Menu & Search

PÉTUR MAGNÚSSON

PÉTUR MAGNÚSSON

Hillbilly heimsótti Pétur Magnússon á vinnustofu hans þar sem hann eyðir hverjum degi og stundum hluta af nóttu. Hann lagaði fyrir Hillbilly dísætt tyrkneskt kaffi í pínulitlum potti á stakri hellu.

Að laga tyrkneskt kaffi er athöfn þar sem hver sekúnda skiptir sköpun, mallið krefst mikillar nákvæmnisvinnu og einbeitingar. Það sem meira er þá fara allar hugsanir þess sem kaffið lagar í kaffið. Svo þeir sem fá að drekka kaffið verða fyrir áhrifum, hugsanir lagandans fara beint í æð drekkandans. Þess vegna, segir Pétur, er mikilvægt að lagandi vandi hugsanir sínar. Fyrir framan tyrknesku kaffiaðstöðuna er spegill úr fórum móður Péturs, klassískur snyrtispegill sem sýnir þrjár hliðar. Dóttir Péturs hélt veislur með sjálfri sér með hjálp þessa spegils í sinni æsku, og Hillbilly grunar að Pétur haldi líka slíkar veislur nú þegar spegillinn er á vinnustofu hans.

Pétur vinnur og rannsakar sjónrænar víddir, breytir og betrumbætir fundna hluti, oft á kómískan hátt, finnst Hillbilly að minnsta kosti, en hvað veit Hillbilly svosem. Henni finnst flest fyndið. T.d. verkfæri sem búið er að breyta þannig að það er ekki hægt að nota það til neins.

Hugur Péturs er stundum í Mosfellssveit þar sem hann ólst upp, stundum er hugur hans á hjara veraldar, nánar tiltekið á Raufarhöfn, þar sem hann og Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður og jafnframt kona Péturs, hafa hreiðrað um sig. Hann hefur lifað öðru lífi í Hollandi þar sem hann tók þátt í senunni og eiga bæði Amsterdamborg og hollenska ríkið verk eftir hann. Pétur lærði og bjó einnig í kaótískri Bologna, Ítalíu. Svo hefur hann sýnt útum allt. Hann fer aldrei neitt nema með erindi. Svo núna er hann á Íslandi, í Reykjavík og bíður þess að erindi skapist svo hann geti kíkt eitthvert.

Pétur er mjög frumlegur og ósérhlífinn listamaður. Verk hans eru svo mikil og kröftug og á sama tíma svo einföld og eðlileg.

Pétur gerir bara það sem þarf að gera.

PM: Áferðin er flott en þetta er aðeins of krumpað.

Sat ég og át og át af mér át það sem ég á sat og át af því

 

 

H&H: ..og át sá sem horfir á verkið! Segir Hillbilly og stingur uppí sig heilli þurri kleinu.

PM: Viltu kaffi?
H&H: Já

PM: Viltu tyrkneskt kaffi?
H&H: Já!

PM: Það er alltaf sykur í tyrknesku, það er ekki hægt að segja nei við því. Ég var hættur að nota sykur í kaffið en það er ekki hægt með tyrkneskt.

Maður finnur bragðið af hugsunum sem maður hugsar á meðan maður er að búa til kaffið. Þarf að hugsa bara góðar og fallegar hugsanir.

Og þú drekkur ekki botnfallið. Þetta er ketilkaffi svo það er ófilterað og korgurinn sekkur í botninn og maður drekkur ekki síðasta sopann.

H&H: Er kaffið keypt á Íslandi?

PM: Hún er komin út á Grensásveg núna, heitir Istanbul market og þau eru með tyrkneskt kaffi og fleira ofboðslega gott – Baclava og Turkish Delight. Ógurlega sætt.

H&H: Var myndlist í kringum þig þegar þú varst að alast upp?

PM: Já ég er alinn upp eiginlega í galleríi. Pabbi var, sko, hvað á maður að segja, einn af stofnendum Súm og svo Nýlistasafnsins og var bara einn af fremstum í flokki í því sem seinna var kallað nýlist. Mér hefur aldrei líkað mjög vel það hugtak, eða það orð, en maður var bara alinn upp í þessu og í myndlist sem var ekkert það þekkt í þá daga. Þá voru verk upp á veggjum heima hjá mér sem eru núna komin eitthvað inn á söfn. Flúxus listamenn, konsept listamenn… frá allskonar löndum.

H&H: Ætli það hafi haft áhrif á þig – að þú valdir feril í myndlist?

PM: Já alveg örugglega. Ákveðinn hugsunarháttur varð manni ekki framandi.

H&H: Kom ekkert annað til greina?

PM: Jújújújú, ég barðist á móti! Ég ákvað að ég ætlaði nú ekki að fara út í þetta. Ég held að það sé nú bara frekar algengt að fólk ætli sér ekki út í það sama og foreldrarnir. En svo gafst ég bara upp á því að berjast á móti og þessi óþreyja að vera að búa eitthvað til varð bara sterkari. Ég lærði í menntaskóla félagsvísindi og svona og hafði hugsað mér félagsfræði, sögu, eitthvað svona en svo eiginlega fannst mér þetta bara það eina sem var eitthvað vit í.

H&H: Hvernig er þessi tilfinning, að þurfa að skapa?
PM: Bara eins og að klæja og þurfa að klóra sér. 

H&H: Hvar lærðiru myndlist?
PM: Fyrst fór ég í Myndlista- og handíðaskólann, ég var ekkert voða lengi, það var forskóli og ég held að ég hafi bara tekið eitt ár, fór fyrst í skúlptúrdeild og síðan í nýlistardeildina og þá var ennþá til hjá mér að vilja ekki fara í deildina sem faðir minn í rauninni stofnaði með Hildi Hákonardóttur. En það var samt eina, að lokum, það eina sem var eitthvað vit í þannig að ég slakaði á mínum kröfum.

H&H: Kenndi pabbi þinn þér í skólanum?
PM: Einu sinni, en það var í skúlptúrdeildinni. Jú og svo aftur í nýlistadeild.

H&H: Fékkstu eitthvað special treatment?
PM: Nei, það breytti engu.

H&H: Pabbi eða herra Magnús?
PM: Ekkert svoleiðis.

H&H: Síðan fórstu erlendis í nám?

PM: Já, þá var voða vinsælt að fara til Hollands eða Bandaríkjanna, það hafa alltaf verið ákveðin lönd sem er inn á tímabilum, seinna varð það Berlín áður var það París. Og það voru margir að fara til Hollands, sem var góður staður, opinn og mikil gerjun. En ég þurfti alltaf að þrjóskast við og vildi fara eitthvað annað, eitthvað nýtt og annað, og fór til Ítalíu. Og þá var ofboðslega gaman þar og gott að vera en það var bara svo fjárhagslega erfitt. Það voru ofboðslega fáir Íslendingar að læra þar þá og ég held að námslán hafi ekki verið rétt úthlutuð, líran var mjög óstöðug.

H&H: Hvar á ítalíu?
PM: Bologna.
Þetta var mikið ströggl á Ítalíu. Þjóðir og fólk á oft besta orðið til að lýsa sjálfum sér og á Ítalíu er þetta kallað casino. Það er allt í kaos og rugli. Ég var flytjandi alltaf, aldrei hægt að fá húsnæði til frambúðar og það var dýrt og maður var búandi einhversstaðar upp í sveit til að hafa efni á því.

H&H: Hvað varstu lengi þar?
PM: Einn vetur, semsagt eitt skólaár, plús þriggja mánaða kúrs í ítölsku sem ég tók til að komast inn á Akademíuna. Maður þurfti að taka munnlegt próf í listasögu til að komast inn.

H&H: Talarðu ítölsku í dag?
PM: Nei! Jújú, ég get bjargað mér en ekki svona flúent ég var bara orðinn nokkuð góður en svo gerðist það að ég fór til Hollands og þá lærði ég hollensku á tiltölulega stuttum tíma og af því að ítalskan var bara nýlærð og ekki mjög djúpt í vitundinni þá bara var henni rutt burt. En ég get bjargað mér á ítölsku þegar ég þarf.

Hillbilly kann eina setningu í ítölsku, og segir hana hátt og snjallt í hvert sinn sem ítalska tungu ber á góma: Io sono molto felice!

          Í kór!

H&H: Var skólinn á hollensku?
PM: Skólinn var ekki á neinu sérstöku tungumáli. Það komu kennarar, bandarískir, þýskir, en mest var þetta bara aðstaða og vinna. Og tæknilegir ráðgjafar. Prentráðgjafar… en það var ekki skilyrði að nemendur töluðu hollensku.

H&H: Kláraðiru BA þarna?
PM: Það var ekki til neitt svoleiðis, jú kannski, ég veit það ekki. Eitthvað sem þótti ekki skipta máli. Ég var þrjú ár í námi þarna. Eignaðist tvö börn.

H&H: Með hollenskri konu?
PM: Já. Svo var ég þarna í mörg ár eftir námið. Ég var bara fluttur. Orðinn tveggja barna faðir og svona. Það voru tímabil sem ég talaði mjög sjaldan íslensku. 1986 var síðasta árið á Akademíunni, og ég bjó þar til ársins 2003. Ég var þarna í 20 ár. Byrjaði námið 1983 og flutti heim 2003. Kom eitthvað og sýndi á Íslandi samt.

H&H: Þetta er stór partur af lífinu.
PM: Það var, þegar ég flutti til baka, var það þá ekki hálf ævin?

H&H: Fer eftir því hvaða ár þú ert fæddur… (munið, aldrei spyrja karlmann um raunverulegan aldur). (Né þyngd).
PM: 1958. 2003 er ég hvað gamall?

H&H: 45 árið 2003.
PM: Já, síðustu tuttugu árin í Hollandi, ekki alveg hálf ævin.

H&H: Kannski aðeins „mikilvægari“ tími lífsins.
PM: Já einmitt, ef maður reiknar með því að maður muni ekki alveg þessi fyrstu fimm.

H&H: Akkúrat! Aðeins eftirminnilegri ár. Ertu ánæur með að hafa eytt hálfri ævinni í Hollandi?
PM: Jájájájá, já. Þetta var góður tími.

H&H: Þú varst bara að vinna sem myndlistarmaður?
PM: Jú, en eins og flestir þá vann ég „peningavinnu“. Ég var húsamálari, bílstjóri, svo var ég oft í smíðavinnu og sumt af þessu var til dæmis vinna fyrir hann Hrein Friðfinnsson, myndlistarmann. Framkvæma hluti fyrir hann, smíða eitthvað fyrir hann, koma einhverju saman fyrir hann, með honum. Ljósmynda fyrir hann..

H&H: Allt eitthvað smá kreatív.
PM: Já og svo voru góð ár þar sem maður þurfti ekki að gera neitt annað.

H&H: Þegar þú fékkst borgað fyrir að sýna til dæmis?
PM: Það fékk nú enginn borgað fyrir að sýna þá, en það voru svona starfslaunakerfi þar eins og hér og maður lenti í því að fá hollensk starfslaun. Stundum seldist eitthvað svoldið, og bæði Amsterdam borg og ríkið keyptu verk af listamönnum. Það var bara auglýst að það væri að fara í gang innkaup og fólk bauð þeim bara upp á eitthvað. Svo héldu þau, borgin, svona Artótek og maður gat bæði leigt verkin sín á Artótek eða selt þau á Artótek. Hvað er betra orð yfir Artótek?

Listaleiga? Virkar bara eins og bókasafn.

H&H: Einmitt, virkar eins og vídjóleiga nema maður má halda verkum lengur.
PM: Ég vildi aldrei leigja þeim, ég vildi bara selja þeim og alltaf keyptu þeir eitthvað öðru hvoru. Og eitthvað á borgin líka. Þannig styrkja þeir þessa senu og halda henni á lífi, halda henni gangandi. Listasenan verður að vera sjóðandi pottur sem eitthvað kemur útúr. Alltaf er verið að tala um einhverja toppa en þeir verða ekki til nema það sé einhver suða undir. 

H&H: Er mikilvægt að læra myndlist?
PM: Já, að því marki sem hægt er að læra hana. Þetta er ekki spursmál um það, þetta er spurmál um aðstöðu og tíma, jú maður lærir að því leyti, aðalatriðið er að þetta er tækifæri til að kynna sér, hafa tíma og aðstæður til að prófa sig áfram og framkvæma. Spursmál um aðstöðu og fá að vera í svona Akademíu þar sem er hægt að prenta svona bók til dæmis.

PM: Hún er úr lagi gengin þessi en þetta er bara prentað á prentvélar í ríkisakademíunni í Amsterdam og tækniprentarinn sem var tæknilegur ráðgjafi og hjálpari þarna kenndi mér þetta að rasta myndir og lýsa þetta yfir á plötur og prenta þetta.

Svo maður tali ekki um efnið sem maður fékk meira og minna gefins, ekki endilega dýrasta efnið en eitthvað sem maður hefði ekki auðveldlega getað keypt sjálfur.

H&H: Hinir ýmsu sérfræðingar á staðnum. Það er svoldið mikilvægt.
PM: Kennslan var eiginlega fólgin í því að maður hafði bara aðgang að verkstæðum og aðgang að þessum ráðgjöfum síðan voru bara viðtöl við prófessorinn öðru hvoru og það voru viðtöl við gestakennara sem var boðið alltaf, nokkrum yfir árið.

H&H: Fórstu bara í viðtöl? Voru engir fyrirlestrar?
PM: Nei, það var frekar að þessir gestakennarar töluðu við mann bara prívat.

H&H: Hvar vinnurðu að listinni þinni?
PM: Mest megnis hérna, svo út um allt. Mín vinna, þegar ég reikna saman dagana og ég tel mig hafa að kvöldi skilað góðu dagsverki og lít til baka, þá er þetta ekkert svo ofboðsleg viðvera eða dund hérna endilega. Af því að vinnan verður svo ofboðslega fólgin í að snatta út um allt.

Hvað var ég á mörgum fyrirtækjum í gær? Málmsteypunni, málmtækni og verslun sem að selur svona mjög sterka franska rennilása… þetta eru fjögur fimm sex erindi út um allan bæ á góðum degi, það sem ég kalla góðan dag þá er maður búinn að þvælast ansi víða. Tékka á þessu, láta gera þetta. Kaupa einhverja mjög sérstaka skrúfu. Jújú svo er maður hérna líka eitthvað að dunda.

H&H: Hvað er ómissandi á vinnustofunni?
PM: Það er ekkert ómissandi hérna… nema kaffið. Og ég vil hafa bedda. Geta lagt mig.

H&H: Gott að hafa beddann reddí þegar koffínið lekur úr blóðinu. 

 

H&H: Hvernig er sköpunarferlið?
PM: Það er allavega. Yfirleitt er þetta eitthvað… það er erfitt að svara þessu. Það getur verið svo allavega. Sumir hlutir bara allt í einu heltaka mann bara, bang! En svo er stundum eins og það sem hefur verið að gerast, ég á hérna kassa, ég hef haldið alls konar skissum og krassi, það er ekkert endilega vinnuteikningar, stundum er þetta eitthvað bölvað riss. En ég hef síðustu árin haft mjög gaman að því að fara aftur í þennan kassa og finna eitthvað „já þetta er nú ekki svo vitlaust” og núna kannski löngu seinna hef ég einhverja þekkingu eða reynslu að geta gert eitthvað úr einhverju sem var bara einhver algjör frumhugmynd fyrir löngu síðan.

H&H: Smá eins og tímaflakk.
PM: Smá eins og tímaflakk og maður jafnvel fær stundum þessa tilfinningu að þetta sé allt hérna (bendir á hausinn sinn).

Einhverstaðar í manni er þetta allt. Og við þurfum bara að finna það.

Og þá líka hafa bæði tækifærin, tæknina, þekkinguna og allt þetta sem að við skulum vona að hafi nú smá aukist svona með árunum. Að þá get ég núna kannski gert eitthvað úr einhverju sem ég rissaði fyrir 30 árum síðan en gat ekkert með það þá. Og þá er náttúrlega voða gott að hafa hent þessu öllu saman ofan í kassa.

Ef ég nefni einhver dæmi, þetta var bara fyrir nokkrum árum búið til en skissan var í þessum kassa frá því fyrir nítján hundruð og eitthvað.

H&H: Hvernig var skissan?
PM: Bara skissa, með stálhorninu.

Þetta hefur verið erfitt í framkvæmd, að fá þetta til að halda lofti en það er bara svona. Fólk þarf að vera svoldið að hafa smá þolinmæði og pumpa í þetta öðru hvoru, það á að fylgja því pumpa.

 

FLÆKJUR Á HJÓLUM

H&H: Þú ert mikið hér á vinnustofunni, en eyðiru líka tíma á Raufarhöfn?
PM: Meira á sumrin en ég er alveg á veturna líka.  Ég er að hugsa um að fara að fara.

H&H: Núna?
PM: Ég er að hugsa um að flytja lögheimilið þangað. Húsið sem að við erum búin að vera að gera upp, það var verslun svo það er alltaf skráð sem atvinnuhúsnæði en nú er búið að breyta svo mikið og við erum búin að fá það samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Og þá er ég eiginlega alveg til í að eiga lögheimli þarna. Borga mitt útsvar til þeirra.

H&H: Geturðu ekki verið með vinnustofu í Reykjavík og fengið ferðakostnaðinn greiddan?
PM: Ef ég væri á Alþingi!

En ef ég flyst á Raufarhöfn fæ ég líka fullan atkvæðisrétt. Það er 1,6 á móti Reykjavíkuratkvæði.

H&H: Já skil ég! Þú ætlar að ná yfirráðum yfir Íslandi.

H&H: Fylgistu með listasenunni á íslandi í dag?
PM: Já svona svoldið. Annars er ég ekki einhver sem alltaf á öllum opnunum og innsti koppur í búri í öllu sem er í gangi. Hef ekki mikla þörf fyrir það. Maður gerði það miklu meira hérna áður fyrr. En samt var ég aldrei þessi sem að heldur að hann sé að missa af öllu og sé ekki allar sýningar. En það er ákveðin kreðsa sem maður hittir, örfáir vinir. En ég hef aldrei verið þessi listamaður sem finnst hann þurfa að vera alls staðar.

H&H: Ekkert fyrir það að sýna þig og sjá ra?
PM: Nei. Ekki mikið fyrir að sýna mig. 

H&H: Hefurðu aldrei upplifað „FOMO?
PM: Nei. Fomo. Ég er ekkert voðalega upptekinn af þessu. En hins vegar held ég að það að vera svona og hafa ekki þessa þörf að vera ekki á opnunum þá er það, að lokum, ekki til að hjálpa manni í tengslum við sölur og sýninar og eitthvað í þeim dúr. En það verður bara að vera eins og það er. Ég ætla ekki að fara að mæta eitthvað um helgina þess vegna.

H&H: En er ekki mikilvægt að það sé fólk sem mætir á sýningar?
PM: Jú. Maður gerir þetta líka kannski meira fyrir vini sína. Og þá kannski kemur einhver þegar maður sjálfur er að gera eitthvað.

H&H: Ertu með eitthvað gott ráð sem þú myndir gefa sjálfum þér í byrjun ferilsins?
PM: Vinna meira og drekka minna. Vera ekki svona oft timbraður.

Og hvað meira…

Kannski ekki hægt að ráðleggja það og ég var kannski ekki sá hrokafyllsti en maður var svoldið hrokafullur og það lokar.. við þóttumst vita allt og kunna allt betur. Þegar fíflin eru orðin mjög mörg í kringum mann, þá hlýtur að vera eitthað athugavert við mann sjálfan, er það ekki? En þetta eltist af mér.

H&H: Afhverju er mikilvægt að hafa myndlistarmenn í samfélaginu?
PM: Er það mikilvægt?

H&H: Er það mikilvægt?
PM: Jájá, það er mikilvægt og það er bara ægilega einfalt mál að fólk lifir ekkert bara á mat. Það lifir ekkert bara á efninu. Það verða skrítin, undarleg samfélög sem eru gjörsamega rúin allri menningu og sköpun. Og þetta er að koma fyrir, bara fyrir stuttu vorum við á Þórshöfn þar sem að sveitastjórinn var að tala um það að við verðum að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki leyft okkur að hafa bara útgerð og fisk. Það verður að vera eitthvað. Og fólk er að horfa til Seyðisfjarðar sem er orðið allt annað samfélag en samfélög þar sem er bara vinna í einhverjum material heimi.

H&H: Heldurðu að allur bærinn græði á því?
PM: Já allt samfélagið.

H&H: Ekki bara þeir sem hafa áhuga á list og svoleiðis?
PM: Nei það alveg greinilega smitar út frá sér í skólana og allt. Allt saman.

H&H: Er einhver listasena á Raufarhöfn?
PM: Nei það er nú varla hægt að segja það. Við erum búin að búa okkur til aðstöðu þarna, heilmikla skemmu.

H&H: Ertu ánæur með ákvörðun þína að vera myndlistarmaður?
PM: Jájá, já, það hefur aldrei hvarflað neitt annað að mér.

H&H: Sérðu ekkert eftir því að hafa ekki orðið félagsfræðingur eða sögukennari?
PM: Nei, guð minn almáttugur, ég sé ekki eftir því.

H&H: Hvernig er týpískur dagur í lífi þínu?
PM: Það er svo ógurlega fjölbreytt. Það byrjar á því að reyna að drulla sér á lappir. Tekst það yfirleitt svona að lokum. Alveg sæmilega snemma. Kaffi. Númer eitt. Og númer tvö er annað kaffi. Og svo kem ég hingað og fer að átta mig á „okei hvernig tæklum við þetta í dag“. Oftast er það þannig að ég þarf að skreppa eitthvað. Og svo kem ég aftur hingað, ég kannski kem og fer svona þrisvar á dag og oft er ég hérna fram á kvöld. Langt fram á kvöld. Ég er meiri seinniparts maður en fyrriparts. Frameftir, fram á nótt þess vegna. Ég er ekki voðalega æstur á morgnana. Kem mér í gang og fer að spá í þetta, en ég fer hægt af stað.

H&H: Hvernig er draumadagur? Hinn fullkomni dagur?
PM: Svona, eins og ég var að lýsa. Ég get eiginlega ekki hugsað mér neitt betra en það. Kannski væri suma daga voða gaman að, og kannski svoldið oftar en raunin er, að hafa einhvern með sér stundum. Sem væri í þessu með manni. Ásdís er náttúrlega mikið heima að klippa kvikmyndir. Annað hvort á tökustöðum að taka eitthvað upp eða þá heima að klippa. En þetta er nú eðli sínu frekar einmanalegt starf.

Oggulítill fjólublár snjótittlingur hvíslaði að Hillbilly að Pétri þætti gaman að veiða, og stofnaði hann veiðifyrirtæki sem heitir Arctic Angling fyrir meira en 10 árum, sem hann rekur í dag með einum af kærustum Hillbillyar.

H&H: Myndirðu ekkert vilja veiða á draumadeginum?
PM: Jújú, en það er svoldið þannig að þegar maður fer að vinna við þetta og það er alltaf einhver hluti af hverju sumri sem ég er að leiðsegja veiðimönnum þá minnkar svoldið æsingurinn í mér að þurfa að fara sjálfur. Það er voða gaman en ég fæ næstum því nóg að vera bara með öðrum veiðimönnum. Samt getur maður tekið í stöng inn á milli, en það er svona næstum því nóg. En það er voða gaman að veiða, á flugu.

H&H: Hvað myndiru vilja gera meira af í lífinu?
PM: Kannski væri gaman að ferðast. Ég fer aldrei neitt, ég kann ekki að vera túristi. Ég fer aldrei neitt nema ég eigi erindi.

H&H: Þú myndir þá vilja ferðast án þess að hafa erindi?
PM: Nei ég myndi örugglega frekar vilja búa mér til erindi. Það þarf ekkert voða mikið.

H&H: Finnst fínt erindi að slaka á.

PM: Það voru næstum því vonbrigði, en mikill peningasparnaður – að þegar þessi teppi eru ofin fyrir mig í Bandaríkjunum þá hefur það hitt þannig á að, fyrir algera tilviljun, að vinur minn í New Jersey hefur verið að koma skotferð til Íslands og ef hann hefði ekki verið að koma og geta kippt þessu með hefði verið ódýrara fyrir mig að fara að sækja þetta.

Þessi tollalög eru svo asnaleg að ef ég læt senda mér þetta frá Bandaríkjunum, þar sem þetta er ekki málverk eða grafík og ekki vatnslitamynd þá fer þetta í einhvern tollaflokk og innflutningstollar af því er meira en farmiði fram og til baka að sækja það. Ef ég færi og sækti það bara væri ekki eins og ég væri að smygla því þar sem þetta er listaverk eftir mig og ég má alltaf ferðast sjálfur með mín verk.

Það hefði verið nóg erindi til dæmis, bara að fara og sækja þetta.

H&H: Næst þegar þú lætur vefa fyrir þig í Bandaríkjunum, þá skaltu hringja í New Jersey vin þinn og passa uppá að hann sé ekkert að koma til Íslands í bili. Þá geturu loksins eitthvað ferðast.

H&H: Hvert er draumaverkefnið?
PM: Það væri voðalega gaman að fá einhverntímann stóran sal, stóran hráan sal og bara vinna inn í hann, hafa góðan tíma og vinna inn í hann optísk verk, og ljósmyndaverkin – þessi sem eru ljósmynduð og hengd yfir sjálf sig. Þar sem ljósmyndin hangir yfir því sem hún er af. Og ef maður fengið stóran hráan sal, þannig hráan að allir fletir væru ekki bara hvítir, því ef þú ljósmyndar hvítan vegg þá sérðu afskaplega lítið en þannig að maður gæti gert eitthvað. Stórt og hrátt pláss til að leika sér með.

H&H: Er eitthvað mikilvægt sem þú hefur lært af þinni myndlist? Eitthvað sem myndistin hefur kennt þér?
PM: Hmmm ég veit ekki. Ætli það sé ekki bara eins og hann Jón Laxdal, vinur min sagði:

Það eina sem reynslan kennir okkur er það að við lærum ekki neitt af henni.