KATRÍN ODDSDÓTTIR
KATRÍN ODDSDÓTTIR
Fun fact: Listin hefur aldrei og mun aldrei stöðvast, hvort sem peningur sé inní myndinni eða ekki.
1. GR. MANNRÉTTINDASÁTTMÁLA SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA.
Þann 17. april sl. var haldin ráðstefna á vegum SÍM sem bar yfirskriftina Svona verður framtíðin, hvernig komumst við þangað..? Á ráðstefnunni var farið yfir stöðu myndlistarmanna á Íslandi, mannréttindi í tengslum við kjarabaráttu myndlistarmanna og litið til nágrannaríkjanna til samanburðar við stöðuna hér á skeri.
MYND: JÚLÍA HERMANNSDÓTTIR. HILLBILLY STAL AF ARTZINE
Katrín hélt erindi á ráðstefnunni sem nefndist, Sumir eru jafnari en aðrir – Felast möguleg lagabrot í því að greiða ekki listamönnum laun?
Hillbilly fannst ráðstefnan fróðleg og skemmtileg. Hillbilly finnst ein bestu rökin fyrir óréttlætinu samburðurinn við Þjóðleikhúsið; tvö hús full af list; í öðru þeirra fær listamaður borgað allt ferlið og sýningu og í hinu fær listamaður hluta ferlis borgaðan ef hann er heppinn.
–
H&H: Þú hefur talað um að það sé skylda ríkisins að tryggja þegnum sínum aðgang að menningu. Ætti ríkið að styrkja allan þann listarekstur, svo sem sjálfstæð gallerí, sem eru í gangi? (Jafnvel svo vel að listamönnum sem sýna þar geti fengið borgað?)
KO: Ég tel að það hvíli ekki sú skylda á ríkinu að styrkja allan listarekstur sem lifir og hrærist í ríkinu. Hins vegar eiga allir rétt skv. 27. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna til þess að taka þátt í menningarlífi þjóðfélagsins og njóta lista. Þetta er t.d. tryggt með opinberu söfnunum og lögunum í kringum þau. Þetta er líka tryggt með því að hafa aðgengi að sýningarstöðum eins opið og hægt er, t.d. þannig að fólk með fötlun geti sótt staðina. Auk þess er þetta gert með því að ríkið stilli sig um að ritskoða og refsa fólki fyrir að búa til list, hversu ögrandi sem hún kann að vera enda liggur þar tjáningafrelsið til grundvallar. Síðan spila auðvitað inn í þetta alls kyns pælingar um sæmdarrétt og fleira en þið eruð blessunarlega ekki að spyrja um það.
Stutta svarið: Nei.
H&H: Þú talaðir um að vinna sé unninn þegar sýning er opnuð á verkum en enginn hafi verið ráðinn í vinnu. Þetta hljómar mjög mótsagnakennt en er þó raunveruleikinn. Getur þú útskýrt nánar?
KO: Já, það er í raun nánast ógerlegt að setja upp myndlistasýningu eftir lifandi listamann án þess að hann taki þátt í þeirri vinnu sjálfur, enda er uppsetningin gjarnan hluti af sköpuninni. Oft er þessu þannig farið að listamennirnir sjálfir leggja á sig margra daga/vikna vinnu þar sem þeir eru sjálfir að mála rýmið, kaupa efni sem þarf, setja upp verkin og jafnvel þrífa. Ef það aðrir einstaklingar en myndlistamaðurinn koma að þessu, t.d. starfsmenn viðkomandi sýningarstaðar, fá þeir undantekningalaust greitt fyrir störf sín.
Ef myndlistarmaðurinn innir nákvæmlega sömu vinnu að hendi í þágu sýningarinnar færi hann hins vegar ekki greidd laun fyrir þessa vinnu.
Þannig er verið að ráða einhvern til að vinna vinnu sem sannarlega þarf að vinna án þess að greidd séu laun fyrir hana ef það er myndlistarmaðurinn sjálfur sem vinnur. Þetta er út í hött m.v. kröfu um að greiða fyrir vinnu skv. kjarasamningum. Hér bendi ég einnig á 27. gr. Mannréttindayfirlýsingarinnar sem segir að allir menn sem stunda vinnu skuli “bera úr býtum réttlátt og hagstætt endurgjald er tryggi þeim og fjölskyldum þeirra mannsæmandi lífskjör”.
H&H: Er baráttan um að listamenn fá greitt fyrir sína vinnu aðallega fólgin í því að hann fái borgað fyrir að sýna verk sín á opinberum söfnum?
KO: Það er fyrsta vígið sem þarf að vinnast til að setja einhvers konar fordæmi um það að óásættanlegt sé að fólk sem hafi valið þessa atvinnu fái ekki greitt. Síðan mjakast þetta vonandi áfram þannig að það verður norm. Það er sérstaklega alvarlegt að opinberu söfnin greiði ekki fyrir vinnu því þau eru fjármögnuð af skattfé rétt eins og Þjóðleikhúsið og Sinfónían sem borga listamönnunum sem þar stíga á svið fyrir vinnu sína, jafnt í undirbúningi sem flutningi.
H&H: Hvernig er vinna myndlistarmannsins túlkuð?
KO: Hún ætti að mínu viti að vera túlkuð sem undirbúningur, sköpun og uppsetning á listaverki. Hins vegar er augljósasta dæmið um það þegar ekki er greitt fyrir vinnu myndlistarmanns sú staðreynd að viðkomandi fær lítið/ekkert greitt fyrir þau handtök og/eða verkstjórn sem felast í uppsetningu sýninga í opinberum rýmum.
H&H: Fyrir hvern er myndlistin? Hver nýtur hennar?
KO: Alla. Það njóta hennar allir á einhvern hátt. Við værum dauð án listar hún er leitin og birtingarmyndin af samhljóminum. Moldinni sem við öll sprettum úr en sjáum ekki í daglegu hamstra-amstri. Kannsi er þetta háfleygt svar eða tilgerðarlegt en ég trúi því einlægt að við séum m.a. sköpuð til að skapa. Það s apast inn í okkur pláss þegar við komumst í snertingu við list og það pláss nýtist með svo mörgum hætti að það er vonlaust að mæla það eða verðleggja.
H&H: Til hvers er verið að halda í menningararfinn?
KO: Það veit ég ekki. Erum við ekki alltaf að reyna að svara því hver við séum? Kannski væri fróðlegt að skoða hvað “við” í þessari setningu þýðir. Það er margt mjög fallegt við þá staðreynd að í þúsund ár hafi mannöpum tekist að lifa af í blautu myrkrinu á þessum eldfjallakletti í Norður-Atlantshafi. Ég held að það kenni okkur afar margt hvernig viðhorf okkar til náttúrunnar, nágranna og okkar sjálfrar er hverju sinni. Það sést m.a. vel á list hvers tíma.
H&H: Hvaða einu spurningar ætti Hillbilly að spyrja safnstjóra listasafnanna að?
KO: Af hverju gerið þið ekki þessa baráttu að ykkar?
H&H: Ein í viðbót?
KO: Værir þú til í að senda mér þennan reikning sundurliðaðan?
H&H: Þú talar um að það sé raunverulegt lögbrot að borga ekki fólki fyrir vinnu sína. Er það lögbrot að borga ekki myndlistarmönnum fyrir að sýna á opinberum söfnum?
KO: Ég tel það já.
H&H: Er hægt að kæra safn, eða Ríkið ef um lögbrot er að ræða?
KO: Það mætti reyna það en þetta hefur viðgengist svo lengi að það er komin einhvers konar hefð fyrir að líta á þetta sem verktakasamtak sem einkennist af undarlega lágum greiðslum fyrir unnin störf.
H&H: Hefur myndlistarmaður kært Ríkið fyrir að greiða ekki laun fyrir unna vinnu?
KO: Ekki að mér vitandi.
H&H: Hefur myndlistarmaður leitað til þín til að fá ráð um hvernig skal snúa sér í þessum málum? Geta myndlistarmenn gert það?
KO: Ég er í fæðingarorlofi svo ég er ekki að fara að taka að mér mál um þessar mundir en ég brenn fyrir þessu því þetta er augljóslega óréttlát og því mun ég reyna að hafa á þetta áhrif eins og ég get.
H&H: Finnst þér fólk almennt nógu meðvitað um rétt sinn sem einstaklingur? Er hægt að bæta það einhvernveginn, t.d. með því að hafa það sem hluta af námsefni í skóla?
KO:Jú ég er sammála því að almennt þurfi fólk að vera meðvitaðra og upplýstara um rétt sinn og skyldur!
Mér sýnist að það mætti auka vitundina og samstöðuna meðal þessa mikilvæga hóps í samfélaginu. Endilega fjalla um það í náminu hver réttur listamanna sé og hvernig þau sæki þann rétt. Tapa aldrei á því.
H&H: Getur þú gefið myndlistamönnum einhver góð ráð?
KO: Ég sagði þetta á ráðstefnunni:
Að lokum bendir Hillbilly á frábæra grein eftir Katrínu á visir.is sem nefnist Viðvarandi mannréttindabrot gegn myndlistarmönnum.