Menu & Search

KAUPMANNAHÖFN / ARNFINNUR AMAZEEN

KAUPMANNAHÖFN / ARNFINNUR AMAZEEN

ARNFINNUR, KÖBEN, DANMÖRK.

 

HÆ!

Ég heiti Arnfinnur Amazeen, fæddur 1977. Ég bý í Kaupmannahöfn og hef gert það í 11 ár. Ég elti ástina hingað, mjög klassískt.  Á árunum 2004-2006 var ég í skóla í Glasgow en flaug til Kaupmannahafnar við hvert tækifæri til að heimsækja hana Sidsel mína, þannig að það má eiginlega segja að ég sé búinn að vera með annan fótinn hérna síðan 2004 en flutti hingað formlega 2006.

“ÞAÐ SAMA OG SÍÐAST OG ÞARÁÐUR” OG “FLÍSRÚSTIN”  AF SÝNINGUNNI “NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA” GERÐARSAFN 2017. LJÓSM. ANNA KAREN SKÚLADÓTTIR

H&H: Uppáhalds listasafn/gallerí í borginni?

AA: Það er breytist nú ansi ört og er í raun bara þar sem að ég síðast sá góða sýningu. Í tengslum við launavinnuna þá er ég ansi tíður gestur á Statens Museum for Kunst, sem að er ríkislistasafnið og sömuleiðis á nokkrum af stærri og ráðsettari galleríunum og sýningarstöðunum í borginni. Það er fullt af góðum og misgóðum galleríum í borginni en ég er ekki alltaf nógu duglegur við að fylgjast með þannig að ég missi af ansi miklu. Svo spretta auðvitað upp alls konar sýningarými og þ.h. þar sem að eru nokkrar spennandi sýningar eða viðburðir og svo lokar þetta aftur og húsnæðið breytist í eitthvað annað. Carlsberg bruggverksmiðjan opnaði gamla verksmiðjusvæðið, sem er á milli Vesturbrúar og Valby, fyrir nokkrum árum og hleypti þangað inn alls kyns menningarstarfsemi. En eftir einhvern tíma þá ákváðu þeir að þetta væri bara vitleysa og rifu þetta niður og byggðu bronslitaða turna fyrir lúxusíbúðir. Þar misstu að minnsta kosti 3 gallerí, þar á meðal eitt öflugasta commercial gallerí borgarinnar, sín húsnæði og án efa fleiri menningartengd smáfyrirbæri líka.

En til að nefna einhver nöfn þá myndi ég nefna Copenhagen Contemporary, þar sem að eru búnar að vera mjög spennandi sýningar undanfarið m.a. sýning með honum Ragnari okkar Kjartanssyni sem að var frábært að upplifa. OVERGADEN er líka mjög fínn staður og svo einnig SixtyEight Art Institute sem að er lítill „non profit“ sýningarstaður sem er búinn að vera rekinn á nokkrum stöðum í borginni en var núna nýlega að fá húsnæði á Gothersgade, sem er miðsvæðis og vonandi varanlegt. Þau sem að reka þetta eru búin að vera mjög dugleg í sýningarhaldi undanfarin ár og eru þar að auki bara frábært fólk.

“ÁN TITILS (BINDI)” 2013        “HIÐ VENJULEGA ER HIN NÝJA FRAMÚRSTEFNA”  AF SÝNINGUNNI “NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA” GERÐARSAFN 2017. LJÓSM. ANNA KAREN SKÚLADÓTTIR.

H&H: Uppáhalds tjill/hangistaður í borginni?

AA: Það er nú ansi sjaldgæft að ég hangi eða tjilli mikið nema þá helst bara á vinnurstofunni. Þannig að það væri bara réttast að segja vinnustofan og svo eldhúsið hjá Hauki og Tinnu ……jú og Bobi bar, það má ekki gleyma honum!

 “HANDAN KLISJUNAR” 2010

H&H: Hverju mælirðu með fyrir listamenn eða listunnendur að gera í borginni?)

AA: Fyrir listunnendur myndi ég mæla með því að skella sér beint út úr borginni aftur og fara til Humlebæk til að skoða Louisiana safnið og svo til Ishøj til að skoða Arken. Eftir það myndi ég mæla með því að fólk færi inn á netsíðuna kunsten.nu þar sem að hægt er að fá góða yfirsýn yfir þær sýningar sem að eru í gangi, bæði í Kaupmannahöfn og annarstaðar í Danmörku.

Fyrir listamenn, sem að vilja vinna í borginni myndi ég t.d.mæla með því að reyna að komast í gestavinnustofu dvöl í Fabrikken for Kunst og Design. Það eru u.þ.b. 50 myndlistarmenn og hönnuðir, þar á meðal ég, sem eru með vinnustofur í þessari byggingu þannig að þetta er góð leið til að komast í tengsl við fólk í senunni. Það er einnig oft hægt að framleigja vinnustofur þarna í lengri eða skemmri tíma ef út í það er farið.

 

“GEFSTU UPP EINS OG DROPI FYRIR HAFINU” 2014

H&H: Hvernig er listasenan í borginni?

AA: Hún er bara mjög fín held ég, alltaf eitthvað að gerast. Listalífið hérna er eins og gefur að skilja miklu stærra en heima og það eru margir listamenn, mörg gallerí, margar opnanir o.s.fv.

Ég tók eftir því þegar að ég flutti hingað að það er oft kannski svolítið meiri „prófessionalismi“ en ég var vanur.

Þeir listamenn sem að ég kynntist voru oft duglegri við það að sinna skrifstofuvinnunni, hlúa að tengslanetinu og taka „bransann“ alvarlega. Allur ramminn utan um senuna er líka öflugri og betri möguleikar hvað varðar fjármögnun á sýningum, útgáfum, vinnuferðalögum og þ.h.

Ég þurfti líka að venjast því að það eru miklu meiri peningar í listalífinu hérna en ég hafði upplifað áður og þegar að ég fór að halda sýningar þá var kannski opnun á föstudegi og á mánudegi spurðu allir „ertu búinn að selja eitthvað?“

En það er eins og grunntónninn í senunni hérna sé annar en heima á Íslandi. Það er erfitt að setja fingur á það hvað það er en það má kannski segja þetta þannig að ef að andinn úr íslensku senunni yrði blásinn inn í þá dönsku, þá myndi danska senan umpólast og það yrðu allt aðrir listamenn sem að væru á toppnum en þeir sem eru þar í dag… alveg að þeim ólöstuðum, þetta er bara einhver munur á nálgun. Maður fær það á tilfinninguna að þessar umbreytingar og læti sem að urðu í myndlistinni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar hafi skilið eftir sig önnur spor hér en á Íslandi og að hlutirnir hafi þrósast í sitthvora áttina eftir það. Þetta getur haft þau áhrif að maður stundum skilur ekkert í því sem að er að gerast hérna og á slæmum degi hættir manni til að vera eins og íslensku bændurnir í Parardísarheimt (ef að ég man rétt) sem að hittu danska konunginn á Þingvöllum og vorkenndu honum fyrir lélegt ætterni. En hafandi sagt það þá finnst mér í raun vera töluvert mikið pláss hérna og að það væri kannski réttara að tala um nokkrar senur sem að lifa þokkalegu lífi út af fyrir sig en skarast líka inní hverja aðra og mér þykir fólk í listalífinu hérna almennt vera mjög áhugasamt og opið fyrir því sem að er að gerast í kringum þau.

 

“UNDIRSJÁLFIN VILJA VEL” LISTASAFN REYKJAVÍKUR HAFNARHÚS 2016. LJÓSM. PÉTUR THOMSEN

H&H: Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

AA: Foreldrafundir, hússtjórnarfundir, vinnudagur á leikskóla, umsóknarvinna, launavinna og tiltekt á vinnustofunni.

H&H: Hefur þú fengið greitt fyrir vinnu þína sem myndlistarmaður? (Við hvaða aðstæður og í hvaða landi?)
AA: Já, fyrir sýningarhald á Íslandi og örlítið í Danmörku og Þýskalandi.

H&H: Á ísland stendur SÍM fyrir herferðinni Við borgum myndlistarmönnum, með það m.a. að markmiði að koma á framlagssamningi svo að myndlistarmenn fari að fá borgað fyrir að sýna á opinberum söfnum, og reyna að breyta viðhorfi almennings og yfirvalda á listaruglið).

AA: Ef ég man rétt þá var fyrir nokkrum árum kynntur til sögunar hérna svona samningur, svipaður þeim sem að SÍM lagði fram, og flestir stóru sýningastaðana undirrituðu viljayfirlýsingu um að þeir vildu reyna að vinna eftir honum. Hvernig það hefur gengið veit ég bara ekki.

H&H: Vinnur þú „alvöru vinnu“ með myndlist? (Fyrir tölfræðina..)

AA: Já já