Menu & Search

GUÐJÓN KETILSSON

GUÐJÓN KETILSSON

Guðjón Ketilsson er inni í grænum skúr með svartri hurð. Skúrinn er rúmgóður og skiptur í meðal annars verkstæði og teikniaðstöðu. Sem teiknari og myndhöggvari upplifir hann oft togstreitu. „Það getur stundum verið svolítið erfitt samband þar á milli. Það má alls ekki vera mikið ryk og svona í kringum teikningarnar. Svo ég reyni að halda þessu aðskildu. Þetta kallar í raun á tvenns konar ólík rými, gróft og fínt. Svo hef ég líka unnið talsvert á Nýlendugötunni, þar sem Myndhöggvarafélagið er með verkstæði, þegar ég þarf að komast í stærri vélar.“

…En teikningarnar og skúlptúrinn styðja hvort annað.

Guðjón hefur lengi unnið með tré og gerir það mjög mikið enn, þó ekki eins mikið og hann gerði. Núna seinni árin vinnur hann með allskonar efni, stundum kaupir hann til dæmis tilbúna hluti á mörkuðum. „Ég blanda þessu meira saman núna. Mig langar orðið að nota fjölbreyttari efni og prófa öðruvísi nálganir.” Hillbilly stóð í þeirri meiningu að þegar listamenn væru orðnir estaplisheraðir eins og Guðjón þá mætti ekki breyta mikið til. Listnemarnir eru hvattir til að halda sér á beinu brautinni og finna sinn stíl. Það er allt gott og blessað en Guðjón leggur mikla áherslu á að leyfa sér að vera forvitinn.

GK: Já, mér finnst mikilvægt að vera alltaf á tánum, vera að leita. Aldrei að slaka á og ákveða „ég er búinn að finna minn stað.“ Ég held að það leiði til stöðnunar. Ég hef þörf fyrir að vera alltaf að leita eftir einhverju nýju, bæði í efni og aðferðum.

H&H: Hvar ólstu upp?
GK: Ég ólst upp í Austurbænum, í Smáíbúðarhverfinu. Veistu hvar það er?
H&H: Uuu…já já.
GK: Bústaðavegur, Réttarholtsvegur og allt það. Ég bjó í Langagerði þegar Fossvogurinn var að byggjast upp smám saman, það var mitt leiksvæði sem strákur. Mikið af auðu svæði, miklar framkvæmdir. Líf og fjör.

H&H: Varstu að leika þér í stillönsum og svona?
GK: Já einmitt. Svo var ég líka í sveit í mörg ár. Norður á Ströndum. Flestir krakkar voru í sveit á sumrin á þeim árum.

H&H: Var myndlist í kringum þig?
GK: Já, það var eitthvað um listaverkabækur á heimilinu. Svo málaði mamma mín þó nokkuð. Ég man eftir að hún fór í málaratíma, hálfgerðan málaraklúbb, alltaf á fimmtudögum og pabbi skutlaði henni. Ég vildi alltaf fara með að sækja hana, það var svo mikil stemning að koma inní þennan sal, mettaðan af terpentínu- og línolíulykt. Mér fannst það æðislegt.

 Ég hef stundum sagt að ég hafi sogast inn í myndlistina útaf lyktinni.

Einhverju samblandi af þessum vökvum… Ég trúi því að þessi heimur hafi togað í mig á þennan hátt. Ég man vel eftir þessu sjarmerandi andrúmslofti. Mamma var seinna með vinnustofu heima, þar sem hún málaði og ég fór að prófa mig áfram með henni.

H&H: Svo mamma þín var kannski svokallaður amatör málari? – Fyrir þér, er munur á myndlistarmanni og hinum skapandi einstaklingi?
GK: Já, það er heilmikill munur. Ég held reyndar að allir séu skapandi á einhvern hátt, en enginn er fæddur listamaður. Maður tileinkar sér þennan hugsunarhátt. En myndlistamaðurinn þarf að aga sig til að tengja allar athafnir hversdagsins sköpuninni.

H&H: Er mikilvægt að læra myndlist?
GK: Já, að mínu mati, ef markmiðið er að vaxa sem listamaður og starfa á þeim vettvangi.

H&H: Það er kannski líka þar sem munurinn liggur?
GK: Ég held að það sé nauðsynlegt að vera forvitinn og ögra sjálfum sér alltaf á einhvern hátt. Vera alltaf að leita að einhverju. Ég held að þetta sé mikilvægt. En það getur auðvitað átt við fleira heldur en listsköpun, hafa metnað fyrir hönd verka sinna. Það getur átt við alls konar hluti.

Síðan er menntun flókið fyrirbæri og margir frábærir myndlistamenn hafa ekki farið í myndlistaskóla. Það þýðir ekki að þeir séu ómenntaðir í myndlist.

 

H&H: Hvað kom til að þú valdir að læra myndlist?
GK: Það var að hluta til áhugi sem mótaðist af uppeldinu, og svo held að það hafi verið útilokunaraðferðin, mér fannst leiðinlegt í bóknáminu. Og mjög snemma benti ákveðinn kennari mér á að til væri myndlistaskóli og að ég ætti erindi í slíkan skóla. Svo ég sótti um í Myndlista- og handíðaskólanum og komst inn.

Síðan hef ég ekki litið til baka. Hef alltaf litið á það sem kost að kunna ekkert annað.

H&H: Bara beint eftir menntaskóla?
GK: Nei fyrr, ég var 18 ára. Ég kláraði ekki menntaskóla.

H&H: Hvernig er manni kennd myndlist?
GK: Ég hef kennt allnokkuð nú seinni árin og þessi spurning kemur oft upp: er yfirhöfuð hægt að kenna listsköpun? Jú, auðvitað er hægt að kenna ýmislegt, t.d. að leiðbeina fólki um hvernig maður horfir í kringum sig, það er nú kannski stærsti parturinn af myndlist. Að horfa og hlusta, ekki bara að framkvæma heldur líka að veita umhverfinu athygli. Þjálfa augað í að skoða og rannsaka umhverfið. Það geta verið svo margar leiðir til þess að hjálpa ungu fólki að rækta athyglisgáfuna. Svo er auðvitað fjöldamörg tæknileg atriði í sambandi við efni og aðferðir.

Það þarf líka að þjálfa fólk í að standa með sínum verkum á allan hátt. Greina þau, tala um þau og svara fyrir þau. En það er mjög ríkur þáttur í myndlistarnámi.

H&H: Hvernig hefur þér tekist að lifa á listinni?
GK: Það hefur verið upp og ofan. Ég hef alltaf litið á sölu minna verka eins og hvern annan happadrættisvinning. Það er ekki sjálfgefið. Mitt markmið er að stunda myndlistina eins og ég get. Það þýðir faktískt að kaupa sér tíma til að vinna að henni. Og það hef ég gert í gegnum tíðina með því að vinna t.d. við myndskreytingar, kennslu, gert bókakápur og ýmislegt. Og eitthvað svoldið í leikhúsi.

H&H: Svoldið mikið í leikhúsi, er það ekki?
GK: Nei, ekkert mikið, hef kannski gert 8 – 10 leikmyndir.

H&H: Ó, mér finnst það mikið.
GK: Já. En þetta er á svo löngu tímabil. Svo hef ég haldið mig við kennsluna mest í seinni tíð. Ég kenni alltaf eitthvað á hverju ári og hef mjög gaman af því.

H&H: Hvernig kennirðu myndlist?
GK: Hvernig? Sko, ég hef kennt mikið teikningu af því að mér finnst teikningin svo mikilvæg. Teikningin krefst mikillar þjálfunar og tekur á ótal þáttum: Notkun grunnforma, fjarvíddarþekkingu, beitingu línunnar, blæbrigðum blýantsins og svo, að rannsaka og taka eftir öllu sem er í kringum okkur.

Guðjón hefur í gegnum tíðina fengið listmannalaun nokkrum sinnum – menningarverðlaun DV, verðlaun Einars Jónssonar og einhver verðlaun frá mennmálaráðuneytinu. Er það ekki fínt?GK: Jú, mér þykir vænt um það, auðvitað.
Það er alltaf gott að fá viðurkenningu og klapp á bakið. Það styrkir mann. Starfslaun listamanna hafa gert mér kleift að halda áfram listsköpun minni.

H&H: Hefurðu fengið borgað fyrir að sýna á Íslandi?
GK: Það er því miður ekki reglan hjá opinberum listastofnunum í dag. Mér finnst að það eigi að vera svoleiðis. Það er grundvallaratriði að fólk fái greitt fyrir vinnu sína.  

H&H: Hvernig er sköpunarferlið hjá þér?
GK: Mér finnst alltaf best að nálgast hugmyndir útfrá framkvæmd. Að vinna mig fýsískt inn að hugmyndinni. Ekki bara að bíða eftir því að fá einhverja frábæra hugmynd, og framkvæma hana svo. Það getur falist í því að teikna eitthvað sem verður smám saman áhugavert. Reyndar er það nú oft þannig að eitt verk leiðir af sér annað. Um leið og ég er að gera eitthvað verk, fæ ég hugmynd að öðru í prósessnum og held áfram með það.

H&H: Ekkert endilega í meðvitaðri seríu verka?
GK: Nei, ekki endilega, stundum vinn ég hluti sem tengjast það mikið að þeir verða eitt verk, þá kannski margir smáir hlutir. Og stundum kannski sería, þar sem hver eining er þó sjálfstætt verk.

H&H: Einhver ómissandi hlutur í ferlinu?
GK: Blýanturinn er alltaf ómissandi fyrir mig. Hann er fyrir mér bara framlenging af huganum. Hann er kannski það eina sem er ómissandi.

H&H: Kannski blað með?
GK: Blýanturinn er nauðsynlegri en blaðið. Maður getur alltaf teiknað á ýmislegt annað.

H&H: Hefurðu upplifað raunverulega þrá til þess að skapa og hvernig lýsir sú tilfinning sér? Hvað gerðirðu?
GK: Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku slíku mómenti, ég hugsa voða lítið út í sköpunarþörfina sem fyrirbæri. Finnst það alltaf svolítið uppskrúfað rómantískt hugtak. Fyrir mér er þetta bara stöðug jákvæð vinna. Ég er stöðugt að hugsa um eitthvað ferli. Þegar ég er úti að ganga og horfi á skýin eða þegar ég er að sofna, þá er ég að hugsa um eitthvað sem listamaður. Það er hluti af sköpunarferlinu, sem myndast sjálfsagt við þörfina fyrir það

H&H: Hefurðu vaknað um miðja nótt með hugmynd?
GK: Já ég hef gert það. Þá hef ég staðið upp og punktað niður setningu eða tvær, svo hún gleymist ekki daginn eftir.

Oftast hafa það verið alveg fáránlega slæmar hugmyndir morguninn eftir.

H&H: En ef þú hefðir ekki skrifað hana niður hefðiru vaknað daginn eftir og verið svaka fúll yfir að hafa gleymt bestu hugmyndi í heimi? Tengi. En hefurðu fengið sköpunarstíflu?
GK: Nei, ég get eiginlega ekki sagt það. Ég er ekki að segja að ég sé svo rosalega kreatívur, en ég man ekki eftir því að hafa lent í einhverju eins og sköpunarstíflu. Ég hef reyndar stundum fengið sýningartilboð með mjög stuttum fyrirvara og hef þá aðeins farið í örvæntingagírinn, ekki panikerað, en svona… hugsað um möguleika.

H&H: Kannski ertu bara alltaf í sköpunarstuði?
GK: Ja, ég er oftast með mörg járn í eldinum, með mörg hálfkláruð verk á vinnustofunni.

Sumt eru bara bjánalegar hugmyndir, annað nýtist í einhverju samhengi.  Ég set mig ekki í neinar stellingar. Þetta er bara hluti af mínum hversdegi.

H&H: Fylgistu með listasenunni á Íslandi? Er það mikilvægt?
GK: Já og mér finnst það mikilvægt. Það er hluti af því sem ég á við að vera á tánum. Þetta er allt hluti af því að starfa í myndlist, og ég hef líka bara svo mikinn áhuga á myndlist. Það er kannski ekkert alveg sjálfsagt, það eru margir myndlistarmenn sem fara ekkert mikið á sýningar og eingöngu á sýningar hjá þeim sem þeir þekkja. En ég held að flestir sem eru virkir í myndlistarsköpun fari mikið á sýningar. Ég reyni að sjá sem flestar sýningar í Reykjavík, og fer mikið á söfn og sýningar erlendis. 

H&H: Finnst þér senan góð?
GK: Já, í heildina finnst mér það. Almennt, en svo koma auðvitað tímabil þar sem mér finnst ekkert vera að gerast, en já, mér finnst senan í dag vera fjölbreytt og góð. Margt spennandi að gerast núna.

Kennslan gerir það að verkum að ég hitti mikið af kollegum mínum, kennurum og svo auðvitað nemendum. Það að vera innan um ungt fólk er alltaf frjótt og skemmtilegt. Gaman að kynnast og fylgjast með ungum og efnilegum krökkum. Það er samt alltaf jafn gott þegar ég er búinn að kenna og kem hingað á vinnustofuna. Það getur verið rosalega lýjandi að kenna. Maður gefur mjög mikið og verður líkamlega og andlega þurrausinn.

H&H: Búinn á því bara?
GK: Já.

H&H: Gætirðu ekki gert þetta á hverjum degi?
GK: Nei, þó að það sé frábært, þá ekki meðfram myndlistinni.

H&H: Hefurðu búið annars staðar en á Íslandi? Fyrir utan Kanada.
GK: Nei. Ekki nema bara í einhverja mánuði, í residensíum og svona.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem myndlistin hefur kennt þér?
GK: Vá. Jájá, mér finnst ég alltaf vera að læra eitthvað. Með hverju verki sem ég geri og sýningum sem ég sé. Ég skrifa gjarnan hjá mér í skissubók, meðan ég er að vinna, alls kyns hugmyndir og merkingar varðandi hvert og eitt verk.

Stundum hefur það áhrif á hvernig verkið þróast.

Ég legg talsvert upp úr því að vera að prófa eitthvað nýtt, ögra sjálfum mér, eitthvað nýtt efni eða aðferðir, nýja nálgun, þá er maður að læra eitthvað. Það er mér mjög mikils virði.

Ég hef þann ávana að ég tala svoldið við sjálfan mig á meðan ég er að vinna. Ég bæði hrósa mér og skamma mig.

Og einmitt svona, ég skrifa bæði og skissa og skrifa meðfram fýsísku vinnunni, um það hvert ég stefni og hvort eitthvað hefði mátt fara betur. Ekkert alltaf mjög merkilegir hlutir sko.

H&H: Hvað myndum við borða ef við kæmum í kvöldmat?
GK: Einhvern góðan fisk.
H&H: Soðinn?
GK: Ekki endilega… 

H&H: Draumadagur og venjulegur dagur?
GK: Mér finnst það að ferðast eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri, bæði um landið og líka erlendis. Mér finnst skemmtilegt að vera í stórborgum.

En hversdagslegur dagur? Mér finnst rútínan góð, þá meina ég samt ekki að gera alltaf það sama heldur að koma t.d. daglega á vinnustofuna snemma á morgnana. Ég sæki í reglufestuna, það er mikilvægt að koma hingað á hverjum degi og vinna. Mér líður vel þegar ég held þessu tempói.

Ég er ekki að tala um neitt munkalíf. Heldur rútína gagnvart vinnunni, ég nýt mín best þegar ég er að vinna. Löng frí með tærnar uppí loft eru ekki heillandi fyrir mig.

Mér finnst mánudagar ágætir. Sunnudagar eru oft erfiðir, þessi kyrrstaða. Ég hef gert verk um sunnudaga, sem einhvers konar óþægilegt kyrrt ástand eða værð.

H&H: Hefurðu tekið þér frí frá myndlist?
GK: Nei, ekki frá myndlist. Ég er alltaf að vinna þótt ég sé ekki beinlínis að gera eitthvað líkamlegt. Ég teikna til dæmis stöðugt.