Menu & Search

RAGNHILDUR & JÓHANN

RAGNHILDUR & JÓHANN

Saman í sirka 7, 8 àr, eitthvað svoleiðis. Ragnhildur Jóhannsdóttir og Jóhann Ludwig Torfason kynntust undir Listaháskólaþakinu. Þau eru sannkallað lista-par, list-apar og listunnendur miklir. Svo eru þau líka listamenn. Reyndar snýst líf þeirra um nær ekkert annað en myndlistina. Hillbilly bankaði uppá hjá Röggu og Jóa í sumar, þegar þjóðin var enn í móki eftir EM í fótbolta. En ekki þau. Jú, kannski smá hrærð eftir að hafa kveikt á sjónvarpinu á fréttatíma en það voru engar fréttir heldur bara flugvél að lenda í beinni. Á meðan sumir skelltu sér út til Frakklands á síðustu stundu fyrir u.þ.b. hálfa milljón þá virðist enginn áhugi vera á að kaupa myndlist „ekki einu sinni litla sæta myndlist“. Ragga og Jói settu nýlega á laggirnar vefsíðu, www.listaverkasalan.com þar sem almenningi býðst að kaupa íslenska myndlist. Þau eru sammála um að myndlist sé ekki nógu aðgengileg. Þau eru reyndar sammála um mjög margt.

R: Við erum að hugsa pappírsverk og ódýrari verk sem fólk hefur efni á að kaupa. Íslenski markaðurinn er stór en almenningur veit kannski ekki hvernig hann á að nálgast myndlistina. Hann sér bara málverkið og það er lágmark 400.000 kall. Þú átt ekki 400.000 kall til að kaupa þér málverk. Á sölusíðunni okkar getur þú keypt grafík, ljósmyndir, teikningar, pappírsverk og annað sem þú hefur efni á. Við ætlum jafnvel að bjóða fólki uppá að skipta upp greiðslum.

Að þeirra sögn hafa bæði verið heppin með sölu á verkunum sínum en það oft líður langur tími á milli svo engin leið er að lifa á sölunni. Verkin eru aldrei til sýnis nema þegar listamenn halda sýningar og það er ekki allan ársins hring. 

R: Það þarf að pota myndlistinni áfram til þess að það sé einhver sala, til þess að listamenn geti lifað pínulítið á vinnu sinni.

J: Fólk ímyndar sér að listin sé svo dýr. Það þarf að vinna á þeirri hugmynd að myndlist sé fyrst og fremst olíumálverk í passlegri stærð og stórundarlegur skúlptúr. Vatnslitamyndir og grafíkmyndir, léttari verk, hafa alltaf verið neðar í verðskalanum. Stór vatnslitamynd eftir Kjarval kostar alltaf minna en lítið olíumálverk eftir Kjarval.

Ragga kemur úr „listlausum“ bakgrunni, þó snemma hafi verið ljóst að þá leið myndi hún fara þó hún sæji það ekki alltaf sjálf. Jói ólst hinsvegar upp í kringum myndlist, umkringdur listamönnum og listaverkum. Þau eru sammála um að það sé ekki nauðsynlegt að fara í listnám til að verða listamaður en það hefur vissulega sína kosti.

R: Í samtali við samnemendur og kennara koma upp hugmyndir sem þú myndir ekki finna einn. Þegar þú ert sjálfur að leita þér upplýsinga þá ertu alltaf í þínu hugarfari og kemst bara að ákveðnum niðurstöðum.

J: Það er ekkert að því að vera sjálflærður, að stytta sér leið, en sá sem fer ekki í nám þarf að vera virkur í samfélagi listamanna. Þar sem díalogur er til staðar. Sjálflærðir listamenn, sem hafa ekki þetta samtal, fara allir i sömu skúffuna sem heitir naívismi. Sem er allt í lagi, brjálæðislega falleg myndlist oftast nær, en skúffan er fyrirfram gefin. Ef samtalið vantar endar listamaðurinn í einræðu og lokast strax inni.

R: Samtalið er svo mikilvægt. Þetta er einyrkjavinna. Þú ert bara inní hausnum á sjálfum þér alla daga, í mesta lagi dílar við einhvern sem rammar inn fyrir þig. Þess vegna er samfélagið og félagslegi þátturinn mikilvægur. Opnanir eru okkar vettvangur til að sjá aðra myndlistarmenn, sjá hvað aðrir eru að gera og mingla. 

 

Hillbilly hefur áhuga á því hvernig er að vera tveir myndlistarmenn í ástarsambandi.

R: Það gerist margt okkar á milli í samræðum um myndlistina. Áhrifin fara fram og til baka.
J: Allt lífið hringsnýst í kringum þessa blessuðu myndlist. Ef maður getur ekki átt tiltölulega vitrænt samtal við sinn nánasta um þetta fyrirbæri sem gjörsamlega heltekur mann, ég get ekki ímyndað mér þannig samband.
R: Spurningar við kvöldverðarborðið eru ekki „hvernig var þinn dagur?“
J: Maður fer aldrei úr vinnunni þegar maður er myndlistamaður. Ekki einu sinni í draumi. Vinnudagurinn er aldrei að baki. Langflestir í sambandi eru að lifa sitthvoru lífinu og hittast svo yfir kvöldmatnum.

Pældu í að búa með framsóknarmanni.

Ragga svarar með hreinu nei-i aðspurð hvort hún hafa orðið fyrir alræmdri sköpunarstíflu. Þau eiga það reyndar sameiginlegt að það er aldrei vandamál að fá hugmyndir, en lokaútkoman getur verið stífluð. Þau tala um vinnuagan við að halda sig við efnið og klára hlutina, ekki byrja á einhverju öðru sem fæddist í ferlinu. Klára síðustu 100 metrana. Jóhann bætir við:

J: Vegna þess að ég beiti kaldhæðnum vinkli á samfélagið í minni myndlist þá man ég eftir því að hafa upplifað það að mér fannst samfélagið meira absúrd en ég gat nokkurntímann túlkað það. Það sló mig dálítið útaf laginu, eins konar sköpunarstífla. Mér fannst samfélagið vera ofjarl minn í skringilegheitum. Þetta var í kringum hrunið. Bæði fyrir og eftir það. Það var svo súrt.

Það var ekki hægt að gera grín að samfélaginu lengur, það var fyrst og fremst bara sorglegt, í alla staði.

Jói stofnaði Pabbakné árið 2004 sem framleiðir list sem einbeitir sér að hinu smáa í grasrót mannlegs samfélags. Allt sem framleitt er þarf að leggja undir „nefndina“. Jói hefur haft ýmsa titla innan fyrirtækisins. Sá stærsti er kannski sjálfur forstjórinn sem gagnrýnir oft verk Jóa. Er Pabbakné sé hálfgert alter-ego.

J: Þetta er einhverskonar geðrofaástand. Ég byrjaði á því að gera leikföng eða neysluvarning og það krafðist þess að það væri eitthvað fyrirtæki á bakvið það. Það var svo ekki fyrr en ég fékk næði, listamannalaun, að ég gat farið að hugsa og skyndilega kom þetta nafn upp í hausinn á mér. Pabbakné. Pabbakné er klárinn minn, leikfangið, en það hefur líka skemmtilega tvíræða merkingu. Hugmyndin var að þetta væri ádeila á markaðssamfélagið, neyslumenninguna og í seinni tíð hefur þetta orðið meira ráðandi og stundum aðalatriðið.  Svo hægt er að skandalast eitthvað í skjóli, einskonar skálkaskjól.

….það var svo ekki fyrr en ég fékk næði, listamannalaun, að ég gat farið að hugsa…

Pabbakné hélt fimmtíu ára afmælissýningu fyrir Jóa og þá skrifaði forstjórinn í sýningarskránna leiðarvísi. Það var allt frekar neikvætt sem hann skrifaði.

R: Hann var ekkert sérstaklega hrifinn af sýningunni.
J: Hann slær svolítið á puttana á mér, sem er gott. Eins og við töluðum um áðan, sem myndlistarmaður fær maður ekki oft feedback. Svo ég bjó það bara til sjálfur.

H&H: Finnst ykkur vera munur á myndlistamanni og hinum skapandi einstaklingi?
R: Mér finnst munur á myndlistarmanni og leikara til dæmis. Í grunninn er þetta þessi sama skapandi þörf og hún er í sjálfu sér ekki ólík á milli fólks en munurinn liggur í vinnunni. Leikari sem vinnur í leikhúsi fer í gegnum annað ferli en til dæmis myndlistamaðurinn sem er að sísla í sínu eigin horni.
J: Ekki allar listgreinar geta flokkast undir að vera frumskapandi eins og myndlist, tónlist, ritlist, þar sem er ekkert teymi. Jafnvel þótt þú sért í hljómsveit ertu alltaf einn að gera eitthvað, er það ekki? Svo færist það yfir í bandið sem gerir eitthvað.
R: Leikarar eru oftast að túlka annara verk í sinni sköpun. Þetta er allt önnur leið en myndlistamaðurinn fer.
J: Forsendurnar eru svo ólíkar milli skapandi greina. Hjá handverksfólki kemur nýting hlutanna inn í sem hið ráðandi afl.
R: Það stýrir þessu, hvað er hið ráðandi afl.
J: Krafturinn sem fær hlutina til að verða til. Enginn sem segir þér fyrir verkum, engum háður, engin pressa. Algert frelsi. Sem er einhverskonar akkilesarhæll.

Gerðu kertastjaka og hafðu ekki neinn stað á stjakanum fyrir kertið. Það er ekki kertastjaki. Myndlistarmaður gæti tekið hvað sem er og gert að kertastjaka. Það er þetta algera frelsi myndlistarmanna – aðalsmerki myndlistarinnar.

R: Hamlandi að einhverju leyti líka. Þess vegna þarf samfélagið á meiri gagnrýni að halda – samtali. Að rýna að gagni. Afhverju er þetta svona? Í hvaða samhengi? Af því þetta algera frelsi er til staðar.

Ragga og Jói eru ekki sérlega ánægð með listasenuna á Íslandi. Það er þungt yfir senunni. Uppáhaldslistasafnið, Kjarvalsstaðir, er orðin risaeðlan í senunni með tvær sýningar á ári.
Barist er fyrir Myndlistarsjóði með kjafti og klóm.

R: Hún var líflegri fyrir fimm árum. Við erum að horfa á eftir galleríum núna. ASÍ er komið í einkaeigu. Það er enginn staður fyrir listamenn að koma og spyrja „má ég sýna? Tala nú ekki um ungu listamennina sem eru nýútskrifaðir, hvar eiga þeir að sýna?

Hvert gallerí sem hverfur er svo blóðugt, erfitt þegar þau hverfa svona hvert af öðru.

J: Þetta er mögulega betri aðstaða fyrir ungu listamennina, kynslóðina sem getur alltaf hlaupið inní einhverjar holur og sýnt. Klassískt. Þessi aðstaða er ekki síður erfið fyrir establiseraða listamenn sem eru meira hikandi í garð óhefðbundinna sýningarrýma og geta því ekki sýnt hvar sem er.
R: Það vantar ekki kraftinn í fólkið. Við eigum ótrúlega flotta myndlistamenn, á heimsmælikvarða, sem hafa engan stað til að sýna á. Það vantar peningana. Það er alls staðar. Það er allt fjársvelt.
J: Dæmigert fyrir þetta litla samfélag okkar, við viljum vera með allt en þetta er allt bara sviðsmynd.
R: Við höfum svo lítinn áhuga á menningunnni okkar yfir höfuð. Það er enginn íslendingur að kaupa íslenska myndlist núna. Ímyndið okkur af öllum stöðum sem hægt er að kaupa myndlist, hvað haldiði að margir hafi keypt verk í dag?

Hversu margar myndir ætli hafi selst í IKEA í dag? Örugglega slatti. Við þurfum að fá fólk til að hætta að kaupa svona vitleysu.

Ragga stofnaði, ásamt fleirum, listatímaritið og tvívíða galleríið Endemi árið 2010. Það er komið í dvala. Fimmta tölublaðið er ekki í sjónmáli. Að sögn Röggu virðist ekki vera áhugi fyrir svona efni.

R: Ég vann líka að Endemi vefsíðunni í 2-3 ár. En svo gat ég ekki meira. Þetta tekur mikinn tíma, mikil vinna, launalaust.
Og maður sér ekki fyrir endann á þessu. Artzine-ið hennar Helgu er mjög fínt.

Við erum sammála um að það vanti meiri umfjöllun um myndlist og sýningagagnrýni.

R: Það eru náttúrulega allir bara að gefa tímann sinn. Fólk hefur takmarkaðan áhuga og getu til þess að gera það. Blaðagagnrýnirnar eru svolítið eins; allar sýningar eru bara góðar.
J: Það er svakalegt hvað það er lélegt. Tónlistin á senuna. Það er nærtækasta formið. Hún er líka í svo öruggum hólfum. Það er rappið, rokkið og svo er rokkið í mörgum greinum. Sama með jazzið og klassíkina. Allir eru svo meðvitaðir um þetta. Þú getur bara verið á þinni hillu. Svo þegar það kemur að myndlist þá, ég og Lína Rut og naívistarnir erum öll í sömu skúffunni: Myndlist.
R: …og við erum bara öll að mála.

Tónlistin á senuna. Það er nærtækasta formið. Hún er líka í svo öruggum hólfum.

J: Tónlistin hefur grætt mikið á því hvað hún er greinskipt. Nútímatónlist – Við vitum öll hvað átt er við. Nútímalist – Það eru allir listamenn sem eru ekki að mála. Allir. Sá sem er að safna ryki útí horn og sá sem er að gera risavaxna skúlptúra. Það væri hægðarauki fyrir njótendur að hafa undirflokka.
R: Ekki fyrir mann sjálfan. En fólk getur verið hrætt við myndlistina. Hún á það til að vera erfið. Risainnsetningar og vídjóvörpun geta verið ógnvekjandi fyrir fólk sem er fyrir málverkið. Það má alveg fíla málverkið en þá þarftu ekki að fara á sýninguna þar sem innsetningarnar eru. Þá hefuru smá preference. Þetta er eins og þú færir á tónleika og vissir aldrei á hverju þú ættir von.
J: Við erum með greinaskiptingu á milli miðla, grafíkverk, málverk… en ekki innan hvers miðils. Dæmi um tvo íslenska málara árið 2016: Ívar Valgarðsson og Pétur Gautur. Gætu ekki verið ólíkari.

Þetta er eins og þú færir á tónleika og vissir aldrei á hverju þú ættir von.

 

Á hverjum degi sé ég verk sem ég botna ekkert í. Myndlist er ekki þannig, hún krefst þess ekki að þú skiljir hana. Þar er misskilningurinn.

R: Myndlist er ekki þannig, hún krefst þess ekki að þú skiljir hana. Þar er misskilningurinn. Þú átt líka að geta horft og notið og það skiptir engu máli hvað listamaðurinn var að hugsa þegar hann skapaði verkið. Það er bara hvernig þú upplifir verkið, túlkar og skilur það. Það er alltaf þín upplifun, og hún er alltaf rétt.
J: Við erum bara svo mikil raungreinaþjóð. Þá er svo erfitt að komast inn fyrir skilninginn, eða skilningsleysið í flestum tilvikum, að nautninni, að njóta verksins. Þú upplifir alveg að það er eitthvað þarna, það er eitthvað sem kitlar þig en af því þú skilur það ekki verður það svo óþægilegt. Þangað til einhver gæti sagt við þig: Þú þarft ekkert að skilja þetta. Það er það eina sem vantar.
J: Mér finnst vanta sígarettu í þetta samtal. 

Þá er svo erfitt að komast inn fyrir skilninginn, eða skilningsleysið í flestum tilvikum, að nautninni, að njóta verksins.

J: Hún hefur kennt mér að vera meira greinandi á samfélagið. Kannski var ég þannig áður, en hún hjálpar mér allavega að forma það fyrir sjálfum mér. Samfélagið inní myndlistinni. Í staðinn fyrir að vera hægri vinstri í pólitík, þá hugsa ég bara um myndlist.
R: Ég vinn mikið með íslensku sem tungumál en þú getur alltaf sleppt lestrinum og skilningum því þú getur horft á þetta líka. Sjónrænt, sem er myndlistin. Tungumálið er þarna en þú þarft ekki að kunna það til að njóta. Myndlist er í rauninni bara táknmál.

Myndlist er í rauninni bara táknmál.