með Daða (Guðbjörnssyni), hann er soldið góður hann Daði. Ég æfi þetta bara heima. Fer í þetta sjálfur áður en ég fer að sofa. Ég hef haft áhuga á þessu lengi, alveg síðan ég var krakki.

H: Afhverju jóga?
A: Ja ég vil ekkert ræða það. Ég vil ekki koma aftur, ef ég gæti komist hjá því. Að koma aftur í líkama. Fæðast sem barn aftur. Þetta er ekki góður heimur.
Ja, maður hefur ekkert að gera með þetta. Þetta gengur allt útá peninga og vesen sko. Ja, ég er ekkert að ásaka neinn. Þetta er bara svona hjá mér. Ég hef ekki neinn áhuga á þessu. Þeir hlæja alltaf að mér þegar ég segi þeim frá því að ég vilji ekki koma aftur. Í gömlum jógafræðum þá er verið að segja frá því að menn verði að koma aftur og aftur og aftur og aftur og aftur… þetta er alveg ferlegt.

Arnar talar um hörmungar heimsins og tekur það mjög inná sig. „Eins og hálfviti“.

A: Þetta er svo skrítið. Óskemmtilegt. Lífið.

H: Kannski er bara betra að vera bara glær, svona „fáfróður og glaður“?

Já þeir fara eiginlega betur útúr lífinu, þeir sem spá ekkert í þessu. amma átti 13 börn. sum dóu og sum þurfti hún að gefa en hún var alltaf í góðu skapi. Ég næ því ekki hvernig hún fór að þessu. Um að gera að vera nógu jákvæður bara. Það er það eina sem gildir í þessu. Maður bara þakkar fyrir að hafa sæmilega heilsu og búið. Og hafa líka svolítið gaman að þessu, ef maður getur. Meira fer ég ekki fram á.

H&H: Hvernig kom það til að þú værir með í SÚM?
A: Það kom þannig til því ég þekkti Magnús Pálsson og alla þá og Gylfa Gísla og alla þessa og Sigurð Guðmundson. Þá bræður báða sko, bæði Sigurð og Kristján. Ég var utangarðs, eins og ég hef alltaf verið.
H&H: Helduru að Dieter Roth og aðrir útlenskir listamenn hafi komið með áhrif hingað?
A: Nei ekkert frekar held ég. En ég þekkti hann mjög vel.
H&H: Bara heimurinn allur að breytast, opnast, verða víðsýnni? Fleiri og ódýrari flug til og frá.
A: Já á þessum tíma sko. Já akkúrat. Utan- og innanlands listamenn að breytast. Allsstaðar.
H&H: Fannst almenningi þið sjokkerandi, nýlistamennirnir?
A: Já fólki fannst það. Einhverjir dópistar bara og rugludallar.
H&H: Var ekki góð stemming í þjóðfélaginu á þessum tíma?

Nei, það er aldrei góð stemning ef þú ert í óreglu. Þú ert alltaf með móral, þú vilt ekkert vera svona. Maður er bara alveg úti að aka

.

H: Skýrirðu verkin þín?
A: Ég man ekki eftir að hafa nokkurntímann gert það en jú, „Einskis manns land“. Maður reynir að bulla eitthvað og þykist vera að pæla voða mikið. Verkin hafa stundum einhverja merkingu fyrir mig en ég er löngu hættur að pæla í einhverju svona bulli. Sumir vilja hafa titil, en ég hef engan áhuga á því – enga tilfinningu fyrir því.

H: Þannig að þau heita þá „Án titils“. Er það statement; eitthvað sem þú pælir í?
A: Nei. Ekkert að pæla í svoleiðis. Ég er búinn að pæla í þessu egói síðan 1950, þegar ég byrjaði að stunda jóga. Líkams- og öndunaræfingar. Indversk heimsspeki hefur alltaf heillað mig.

Ég hélt að því meira sem ég pældi í þessu kæmist ég nær sjálfum mér en það var akkúrat öfugt.

Það er ekki hægt að pæla í þessu, maður bara fjarlægist. Við erum öll sjálfið og það hvorki minnkar né stækkar, og það verður alltaf eins sama hvað gerist. Þessar pælingar eru alveg þýðingarlausar. Ég náttúrulega kann ekki þessar aðferðir. Mér finnst bara best að vera í þögn. Þessir jógar geta komist í þetta ástand, en mér tókst það ekki. En ég hætti í þessu, þegar ég las þessa bók, eftir Véstein (Lúðvíksson), „Tunglskin sem fellur á tunglið“. Þar er verið að útskýra hvernig þetta virkar en það er ekkert hægt að útskýra þetta.

Ég reyni sko bara að vera tómur, tæma hugann. Áður en ég fer að sofa.

H&H: Þú sagðir mér einhverntímann að þú hafir byrjað að skoða jógafræði um 1950.
A: Já ég byrjaði heima á Siglufirði. Í svona Hatha jóga, það var ekki nógu gott, svona öndunaræfingar, rosalega erfiðar. Þegar við fórum suður þá hætti ég því bara.

H&H: Var fólk að stunda jóga á Siglufirði um 1950?
A: Nei það vissi enginn af þessu.
H&H: Hvernig kynntist þú þessu?
A: Ég fór suður um tíma og kynntist manni sem var í þessu og þá fékk ég bakteríuna. En annars hef ég alltaf verið jákvæður gagnvart þessu öllu saman.
H&H: Öllu svona andlegu?
A: Já.

H&H: Mætiru á opnanir?
A: Nei
H&H: En á þínar eigin?
A: Nei.
H&H: Ekkert mikið fyrir að sýna þig og sjá aðra?
A: Til hvers?

H&H: Seluru mikið, hefurðu getað lifað á listinni?
A: Nei nei, nei. Ég kæri mig ekkert um peninga. Við höfum bara okkur ellilífeyri og svo búið sko.
H&H: En áður?
A: Ja, seldi svona, voða lítið, afskaplega lítið.
H&H: Ekkert mikið að reyna það kannski?
A: Nei aldrei að reyna neitt sko. Og Knútur Brunn, sem á þetta fína hotel fyrir austan (…)  Hann er vinur minn og ég hef látið bara hann hafa myndir. Svo fer ég stundum bara út með myndir og kveiki í þeim.
Ég var að mála mynd um daginn af Gróttu, því ég er svo vitlaus. Ætlaði að fara að breyta og mála svona þú veist..
H&H: Landslag?
A: Já, mála vitann og svona. Og ég er búin að dunda soldið við þetta…

„…svo var ég orðin óánægður með þetta og fór bara með hana hérna út fyrir og kveikti í henni. Setti hana í poka og fór með hana í Sorpu.“

H&H: Var þetta svona gjörningur?
A: Nei þetta var bara mynd af Gróttu.

H&H: Er myndlist mikilvæg fyrir samfélagið?
A: Nei, nei, þetta er ekkert svona hjá mér. Hver kynslóð er bara með sitt. Hann Hörður skildi þetta alveg. Hann kom oft í SÚM (vinnustofu) og sat og spjallaði við okkur. Þetta breytist með hverri kynslóð. SÚM hópurinn var ekki mjög vinsæll þegar þeir byrjuðu á þessari nýlist.

A: Mér þykir vænt um sumar myndirnar mínar, sumar fara sko alveg í klessu. Mála þá bara yfir þetta.
H&H: Eða brennir..
A: Ja, með þessa Gróttu mynd ég hefði alveg getað málað yfir hana og notað strigann. Ég var bara orðinn svo óánægður með hana.
H&H: Þannig að þú ætlar ekkert að breyta um stíl?
A: Nei.

H&H: Hver er þín lífssýn?
A: Ég negli ekkert niður. Mér finnst þetta kannski í dag og kannski annað á morgun. Það þýðir bara að það er ekki neitt.
H&H: Hver er þín lífssýn í dag?
A: Bara, gaman að fá ykkur og sýna ykkur þetta því þið viljið sjá þetta. Ég er ekkert að pæla í þessu. Ekkert of mikið. Ég pæli í jóganu.

H&H: Ef fólk myndi vilja kaupa mynd …
A: Nei.

A: Það kom hérna kona, það er aðeins síðan, kannski hálfur mánuður, hún sagði að hún þekkti konu sem vildi kaupa af mér mynd. Ég sagði að ég vildi enga peninga, hefði ekkert við þá að gera.
H&H: Vildi hún samt fá myndina?
A: Nei svo varð ekkert meira úr þessu. Hún var alveg hissa að ég vildi ekki pening.

Við erum komin niður í stofuna. Meðal ótalmargra listaverka hanga heklaðir pokar eftir Kristjönu og nokkur málverk eftir Arnar.

Arnar sýnir Hillbilly ljósmyndir af eldri verkum í myndaalbúmi. „Ef þú hefur lesið Nietzsche.. ég málaði þessar myndir eftir að ég las hann. Hann var alveg rosalega klár þessi kall, góður skrifari, en hann klikkaðist alveg og dó. Kannski sem betur fer. En hann er heimsfrægur”. Við höldum áfram að fletta í albúminu.

Ég veit ekkert hvar þessar eru. Ég held ég hafi kveikt í þessu.

Hjónin leiða okkur inní eldhús þar sem kaffi hefur verið lagað. Við ræðum bílaviðgerðir, börn og barnabörn og barnabarna-börn, húsnæðismál og allt þar á milli. Við spyrjum Kristjönu hvenær þau kynntust þar sem Arnar mundi það ekki alveg.­

K: Í 7ára bekk. Við vorum 20 ára þegar við byrjuðum að vera saman. Áttum barn tuttugu og eins árs.
A: Hún man þetta allt saman.
H: Giftuð ykkur þá?
A: Var það ekki ‘54?
K: ’55. Sigga var tveggja ára. Sigga segir alltaf að hún sé lausaleiksbarn.

Ásamt Siggu eiga hjónin Herbert og Kristjönu. Herbert er læknir á bráðamóttökunni og Sigga er gift fransmanni, eftir því sem Hillbilly komst næst. Aðspurður hvort ekkert barnanna sé í myndlist svarar Arnar, „Kristjana, Didda, sú yngri er mjög, mjög flink sko. Hún bara má bara ekkert vera að þessu.“

Gabríel, fyrsta barnabarnið (og módel hjá Hermes) er kominn til að skutla þeim að ná í bílinn í viðgerð. Hann stillti sér upp með afa sínum og ömmu. Þegar hann sá litla verkið sem Arnar hafði gefið Hillbilly sagði hann að afi segði stundum við sig: „Komdu, ég er með verk handa þér. En drífðu þig áður en ég hendi því.“