Menu & Search

LA / HREFNA HÖRN

LA / HREFNA HÖRN

HREFNA, LOS ANGELES,  USA.

Hérna er mynd af mér í stúdíóinu mínu í Pasadena með sólgleraugun sem ég var að kaupa, en ég var búin að vera í um mánuð í LA sólgleraugnalaus. Mér fannst outfittin mín vera orðin aðeins of kremuð svo ég var mjög glöð að finna gleraugu sem létu mér líða smá eins og Disney illmenni. Afgreiðslumaðurinn sagði að þau gerðu bara tvö með þessu gleri og að Selena Gomez ætti hin. Ég tengi ekkert sérstaklega við hana en ákvað að kaupa þau samt.

 

LEGS DANGLING HANDS TUGGED IN Í CAVE 300

LA er búin að vera frábær hingað til, ég er bíllaus mest allan tímann svo ég flýt með þegar bekkjarfélagar kíkja á opnanir eða nýjum vinum langar í ævintýri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

SKJÁSKOT TIL SÝNIS Í DIGITAL SALON Í MUNCHEN KAMMERSPIELE

 

Það er nóg af ævintýrum í borginni og ég er búin að gera alls konar með því að fljóta með, myndlistartengt og ekki. Ég myndi samt mæla með því fyrir fólk sem kemur yfir að vera á bíl, það munu örugglega koma tímabil þar sem ég leigi einn slíkan því rútur og lestir taka meira en helmingi lengri tíma. Maður er ekki mikið að skreppa á milli staða, en sér aftur á móti aðra hlið á samfélaginu en út um bílrúðuna.

Skólinn sem ég er í, Art Center, er frekar þeorískur og það er langur les listi fyrir hverja viku. Sem ég held að sé frekar hollt fyrir mig akkúrat núna. Við erum lítill hópur í masterprógraminu og umræður eru stór partur af náminu. Flestir eru töluvert eldri og margir hafa starfað sem myndlistarmenn í dálítinn tíma, kennararnir eru margir topp listamenn og rithöfundar. Stundum er meira í gangi en ég get tekið inn og ég hef aldrei þurft að leggja eins hart að mér. Það eru líka stúdíó heimsóknir í hverri viku sem æfa mig í að tala um það sem ég er að spá og gera. Allt annað en Berlín þar sem ég er búin að vera seinustu þrjú árin og var mest megnis látin í friði.

Ef ég gæti verið lengur og haldið áfram að borga bara þýsku skólagjöldin myndi ég örugglega gera það. En vísað endist bara þangað til í júní og peningarnir örugglega styttra en ég er leitandi eftir leiðum til að koma aftur.

SKJÁSKOT FRÁ MIXBOXONLINE.COM SEM BÁRA BJARNADÓTTIR SÉR UM

Ég er mest búin að vera að gera bakpoka síðan ég kom á milli þess að lesa og skrifa, en þeir eru hluti af samstarfsverkefni sem ég hef verið í með þýskri vinkonu minn síðan seinasta haust. (Bakpokarnir eru í bakgrunn á sólgleraugnamyndinni). Við munum sýna hluta í Kling&Bang í mars og allavega tvisvar í Berlín á þessu ári svo það er nóg að undirbúa.

 

Við spjöllum saman í gegnum komment í google docs möppu en hún er í NY núna.

Við förum saman til Íslands í mars. Samstarfið hjálpaði mér að komast aftur á skrið en ég var með efasemdir um mína eigin myndlist á tímabili. Örugglega eins og önnur hver manneskja sem ákveður að demba sér í þetta, það er gott að leyfa sér að endurhugsa hlutina stöku sinnum.

 

Ekki bara vaða áfram stefnulaust.

 

Hef það á tilfinningunni að listamenn geti vaxið vel í LA. Það er ákveðið mikil samkeppni sem er hvetjandi og hraðinn er annar en í Berlín. Senan er mjög stór og ég myndi alls ekki segjast vera með neina yfirsýn yfir hana eftir aðeins mánuð. Hún er líka í mörgum lögum, meðal-listamennirnir sem ég hef hangið með og spjallað við vinna oft á stórum vinnustofu „verksmiðjum”. Þar sem stærstu nöfnin eru með tugi manns í vinnu.

Myndlist verður að bransa eins og allt annað, enda erum við í Ameríku. Það er hollt að hitta myndlistarmenn af mismunandi stærðargráðu, hlusta á umræðurnar sem eru í gangi á hverjum stað fyrir sig og íhuga hversu langt maður væri til í að ganga.

Annars var Berlín líka fín og ég verð þar örugglega í einhvern tíma í viðbót. Allavega í Þýskalandi, þar sem ég get verið í ódýru námi en ég held ég verði í skóla aðeins lengur allavega.

Það er frábært að geta sýnt og tekið þátt á Íslandi þrátt fyrir að búa ekki þar.

Mér finnst alltaf gaman að koma aftur til Íslands og ég held ég hlæji meira þar en í Berlín.

…en það er bara svo mikið að sjá og gera annars staðar, fólk til að kynnast og spjalla við.